Sjö ár af öfgum eða: Hvernig I Adapt innleiddu harðkjarnann á Íslandi og bera þess vart bætur síðan

Eftir: Hauk S. Magnússon
 
Þetta er tilfinningaþrungin stund. Síðasta kvöld hljómsveitarinnar I Adapt, eftir sjö ára starfsemi. Birkir Fjalar Viðarsson (AKA Birkir BookhouseBoy UnnarogVidarsson), söngvari sveitarinnar og aðal-hugmyndafræðingur, stendur uppi á borði umkringdur dansandi, öskrandi vinum og viðhlæjendum. Hann öskrar tryllingslega og ber sér á brjóst. Hópurinn tekur undir.
 
Það er bankað harkalega á útidyrnar. Snarlækkað á Slayer í græjunum. Nágrannarnir þola ekki við lætin lengur og beiðast undan hávaðanum. Enda klukkan að verða fimm um morguninn.
 
Partýið er búið.
 
Þetta var rosalegt.

Hver braut spegil?

I Adapt var sjö ár:

Þrjár breiðskífur. Tugur hljómleikaferða. Tólf meðlimir (og nokkrir til). Hundruðir tónleika – frá þeim fyrstu, í bílskúr í Kópavogi, að félagsmiðstöðvum, menntaskólum, skítugum kjallaraholum, börum, íþróttahúsum að yfir-yfirfullum lokatónleikum í Hellinum. Átta milljón spjallþræðir á internetinu, viðtöl við malasíska harðkjarnaáhugamenn, þýskar grænmetisætur, ameríska anarkista og ungan Þóri frá Húsavík. Tugþúsundir kílómetra að baki og bara nokkur hljóðlát skref eftir þegar Mónitor hitti hljómsveitina fyrst að máli til að ræða allt ofangreint og fleira til, freista þess að skrásetja endalok virkustu og virðulegustu rokksveitar sem Ísland hefur alið af sér.
 
Því þó þú vissir það kannski ekki, þá var hún það. Og meira til.
 

Tveimur dögum fyrir endalokin

I Adapt æfðu í skrýtnum kjallarabílskúr í bakhúsi við Grettisgötu. Loftið er það fúið og rakaskemmt að það er nánast komið niður á gólf. Og lætin í hljómsveitinni þegar litið er inn á síðustu æfinguna sem þeir munu taka fyrir lokatónleikana (sem þá eru eftir tvo daga) eru þannig að þau gætu vel jafnað hvaða bílskúr sem er við jörðu
 
Ég fylgist með þeim spila í dágóða stund og sé strax að aðdáendur sveitarinnar eiga gott í vændum fyrir laugardaginn. Þeir renna í gegnum hvert lagið af fætur öðru af miklu öryggi, þéttir og dansandi, og greinilegt er að þeir ætla sér að gera öllum ferlinum skil á lokatónleikunum. Spila lengsta sett sem þeir hafa nokkurntíman spilað, heil átján lög. Milli laga, þegar ég kynni mig og erindi mitt, segja þeir mér að þeim kvíði fyrir, hvort þeir hafi hreinlega orku í að klára svo langa tónleika.
 
Svo slær klukkan klukkan hálfátta. Og gítarleikarinn Ingi, sem er ásamt Birki söngvara sá eini úr hópi stofnmeðlima sveitarinnar sem mun koma fram á lokatónleikunum („Þegar ég gekk í bandið voru þeir búnir að taka nokkrar æfingar og semja þrjú lög. Við náðum strax vel saman.“), þarf að fara heim að sinna fjölskyldunni og æfingunni er þar með lokið, án nokkurrar viðhafnar.
 

