Tag: Kristján B. Heiðarsson

Changer með nýtt lag: Three to One

Íslenska þungarokksveitin Changer er risin úr rekkju og kynnir með stolti nýtt lag: Three to One.
veitin byrjaði fyrr í vikunni með litla kítlu til að kynna lagið, en lagið er nú aðgengilegt á spotify og öðrum efnisveitum um allan heim.

Í dag samanstendur sveitin af:
Kristján B. Heiðarsson – Trommur
Hörður Halldórsson – Gítar
Magnús Halldór Pálsson – Bassi
Hlynur Örn Zophaniasson – Söngur

Í viðbót við þetta hefur sveitin líka endurútgéfið eldra efnið sitt við plötuna January 109 – upprunalega gefin út á harðkjana útgáfunni fyrir meira en 20 árum síðan og plötuna Scenes sem gefin var út árið 2004, en báðar þessar plötur eru nú aðgengilegar á helstu efnisveitum:

Eldri plötunar er einnig hægt að hlusta á hér:

Skurk: Blóðbragð, ferlið og framtíðin – Örviðtal!

Hljómsveitin Skurk sendi nýverið frá sér plötuna Blóðbragð (hægt að kaupa hér), en á plötunni er ekki bara að finna norðlenskt þungarokk í háum gæðum heldur fjölbreytta og skemmtilega plötu sem meðal annars nýtir sér tónlistarmenntun norðannmanna með því að fá Tónlistarskóla Akureyra til að taka þátt í upptökunum með klassískum strengjahljóðfærum, sem gefa plötunni virkilega skemmtilegan blæ. Upptökuferlið var ólíkt því sem vanalega gerst í þungarokksheimnum hér á landi, og því við hæfi að skella á sveitina nokkrar spurningar.

Það væri kannski gott að byrja á að kynna sveitina fyrir þá sem ekki þekkja, hvaðan kemur sveitin Skurk og hverjir eru í henni? 

Skurk var stofnuð árið 1990 á Akureyri, og starfaði til ársins 1993. Þegar hljómsveitin hætti fóru sumir meðlimirnir í aðrar hljómsveitir, en aðrir hafa ekki spilað síðan. Svo árið 2011 komu þrír af gömlu meðlimunum saman aftur með annan trommara. Sá hætti svo snögglega árið 2013, og með nýjum trommara var komin sú liðskipan sem er enn í dag: Guðni Konráðsson – söngur og gítar, Hörður Halldórsson – gítar og stöku bakraddir, Jón Heiðar Rúnarsson – bassi, og Kristján B. Heiðarsson – trommur.

Hvað var þessi plata búin að búa í ykkur í langan tíma?

Árið 2013 tókum við upp EP-plötuna Final Gift, sem kom út árið eftir. Strax þá voru komnar einhverjar lagahugmyndir, en ferlið fór í gang fyrir alvöru seinni part 2014. Það var samt svolítið öðruvísi en venjulega, því frekar en að semja eitt lag í einu unnum við út frá gítarriffunum. Eins konar „riff by riff“. Sum lögin voru upphaflega sólókaflar í lögum sem okkur þótti of löng, og önnur lög urðu til þegar við hittumst allir fjórir til að slípa lögin til fyrir upptökurnar. Svo urðu fleiri þættir eins og stúdíóin og strengjasveitirnar til þess að lengja tímann enn frekar og við höfðum í raun ekki reiknað með. Það tók nefnilega auðvitað tíma að semja kaflana utan um okkar lög og vinna það allt ásamt því að taka svo upp.

Hvaðan kom hugmyndin um Blóðbragð?

Á einhverjum tímapunkti áttuðum við okkur á því að við vorum með afar stóra plötu, löng lög og endalaust af sólóum. Við ákváðum að prófa að syngja á Íslensku, og eftir að þýða ensku textana sem komnir voru sáum við ákveðið mynstur, einhvern atburð sem gerðist í köldu, íslensku landslagi. Þá kom sú hugmynd upp að prófa að gera þemaplötu. Það vatt upp á sig og tókst mjög vel að okkar mati. Í stað þess að segja sögu með byrjun og endi segir hvert lag á sinn hátt frá sama atviki. Textarnir fjalla um stúlkuna Mjöll, hvernig líf hennar endar með morði og einnig er skyggnst inn í hugarheim þess sem verður henni að bana. Sagan er í raun komin frá gömlu Skurk-lagi sem hét The Night Before Yesterday. Í dag er það sama lag titillag plötunnar – Blóðbragð. Titill plötunnar var reyndar löngu ákveðinn, en gamli enski textinn setti tóninn fyrir það sem platan fjallar um.

