Opnað fyrir skráningu í Wacken Metal Battle 2019

HVAÐA SVEIT VERÐUR FULLTRÚI ÍSLANDS Á WACKEN OPEN AIR Í SUMAR?

– Opnað hefur verið fyrir skráningu í Wacken Metal Battle 2019. 
– Umsóknarfrestur er til og með 3. apríl 2019!
– Keppnin haldin 11. maí á Húrra – Sérstakir gestir: Une Misère 

Tónlistarhátíðina WACKEN OPEN AIR í Norður-Þýskalandi þarf varla lengur að kynna fyrir íslenskum rokkurum enda er hátíðin ein sú stærsta og virtasta í þungarokkinu.

Á hverju ári stendur Wacken fyrir hljómsveitakeppninni W:O:A METAL BATTLE og verður hún haldin í níunda sinn á Íslandi í ár. 6 sveitir keppa um stóra hnossið: Að komast á Wacken Open Air að spila og taka þátt í lokakeppninni þar sem til margs er að vinna.

Var það sveitin Une Misère sem sigraði í íslensku undankeppninni síðast og fór því út til Wacken fyrir Íslands hönd þar sem hún hafnaði hvorki meira né minna en í 4. sæti! Var það í annað árið í röð sem Ísland lenti í topp 5 í keppninni en árið á undan landaði sveitin Auðn 3. sætinu. Frábær árangur það og gríðarleg kynning fyrir íslenska tónlist eins og sjá má meðal annars í þessu innslagi sem birtist í sjónvarpsþættinum PopXport á þýsku stöðinniDW (Deutche Welle) í fyrra: Það er ekki ofsögum sagt að Wacken setur gríðarlegt púður í þessa keppni. Keppnin hefur verið haldin síðan 2004 og opnar hátíðin tónleikasvæðið sitt alveg degi áður en annað markvert byrjar á henni og hleypur að 30 alls óþekktum sveitum sem eru ekki með útgáfusamning að hátíðinni. Hún býður stóði af alls konar bransaliði til að fylgjast með keppninni og hljómsveitunum og gefur sveitunum fullkomið tækifæri til þess að koma sér á framfæri. Svona lagað er fordæmalaust á öðrum tónlistarhátíðum af þessari stærðargráðu.

Une Misère nýttu sér þetta til fulls þegar þeir lönduðu bókunarsamningi við Doomstar Bookings, sem Wacken bauð einmitt til að fylgjast með keppninni. Í kjölfarið lönduðu þeir svo útgáfusamningi við stærsta óháða þungarokkslabel heims, Nuclear Blast Records og hafa spilað á fjöldanum öllum af tónleikum síðan á erlendri grundu, m.a Roadburn Festival og Eurosonic í Hollandi og munu í sumar spila á m.a. Summer Breeze hátíðinni í Þýskalandi og Metal Days í Slóveníu. Mun Une Misère loka kvöldinu af sinni alkunnru snilld og taka fullt sett. 

Er ljóst að hér verður öllu tjaldað til. Viðburðinn hefur verið með flottari viðburðum í þungarokkinu á klakanum síðustu ár en reynslan sýnir að þátttökusveitirnar eiga sín allra bestu gigg í þessari keppni, enda mikið í húfi.

Skilyrði til þátttöku og hvernig maður sækir um má finna á www.facebook.com/WackenMetalBattleIceland

Farið verður vandlega yfir umsóknir og mun sérstök nefnd velja 6 sveitir til að keppa. Það gildir því EKKI fyrstur kemur fyrstur fær, heldur gæði! Því eru sveitir hvattar til að vanda vel til umsókna, skila tónlist í góðum gæðum o. þ.h.

Svartidauði – Útgáfutónleikar Revelations of the Red Sword

Svartidauði er ein stærsta þungarokkssveit landsins, en sveitin kom íslenskum öfgamálmi á kortið með útgáfu Flesh Cathedral sem hefur rutt brautina fyrir bylgju íslenskra svartmálmssveita sem hafa vakið mikla athygli undanfarin ár. Í kjölfarið hefur Svartidauði spilað ötullega um alla Evrópu undanfarin ár.

Á dögunum kom út önnur plata sveitarinnar, Revelations of the Red Sword, en henni hafði verið beðið eftir með mikilli eftirvæntingu eftir velgengni fyrstu plötu sveitarinnar Flesh Cathedral sem er álitin költ klassík innan stefnunnar. Viðtökur við Revelations of the Red Sword hafa verið afar góðar og þykir hún gefa forvera sínum ekkert eftir.

Svartidauði mun leggja upp í Evróputúr í maí auk frekara tónleikahalds á erlendri grund, en fyrst vill sveitin fagna útgáfunni með sjaldséðum tónleikum á heimavelli. Þátt taka í hátíðarhöldum hinir sérlegu gestir Nornahetta og Almyrkvi, en Almyrkvi mun einnig vera Svartadauða til halds og traust á komandi Evróputúr.