Landslið þunglyndissjúklinga & hljómsveitarvesen

Addi, aðdáandi I Adapt „frá því ég var þrettán eða fjórtán ára“ og bassaleikari frá september 2005, segir frá því að kvöldið áður hafði Birkir farið dagavillt og sent hann á flugvöllinn þarna um morguninn, að sækja þrjá Bandaríkjamenn sem höfðu komið til landsins gagngert til þess að fylgjast með lokatónleikunum. „Svo komu þeir ekkert, ég beið þarna frá sex í morgun til að verða níu. Þurfti að skrópa í skólanum og allt.“
 
Þeir hlæja allir. Það er vesen að vera hljómsveit og kannski ennþá meira vesen að vera í hljómsveit sem hefur frá upphafi sett sér það markmið að gera allt á eigin spýtur og vera eins sjálfstæð og óháð og hægt er. Og þetta hafa þeir allir lært í I Adapt og þessvegna er hláturinn lævi blandinn og ekki laus við að vera merkingarbær, því þetta er að verða búið og það er kannski léttir, fyrir suma.
 
Þeir segja mér hvað þeir heita, rifja upp hvernig hver og einn gekk í bandið og hverjir voru þar til að byrja með. Og við förum víðan völl:
 
Elli (Erling Bang):
„Svo héldu allir að við værum straight edge. Á hátindi sukksins. Hahaha.“
 
Birkir:
„Það héldu það allir, einmitt. Á þessum tíma varstu annaðhvort indírokkari í ræsinu eða Pantera-þungarokkari, bjórkarl í bjórbol með bjór í hendinni, öskrandi „ÉG ER MEÐ BJÓR!“ og við vorum eina bandið sem var einhvernveginn ekki með það attitúd. Og reyndum kannski að tala aðeins gegn svona innantómum lífsstíl.“
 
Addi: 
„Það héldu líka allir að bandið væri posi [„jákvæðnis-harðkjarni“], þó bandið innihéldi landslið þunglyndissjúklinga.“
 
Birkir:
„Við vorum líka að gera nýmóðins textagerð, um að það væri mögulega mjög hættulegt að vera alltaf fullur, lag um alka og lög um að rísa upp og gera eitthvað í lífinu. Þá var það túlkað þannig að við værum bara posi hardkor band og straight edge. En við vorum reyndar allir grænmetisætur á tímabili.“
 

Aldrei bara hljómsveit

Það er svosum ekki ótrúlegt að I Adapt hafi verið bendluð við allt þetta og fleira til – og af aðdáendum sveitarinnar, vinum og vandamönnum að dæma virðast þeir jafnvel hafa kynt undir það. Enda er borðleggjandi að I Adapt var aldrei bara hljómsveit, nema kannski rétt undir það síðasta. Af Birki má jafnvel ráða að vel framan af hafi tónlistin einungis verið hugsuð sem vettvangur til að kynna Íslendingum harðkjarna tónlist, þær hugsjónir sem hún stendur fyrir og þær hugmyndir sem búa þar að baki. Það hafi ekki verið fyrr en undir rest að hljómsveitin hafi fundið sér einhvern tónlistarlegan metnað annan en að búa til pönk sem hægt var að dansa og sameinast við – og breiða út fagnaðarerindi Sick of it All, Minor Threat, Strife og áþekkra sveita.
 
Birkir: „Mér fannst vanta svona band. Axel [stofnmeðlimur I Adapt] kunni lítið á gítar, en hann var gaurinn sem viss hvað var verið að tala um þegar maður nefndi einhver grunn element í pönki og kom með alvöru HC gítar, ekki bara einhver Slayer riff. Þegar við byrjuðum gerðist þetta svo hratt, það var eiginlega fyndið. Með gæja eins og Axel og Bjössa Mínus innanborðs, sprækustu gæja landsins. Ég var rosa jákvæður á þessum tíma, lífið lék við mann, það var svo gaman að vera kominn í harðkjarna band, en ekki eitthvað indí eða metal, og okkur fannst við hafa sérstöðu með því að taka þessa nálgun.“
 