Hvernig fjármögnuðuð þið upptökur og vinnslu á plötunni?

Í stað þess að borga allt úr eigin vasa eins og er svo algengt fórum við þá leið að setja upp söfnun á Karolina Fund. Þar gat fólk keypt eintök af plötunni með hinum og þessum auka“hlutum“, og fór það svo að við söfnuðum töluvert meiru en lagt var upp með. Hins vegar var ferlið við útgáfu plötunnar dýrara en búist var við, og því borguðum við sjálfir einnig dágóða summu. Án þessarar söfnunar hefðum við samt einfaldlega ekki getað gert plötuna eins vel og við vildum, það er bara þannig.

Hvernig var að vinna með Tónlistarskólanum á Akureyri og hvernig kom það til?

Strax eftir fyrstu gítarupptökurnar fórum við að spjalla við Hauk Pálmason, sem var þá aðstoðarskólastjóri Tónlistarskólans, um möguleikann á því að vinna þetta verkefni með okkur. Hugmyndin var sú að gefa nemendum skólans tækifæri á að vinna verkefni sem væri örlítið út fyrir normið í skólanum og gæfi nemendum víðari sýn á tónlist. Einnig vildum við bara fá krakkana til að spila þungarokk! Við urðum mjög glaðir að finna svo svona rosalega jákvæða strauma frá öllum í skólanum, bæði kennurum og nemendum. Okkur var bent á að tala við Daníel Þorsteinsson varðandi það að semja og útsetja fyrir plötuna, og hann var sem betur fer meira en til í þetta. Hann er mjög fær og útkoman er vægast sagt frábær.

Nú var eitthvað vesen í framleiðsluferlinu, hvað var í gangi þar?

Já, það var frekar svekkjandi allt saman. Fyrst lentum við í nýlegri lagasetningu í Póllandi, hvar diskurinn var framleiddur, sem gerir það að verkum að allt sem er sent til landa utan Evrópusambandsins er stoppað í 2-3 vikur í einhverri leiðinda skriffinnsku. Þegar við fengum loksins upplagið af diskunum til landsins kom í ljós að það var gallað. Við höfðum samband við verksmiðjuna úti, og þeir fundu ekkert í sínum fælum eða framleiðsluferli, en hins vegar heyrði samstarfsaðili okkar í Póllandi gallann í sínum disk, tók það upp á videó og sendi verksmiðjunni. Það var því pressað nýtt upplag og því gallaða fargað hér heima. Við þurftum samt auðvitað að bíða aftur í 2-3 vikur eftir nýja upplaginu. Skriffinnska er ekki okkar besti vinur, það er á hreinu.

Nú þegar platan er loksins komin út, hvað tekur við?

Við spiluðum á Eistnaflugi í sumar, og erum með stóra tónleika í bígerð í haust. Einhvers konar útgáfutónleika. Það er svo sem ekkert planað, en það er ekkert ólíklegt að það fari að fæðast einhverjar lagahugmyndir, hvort sem okkur líkar betur eða verr.

Hvernig er annars að vinna að breiðskífu í dag, tekur nútíminn enn mark á svoleiðis?

Það er enn fullt af fólki sem vill fá vöruna sína í hendurnar, geta haldið á hulstrinu á meðan það hlustar á tónlistina. En tímarnir eru vissulega að breytast, og margir vilja bara hafa stafrænar útgáfur sem eru miklu meðfærilegri. Við nálguðumst þetta með því að pressa geisladisk eins og venjulega, og bjóða einnig upp á mjög veglega stafræna útgáfu með alls konar aukaefni, þ.á m. voru allar gömlu upptökur sveitarinnar og slatti af videóum frá ’91-´93. Hvort tveggja mæltist mjög vel fyrir.

Eruð þið tilbúnir með efni í nýtt Skurk ævintýri?

