Iced Earth - Framing Armageddon (Something Wicked Part I)
Iced Earth - Framing Armageddon (Something Wicked Part I)

Iced Earth – Framing Armageddon (Something Wicked Part I) (2007)

Steamhammer / SPV –  2007
Heimasíða Iced Earth
Iced Earth @ MySpace

Framing Armageddon (Something Wicked Part I) er concept plata sem heldur áfram sögulínu þeirri er birtist á rómaðri plötu Iced Earth frá árinu 1998, „Something Wicked This Way Comes“. Hún er einnig fyrri hluti þessa áframhalds, en seinni hluti þess, „The Crucible Of Man (Something Wicked Part II) kemur út nú í byrjun september 2008. Ég hef þegar birt dóm á þá plötu hér á Harðkjarna/Töflunni sem má finna hér: Harðkjarni og umræður um hana á Töflunni hér: Taflan

Þetta er önnur platan sem Tim „Ripper“ Owens, fyrrum söngvari Judas Priest meðal annars, syngur með Iced Earth, en sú fyrri, „The Glorious Burden“ sem kom út árið 2004, féll ekki vel í kramið hjá mér. Ég viðurkenni að ég bjóst nú ekki við miklu af þessu væntanlega tvíeyki er ég las fréttirnar um það í metalpressunni, en ég verð að éta það ofan í mig þar sem þessar plötur eru báðar virkilega góðar. Fyrir mína parta þá fannst mér „Framing Armageddon“ vera mjög góð plata, ekkert framúrskarandi, en þó með betri plötum Iced Earth seinni ára. Hins vegar með tilkomu framhaldsins, „The Crucible of Man“ þá virkar þessi mikið betur á mig í dag.

Jon Schaffer tók sig sannarlega á í lagasmíðum fyrir þessa plötu, en „The Glorious Burden“ fannst mér vera hugmyndasnauð og leiðigjörn á köflum. Ég sakna þess reyndar að hafa ekki Matt Barlow til staðar á þessari plötu, þar sem ég hef nú heyrt framhaldið, en ég mun samt ekki draga úr frammistöðu Tim Owens á henni, þar sem hann er jú söngvari góður. En lagasmíðar Schaffer hér eru virkilega góðar, kraftmikil, melódísk og níðþung riff sem einkenndu fyrri plötur Iced Earth eru í algleymingi hjá honum sem má til dæmis heyra í lögunum Something Wicked (Part I) og Ten Thousand Strong. Melódíur söngviðlaganna eru einnig catchy og skorta ekki skemmtilegan hrynjanda sem gæti gert þau að framtíðarhitturum meðal aðdáenda sveitarinnar.

„Framing Armageddon“ er eins og ég minntist á, concept (stutta mússíkalska millikafla er að finna milli laganna) plata, þar sem rakin er Sci-Fi saga sem Schaffer sjálfur skrifaði. Ég ætla ekki að fara djúpt ofan í kjölinn á sögunni þar sem skemmtilegast er fyrir hlustandann að lesa hana meðan hlustað er á plötuna. En, til að stilka á stóru yfir megindrætti hennar, þá er sagt frá The Grand Architect of the Universe, The Setians og hvað gerðist á jörðinni þegar menn urðu spilltir af græðgi í þekkingu og völd. Textarnir eru mjög góðir og ásamt stellar framsetningu plötunnar og mjög góðri, samt eilítið flatri hljóðblöndun, þá er þessi plata alveg ágætis kombakk fyrir Iced Earth. Það þarf varla að minnast á hæfileika hljóðfæraleikara Iced Earth, sem eru á heimsmælikvarða og Tim Owens skilar sínu mjög vel frá sér.

Ef þú lesandi góður, ert gamall Iced Earth aðdáandi, þá munt þú ekki verða fyrir vonbrigðum með þessa plötu þar sem hún kemst hiklaust á stall betri platna þeirra frá upphafi. Ég fyrir mitt leiti er afskaplega ánægður með þetta tvíeyki, það er allt til staðar á þeim sem góð þungarokksplata á að innihalda, einnig er góð blanda af frekar drungalegum og þónokkuð framsæknum lögum og kraftmiklum og hressandi bandarískum power metal. „Framing Armageddon“ fær hjá mér góða dóma, en ekki eins góða og „The Crucible Of Man“, ætli það sé ekki bara endurkoma Barlow sem tippar skalanum hjá mér.

Atli Jarl Martin

Leave a Reply