Og við tölum um af hverju hljómsveitin hætti. Síðar, eftir lokatónleikana, þegar rætt var við alla meðlimina sitt í hvoru lagi kom á daginn að þeir hafa allir ólíka sögu að segja af bandinu, af hverju það stóð fyrir, hvernig það virkaði og af hverju – á endanum – það virkaði ekki. Og kannski eru þessar ólíku sögur sem þeir hafa að segja og upplifanir af mulningsvélinni I Adapt undirliggjandi og augljós ástæða þess að þeir sáu sér ekki fært að starfa saman lengur. En í hóp, án Inga (og hann tók undir, síðarmeir) var skýringin sú að bensínið hafi einfaldlega verið búið. Þeir líkja sér við gaslausan kveikjara. „Það var orðið erfitt að ná saman.“ „Erfitt að semja lög.“ „Fjórir ólíkir einstaklingar með ólíkar áherslur.“ „Þegar maður er búinn að gera þetta í sjö ár vill maður að það sé orðið auðvelt. En þetta varð það aldrei. Hljómsveitarvesen.“
 

Engar skapandi sprengingar

Birkir:
„Það verða engar skapandi sprengingar á æfingum hjá okkur lengur. Einn er kannski að hugsa um að verða ekki of seinn í vinnuna, er orðinn leiður á þessu og annar að koma af ógeðslega ferskri æfingu þar sem allt er að gerast. Við vorum á allt of ólíkum stöðum, við viljum að þetta gangi hratt, viljum ekki vera band sem starfar hægt og það gekk bara ekki lengur. Chainlike Burden [síðasta plata I Adapt] var ógeðslega hæg fæðing og það drap hljómsveitina. Það er algjörlegea bölvuð plata, allt í kringum hana. Þetta [bendir á upptökutækið mitt] gæti sprungið framan í þig, bara af því að við erum að tala um hana. Þetta var of erfið fæðing. Auðvitað elskum við barnið, þrátt fyrir erfiðleikana. Þrátt fyrir að mig langi til að skalla það.“
 
Strákarnir eru svangir eftir æfingu og ætla að fara fá sér pízzu á Skólavörðustíg. Við kveðjumst og þegar ég sé þá næst saman, tveimur dögum síðar (þó ég reyndar sjái þá varla, fyrir öllum svitanum, fólkinu og þykku loftinu í Hellinum), þá eru þeir að telja í fyrsta lag síðustu tónleikana sinna fyrir framan sal fullan af minningum, ást og að minnsta kosti þremur manneskjum sem voru viðstaddar fyrstu tónleika I Adapt, snemma árs 2001.
 
Þetta voru rosalegir lokatónleikar. Dramatískir. Langir. Sveittir. Súrefnislausir. Hár hvellur og viðeigandi endalok. Hljómsveitinni entist orkan og það gerði áhorfendum nánast líka. Það er eiginlega ekki hægt að segja frá því. Skoðið bara myndirnar á internetinu.
 

Haldið fast í minningarnar

Að tónleikunum loknum stóðu sumir aðdáendur eftir lengur í salnum en aðrir. Eins og til að freista þess að halda lokaaugnablikin heljargreipum. Árni, sem er 27 ára, segir mér frá því þegar hann varð vitni af fyrstu tónleikum sveitarinnar, í átján eða nítján ára afmæli dularfullrar Tinnu, í bílskúr í Kópavoginum. Þeir spiluðu þrjú frumsamin lög og slatta af Sick of it All og Strife ábreiðum. Hann sá alla hljómleika sveitarinnar næstu tvö árin, hvort sem það var á Kakóbar eða bara venjulegum bar, og kom reglulega eftir það. „Ég veit ekki hvað ég sá marga í allt. 2-300. Þessir voru geðveikir. Gott sjó.“
Arnar Eggert Thoroddsen, tónlistarskríbent Morgunblaðsins var einnig staddur í salnum að tónleikunum loknum og sömuleiðis í Kópavogsbílskúrnum. „Ég sá enga fella tár á lokatónleikum HAM í Tunglinu, þó stemmningin sé kannski svipuð. Það er sami fílingurinn í loftinu samt. Þegar svona hljómsveit hættir, þá er ekki bara hljómsveitin að hætta, það er ákveðið örsamfélag að leysast upp um leið. Allt þetta lið sem þú hittir alltaf á tónleikum, þá er grundvöllurinn farinn. Það er alltaf sérstök upplifun að sjá hljómsveitina saman, með öllum hinum. Ég skil vel tilfinningahitann sem maður sá á Töflunni [.org – geypivirku spjallsvæði þungarokkara, pönkara og hardkorsinna og heimavöllur I Adapt frá upphafi], þetta er mjög mannlegt og sorglegt.“
 