Dæmi um dóma sem Revelations of the Red Sword hefur hlotið í tónlistarmiðlum:

6/7 Metal Hammer
9.5/10 DEAF FOREVER
9/10 Rock Hard
9/10 Distorted Sound Magazine
8/10 Close-Up Magazine (Album of the month)
9/10 Ave Noctum
9/10 Via Omega Underground
6/6 Scream Magazine
A+/A- Indy Metal Vault
8.5/10 PureGrainAudio.com
8/10 metal.de
9/10 Powermetal.de
“The 20 best metal albums of 2018” – The Quietus

SVARTIDAUÐI
ALMYRKVI
NORNAHETTA

15. FEBRÚAR Á HÚRRA
2000 KR INN – HÚSIÐ OPNAR KL 20.00

ENGIN FORSALA
Miðaverði er stillt í hóf, en einungis kostar 2000 kr inn.

Húsið opnar 20:00 og tónleikarnir hefjast 21:00.

Daddy Issues með nýja útgáfu af laginu Bolurinn

Íslenska rokksveitin Daddy Issues, sem sendi frá sér smáplötuna Engan Asa í fyrra, hefur nú sent frá sér nýja útgáfu af laginu BOLURINN, en upprunalega útgáfan var gefin út 16. febrúar árið 2013 (nýja útgáfan var gefin út 6 árum síðar, eða 12. janúar). Hér að neðan má heyra báðar útgáfurnar:

Bolurinn – Gamla útgáfan:

Bolurinn – Nýja útgáfan:

Une Misère hjá Nuclear Blast útgáfunni.

Íslenska rokksveitin Une Misère hefur skrifað undir útgáfusamning við Nuclear Blast útgáfuna og í tilefni undirskriftarinnar sent frá sér mynband við lagið Damages, en ný breiðskífa frá sveitinni er væntanleg seinna á árinu.

Rotting Out með nýtt lag

Bandaríska harðkjarnasveitin Rotting Out kom saman á ný snemma á seinasta ári og kom meðal annars fram á Sound And Fury og This is Hardcore hátíðunum. Sveitin hefur tekið upp nýtt efni og kynna nýtt lag að nafni Reaper, en myndband við lagið má sjá hér að neðan:

Dangerface með nýja plötu

Norska pönk sveitin Dangerface sendir frá sér nýja plötu “Get Loud” 1. febrúar næstkomandi, en platan verður gefin út af Big Day Records útgáfunni. Hægt er að hlusta á nýtt lag með sveitinni hér að neðan, en um lagið hefur sveitin þetta að segja á bandcamp heimasíðu sinni:

Lyrically, the song Let It Burn is a quasi-political song, where everything we hear about today, “fake news”, “alternative truth” and other misery, is wrapped up in a musical package of delicious hardocre and punk. It’s difficult to not be affected by the things happening in the world today, so why not just let it all burn down to the ground. And we’ll all keep warm…

Birgir Jónsson trommari hættir í Dimmu

Trommari hljómsveitarinnar Dimmu sendi frá sér tilkynningu í dag þar sem hann segir frá því að hann sé hættur í sveitinni og um leið þakkar meðlimum sveitarinnar fyrir skemmtilegan tíma og rosalega lífreynslu. Hér að neðan má sjá tilkynningu hans í heild sinni:

