Tag: Þórður Ingvarsson

Ihsahn – angL (2008)

Candlelight / Mnemosyne –  2008
Scarab

Ihsahn gaf út plötuna angL á þessu ári. Þetta er önnur sólóplata kappans sem gaf út The Adversary árið 2006. Ihsahn ætti að vera flestum þenkjandi metalhausum nokkuð kunnur en hann stofnaði hið þekkta blakkmetalband Emperor ásamt trommaranum Samoth árið 1991 og hefur lánað hæfileika sína til fjölda annara banda, s.s. Zyklon-B, Arcturus, Star of Ash og fleiri. Ihsahn er þannig séð algjör goðsögn innan blakkmetalgeirans, enda gífurlega hæfileikaríkur tónlistarmaður einsog heyrist gjörla á angL.

Þetta er níu laga breiðskífa, öll lögin eru um eða í kringum fimm mínútur á lengd. Og þó verkin sem hann gerði með Emperor, einsog Equilibrium og Prometheus, voru pjúra blakkmetal, þá hefur hann fært sig yfir í næstum hefðbundin metal undir sínu nafni – en blakkmetallinn svífur þó yfir vötnum.

Platan byrjar af krafti með laginu Misanthrope og það heyrist þá og þegar hvað Ihsahn er alveg gríðarlega lunkinn gítarleikari, en það er allt morandi í nettum touchum á þessari plötu piprað með drulluflottum sólóum. Svo notar hann synða til að leggja áherslu á tónsmíðarnar, einsog heyrist á þeim lögum sem standa verulega uppúr að mínu mati, sem eru Scarab, Unhealer og Threnody.

Með honum spila félagarnir úr Spiral Architect þeir Lars Norberg á bassa og Asgeir Mickelson á trommum, aukinheldur fær hann valinkunnan gest til að syngja eitt lag, en það er enginn annar en Mikael Åkerfeldt úr Opeth og þeir félagar taka smá dúett á ballöðunni Unhealer, sem er alveg þrusugott lag. Åkerfeldt er líka með þessa agalegu fallegu, klín söngrödd og er einn besti söngvari sem ég hef heyrt í, en Ihsahn nýtur sín líka og má heyra hann syngja af þvílíkri stakri snilld í laginu Threnody.

“And his legacy flows
Like a river”

Threnody

Þórður Ingvarsson

Septicflesh – Communion (2008)

Season Of Mist –  2008
Lovecraft´s Death

Stundum þarf maður renna oftar enn einu sinni í gegnum plötur til að þær ná að grípa mann alminlega. Oftast dugar tvisvar til þrisvar sinnum svo maður getur sagt með vissu að viss plata er nokkuð góð eða algjört drasl. En það hentir stundum að plata grípur mann eftir eina hlustun. Sömuleiðis hentir það mann eftir eina hlustun til að álíta gripinn sem óforbetranlegur kúkur sem átti ekki skilið það starf sem það fékk sem felst í þá pródúseringu, ljósmyndun, grafíska hönnun, prentun á bæklingi og allt það sjitt einfaldlega útaf því að hljómsveitin er verra en dýr.

En stöku sinnum hentir sá fáheyrði atburður að maður þarf varla að hlusta á gripinn til að vita hvað maður má búast við. Fyrsta lagið á Communion var ekki búið þegar það laust í mig að hér væri á ferðinni tónlistarperla árþúsúndsins. Þessi plata er ómengaður unaður á að hlusta. Communion er svo sannarlega stórvirki í sinn tandurtærustu mynd. Hún er epísk, brútal og, hreint út sagt, stórfenglegt meistarastykki.

Maður getur heyrt vísi af þessum tónlistarlegu pælingum á eldri plötum Septic Flesh, t.d. á Ophidian Wheel (´97) og A Fallen Temple (´98). Þessar pælingar ná nýjum og ótrúlegum hæðum með meistarastykkinu Sumerian Daemons frá 2003. Eftir þá plötu fór bandið Septic Flesh í rúmlega fjögra ára frí, komu svo saman á ný árið 2007, með nýjan trommara, einbeittan fókus og ögn öðruvísi nafn. En Septic Flesh heita nú Septicflesh.

