Category: Plötudómar

Plötudómar á Harðkjarna

Old Wounds – Glow (2018)

Old Wounds – Glow
Good Fight Music 2018

Bandaríska hljómsveitin Old Wounds hefur gengið í gegnum margar breytingar síðastliðin ár og því spurning hvort að sveitin geti fylgt eftir eins góðri breiðskífu og The Sufferin Spirit var án þess að mistakast, en the Sufferin Spirit var að mínu mati ein af bestu útgáfum ársins 2015 og náði að fullkomna fortíðar þrá mína í metalcore tónlist sem var upp á sitt besta um miðjan tíunda áratug 20. aldar.

Platan byrjar afar sterkt á laginu “Your God v. Their God” sem viðheldur goth útgáfu af málm blandaða harðkjarnanum sem ég hef afar mikið dálæti á frá seinustu plötu. Harðneskjan heldur svo áfram með laginu stripes, en þar finnur maður að söngur Kevin Iavaroni er farinn að þróast úr hreinni öfgafullri reiði yfir eitthvað svo miklu meira, eitthvað sem minnir meira á blöndu af söngstíl sveita á borð glassjaw og vision of disorder, með smá AFI blöndu þar inn á milli, afar heillandi. Textar sveitarinnar fjalla meðal annars um andleg málefni, andlega erfiðleika, ástand heimsins og dekkri hliðar neikvæðrar sjálfsmyndar.

Þegar á heildina er litið er þetta þræl skemmtileg plata, ekki jafn góð og sú seinasta, en alls ekki mikið verri. Platan er einnig mun fjölbreyttari en ég gerði ráð fyrir án þess að fara í of mikla tilraunastarfsemi.

Sick of it all – Wake the Sleepin Dragon! (2018)

Sick of it all – Wake the Sleepin Dragon!
Fat Wreck 2018

Guðfeður harðkjarnatónlistar New York borgar eru mættir enn og aftur með nýja breiðskífu, þá tólftu á ferlinum. En getur harðkjarna hljómsveit sem hefur verið virk í meira en 30 ár enn skilað frá sér fersku og áhugaverðu efni sem kveikir í aðdáendum sínum og um leið aflar sér nýrra? Í stuttu svari: Ó Já!

Ég held að það fáar plötur á ferli sveitarinnar hafi byrjað á jafn miklum krafti og bjóði upp á jafn mikinn fjölbreytleika og þessi. Það er samt ekki eins og þetta séu gamlir kallar að reyna að ná til æskunnar, þetta er einhvernveginn bara rosalega vel gert og skemmtilegt.

Þrátt fyrir áhugaverðan titil á plötunni (Vekið sofandi drekann) bendir ekkert til að þetta sé einhvern þema plata, en það má heyra mikið áhugaverðu umfjöllunarefni á plötunni, hvor sem það er dýravelverð, innri barátta allskynns hópa, aðdáun þeirra á hljómsveitinni Bad Brains, ádeila þeirra gegn samfélagsmiðlum og stjórnendum þar, og svo að sjálfsögðu ádeila gegn sitjandi forseta landsins. Kannski er þemi plötunnar kraftur einstaklings til að hafa áhrif á lífið, og kvatning til þess að taka málin í sínar hendur og leysa vandamálin í stað þess að sitja heima og kvarta undan því sem fer illa.

Í mínu lífi er oftast hátíð á bæ þegar sveitir sem þessi gefa út efni, og svo er það enn, ekki talandi um þegar sveitin gefur út svona ferska og skemmtilega plötu.

Zao – The Well-Intentioned Virus (2016)

Zao – The Well-Intentioned Virus
Observed/Observer 2016

Bandaríska harðkjarnasveitin Zao er ein af þeim sveitum sem vekur alltaf mikla tilhlökkun hjá mér þegar fréttir berast að nýjum útgáfum. Að mínu mati hefur sveitin aðeins tekið eitt feilskref á ferlinum, en það var við útgáfu seinustu breiðskífu seinnar Awake? sem mér þótt afar slöpp útgáfa, en miðað við seinustu útgáfu sveitarinnar (EP platan Xenophobe frá því í fyrra) get ég ekki gert ráð fyrir öðru en hér sé sveitin komin aftur á þann stall sem hún hefur staðið með stolti alla sína tíð.