 
SunShineKiddarinn wrote @ http://Taflan.org/
„Ég vill nota tækifærið og þakka ykkur fyrir að hafa verið til, þið gerðuð meira fyrir senuna, tónlistina og líf margra krakka heldur en fólk gerir sér kannski grein fyrir. […]
Ég held að ég mæli fyrir alla þegar ég segi að án ykkar væri ekkert eins í þessari senu. […]
Respect all the way, og takk fyrir allt.“
Þetta voru alls ekki væmnustu skilaboðin. Þau skiptu hundruðum. Og á bílastæðinu fyrir utan fréttist af grátandi aðdáendum, aðrir voru rauðir af bræði og baksviðs í Hellinum sat Birkir Fjalar Viðarsson, söngvari I Adapt til sjö ára; sveittur, rúinn og búinn, í losti og felldi sjálfur tár. Þetta var búið. Hann vissi ekkert hvað hann átti að gera.
CLASSIC ROCK
Þó fastagestirnir hafi bara haldið áfram að spila sitt pool og hlusta á Queen, þá var eftirpartý á Classic Rock við Ármúla. Fulltrúi Mónitors gekk um með upptökutæki og tók tal af gestunum. Oftar en ekki reyndust viðmælendurnir vera fyrrum meðlimir í sveitinni, sem höfðu komið til að taka þátt í endalokunum. Stofnmeðlimurinn Axel Einarsson segir mér hvernig Birkir heyrði hann spila á gítar í partýi og ákvað að þeir yrðu að koma sér upp hljómsveit. „Við kunnum ekki neitt, höfðum bara hjartað og einlægnina. 100% einlægni.“ Hann krádsörfaði fyrr um kvöldið og klæjaði aðeins í puttana að fá að taka lagið. „Hressa upp á þetta… Ég kom fyrir nostalgíuna. Með þrúgusykur, eins og í gamladaga“
 
Tónskáldið Ólafur Arnalds segir mér hvernig hann byrjaði í hljómsveitinni og fór í sitt fyrsta tónleikaferðalag, fimmtán ára gamall. „Þeir lofuðu foreldrum mínum að passa mig… svo það fyrsta sem við gerðum á flugvellinum var að fara á fyllerí sem entist í viku […]. Ég lærði mikið af I Adapt, það má segja að veran í hljómsveitinni hafi breytt mér algjörlega. Hvað hún stóð fyrir? Ógeðslega mikla bjartsýni og jákvæðni. Textarnir eru ekki endilega um fallega hluti, en það er alltaf einhver von og það var verið að syngja til að gera hlutina betri, eitthvað sem nær til manns og hjálpar manni. I Adapt stendur fyrir einingu, við erum öll saman í þessu.“
 
Það var langt liðið á kvöldið þegar hljómveitarmeðlimirnir sjálfir létu sjá sig í eigin líkvöku, nýsturtaðir og fínir. Við töluðum saman. Tilfinningar voru blendnar. Sumir komu varla upp orði og aðrir höfðu allt í heimi að segja. Ekki lausir við geðshræringu. Sameiginlegt áttu þeir þó að þetta kvöldið virtist það mikilvægasta sem þeir höfðu gert kristallast í þessari hljómsveit, sama hve lengi þeir höfðu átt aðild að henni. Þeir höfðu gerbreyst sem manneskjur, tekið út þroska, lærdóm og reynslu.
 
Þeir segja frá tónleikaferðalögum um Bandaríkin, um Austur og Vestur Evrópu, Bretland, Wales, endalausar bílferðir, höfuðáverka, þunglyndi, partýum, gleði, sorgum og ógeði. Aðdáendur og áhangendur eru alltaf að trufla okkur, að þakka fyrir sig og jafnvel þrábiðja um endurkomu strax á morgun. Á sjötta bjór.
 