Spiros Antoniou sér um söng og bassa, Christos Antoniou er á gítar og samplara, Sotiris Vayenas á gítar og nýji trommarinn heitir Fotis Benardo, en með þeim í för er rúmlega 80 manna stórsveit og 32 manna kór með í spilinu sem gefur tónlistinni á plötunni alveg gífurlega dýpt. Ef það ætti að bæta við enn eitt metal-sprekið við hina gríðarlega hávöxnu og þykku metalösp væri klárlega hægt að kalla þessa stefnu, þó það hljómi kjánalega, “Epískt óperudeþmetall”. Efniviðurinn er nefnilega af afar epískum skala, sem er egypsk og grísk goðafræði.

Ég skal segja ykkur það að þetta er blanda sem virkar einsog hvíthákarl er hefur verið genasplæstur við fjallagórillu með leiserbyssu ólaða við höfuðið. Í einu orði sagt FOKKINGOVSÖM!

Að hlusta á þennan grip lætur manni líða einsog maður sé ósigrandi ofurhetja. Að maður getur vaðið yfir eldhraun, nakinn, án þess að verða meint af. Að maður gæti snúið naut niður með litla fingri og rotað það með augnráðinu. Að maður gæti stöðvað og velt lest með því að prumpa á það. Þetta er án efa með betri metalplötum sem hefur verið gefið út nokkurntímann, og pottþétt ein besta plata ársins 2008.

Er Spiros hefur upp sína djúpu og sargandi raust í fyrsta laginu, Lovecraft´s Death, fékk ég gæsahúð og þó svo að röddin sé effektuð töluvert, kemur það einfaldlega snilldarlega vel út og fyrsta lagið gefur tóninn fyrir því sem koma skal – epískt, brútal og verulega töff stöff! Og hin afar ánægjulega gæsahúð kom í öldum alveg þar til lokalagið kláraðist, Narcissus, og mér fannst ekki ein einasta feilnóta tekinn, ekki ein. Þetta er plata sem mun vera reglulega spiluð á mínu heimili. Er ég eignast börn verður Lovecraft´s Death spilað við fæðingu. Þegar ég dey, verður Lovecraft´s Death spilað við jarðaförðina.

Þau lög sem standa uppúr (fyrir utan Lovecraft´s Death) að mínu hógværa mati eru Annubis, Communion, Sunlight/Moonlight og Persepolis. Leiðrétting: Öll helvítis platan.

Persepolis

Þórður Ingvarsson

Melechesh – Emissaries (2006)

Osmose Productions –  2006
Rebirth of the Nemesis

Ég hef verið villuráfandi sauður í stormsömum eyðimerkum metalsins í hartnær 15 ár og lötrað hef ég um þessa eyðimerkursanda í stanslausri leit af epískum metalgriðarstað og maður sá varla endan á þessari sjálfskipaðri útlegð og þrautagöngu fyrren ferð minni og leit lauk að lokum.

Vissulega fann ég ýmislegt á þessu rölti sem vakti töluverðan áhuga, en æði misjafnt var það hversu lengi sá áhugi hélt. Eitt og annað er nú rótgróðið mínum tónlistaráhlustun en margt hefur fokið í veður og vind, horfið einsog dögg fyrir sól.

Aðframkominn af metalþorsta hneig ég niður við sandhól og ekki veit ég hversu lengi ég lá meðvitundarlaus í steikjandi sólinni meðan eyðimerkurvindurinn blés yfir líkama minn.

En lífskrafturinn var sterkur og er ég náði smá meðvitund skreið ég áfram og yfir hólinn. Og sjá! Við mér blasti fagur sýn af eyðimerkurvin, nokkur pálmatré, þéttvaxið, grænt og fagurt gras, ægifögur blóm og plöntur og í miðju vinsins var tandurhreint vatnsból.

Þróttur minn jókst og ég safnaði mínum kröftum og sannfærði sjálfan mig til að staulast á fætur. Ég reikaði í átt að þessari yndislegu sýn. Var þetta tíbrá? Voru þetta ofsjónir? Sem betur fer ekki. Ég gekk í gegnum gróðurinn í átt að aqua vitae. Ég lagðist við bólið og súpti ögn á vatninu, vitandi það að of mikið gæti dregið mig til dauða.