Fyrir þá einstaklinga sem ekki þekkja til eru rætur sveitarinnar í kristnum harðkjarna og þá meina ég KRISTNUM, en textar og umfjöllunarefni sveitarinnar snérist á þeim um kristindóm og allt sem tengist “sönnum kristnum gildum”. En meðlimaskipan, tími og hugsunarbreyting í sveitinni hefur breytt sveitinni úr hefðbundnu kristnu harðkjarna bandi í eitt af áhrifamestu harðkjarnaböndum sögunnar.

Þessi sveit hefur mér verið hugfanginn hátt í annan áratug, enda hafa breiðskífur á borð við Where Blood and Fire Bring Rest, Self-Titled (já hún heitir það), Parade of Chaos, The Funeral of God og The Fear Is What Keeps Us Here verið mjög hátt skrifaðar í mínu plötusafni. En núna eru 7 ár frá seinustu útgáfu og spurning hvort The Well-Intentioned Virus nái að viðhalda þeim gæðum sem sveitin er hvað þekktust fyrir.

Platan byrjar rólega á laginu The Weeping Vessel, en breytist brátt í þá þá þrumu sem lagið er, en lagið fjallar eins og svo mörg lög sveitarinnar um viðkvæmtog persónuleg vandamál söngvara sveitarinnar, sem í þessu tilfelli er fósturlát fyrsta barns söngvarans, með þessarri vitneskju breytist lagið úr hörðu og snúnum rokkslagara í dimma og harða tilveru lífsins. Miðað við núverandi stjórnmálaástand í heimalandi sveitarinnar næst betri skilningur á bæði titilagi og titli plötunnar, en lagið fjallar um fólk sem í upphafi gerir eitthvað í góðum tilgangi á meðan síðarmeir er litið gjörðir þessa sama fólks sem eitthvað illt. Platan er í heild sinni mun betri og fjölbreyttari umfram mínar björtustu vonir og í kjölfarið mun harðari.

Þessi plata er tormellt eyrnakonfekt sem verður betri með hverri hlustun. Þau lög sem sveitin gaf út á EP plötunni Xenophobe eru að finna í nýrri útgáfu á þessarri plötu og hljóma sérstaklega vel í þessum upptökum, en passa samt vel í heildarmyndina sem þessi plata er, sem er hreinu unun.

Hangman’s Chair – This Is Not Supposed To Be Positive (2015)

Music Fear Satan 2015

Franska hljómsveitin Hangman’s Chair kom hingað til lands ekki alls fyrir löngu, en náð ekki að heilla mig þá. Ég var því ekkert að flýta mér að hlusta á nýjustu plötu sveitarinnar “This Is Not Supposed To Be Positive”, en satt best að segja sé ég mikið eftir því, þar sem hér er á ferð breiðskífa sem ég hef gjörsamlega fallið fyrir. Franskt þungarokk í hvaða formi sem er er að koma sterkt inn síðustu ár og þar eru Hangman’s Chair framarlega í flokki, sérstaklega mikiðað við þessa nýju plötu.

Titill plötunnar “This Is Not Supposed To Be Positive” segir rosalega mikið, því þetta eru ekki upphefjandi lög sem færa birtu í hjarta áheyrenda, hér hlustum við á þunglyndi í sínu listræna formi, og nánast fullkomnu formi. Lög á borð við Flashback gera þessa plötu þess virði að fjárfesta í á hvaða degi sem er, enda angurvært slagari sem gefur manni smá von þrátt fyrir þunglyndislegan undirtón. Aðdáendur hljómsveita á borð við Life Of Agony, Alice in Chains (lagið Save yourself) og jafnvel Type O Negative, þar sem þetta er breiðsífa sem getur farið með mann í djúpa og tilfiningaríkaferð um sálarlífið.

Þessi plata kom mér á óvart, virkilega á óvart og hefði ég hlustað á hana fyrr hefði hún verið ofarlega á toplista árins 2015 hjá mér.