Eftir tæp 8 ár sem meðlimur í þungarokksveitinni DIMMA hef ég tilkynnt félögum mínum að ég vilji ganga af sviðinu og hætta í sveitinni.
Fyrir því eru margar ástæður en aðallega sú að ég vil nota tímann minn í aðra hluti og finnst þetta ekki lengur eins skemmtilegt og gefandi og áður.
Samhliða Dimmu hef ég starfað sem stjórnandi í ýmsum fyrirtækjum sem og í eigin verkefnum og nú vil ég auka fókusinn á þann hluta lífs míns auk þess að hafa meiri tíma til að eyða með fjölskyldu og vinum.
Næstum allur minn tími hefur farið í þessa hljómsveit síðustu ár og því hef ég ekki haft nógu mikinn tíma til að setja í annað, það er t.d. lítið um sumarfrí með fjölskyldunni eða ferðalög þegar maður er að spila flestar helgar eins og raunin hefur verið hjá Dimmu síðustu árin.
Þetta hefur verið rosaleg keyrsla en nú er ég einfaldlega búinn að fá nóg og vil gera aðra hluti í lífinu. Um leið og manni finnst þetta ekki lengur gaman og fórnin of mikil þá á maður að hætta og þakka fyrir sig.
Það sem byrjaði sem saklaust ferðalag hjá mér í hobbí rokksveit snemma árs 2011 varð að
þvílíkri rússíbanareið þar sem við náðum árangri sem okkur grunaði ekki að væri mögulegur. Ég get ekki talið upp alla þessa hundruði tónleika og þær plötur sem við höfum gert en ég veit bara að við höfum gert flest allt sem hægt er að gera í tónlist í þessu landi…og það nokkrum sinnum.
Ég er samt alls ekki hættur að spila á trommur, öðru nær, ég er með nokkur spennandi verkefni í gangi með flottum tónlistarmönnum sem ég er spenntur að vinna í, þannig að ég mun halda áfram að gera tónlist. En ég vil velja verkefnin vel og nota tíma minn sem best.
Ég vil þakka öllu fallega fólkinu sem ég hef hitt í gegnum Dimmu, öllu fólkinu sem hefur sagt mér hvaða þýðingu tónlistin okkar hefur fyrir það , öllu liðinu sem hefur komið á tónleika hjá okkur, öllum tæknimönnunum og sérstaklega okkar elsku Big Bad Mama (Helga Dóra).
Þetta hefur verið alveg ótrúlega skemmtilegur tími og ég er rosalega þakklátur fyrir þessa lífsreynslu.
Að lokum vil ég þakka bræðrum mínum í bandinu, Silli, Ingo og Stefán – takk fyrir mig elsku vinir og
gangi ykkur vel – djöfull var gaman!
Takk
Biggi
Ps. Engar áhyggjur, þeir ætla að halda áfram svo að Dimmulestin stöðvast ekki, sem betur fer.

Orðsending frá Dimmu fylgdi svo fljótt á eftir:

Orðsending frá vopnabróður okkar honum Birgi “Nashyrningi” Jónssyni.
Við þökkum honum samfylgdina, gleðistundirnar og þátttöku hans í að gera DIMMU af því sem hún er í dag.
Við elskum þig kæri bróðir og munum halda merkjum DIMMU hátt á lofti!

Vetur kynna plötuna nætur – Örviðtal

Íslenska þungarokksveitin Vetur var að senda frá sér sína fyrstu breiðskífu að nafni Nætur, en þeir gáfu áður út smáskífuna Vættir. Það er því við hæfi að spjalla við sveitarmeðlimi og kynnast sveitinni nánar. Harðkjarni hafði samband við sveitina og skellti á þá nokkrum spurningum…

Sælir, segið mér aðeins frá sveitinni Vetur.
Heill og sæll. Kristján stofnaði hljómsveitina veturinn 2009-2010 eftir að hafa fengið innblástur að semja tónlist í blackmetal stíl. Hann hafði strax samband við nokkra félaga sína úr íslensku metal senunni og setti saman hljóðverssveit. Upphaflega stóð til að gefa einungis út eina tveggja laga smáskífu, en það vatt fljótt upp á sig og lögunum fjölgaði smátt og smátt. Við tókum upp þrjú lög í Stúdíó Fossland og gáfum út smáskífuna Vættir árið 2013 hjá Tutl Records.

En Kristján var alls ekki hættur að semja og lögin héldu áfram að hlaðast upp. Áður en við vissum af áttum við nóg efni í tvær plötur af fullri lengd. Ragnar trommuleikari gaf ekki kost á sér áfram og leitaði Vetur þá út fyrir landssteinana og fékk trommuleikarann Dirk Verbeuren til liðs við sig.

Hverjir eru í sveitinni í dag?
Kristján B. Heiðarsson – Gítar, bakraddir.
Jóhann Ingi Albertsson – Söngur.
Magnús Halldór Pálsson – Bassi.
Dirk Verbeuren – Trommur.

Hvað hefur breyst hjá sveitinni frá því á fyrstu EP plötunni?
Það sem hefur raunverulega breyst er að við erum hljómsveit sem horfir fram á veginn. Upphaflega ætluðum við bara að taka upp og gefa út þessi tvö lög eftir Kristján og ætluðum ekki einu sinni að koma fram undir nafni, við ætluðum bara að læða þessu inn í kosmosinn og snúa okkur að öðrum hlutum. En Kristján hélt áfram að semja og efnið lofaði virkilega góðu. Okkur fannst við vera með eitthvað sérstakt í höndunum.

Hvenær er von á því að Vetur komi fram á tónleikum?
Það er góð spurning. Það er ekki auðvelt að svara henni samt. Dirk trommuleikari er augljóslega afar upptekinn og hljómsveitin hefur ekki æft sem hljómsveit síðan við tókum upp Bálför demóið árið 2011. Við vinnum mikið hver í sínu horni og komum svo saman, tveir eða þrír, til að fara yfir útsetningar eða texta. Eigum við ekki að segja að það muni vonandi gerast á næstu misserum? Því þetta eru góð lög sem væri svo sannarlega gaman að flytja á sviði.

