Roadrunner – 2007
www.typeonegative.net
www.myspace.com/typeonegative
Type o negative hafa algerlega snúið við blaðinu frá því á síðustu plötu(Life is killing me) sem var oftast ljúf,skýr og aðgengileg. Dead Again er að mestu leyti hrárri, skítugri og hraðari og en afar vel útfærð. Carnivore og fyrsta Type o platan koma í hugann þegar þessi læti óma í eyrum.
Minni áhersla er á hljómborðin yfir allt en það eru frekar hljómborðssóló á víð og dreif.
Mikið hefur gengið á undanfarin ár hjá Pete Steele. Hann missti móður sína( sem var vel á minnst hálfíslensk), fór í fangelsi vegna líkamsárásar og á geðstofnun. Skífan dregur dám af því.
Það er eitthvað rússneskt þema í gangi á plötunni. Raspútín fígúra úr rússneskri byltingarsögu er á koverinu svo eru stafir úr kyrillíska stafrófinu út um allt á bleðlingnum. En að plötunni:
Hún byrjar kröftuglega á titillaginu, síðan kemur Tripping a blind man er hefur þvílík Sabbath áhrif inn á milli. Skiptist milli reiðiöskra Steele og stoner grúvs. Profit of doom er einn hápunktur plötunnar, þvílíkar skiptingar og raddbreytingar! Pete syngur djúpt, af tilfinningu, melódíu og hrátt. September sun er eitt af fáu ljúfu lögunum, reyndar brýst það einu sinni út í einhvern dýrðlegan rússneskan byltingarsöng þar sem Pete syngur alldigurbarkalega á málinu slavneska( vel á minnst var faðir hans af slavaættum). She burned me down er af sama meiði, fulllangdregið lag þó. Halloween In Heaven er hresst, pönkað og með fáránlega texta; fjallar um rokkara í helvíti. Róast aðeins niður í endann og þá kemur m.a. eitthvað kvendi sem syngur. These Three Things byrjar einum of þunglamalega og meðalmennskulega en þegar sígur á seinni endann er þar eitthvað fyrir eyrað. Textinn lýsir afstöðu gegn fóstureyðingum ef ég skil hann rétt. Some Stupid Tomorrow er algjör þrumfleygur og eitt mesta stuðlagið á plötunni þó það lýsi biturri fangelsisvist. An Ode To Locksmiths lýsir andúð Steele á karlmönnum. Melódískt lag með eins konar stonerrokk riffum. Hail And Farewell To Britain lýkur plötunni með mikilli biturð og segir um leið bless. Lag í hægara lagi.
TON halda áfram að hljóma ferskir en ég var farinn að óttast að þeir væru farnir að staðna eftir World coming down(’99). Síðustu tvær plötur sýna að þeir hafa metnað og kraft í sér enn. Pete Steele fetar nýjar slóðir í öskri sínu og lögin eru á alls konar hraða.
9/10
Bessi (Berserkur)