Er ég hafði drukkið nægilegt magn lagðist ég í fósturstellingu, herpti saman augunum og reyndi að jafna mig. Ég skalf af gleði, en vissi ekki að ánægja mín átti eftir að aukast hundraðfalt. Er ég lauk upp augunum sá ég glitta í eitthvað við vatnsbólið. Vitaskuld vakti þetta forvitni mína og ég skjögðraði áleiðis að þessum óþekkta hlut.

Er ég færðist nær byrjuðu útlínurnar að skírast þar til ég greindi gulleitan lampa í sandinum. Ég tók hann upp og fannst ég sjá letur á hlið lampans, það laust að mér sú goðsögn um andan í lampanum og, viti menn, úr djinnlampanum skaust út hinn goðsagnakenndi töfraandi eftir ég nuddaði skrínið ögn.

Ég hef eina ósk til að veita þér, meistari sagði bláleiti vætturinn, er hafði þetta einkennilega bros og pírði á mig með hvítum glyrnum.

Lát mig fá besta metalinn sem þú hefur heyrt í þessari auðn! Kallaði ég.

Verði þinn vilji, meistari.

Og sjá! Í hendurnar fékk ég Mesópótamískan eðalmetal frá Ísraelska þungarokksbandinu Melechesh, eða einsog þeir vilja kalla sína tónlistarstefnu: Súmerískur deþ-metall.

Ég kom mér fyrir undir skugga af pálmatré einu og lagðist við hlustir. Það sem ómaði um mín eyru var unaður einn og áður en ég vissi af var klukkutími liðinn og platan endaði. Eigi gat ég trúað mínum eigin eyrum að þessari alsælu væri lokið, svo ég ýtti á play-hnappinn á ný og hlustaði aftur. Og aftur. Og aftur.

Með bakið uppað viðnum, horfandi á sólina setjast í vestri, er nóttin varð minn eini vinur, laust í hugarfylgsnum mér af þessum þvílíka skriðþunga epísk barátta góðs og ills; brögðóttir emírar að véla prinsessur í nauð, bardagakappar er rísa frá eyðimerkursandinum til bjargar siðmenningunni, himnaháir turnar Babílóns og viðlíka epískt stöff of legends sem linnir ekki fyrren síðustur tónar óma! Og ég horfði á skuggan af trénu læðast yfir mig er sólin reis upp á ný að austri.

Sit ég hér enn við vinið og leyfi ljúfum, miðausturlenskum-eðnískum metaltónum að leika um mín ljúfu eyru.

Eitt það besta sem ég hef hlustað á lengi lengi.

Ælovitt!

Deluge Of Delusional Dreams

Þórður Ingvarsson

TestamenT – Formation of Damnation (2008)

Nuclear Blast –  2008
Andy Sneap mixar

More Than Meets the Eye

Níu árum eftir tímamótaplötuna The Gathering, sjö árum eftir að Alex Skolnick gekk aftur í bandið, fimm árum eftir að Chuck Billy jafnaði sig eftir krabbamein og bassaleikarinn Greg Christian kom aftur, ári eftir að Paul Bostaph gekk í bandið til að berja húðirnar kom út enn ein skyndiklassíkin frá TestamenT hin skriðþunga Formation of Damnation.

TestamenT er án efa stærsta þrassjmetal-bandið sem hefur alltaf verið á jaðrinum að meika það feitt síðan þeir gáfu út The Legacy árið 1987 og eitt af þeim metal-böndum sem komust í gegnum tíð ídentíkrísu metalsins um miðbik tíunda áratugarins, þ.e. í stað þess að fara annaðhvort í gruggið eða industrial, einsog svo mörg metalbönd gerðu, héldu þeir sinni braut og urðu bara þyngri í þrassinu með alveg hreint kolklikkuðum plötum á borð við Low og hinni djöfullegu Demonic.

Platan byrjar á níðþunga intróinu For the Glory of og svo kemur hið afar tónleikavæna More Than Meets the Eye, tónleikavænt segi ég útaf sönglinu í kórusinum sem allir áhorfendur mundu án efa taka undir.