Gítarleikarinn Ingi Þór Pálsson, sem virkar eins og þögla, þolinmóða týpan (og er því til sönnunar kallaður Ingi jafnaðargeð af félögum sínum) segir frá sínum vonum fyrir hljómsveitina, áhrifavöldum og hugmyndum. Og virkar í sannleika sagt ekki eins og hann fatti að bandið er hætt. En segir þó að lokatónleikarnir hafi verið skemmtilegir:
„Ég er mjög feginn að við gátum endað þetta svona. Þegar áhuginn er að minnka og það fara að koma upp konfliktar er ekki ráðlegt að halda áfram. Það væri leiðinlegt að sjá þetta þynnast út í eitthvað slappt. Ég heyrði á fólki að þessu hefði verið endað með bombu og þá er markmiðinu náð. Takk.“
 
PS:
I Adapt - Photo by Gudny
I Adapt – Photo by Gudny

Eftir Classic Rock skundaði hersingin heim til Birkis, metalhausar, hardkor-kids, Blackmetalmafían og einn eða tveir óboðnir gestir. Að drekka bjór og hlusta á October Rust. Og Slayer. Þangað til nágranninn kvartaði.

 Tveimur dögum síðar hitti ég Birki í tebolla. Hann er með glóðarauga og veit ekki hvað hann á af sér að gera. Var að sækja um skóla í Kanada. Talar um hvert þeir fóru, hvað þeir sáu og hvað þeir gerðu. Reglurnar sem þeir settu sér („Engin þolinmæði fyrir harðhausa útkastara með stæla, bjóða alla velkomna, vera góðar fyrirmyndir, úttalaðir, spila oft og fyrir alla sem vildu heyra“), hvað þeir gerðu rétt og hvað þeir hefðu átt að gera öðruvísi.
 
„Þetta er búið að vera geggjuð ferð. Miklu meira en þeir sem þekkja ekki til gera sér grein fyrir. Miklu dýrðlegra og dýpra og þyngra en flestir átta sig á, þeir sem hrósa okkur á Airwaves, eftir þriðja bjór, í góðum festival fílíng. Þeir vita ekki hvaða djöfuls rugl er búið að ganga á. Að við erum búnir að keyra næturlangt og eyða öllum peningunum okkar til að taka eina tónleika í krummaskuði í Tékklandi. Vakna í Wales með bassaleikara í þunglyndiskasti og gat á hausnum. Húkkandi för, étandi núðlur… það veit enginn svona. Þeir vita bara að við erum rokkarar og við þurfum svosum ekkert að strjúka egótillann með því að segja öllum allt. Það þurfa ekkert allir að vita allt. Þeir sem deildu með vita. Lið í Breiðholti, Póllandi eða Vermont. Það veit. — Bónus:

Viðtal við Axel!