Framúrskarandi:
Flashback
Your Stone

Killswitch Engage – Incarnate (2016)

2016 Roadrunner

Fyrsta breiðskífa hljómsveitarinnar Killswitch Engage var eitthvað sem ég hugsa enn til með mikilli hrifningu, þar var sveitin fersk og full af eldmóð. Ekki versnaði áhugi minn á sveitinni við næstu útgáfu, þeirra fyrstu á Roadrunner plötunni, Alive or Just Breathing (2002) sem var einnig mögnuð útgáfa frá byrjun til enda. Meira að segja þegar söngvarinn Howard Jones tók við af Jesse Leach var ég sáttur við sveitina, en síðan fór sveitin að missa forskotið, fór að endurtaka sig og jafnvel gefa út breiðskífur sem ég reyndi mitt besta að hlusta á án þess að missa lífsviljann (kannski svolítið ýkt, en þið skilið.. þetta var slæmt.).

Í mars mánði sendi sveitin frá sér sína sjöundu breiðskífu, Incarnate, og því forvitnilegt hvort að önnur breiðskífa sveitarinnar eftir að Howard Jones yfirgaf sveitina (og Jessie Leach kom aftur) nái að grípa mann eins og fyrstu skífur sveitarinnar gerðu…. stutta svarið er nei.

Ekki misskilja. Þetta er ekki slæm plata, alls ekki þeirra versta, en samt langt frá því besta. Sterkasti hluti plötunnar er að mínu mati Jesse Leach söngvari, vídd hans sem söngvari er mikil enda getur hann öskrað eins og geðsjúklingur og strax farið yfir í háu tónana eins lærður klassískur söngvari. Það sem vantar upp á hjá sveitinni er að taka meiri áhættur, prufa eitthvað nýtt og ferskt, hvort sem það er enn meira popp eða bara hreint dauðarokk, því annars virkar þetta eins og ljósrit af fyrra efni, sem dofnar með hverri ljósritun. Lögin sem standa upp úr á plötunni eru lögin sem víkja frá formúlunni (þó ekki nema að litlu leiti), lög eins og The Great Deceit (sem hljómar eins og eitthvað af fyrstu plötum sveitarinnar), Ascension og jafnvel Strength of the Mind skilja mest eftir sig. Ég held að í grunninn sé sveitin farin að endurtaka sig of mikið í anda AC/DC, en án þess að bæta við sig hitturum inn á milli. Það er í lagi að skipta um pródúsent til að fá smá nýtt blóð í þetta batterí. Þetta er miðlungs plata frá sveit sem getur gert miklu meira, kannski vill ég bara minna drama og meiri hraða.

Pelican – City of Echoes (2007)

Hydrahead –  2007

„City of Echoes“ , nýjasta plata Pelican er slakasta útgáfa þessara kappa hingað til og ég vona svo innilega að þeir taki sig saman í andlitinu fyrir næstu plötu. „The Fire in our Throats Will Beckon the Thaw“ sem þeir gáfu út 2005 var virkilega skemmtileg plata og varð til þess að ég var virkilega spenntur að heyra að þeir myndu gefa út plötu í ár, en vonbrigðin leyna sér ekki. Platan er í flesta staði óspennandi og flöt. Lagasmíðin er einhvern veginn löt og það er erfitt að hlusta á plötuna til enda. Trommuleikurinn dregur síðan sæmilega hæfileikaríka gítar- og bassaleikarana niður í svaðið með sér, og maður trúir því vart að þetta sé sama hljómsveit og gaf út fyrrnefnt meistarastykki árið 2005.

Pelican menn stofnuðu sveitina í Chicago og hafa verið að spila metal undir gríðarlegum áhrifum frá hljómsveitum eins og Isis og Neurosis. Í Pelican er enginn söngvari, en það hefur þann kost að hljómsveitin hefur á undanförnum útgáfum haft töluvert frelsi í lagasmíð. Tónlist Pelican má einna helst lýsa sem hráum prog-metal með virkilega góðum riffum og áhugaverðri lagasmíð, tónlist sem nær oft á köflum að vekja upp hjá manni ýmsar tilfinningar og koma manni í hið undarlegasta skap. En því miður á ekkert af þessu við þegar nýjasta plata þeirra er rædd.