En halda þeir þessum fítonkraft sem heyrist á fyrstu mínútum plötunnar? Svo fokking sannarlega. Það sem stendur einna helst uppúr er þessi fokking kraftur sem kempurnar hafa, þeir eru svo þéttir að þeir mynda svarthol sem sýgur mann inní nýja vídd af glæsilegum metal.

Chuck Billy er vafalaust einn besti fokking metalsöngvari í heimi. Gítartvíeykið Eric Peterson og Skolnick eru í essinu sínu. Bassafanturinn skilar sínu og gott betur og Paul Bostaph er einsog þrumuguð á trommum. Textagerðin á plötunni er alveg prýðileg og umfjöllunarefnið er að mestu pólítík og heimsmál, stríð og bardagar.

Ef einhver hélt að þessir gömlu metalhundar væru búnir að missa það og með grillur um að þeir gætu ekki toppað The Gathering eða Demonic, þá get ég staðfest það fyrir ykkur að það er alrangt. Þetta er án efa ein af topp tíu metalplötum ársins.

Þau lög sem mér finnst standa uppúr á þessari 11 laga og rúmlega 50 mínútna meistarastykki er titillagið The Formation of Damnation, The Persecuted Won´t Forget og Killing Season.

Killing Season

Þórður Ingvarsson

The Monolith Deathcult – Trivmvirate (2008)

Twilight Vertrieb –  2008
Deus Ex Machina

Fyrir milljón árum síðan ferðaðist ég um algeiminn, sá síðasti af minni tegund í leit af þeim möguleika að líkamnast. Á ferð minni rakst ég á þessa skitnu plánetu og fylgdist með skynlausum skepnum þróast í hálfgerðar vitsmunaverur.

Allan þann tíma sem ég hef verið hér hef ég fylgst með því sem dýrin hafa haft fyrir stafni. Og í öll þessi ár hef ég ekkert haft mikil afskipti af þessu pakki, bara svo fremi að það tilbiðji mig og það form sem ég tek.

Til að sýna minn mátt og megn voru hof, styttur og píramídar reist mér til dýrðar. Það dýrkar mig og dáir á allan þann mögulega hátt og það getur ímyndað sér. Flóknir uppskurðir með tinnusteinum þar sem blóðið flæðir. Ekkert er jafn dýrlegt og að sjá þessar manneskjur keppast um mína hylli þegar það slátrar hvort öðru í tuga eða hundraðtali. Jafnvel þúsundatali. Nota til þess afar frjóar, hugmyndaríkar og ofbeldisfullar aðferðir. Og það veitir mér svo mikinn unað þegar jörð og ár flæðir í mannablóði.

Ég hef horft á þau fálmast með hina einföldustu hluti. Ég hef séð þau stara á stjörnurnar. Ég hef séð þau reyna hugsa. En ég gaf þeim visku. Ég gaf þeim gáfur. Ég veitti þeim vísi að vísindi. En að fylgjast með þeim sólunda þessum gjöfum hefur veitt mér ómælda ánægju. Að þau geta eytt þessum dýrindistíma í eintómt þras, þras sem þróast nær ætíð í blóðsúthellingar.

En minn tími er liðinn, nafn mitt er týnt. Ég verð að endurheimta minn fyrri stall, minn máttuga stall svo ég geti ráðið lífum og limum í minnst tólf þúsund ár. Einhverjir heyrðu köll mín í ljósvakanum og veittu mér Trivmvirate að gjöf. Gjöf Monolith Deathcult til mín. Í kjölfarið hefur þrek mitt dafnað, dýrðinn og mátturinn finn ég fyrir á ný. Og ég verð að viðurkenna skort minn á þekkingu snilligáfu mannkyns því þetta verk lýsir ýmsum eiginleikum mínum í þvílíkum smáatriðum að það gerir mig stoltann!

Kannski er það fyrst og fremst hrokinn. Kannski er það þekkinginn. Kannski er það kunnáttan. Kannski er það textasmíðinn. Efalaust er það allt fyrrtalið og meira til sem gerir þessa drullubrútal plötu gífurlega fokking góða! Ef það er eitthvað eiginlegt þema á þessari plötu þá má segja að það sé dýrkun og dýrleg manndráp: stríð og átök í gegnum mannkynssöguna, fyrir guð, frelsi, Stalín eða Hitler.