Hvenær hættir þú í hljómsveitinni, Axel?
Það eru sirka þrjú ár síðan ég hætti. Þrjú, fjögur ár. Ég man það ekki almennilega.
Hvernig fannst þér tónleikarnir áðan?
Góðir. Mig langaði smá að spila með í einu lagi. Smá. Mig klæjaði aðeins í puttana. Smá. Lífga aðeins upp á þetta. Þeir voru ekki alveg nógu líflegir fannst mér. Það var greinilega kominn tími fyrir þá að hætta, þetta var ekki það sem við byrjuðum á.
Nei? Hver er munurinn?
Við vorum barnalegri og einlægari. 100% einlægir.
Fannst þér þetta minna einlægt?
Neinei. Þetta var orðið þyngra og rólegra. Ekki alveg jafn hresst. Og, hérna, við gengum út frá því í byrju að vera hress tónleikasveit, og kannski vorum við bara… Tja, þetta var komið gott bara. Þeir töluðu um það sjálfir, að þetta væri komið gott.
Einmitt, þesvegna eru þeir að hætta. Hvað spilaðirðu marga tónleika?
Ég veit það ekki? En við vorum 100% einlægir á þeim öllum.
Gengur það til lengdar, að vera 100% einlægur?
Nei. Maður þroskast. Það er allt í lagi fyrir hljómsveit að breytast og hverfa frá því sem gengið var út frá í byrjun. En ég kom fyrir nostalgíuna. Vildi finna fyir gömlu dögunum. Mætti með þrúgusykur meiraðsegja, eins og á fyrstu tónleikunum…
Og það gekk ekki upp?
Nostalgían? Jú hún kom aðeins. Ég krádsurfaði smál
Sárin á skallanum á þér eru horfin (???). Þú varst bara á einni plötu. Er hún ekki lang best?
Jú, besta plata sem ég hef heyrt.
Af hverju hættirðu?
Ég var bara hættur að vera einlægur. Hættur að vera 100%
Mulingsvélin I Adapt krefst svo mikillar dedikeisjon?
I Adapt gerði það.
Menn urðu að vear 100% með?
Já, mér finnst það. Annars geta þeir ekki verið í bandinu. Núna eru Ingi og Birkir eftir úr upprunalega lænöppinu. Þeir eru alltaf einlægir.
Það gerðist heilmikið meðan þú varst í bandinu. Það varð til smá sena í kringum þetta.
Þannig byrjaði þetta: Það voru fullt af böndum í gangi að spila þungarokk. En það vantaði band til að dansa við. Fyrir okkur var enginn munur á bandi eða krádi. Það var bar aeinn hópur. Og hérna, við tókum upp hljóðfærin og gerðum þetta bara sjálfir, Bjössi, ég, Ingi, Villi og Birkir. Allir alveg að gear þetta. Við kunnum ekki enitt, höfðum bara hjartað og einlægnina. Gerðum þetta alltaf með hjarta og einlægni. Ég get kvittað fyrir það.
Ég spurði Birki um daginn hvort þetta hefði upphaflega verið svona grínband, svona one-off. Með Bjössa úr Mínus á trommunum og gaura úr öðrum böndum þarna. Svona side project?
Ég veit það ekki. Uuu. Nei. Birkir var ekki að grínast neitt. Það skein í gegn. Villi var ekki að grínast neitt. Ég var ekkert að grínast.
Finnst þér – það er kannski asnalegt að spyrja svona um hljómsveit, asnalegt að taka tónlist svona alvarlega og setja sig í stellingar ein sog hún skipti gríðarlegu máli – en þú veist það sjálfur, bandið spilaði stóran þátt í þínu lífi. Allavega… finnst þér bandið hafa… áorkað einhverju ?
Þetta var ekki komið eins og þessi sena er í dag, þegar við byrjuðum. Áhersla á meðvitund og samkennd. Þjóðfélagsmeðvitund.
Eru það tímarnir að stýra hljómsveitinni, eða öfugt?
Þetta var eithvað sem við þurftum sjálfir, sem vorum í henni.
Segðu mér frá því, ef þú nennir, frá fyrsta ári hljómsveitarinnar…
Það var þannig að ég var undir áhrifum ólöglegra fíkniefna heima hjá Sigurði Oddssyni, að spila á gítar. Og enginn vissi að ég kynni neitt. Birkir heyrði það og sagði að við yrðum að stofna hljómsveit. Það voru margir þungarokkarar til þá, en ekki margir með áhuga á akkurat þessu. Við krunkuðum okkur saman nokkrir og spiluðum og hérna… fyrstu tónleikarnir. Þeir voru líklega bestir. Við vildum dansa á sviðinu og ef enginn dansaði vildum við helst ekki hafa svið. Við fórum til útlanda og héldum partý á verslunarmannahelgum og svona. Og gáfum út plötu. Sem var rosa merkilegt.
Hvar tókuði hana upp?
Að hluta til hjá DUST og að hluta til hjá kimono.
Var fólk að mæta á tónleika hjá ykkur svona fyrst?
Senan var byrjuð þegar við komum sko. Það var þungarokksfólk í senunni, það var til staðar. Við bjuggum ekki til neina senu, hún var til, með hljómsveitum eins og Bisund og Vígspá og fleirum. Þegar við komum fór þetta kannski að taka aðra stefnu. Fólk fór að verða alvarlegra. Ekki bara þungarokk heldur lífsstíll. “Ekki láta bankann nauðga þér.”
Finnst þér þetta hafa skilað einhverju? Ertu stoltur?
Hljómsveitin? Ég veit ekki hvort hún hefur skilað einhverju. Kannski Saving Iceland liðinu? Ég veit ekki. Kannski varð hún vettvangur fyrir utangarðsfólk, unglinga sem þurfa að finna sér stað einhversstaðar. Fólk sem skilur ekki þetta mainstream, finnur sig ekki í þessari Barbie Ken tísku og þarf að gera sitt eigið. Það er þægilegt að geta fundið samastað, þar sem fólk skilur hvort annað.
Fylgistu eitthvað með böndunum sem hafa verið að koma upp síðan?
Já. Það er allt gott. Uppáhalds? Fighting Shit. Bróðir minn er í Fighting Shit. Fyrst fannst mér þeir reyndar hræðilegir. Það er rosalega erfitt að vera í svona viðtali.