Eins og minnst var á áðan er ekkert ólíklegt að einhver riff fari að skjóta upp kollinum, en í sannleika sagt erum við bara enn að jafna okkur eftir þetta langa og stranga, en jafnframt mjög gefandi ferli sem var að koma þessari plötu frá okkur. Við gáfum allt okkar í hana, og það skilaði sér með frábærri útkomu sem við vonum að sem flestir geti notið með okkur. Við þurfum bara aðeins að anda eftir þetta allt og spila á nokkrum tónleikum til að hlaða í næstu plötu. En við erum hvergi hættir, það er alveg ljóst.

Hægt er að versla plötuna beint af bandinu hér: skurk.is/store

Gorguts – The Erosion Of Sanity (1993)

Roadrunner Records –  1993
Pródúserað af Gorguts og Steve Harris

Vel klæddir menntaskólanemar heima á Fróni stunda dauðarokkstónleika af jafn miklu offorsi og gallabuxnatöffarar prýddir síðum hárlubba og leðurjökkum. Árið 2005? Nei, prófum frekar 1993.

Í kringum 1990 var dauðarokk tónlistin sem allir hlustuðu á, og Flórída í Bandaríkjunum var borgin sem hvað oftast var nefnd í sambandi við þessa tónlistarstefnu. Þaðan komu t.d. hljómsveitir á borð við Obituary, Cynic og Deicide, og flóran þar virtist nánast óendanleg. Hljómsveitin Gorguts kom fram um þetta leyti, en sú staðreynd að þeir komu frá Kanada skapaði þeim strax nokkra sérstöðu. Frumraun þeirra, Considered Dead, kom út árið 1991 og fékk strax góð viðbrögð gagnrýnenda sem og annarra enda. The Erosion Of Sanity er önnur plata Gorguts, og ekki síðri en frumraunin.

Byrjunin á „With Their Flesh, He’ll Create“ er að mínu mati ein kraftmesta byrjun á dauðarokksplötu sem maður hefur heyrt, og verður bara betri eftir því sem maður hlýðir oftar á hana. Ekkert intro eða neitt rugl, bara keyrt beint inn í lagið og manni er illt í endaþarminum í viku á eftir. Þegar laginu lýkur tekur svo við súr píanóleikur sem leiðir á skemmtilegan hátt inn í næsta lag, „Condemned To Obscurity“. Á sama tíma og Gorguts eru hráir og harðir tekst þeim nefnilega að hreyfa við laumudjassaranum í mér og koma með afar skemmtilegar pælingar sem halda hinni klassísku dauðarokksblöndu jafn ferskri og nýkreistri sítrónu.

Titillag plötunnar heldur áfram þar sem „Condemned To Obscurity“ skilur við. Byrjunin hamrar sig inn í kviðarholið á manni og dundar sér við að kremja innyflin eins og stór sleggja. Eins gott að mér finnst blóðmör góður… Þegar hér er komið sögu er maður fastur í heljargreipum plötunnar, og fær lítið svigrúm til að ná áttum fyrr en undir það allra síðasta. „Orphans Of Sickness“ sýnir að maður þarf ekki að vera rétt um tvítugur Pólverji til að geta spilað tæknilega á fáránlega miklum hraða, og maður gerir sér betur og betur grein fyrir því hve mikill gæðagripur er hér á ferð. Introið á lokalagi plötunar, „Dormant Misery“, er svo rólegt og klassískt, og gefur manni örstutt færi á að draga að sér andann áður en lagið byrjar af fullum þunga og slær mann endanlega í gólfið. Snilld.

Fyrir þá sem ekki eru miklir dauðarokkshausar að upplagi er The Erosion Of Sanity líklega ekki besta platan til að byrja á, en fyrir gamlar risaeðlur eins og mig er þetta eins og að vera fjögurra ára og komast óséður í nammideildina í Hagkaup í Smáranum. Það tók mig reyndar nokkrar hlustanir að komast almennilega inn í þessa plötu, en ég kann mjög vel við mig hér inni núna…

Lykilorðin á The Erosion Of Sanity eru hraði, tækni, þéttleiki og melódíur. Gorguts eru meistarar í þeirri list að spila hart, tæknilegt og kalt dauðarokk á sama tíma og þeir læða inn gítarlínum sem á sinn súra hátt eru bæði mjög melódískar og grípandi. Luc Lemay (söngur og gítar) er í fantagóðu formi hér, og söngurinn hjá honum er með því skemmtilegasta sem ég hef heyrt í dauðarokksdeildinni – hrár, skýr og verri í skapinu en amma skrattans eftir stólpípu.