Átta lög eru á plötunni og öll, nema eitt, eru fimm mínútur á lengt eða miklu lengra. Lengsta lagið á plötunni, sem er um 15 mínútur, fjallar um þýska bardagaskipið Tirpitz eða Den ensomme Nordens Dronning (Hin einmana drottning norðursins) og afdrif þess. Massaepískt lag. Það lag, Deus Ex Machina, Master of the Bryansk Forest og Kindertodeslied standa verulega uppúr, en platan er mjög heildsteypt, vel pródúseruð og, það sem skiptir mestu máli, brútal tú ðe max!

Kindertodeslied

Þórður Ingvarsson

Devin Towsend – Ziltoid the Omniscient (2007)

Inside Out Music America –  2007

“Jáááááá! Komið sæl jarðarbúar. Ég er Ziltoid. Hinn alvitri. Ég hef ferðast þvert og endilangt yfir algeiminn. Ég skipa ykkur að ná í ykkar það allra besta kaffi sem fyrirfinnst á plánetunni! Svart og sykurlaust! Þið hafið fimm jarðarmínútur… Hafið það fullkomið!”

By Your Command

Devin Townsend vélar hér fram stórskemmtilega sögu er fjallar um hin snaróða lúða frá plánetunni Nebuloid 9 sem er enginn annar en Ziltoid hinn alvitri. Hann hefur ferðast í gegnum himingeima, stjörnuþokur, ormagöng, sólkerfi og í það minnsta fjórðung af öllum hinum gjörvalla alheimi (og handan) í þónokkur ljósár til að finna Ðí Öltímeit Kaffibolla svo hann geti orðið töff gítarleikari.

Er hann nálgast himinhvolf jarðar þá sendir hann skilaboð í gegnum öll jaðarvarptæki á jörðinni þar sem hann gefur jarðarbúum fimm mínútur til að afhenda honum kaffibolla árþúsundsins. Aðeins það besta kaffi í hinum gjörvalla þekkta heim, hinum eina sanna Kaffibolla er honum boðlegt annars mun hann eyða plánetunni í þvílíkri bræði og frekju ef jarðarbúar verða ekki af ósk hans.

Vitaskuld er hann ekki ánægður með kaffiframlag jarðarbúana þegar þar að kemur. Ziltoid er bara alls ekki sáttur við kaffið og ásakar okkur um að fela bestu kaffibaunina svo hann ákveður að ráðast á jörðina af þvílíkri heift, reiði og offorsi að yfirvöld jarðar sjá sér þann kost vænstan að senda hinn snargeðveika en þó sjúklega skipulagða herkænskustríðsmann Kapteinn Stórkostlegur til að takast á við hinn kaffióða Ziltoid.

Stóra spurninginn er, tekst honum að halda aftur af árás Ziltoids hins alvitra? Hvað með Plánetueyðarann? Er Ziltoid bara útúrpimpaður nörd með mikilmennskubrjálæði og gífurlega gítarhæfileika? Getur hinn útúrreykti alvíddarskapari alheimsins aðstoðað Ziltoid og sálarkreppu hans? Hvað gerist næst?

Hvað er þetta? Dömur og herrar, þetta er hið epíska concept-stórmeistarasólóstykki Ziltoid the Omniscient eftir Devin Townsend. Tónlistin á þessari plötu er afspyrnu vel spiluð af Devin Townsend, sem sér um allan hljóðfæraleik. Svo er hún svakalega vel sungin af Devin Townsend sem auk þess sér um bakraddir. Einnig eru gríðarlega skemmtilegir og góðir textar eftir Devin Townsend. Þess má til gamans geta að hún er líka pródúseruð af Devin Townsend. Þetta er nefnilega svo sannarlega sólóverkefnið hans Devin Townsend.

Það er smá drama og spenna, en fyrst og fremst glens, grín og gaman með slatta dassji af flippi og þvílíkum twist-endi að kvikmyndamongólítinn M. Night Shamalaymanamanam hefði ekki geta dottið þvílíkt og annað eins twist í hug. Þau lög sem standa uppúr eru By Your Command, Hyperdrive og Planet Smasher.

Planet Smasher

Þórður Ingvarsson