Tag: Integrity í London, Umfjöllin, Tónleikaumfjöllun,Valli, Tónleikar,

Integrity í London

26. Október, 2001 – Underworld, Camden, London

Integrity, Waterdown, AKO

Fyrir tónleikana vorum við (ég og Lísabet) búin að stoppa í tónlistarbúð til að hlusta á brot af því efni sem bæði Waterdown og Integrity hafa upp á að bjóða. Persónulega finnst mér alltaf gott að þekkja eitthvað af þeim böndum sem ég fer á tónleika með, þó svo að það sé alltaf gaman að sjá eitthvað nýtt.

Fyrsta band kvöldins var breska hardcore sveitin AKO. Hljómsveitin spilar melódískt hardcore eða eins og þeir segja sjálfir “Brutal melotic hardcore”. Persónulega fannst mér þeir ekki brútal, en þeir voru góðir og vonast ég til að sjá meira með þessu bandi í framtíðinni, sem ég efast ekki að gerist.(þess má geta að þeir voru að gefa út geisladiskinn, Find Yourself (gefið út af Trash City Records), lesið meira um bandið á heimasíðu þeirra: http:// www.a-ko.co.uk )

Næst á dagskrá var þýska hljómsveitin Waterdown. Hljómsveitin gaf nýlega út diskinn “Never kill the boy on a first date” á Victory Records. Í hljómsveitinni eru 2 söngvarar, eða réttara sagt 1 söngvari og einn öskrari. Hljómsveitin er í einu orði FRÁBÆR! Þvílík orka og skemmtun frá einu bandi! Það er greinilegt að hljómsveitin á fullt af aðdáendum hér í bretlandi, þarsem fullt af liði söng með nánast öllum lögum sveitarinnar. Söngvari sveitarinnar er ótrúlega fær og er vægast sagt alveg frábær söngvari. Sviðsframkoma sveitarinnar var skemmtileg, og stóð sögnvari svaitarinnar alveg fremst á sviðinu á meðan gaurinn sem sá um öskrin ráfaði og hoppaði um sviðið. Þetta voru fyrstu tónleikar sveitarinnar í Bretlandi, en ég er alveg viss um að þeir verði fleiri, miðað við móttökurnar sem hljómsveitin fékk frá áhorfendum.

Aðalnúmer kvöldins er bandaríska bandið Integrity. Á sviðið gengur kona, ekki beint fögur, né vel vaxin. Hún er klædd í eitthvað plast dress og það virðist leka blóð úr öxlunum á henni. Það sést nú varla meira í hana það sem eftir er kvöldins en hún sér um hljóðgervil og bakraddasöng. Restin af bandinu kemur á svið og hefst handa. Satt best að segja bjóst ég við mun betra bandi. Það er ekki hljómsveit, heima á íslandi, sem gæti ekki rústað þessari sveit (tóleikalega séð). Hljómsveitin er enganvegin sannfærandi. Af og til spilar hljómsveitin ágætis lög, en einhvernveginn vantar mikið uppá. Integrity eru á síðustu tónleikaferð sinni um heiminn og skilst mér að sveitin hafi ákveðið að hætta störfum. Persónulega skil ég það alveg, en band kvöldins er án efa Waterdown.

Valli