Þetta er samt ekkert alslæmt. Inn á milli leynast ágætis riff og Pelican hljómurinn er til staðar. Stundum gleymir maður hvað platan er í heildina slöpp, en það rifjast oft á tíðum heldur fljótt upp fyrir manni. Hljómurinn er ótrúlega geldur og krafturinn og einlægnin er engan veginn til staðar. Tenging milli riffa og hluta úr lögum, og tenging milli laga er svo að segja engin sem gerir plötuna virkilega klunnalega ofan á það að vera flöt. Þar sem ég vil eiginlega ekki skrifa meira um þessa plötu þessa stundina myndi ég að lokum einfaldlega mæla með því að fólk haldi sig frá henni og nái sér frekar í „The Fire in our Throats Will Beckon the Thaw“ eða „Australasia“ með þeim sem eru virkilega eigulegar og öflugar plötur.

DIE YOUNG / INVADE - split 7"

DIE YOUNG / INVADE – split 7″ (2007)

Double Or Nothing –  2007

Ég held að það hafi verið í fyrra eða snemma á þessu ári sem ég heyrði lög af nýjustu breiðskífu Die Young, sem heitir Graven Images. Ég átti alls ekki von á því sem ég heyrði. Prjúra helvítis metalcore án alls vitleysisgangs, slípunar og nútímavæðingar. Strax tók ég ofan hattinn fyrir þessum eldhugum frá Texas því þeir voru að gera eitthvað rétt. Heiðra fortíðina og horfa fram á vegin. Það er nefnilega þannig að nútíma rokkpressan er gjörsalega búin að kála metalcore hugtakinu með því að sletta þessari skilgreiningu á ófögnuð eins og As I Lay Dying og Avanged Sevenfold o.fl. Síðan hafa metalhöfðingjar eins og Lamb Of God fengið þennan stympil af afvegaleiddum blaðamönnum en LOG eru auðvitað allt annað en metalcore og eiga ekki svona fúsk skilið. En Die Young eru hérna til að draga línuna í sandinn. Það er allt annar geiri.
Die Young taka sín áhrif frá Strife, Trial, Buried Alive og Integrity með söngvara sem er með eins rödd og Brian úr Catharsis. Er hægt að biðja um meira? Fyrsta lagið á þeirra hlið, “Fuck the Imperialists” gengur fullkomlega upp og er alger perla ofbeldis og hörku. Maður gnísitr tönnum þegar á er hlustað og orð eins og “fuck the imperialists. The war-mongers in white collars placing profit over people. History has been written biased hands in their favor”. Þetta er ekkert að róa mann niður enda er það tilgangurinn. Fínasta marseríng inn í stríð. Die Young benda á það augljósa og það sem betur mætti fara af vel athuguðu máli. Seinna lagið þeirra “Asco Puro” stendur fyrra laginu aðeins að baki en er engu að síður all gott. Að því sögðu vil ég hvetja lesendur til að kaupa sér Graven Images með þessari sveit helst í gær!
Invade er á hinni hliðinni og hef ég heyrt þá meira metalcore á öðrum útgáfum en engu að síður er lagið þeirra Life Drawn Out algert afbragð og minnir það á Have Heart og 108 í einum graut. Mikið chugg í gangi og dansgóldharka.Sungið er um persónulega örvæntingu en mögulega leið úr því helvíti. Jákvætt og kraftmikið þrátt fyrir töluvert myrkur í laginu.
Tilvalin gripur fyrir þau ykkar sem viljið kynna ykkur hljómsveitir sem heiðra hið merka metalcoretímabil 10. áratugarins.

Birkir

CLOAK / DAGGER - We are

CLOAK / DAGGER – We are (2007)