Bónus: kvóts

I Adapt - Photo by GudnyJobbi
„Ég er tæknilega ekki meðlimur. Er í bandi sem heitir Celestine Var fenginn í I Adapt fyrir túr um Bandaríkin á síðasta ári, þeir vissu að ég kunni á gítar og ég hef verið aðdáandi frá því ég var þrettán ára.“

Birkir:

„Ég held að I Adapt hafi verið eins og félagsmiðstöð. Allir velkomnir og það má gera allt, ég má flippa þó ég kunni ekki að dansa, vera með Manson-málningu og hæ-fæva gaur sem er ber að ofan. Þannig dót getur ekkert lifað að eilífu, þú veist. En þessi fílingur fór að dvína, hljómsveitirnar urðu færri og byrjuðu að vera meira sérhæfðar í stíl…“

Ingi:

„[…]þegar ég fór á metalkor tónleika var ég yfirleitt hálf hræddur við mannskapinn. Það var ekkert endilega hugmyndin að vera útúr jákvæðir, en við vorum svona dúddar sem voru alltaf að djóka, af hverju ekki bara djóka á sviði líka? Og þetta varð segull á fullt af svona fólki sem kom á tónleikana okkar. Við tengdumst áhorfendum á sérstakan hátt, það var ekkert annað band sem var þannig fyrir okkur, ekki í þessari senu. Fólki finnst eins og við séum vinir þeirra. Og við erum það svosem.“

Elli:

„I adapt var meira en hljómsveit, I Adapt var samfélag, en undir lokin var þetta orðið… [þögn] þetta orðið bölvað hljómsveitarstúss á endanum. Vorum alltaf að fá nýja gaura og gerðum ekki annað en að æfa þá og svona. Hálf leiðinlegt… eða ekki beint leiðinlegt, heldur hálf… hættulegt.“

Addi:
„Ég er búinn að vera meðlimur síðan í september 2005, en hef verið mikill aðdáandi frá því ég var þrettán eða fjórtán ára. Ég held ég sé tólfti I Adapt maðurinn frá upphafi. Tónleikarnir? Þetta var ótrúlegt. Ótrúleg upplifun. Ég skemmti mér konunglega og ég vona að aðrir hafi gert það líka..“ —

