DÓPSKULD

Eftir Curver Thoroddssen

Einhverntíma datt mér þetta hljómsveitarnafn í hug og fannst það allt of gott til að sleppa því að gera eitthvað með það. En bandið þyrfti að vera eins hart og töff og mögulegt væri.

Þetta var á þeim tíma þegar ég var nýbúinn að taka upp 666°N með Klink og Sigtryggur var tiltölulega nýbyrjaður að gera að öskurgjörninga og Shivering Man-uppákomurnar sínar. Sigtryggur er mikill grindcore-aðdáandi og var m.a. söngvari í hljómsveitinni Sexual Mutilation. Til að reyna að gulltryggja það að við yrðum harðir og töff þá töluðum við auðvitað við mesta bassatöffara Íslands fyrr og síðar, Ara Eldon. Okkur að óvörum var hann til að taka þátt í þessu.

Svo kom tækifæri til að spila en með mjög stuttum fyrirvara. Við vorum auðvitað ekkert búnir að hittast (hvað þá semja eða æfa) og Ari var ekki í bænum. En okkur langaði að kýla á að gera eitthvað strax svo nafnið færi ekki til spillis. Svo að mér datt í hug að við myndum gera einhverskonar grindcore-spuna í anda John Zorn en með rockabilly-flavor í stað djassins. Við settum upp einhverskonar merkjakerfi sem átti að hjálpa okkur með að samhæfa spunann en það fór út í veður og vind á fyrstu sekúndu þegar við byrjuðum að spila. Sem var bara fínt því þá var bara ennþá meira intense að reyna að láta tónlistina ganga upp í mómentinu. Öll giggin okkar voru semsagt öll pjúra spuni. Ekkert planað fyrirfram. Bara talið í og byrjað eins og heyrist kannski glögglega.


Ég skellti A-bassastreng í stað E-strengsins á rokkabillí-gítarnum mínum til að fá smá botn með þvergripunum. Það virkaði ágætlega og gerði það einfaldara að spinna þar sem að þá þurfti gítarleikari og bassaleikari ekki að hitta á það að vera í sömu tóntegund. Það er mun einhfaldara að spinna bara með trommuleikararnum og sjá um gítarinn og bassann á sama tímanum.

Þannig að Dópskuld varð því á endanum að einhverskonar psychobilly-grindcore-spunabandi. Mjög þægilegt setup því þá þurftum við ekkert að æfa eða vesenast með að semja lög fyrir tónleika. Bara performera og njóta þess að skapa í mómentinu. En mér finnst spuni vera skemmtilegasta tónlistarformið sbr. Ghostigital og fleiri verkefni sem ég er í.
Okkur fannst smá leiðinlegt að starta þessu án Ara Eldon og báðum hann afsökunar á svikunum og lofuðum því að fyrsta platan okkar yrði með passamynd af honum á coverinu í staðinn. Allir sáttir.

Dópskuld spilaði bara nokkrum sinnum á þessu tímabili en Frosti missti af tveimur giggum en Krummi í Mínus leysti hann af í bæði skiptin. En hann er alveg frábær trommuleikari og byrjaði í tónlist sem slíkur. Líka taktvísasti tamborínuleikari sem að ég hef tekið upp en það er önnur saga.
Dópskuld spilaði aðallega á árunum 2001-2003 og oftast í einhverskonar listasýningatengdu umhverfi. Þannig að við vorum svona artí-fartí-psychobilly-grindcore-improv-band. Spuninn gekk oftast vel og okkur fylgdi nokkur sprengikraftur á tónleikum. Síðasta giggið okkar var árið 2006 á 30 ára yfirlitssýningu minni í Nýlistasafninu. Spuninn gekk ekki alveg nógu vel og performansinn ekki nógu góður. Ég spurði eina þungarokksstelpu sem var á tónleikunum „jæja, hvernig var þetta?” í þeirri veiku von að það hafi jafnvel sloppið framhjá áhorfendum að við vorum ekki í essinu okkar. En hún svaraði „þetta voru ömurlegir tónleikar og þið alveg glataðir”. Það var alveg rétt hjá henni en því miður brást okkur alveg bogalistinn á þessu giggi. Kannski passar það ágætlega að síðasta giggið hjá Dópskuld hafi verið alveg ömurlegt. Einhvernveginn ljóðrænt að hætta á botninum.

Curver Dópskuld