Reflections og Jade Tree –  2007
www.reflectionsrecords.com
www.jadetree.com

Útgáfa Reflections á Cloak / Dagger kom mér svolítið á óvart. Í fyrstu hugsaði ég að þetta væri of punk og retro fyrir Reflections en ég fagna því að þau ákváðu að auka enn breidddina í sínum útgáfum.
Mætti segja að hér sé um súper grúppu að ræða en ég kýs að telja ekki upp kauðana því það gæti brenglað upplifun sjóvaðra nörda á þessari grein. Skulum bara segja að með fyrri böndum sínum dældu þessir menn og blönduðu hefðbundnum elementum hc/punk inn í tónlistina en með Cloak / Dagger leita þeir jafnvel enn lengra til fortíðar. Gamla skóla áhrif hc/punk eru hér í aðalhlutverki en einnig finnur maður fyrir miklum garage áhrifum.
We are skiptist nánast í tvennt og er það eiginlega það eina sem ég hef út á hana að setja. Ekki stórvægilegt mál. Mér finnst bara þegar um svona mikið punk er að ræða þá er það farsælla að að láta sömu stemmninguna halda sér í gegn til að skapa nánast einfalda en effektíva heildarmynd.
Skiptingin felst í því að vera annars vegar skíta hc/punk sem fellur samt undir styrka stjórn, ekki ósvipað og kanadameistarar á borð við Career Suicide og Fucked Up (svona til að vitna í nýlegri og áberandi bönd) og síðan er hin hliðin á teningnum punk sem minnir á elsta Husker Du, Minutemen og jafnvel Wipers. Spurning hvort virkar betur. Ég hallast að síðari nálguninni.
Sunburnt Mess er afburðar lag, mikil keyrsla og svo anthemic að það grípur mann um leið. Þetta er lagið fyrir þau ykkar sem hallist að kanadasveiflunni sem ég nefndi áður. Svo eru það lög eins og Kamikazes, Walk the Block og Red Hair sem styðja pælingu mína um hina hliðina á Cloak / Dagger. Allt eru þetta lög sem ber að leita uppi til að kynna sér það sem sýnir það besta í Cloak / Dagger.
Eru Cloak / Dagger nógu hellaðir til að vera teknir alvarlega af “Deranged eða Fashionable Idiots krádinu” eða er það þeirra akilesarhæll?
Ég ætla ekki að gera textunum sérstök skil, þeir hæfa rokkinu. Þessi samt býsna svalur: “We’re generation even worse, we hated what our parents were. We turned out even worse. Just a dissapointment, just a dissapointment. O.k. Now we’re overweight and we’re full of shit. Let’s settle down and have some kids that hate us”.
Frekar sannfærandi og frökk plata sem náði ekki til mín fyrst en óx við ítrekaða hlustun. Mæli með að fólk sem hefur gaman af sveitunum sem ég hef nefnt og jafnvel Hot Snakes, skoði Cloak / Dagger næst þegar á að kaupa eða ræna plötu.

Birkir

Melechesh – Emissaries (2006)

Osmose Productions –  2006
Rebirth of the Nemesis

Ég hef verið villuráfandi sauður í stormsömum eyðimerkum metalsins í hartnær 15 ár og lötrað hef ég um þessa eyðimerkursanda í stanslausri leit af epískum metalgriðarstað og maður sá varla endan á þessari sjálfskipaðri útlegð og þrautagöngu fyrren ferð minni og leit lauk að lokum.

Vissulega fann ég ýmislegt á þessu rölti sem vakti töluverðan áhuga, en æði misjafnt var það hversu lengi sá áhugi hélt. Eitt og annað er nú rótgróðið mínum tónlistaráhlustun en margt hefur fokið í veður og vind, horfið einsog dögg fyrir sól.

Aðframkominn af metalþorsta hneig ég niður við sandhól og ekki veit ég hversu lengi ég lá meðvitundarlaus í steikjandi sólinni meðan eyðimerkurvindurinn blés yfir líkama minn.

En lífskrafturinn var sterkur og er ég náði smá meðvitund skreið ég áfram og yfir hólinn. Og sjá! Við mér blasti fagur sýn af eyðimerkurvin, nokkur pálmatré, þéttvaxið, grænt og fagurt gras, ægifögur blóm og plöntur og í miðju vinsins var tandurhreint vatnsból.

Þróttur minn jókst og ég safnaði mínum kröftum og sannfærði sjálfan mig til að staulast á fætur. Ég reikaði í átt að þessari yndislegu sýn. Var þetta tíbrá? Voru þetta ofsjónir? Sem betur fer ekki. Ég gekk í gegnum gróðurinn í átt að aqua vitae. Ég lagðist við bólið og súpti ögn á vatninu, vitandi það að of mikið gæti dregið mig til dauða.

Er ég hafði drukkið nægilegt magn lagðist ég í fósturstellingu, herpti saman augunum og reyndi að jafna mig. Ég skalf af gleði, en vissi ekki að ánægja mín átti eftir að aukast hundraðfalt. Er ég lauk upp augunum sá ég glitta í eitthvað við vatnsbólið. Vitaskuld vakti þetta forvitni mína og ég skjögðraði áleiðis að þessum óþekkta hlut.