Segið mér aðeins frá nýju plötunni Nætur…
Nætur kom út á netinu á degi íslenskar tungu, þann 16. nóvember 2018, en þetta var ansi löng meðganga. Kristján hafði unnið undirbúnings vinnuna mjög vel og tók upp gítardemo hjá Davíð Valdimar í Standard Studios. Davíð forritaði trommubeat í nokkur af lögunum. Þetta kom sér gríðarlega vel þegar farið var að vinna trommurnar með Dirk, þar sem hann var ekki á landinu en hann og Kristján sendu upptökur sín á milli. Dirk tók trommurnar upp sjálfur í Die Crawling stúdíóinu sínu, en allt annað er tekið upp hérna á Íslandi af ​Stephen Lockhart í Studio Emissary.
Við áttum orðið það mikið efni að ákveðið var að taka upp tvær plötur á sama tíma og gefa þær svo út með stuttu millibili. Eftir að gítar og trommutökum var lokið völdum við og röðuðum lögunum upp í tvo lista, fyrir Nætur og svo fyrir næstu plötu á eftir. Við einbeittum okkur svo að því að vinna texta og taka upp söng og bassa fyrir fyrri plötuna. Þeim upptökum lauk í byrjun árs 2018, en ekki náðist að klára að fullvinna plötuna fyrir vetrarlok eins og upphaflega stóð til. Þá var ekki um annað að ræða en að bíða með útgáfu fram á haust. Vetur gefur ekki út á vorin.
Allt þetta ferli er búið að taka í kring um sjö ár, það er því ekki skrýtið að við séum glaðir í dag þegar platan er komin út. Við gefum hana út sjálfir á netinu, en vonandi mun eitthvað útgáfufyrirtækið stökkva á tækifærið og gefa hana út í raunheimum líka.

Vetur – Nætur – gefin út 16 nóvember 2018

Eruð þið í einhverjum öðrum verkefnum?
Vetur er okkar helsti fókus í augnablikinu, en það eru líka misduglegir saumaklúbbar sem hittast af og til í æfingarhúsnæðum til að halda sér við og fá útrás fyrir þungarokksþörfina. Það er kannski helst bassaleikarinn okkar hann Maddi sem heldur sér uppteknum, en hann mun spila með tveimur sveitum á Reykjavík Metalfest á næsta ári, Forgarði Helvítis og Beneath.

Hvað er svo næst á dagskrá?
Nú fögnum við því að hafa loksins sent frá okkur fyrstu plötuna, það er ekki lítill áfangi og það er mikill léttir að hafa náð settu marki. Við förum líka að bretta upp ermar og að reyna að vekja áhuga útgáfufyrirtækja á gripnum. Næsta plata er síðan í fullri vinnslu. Við reiknum með að klára hana á næstu vikum og hún mun að óbreyttu koma út á næsta ári.
Í millitíðinni förum við líklega að vinna í að semja og útsetja fyrir þriðju plötuna. Það er kominn mappa í Dropboxið okkar sem heitir einfaldlega Plata 3, þar er allt að fyllast af demóum og hugmyndum. Hjálp, ég hef ekki undan! Ég er ekki einu sinni b….

Great Falls – A Sense Of Rest

Hljómsveitin Great Falls frá Seattle í Bandaríkjunum sendir frá sér plötuna A Sense Of Rest í lok ársins (nánar tiltekið 21. desember). Í sveitinni erum fyrrum meðilir hljómsveita á borð við Undertow, Nineironspitfire, Kiss It Goodbye, Playing Enemy og Jesu. Meðal útgáfa á þessu nýja efni sveitarinnar er franska útgáfan Throatruiner Records, en aðrar útgáfur eins og Corpse Flower records sjá einnig útgáfur á öðrum svæðum í heiminum.

Lagalisti plötunnar:

 1. The Accelerationist
 2. Not-For-Sale Bodies
 3. Kettle Logic
 4. We Speak In Lowercase
 5. Thousands Every Hour
 6. Baldessari Height
 7. I Go To Glory
 8. Scratched Off The Canvas

JINJER gefa út nýja EP plötu í byrjun næsta árs.

Hljómsveitin Jinjer frá Úkraínu sendir frá sér nýja EP plötu í janúar á næsta ári, en sveitin gefur út efnið sitt á Napalm Records. Hljómsveitin sendi seinast frá sér seinast plötuna “King Of Everything” árið 2016, en það var þriðja breiðskífa sveitarinnar. Nýja EP platan hefur fengið nafnið “Micro” og mun innihalda eftirfarandi lög:

 1. Ape
 2. Dreadful Moments
 3. Teacher, Teacher!
 4. Perennial
 5. Micro