Tag: Melechesh

Melechesh – Emissaries (2006)

Osmose Productions –  2006
Rebirth of the Nemesis

Ég hef verið villuráfandi sauður í stormsömum eyðimerkum metalsins í hartnær 15 ár og lötrað hef ég um þessa eyðimerkursanda í stanslausri leit af epískum metalgriðarstað og maður sá varla endan á þessari sjálfskipaðri útlegð og þrautagöngu fyrren ferð minni og leit lauk að lokum.

Vissulega fann ég ýmislegt á þessu rölti sem vakti töluverðan áhuga, en æði misjafnt var það hversu lengi sá áhugi hélt. Eitt og annað er nú rótgróðið mínum tónlistaráhlustun en margt hefur fokið í veður og vind, horfið einsog dögg fyrir sól.

Aðframkominn af metalþorsta hneig ég niður við sandhól og ekki veit ég hversu lengi ég lá meðvitundarlaus í steikjandi sólinni meðan eyðimerkurvindurinn blés yfir líkama minn.

En lífskrafturinn var sterkur og er ég náði smá meðvitund skreið ég áfram og yfir hólinn. Og sjá! Við mér blasti fagur sýn af eyðimerkurvin, nokkur pálmatré, þéttvaxið, grænt og fagurt gras, ægifögur blóm og plöntur og í miðju vinsins var tandurhreint vatnsból.

Þróttur minn jókst og ég safnaði mínum kröftum og sannfærði sjálfan mig til að staulast á fætur. Ég reikaði í átt að þessari yndislegu sýn. Var þetta tíbrá? Voru þetta ofsjónir? Sem betur fer ekki. Ég gekk í gegnum gróðurinn í átt að aqua vitae. Ég lagðist við bólið og súpti ögn á vatninu, vitandi það að of mikið gæti dregið mig til dauða.

Er ég hafði drukkið nægilegt magn lagðist ég í fósturstellingu, herpti saman augunum og reyndi að jafna mig. Ég skalf af gleði, en vissi ekki að ánægja mín átti eftir að aukast hundraðfalt. Er ég lauk upp augunum sá ég glitta í eitthvað við vatnsbólið. Vitaskuld vakti þetta forvitni mína og ég skjögðraði áleiðis að þessum óþekkta hlut.

Er ég færðist nær byrjuðu útlínurnar að skírast þar til ég greindi gulleitan lampa í sandinum. Ég tók hann upp og fannst ég sjá letur á hlið lampans, það laust að mér sú goðsögn um andan í lampanum og, viti menn, úr djinnlampanum skaust út hinn goðsagnakenndi töfraandi eftir ég nuddaði skrínið ögn.

Ég hef eina ósk til að veita þér, meistari sagði bláleiti vætturinn, er hafði þetta einkennilega bros og pírði á mig með hvítum glyrnum.

Lát mig fá besta metalinn sem þú hefur heyrt í þessari auðn! Kallaði ég.

Verði þinn vilji, meistari.

Og sjá! Í hendurnar fékk ég Mesópótamískan eðalmetal frá Ísraelska þungarokksbandinu Melechesh, eða einsog þeir vilja kalla sína tónlistarstefnu: Súmerískur deþ-metall.

Ég kom mér fyrir undir skugga af pálmatré einu og lagðist við hlustir. Það sem ómaði um mín eyru var unaður einn og áður en ég vissi af var klukkutími liðinn og platan endaði. Eigi gat ég trúað mínum eigin eyrum að þessari alsælu væri lokið, svo ég ýtti á play-hnappinn á ný og hlustaði aftur. Og aftur. Og aftur.

Með bakið uppað viðnum, horfandi á sólina setjast í vestri, er nóttin varð minn eini vinur, laust í hugarfylgsnum mér af þessum þvílíka skriðþunga epísk barátta góðs og ills; brögðóttir emírar að véla prinsessur í nauð, bardagakappar er rísa frá eyðimerkursandinum til bjargar siðmenningunni, himnaháir turnar Babílóns og viðlíka epískt stöff of legends sem linnir ekki fyrren síðustur tónar óma! Og ég horfði á skuggan af trénu læðast yfir mig er sólin reis upp á ný að austri.

Sit ég hér enn við vinið og leyfi ljúfum, miðausturlenskum-eðnískum metaltónum að leika um mín ljúfu eyru.

Eitt það besta sem ég hef hlustað á lengi lengi.

Ælovitt!

Deluge Of Delusional Dreams

Þórður Ingvarsson