Að mínu mati er Gorguts ein af þeim hljómsveitum sem hélt fána dauðarokksins hvað hæst á lofti á gullaldarárum þess, og The Erosion Of Sanity er plata sem allir sem telja sig hafa eitthvað vit á dauðarokki ættu hiklaust að eiga.

– A

Kristján B. Heiðarsson

3 Inches Of Blood – Advance And Vanquish (2004)

Roadrunner –  2004
Pródúserað af Neil Kernon

Það var einhvern tímann á síðasta ári (þ.e.a.s. 2004) sem ég heyrði lagið Deadly Sinners með hljómsveitinni 3 Inches Of Blood. Strax á annarri hlustun var ég nánast farinn að sveifla mér í ljósakrónum og brjóta matarstellið af einskærri metalgleði! …en já… nóg um síðustu heimsókn mína til foreldra minna…

Svo það sé strax á hreinu, þá eru tvær meginaðferðir til að nálgast þennan disk. Ef þú hefur gaman af Judas Priest og nútíma powermetal með tilheyrandi eistnaklemmuröddum máttu vera nokkuð viss um að finna eitthvað á þessum disk að þínu skapi. Ef þú ert hins vegar með ofnæmi fyrir karlmönnum sem syngja í falsettu máttu alveg sækja adrenalínsprautuna þína strax.

3 Inches Of Blood hafa skapað sér nokkra sérstöðu í þungarokksheiminum á síðustu árum. Markast það einkum af þeirri staðreynd að í bandinu eru tveir söngvarar, annar þarmagaulari sem myndi sóma sér vel í dauðarokks- eða metalcore bandi, og hinn með mjög háa og skerandi kontratenórsrödd (fyrir þá sem ekki vita hvað kontratenór er geta þeir prófað að anda að sér helíum og prófa svo að syngja Ísland ögrum skorið á háa C-inu). Málið er hins vegar það að að mörgu leyti þrælvirkar þessi blanda, hvort sem fólk kýs að trúa því eða ekki.

„Fear On The Bridge (Upon The Boiling Sea I)“ byrjar diskinn nokkuð vel. Maður heyrir strax að hér er á ferðinni eitthvað sérstakt, og því kemur ekkert annað til greina en að tékka líka á næsta lagi. Það vill svo til að það er einmitt áðurnefnt „Deadly Sinners“. Einhvern veginn tekst þessu lagi að fá mann til að reka hornin hátt í loft upp og fyllast stolti af því að vera þungarokkari. Viðlagið er fáránlega grípandi, og ég yrði ekki hissa á því að þeir sem tékka á laginu verði raulandi laglínuna í einhverja daga eftir fyrstu hlustun. Ég gerði a.m.k. marga í Kennaraháskólanum nærri geðveika eina kalda vetrarviku í fyrra.

Það er stundum fullaugljóst að meðlimir 3 Inches Of Blood hafa hlýtt nokkrum sinnum á Iron Maiden, en það kemur þó ekki að sök. Lög á borð við „Lord Of The Storm (Upon The Boiling Sea II)“ eru stórgóð og halda manni við efnið, og þar fær maður að heyra nokkurs konar harða nútímaútgáfu af Iron Maiden með dauðarokkssöng – og það er ekki slæm blanda, sjáðu til! Samspil söngspíranna tveggja, Cam Pipes og Jamie Hooper, getur svo einnig verið afar skemmtilegt, og heldur athygli hlustandans í sumum köflum þar sem lítið annað er að gerast.

Það helsta sem hrjáir 3 Inches Of Blood er að mörg lögin þeirra skortir karakter. Á disknum eru 13 lög, en ég fæ sterklega á tilfinninguna að hljómsveitin hefði komist mun betur frá honum ef lögin hefðu verið 9 eða 10. Ekki svo að skilja að diskurinn sé leiðinlegur, en hann verður svolítið langdreginn. Að þessu sögðu verð ég að koma því á framfæri að það jaðrar við að diskurinn sé þess virði að vera keyptur eingöngu vegna „Deadly Sinners“, en það er eitt af þeim lögum sem ég hugsa til núorðið þegar talað er um metal anthems á 21. öldinni. Ég vil samt árétta þetta með adrenalínsprautuna fyrir viðkvæma…

– B

Kristján B. Heiðarsson