Tag: Pelican

Pelican – City of Echoes (2007)

Hydrahead –  2007

„City of Echoes“ , nýjasta plata Pelican er slakasta útgáfa þessara kappa hingað til og ég vona svo innilega að þeir taki sig saman í andlitinu fyrir næstu plötu. „The Fire in our Throats Will Beckon the Thaw“ sem þeir gáfu út 2005 var virkilega skemmtileg plata og varð til þess að ég var virkilega spenntur að heyra að þeir myndu gefa út plötu í ár, en vonbrigðin leyna sér ekki. Platan er í flesta staði óspennandi og flöt. Lagasmíðin er einhvern veginn löt og það er erfitt að hlusta á plötuna til enda. Trommuleikurinn dregur síðan sæmilega hæfileikaríka gítar- og bassaleikarana niður í svaðið með sér, og maður trúir því vart að þetta sé sama hljómsveit og gaf út fyrrnefnt meistarastykki árið 2005.

Pelican menn stofnuðu sveitina í Chicago og hafa verið að spila metal undir gríðarlegum áhrifum frá hljómsveitum eins og Isis og Neurosis. Í Pelican er enginn söngvari, en það hefur þann kost að hljómsveitin hefur á undanförnum útgáfum haft töluvert frelsi í lagasmíð. Tónlist Pelican má einna helst lýsa sem hráum prog-metal með virkilega góðum riffum og áhugaverðri lagasmíð, tónlist sem nær oft á köflum að vekja upp hjá manni ýmsar tilfinningar og koma manni í hið undarlegasta skap. En því miður á ekkert af þessu við þegar nýjasta plata þeirra er rædd.

Þetta er samt ekkert alslæmt. Inn á milli leynast ágætis riff og Pelican hljómurinn er til staðar. Stundum gleymir maður hvað platan er í heildina slöpp, en það rifjast oft á tíðum heldur fljótt upp fyrir manni. Hljómurinn er ótrúlega geldur og krafturinn og einlægnin er engan veginn til staðar. Tenging milli riffa og hluta úr lögum, og tenging milli laga er svo að segja engin sem gerir plötuna virkilega klunnalega ofan á það að vera flöt. Þar sem ég vil eiginlega ekki skrifa meira um þessa plötu þessa stundina myndi ég að lokum einfaldlega mæla með því að fólk haldi sig frá henni og nái sér frekar í „The Fire in our Throats Will Beckon the Thaw“ eða „Australasia“ með þeim sem eru virkilega eigulegar og öflugar plötur.

Pelican

Bandaríska hljómsveitin Pelican hefur staðfest að von sé á nýrri þröngskífu núna í ár. Platan hefur fengið nafnið Ataraxia/Taraxis og var tekin upp af Aaron Harris sem var í hljómsveitinni ISIS. Platan er gefin út af Southern Lord útgáfunni og mun innihalda eftirfarandi lög:

‘Ataraxia’
‘Lathe Biosas’
‘Parasite Colony’
‘Taraxis’

Pelican

Hljómsveitin Pelican heldur til hljóðvers í október mánuði til að taka upp tvö ný lög fyrir þröngskífu. Von er á að útgáfan sjái dagsins ljós næsta vor og verður það í höndum Southern Lord útgáfunnar að sjá til þess að það gerist. Sveitin ætlar síðan að gefa út heljarinnar 10 vínlplötu útgáfu safn af öllu efni sveitarinnar í sérstökum viðarkassa 19 október næstkomandi. Þessi heljarinnar pakki er gefinn út af Viva Hate records.

Pelican

Nýtt lag hljómsveitarinnar Pelican, “Embedding The Moss”, er nú í boði á netinu. Lag þetta verður að finna á tilvonandi þröngskífu sveitarinnar, “Ephemeral” sem gefin verður út af Southern Lord í byrjun júní. Umtalað lag er í boði hér: www.myspace.com/pelican