Bónus 2:  TaflanKvóts

B:
Eftir allt sem á undan er gengið…
Ansi hreint súrt og sorglegt að sjá ekki fram á fleiri show með ykkur
Todeswalzer:
iadapt eru bunir að gera allveg margt fyrir mig. Stoltur að hafa verið aðdáandi ykkar. Bara það að geta komið á tónleika og láta eins og fíbl og gera það sem hjartað segir manni að gera. Maður getur hvergi gert þetta nema á tónleikum með iadapt.
Rip
Axel:
sárt að missa hljómsveit sem hefur verið manni allt í 4 ár
þetta voru frábærir tónleikar, marblettir, rautt auga, harðsperrur, brot og hamingja..
Haffi:
ég verð bara að segja VÁÁ!!! þvílíkir tónleikar þvílíkt show! þetta var svo intense og ekkert nema reminder af hverju þetta band er svona gott! við munum sakna ykkar og alls sem þetta band hefur gefið okkur
vil líka segja takk til Gavin portland og Dys fyrir að standa ykkur frábærlega í upphituninni!
I Adapt..
takk fyrir allt saman, tónlistina, tónleikana, diskana bolina, peysurnar, stagedivin, moshin, circle pits, ruglaðar upphitanir fyrir erlend bönd, minningarnar og alla geðveikina sem allir tónleikarnir ykkar voru úti sem inni, í rvk eða útí rassgati
Birkir, Ingi, Axel, Villi, Freysi, Valur, Óli, Elli, Bjöggi, Addi og Jobbi.
takk takk og aftur takk fyrir alltsaman and we´ll miss you guys on stage
R.I.P. I Adapt 2002 – 02.02.2008
Fight The Good Fight!
TheHalflingQueen:
Kærar þakkir til I Adapt fyrir að víkka sjóndeildarhring minn, bæði tónlistarlega séð og almennt. Ykkar verður sárt saknað. En ég er ekki leið því ég naut hverrar mínútu. Allir góðir hlutir enda um síðir en ég vil ekki líta á þetta sem endalokin. Enda væri það ekki í anda Daptarans. Þetta er nýtt upphaf. Ég er orðin mjög bjartsýn á framtíð íslenskrar jaðartónlistar. Og I Adapt eiga hrós skilið fyrir að ryðja brautina af eins miklum dugnaði og einlægni og þeir gerðu. Ef komandi kynslóðir snartjúllaðra bavíana semja tónlist sína af jafn mikilli ástríðu og þeir þá held ég að við séum í ansi góðum málum.
400 manns? Almennilegt, er það ekki met? Sé ykkur vonandi öll á Celestine á föstudaginn Smiley
Peace.
Reynirofzky:
sennilega eftirminnilegustu tónleikar sem ég hef farið á.
takk fyrir frábær ár, takk fyrir allt! Bow
Innlegg: Mið Des 05, 2007 3:35 pm

Efni innleggs: I ADAPT hættir störfum 

Búnir að fara víða um völl og smakka’ða hér og þar… Þetta föruneyti fer ekki lengra.
Við viljum þakka öllum sem lögðu hönd á plóginn og gerðu okkur kleyft að spila okkar tónlist fyrir aðra hér og þar og all staðr, mögulega allt of oft við hinar og þessar aðstæður. Botnlausar þakkir til fyrrverandi meðlima. Takk fyrir að mæta, tala við oss, headbanga, slamma, syngja með eða bara hlýða og góna á. Takk fyrir að deila þessu með okkur og taka þátt. Takk fyrir endurgjöfina. Við vonum að við höfum fært eitthvað á borð ykkar sem var þar ekki fyrir og vonandi blómstra einhverjir afleggjarar upp frá allri þessari vitleysu. Vinna okkar var sannarlega þess virði. Takk fyrir minningarnar og augnablikin.
Við gætum farið í að gera langa runu með nöfnum þeirra sem lagt hafa lóð á vogaskálarnar, umfram það sem eðlilegt þykir en við gerum það ekki í dag. Mögulega síðar. Þið vitið hver þið eruð og þið vitið hvað þið gerðuð.
Síðustu bartónleikarnir verða annað kvöld.
Mögulega verður eitt all ages show í viðbót…. auðvitað verður eitt all ages show í viðbót I Adapt style… we put that shit on da map!
Heyrumst
i.a.
SunShineKiddarinn:
Ég vill nota tækifærið og þakka ykkur fyrir að hafa verið til, þið gerðuð meira fyrir senuna, tónlistina og líf margra krakka heldur en fólk gerir sér kannski grein fyrir. Þið eruð ástæðan fyrir komu minni inní senuna og áhlustun á hardcore/metal og öllu því á sínum tíma og ég þakka ykkur fyrir það, þetta hefur verið frábær ferill hjá ykkur og þið hættið á toppnum.
Ég held að ég mæli fyrir alla þegar ég segi að án ykkar væri ekkert eins í þessari senu.
Ég hef ekki verið iðinn við að koma á tónleika með ykkur eins og ég hefði viljað undanfarið vegna heimilis úti á landi en ég missi ekki af lokatónleikum fyrir neitt!
Respect all the way, og takk fyrir allt.
Ingi Ernir.

Leave a Reply