Er ég færðist nær byrjuðu útlínurnar að skírast þar til ég greindi gulleitan lampa í sandinum. Ég tók hann upp og fannst ég sjá letur á hlið lampans, það laust að mér sú goðsögn um andan í lampanum og, viti menn, úr djinnlampanum skaust út hinn goðsagnakenndi töfraandi eftir ég nuddaði skrínið ögn.

Ég hef eina ósk til að veita þér, meistari sagði bláleiti vætturinn, er hafði þetta einkennilega bros og pírði á mig með hvítum glyrnum.

Lát mig fá besta metalinn sem þú hefur heyrt í þessari auðn! Kallaði ég.

Verði þinn vilji, meistari.

Og sjá! Í hendurnar fékk ég Mesópótamískan eðalmetal frá Ísraelska þungarokksbandinu Melechesh, eða einsog þeir vilja kalla sína tónlistarstefnu: Súmerískur deþ-metall.

Ég kom mér fyrir undir skugga af pálmatré einu og lagðist við hlustir. Það sem ómaði um mín eyru var unaður einn og áður en ég vissi af var klukkutími liðinn og platan endaði. Eigi gat ég trúað mínum eigin eyrum að þessari alsælu væri lokið, svo ég ýtti á play-hnappinn á ný og hlustaði aftur. Og aftur. Og aftur.

Með bakið uppað viðnum, horfandi á sólina setjast í vestri, er nóttin varð minn eini vinur, laust í hugarfylgsnum mér af þessum þvílíka skriðþunga epísk barátta góðs og ills; brögðóttir emírar að véla prinsessur í nauð, bardagakappar er rísa frá eyðimerkursandinum til bjargar siðmenningunni, himnaháir turnar Babílóns og viðlíka epískt stöff of legends sem linnir ekki fyrren síðustur tónar óma! Og ég horfði á skuggan af trénu læðast yfir mig er sólin reis upp á ný að austri.

Sit ég hér enn við vinið og leyfi ljúfum, miðausturlenskum-eðnískum metaltónum að leika um mín ljúfu eyru.

Eitt það besta sem ég hef hlustað á lengi lengi.

Ælovitt!

Deluge Of Delusional Dreams

Þórður Ingvarsson

Iced Earth - Framing Armageddon (Something Wicked Part I)

Iced Earth – Framing Armageddon (Something Wicked Part I) (2007)

Steamhammer / SPV –  2007
Heimasíða Iced Earth
Iced Earth @ MySpace

Framing Armageddon (Something Wicked Part I) er concept plata sem heldur áfram sögulínu þeirri er birtist á rómaðri plötu Iced Earth frá árinu 1998, „Something Wicked This Way Comes“. Hún er einnig fyrri hluti þessa áframhalds, en seinni hluti þess, „The Crucible Of Man (Something Wicked Part II) kemur út nú í byrjun september 2008. Ég hef þegar birt dóm á þá plötu hér á Harðkjarna/Töflunni sem má finna hér: Harðkjarni og umræður um hana á Töflunni hér: Taflan

Þetta er önnur platan sem Tim „Ripper“ Owens, fyrrum söngvari Judas Priest meðal annars, syngur með Iced Earth, en sú fyrri, „The Glorious Burden“ sem kom út árið 2004, féll ekki vel í kramið hjá mér. Ég viðurkenni að ég bjóst nú ekki við miklu af þessu væntanlega tvíeyki er ég las fréttirnar um það í metalpressunni, en ég verð að éta það ofan í mig þar sem þessar plötur eru báðar virkilega góðar. Fyrir mína parta þá fannst mér „Framing Armageddon“ vera mjög góð plata, ekkert framúrskarandi, en þó með betri plötum Iced Earth seinni ára. Hins vegar með tilkomu framhaldsins, „The Crucible of Man“ þá virkar þessi mikið betur á mig í dag.

Jon Schaffer tók sig sannarlega á í lagasmíðum fyrir þessa plötu, en „The Glorious Burden“ fannst mér vera hugmyndasnauð og leiðigjörn á köflum. Ég sakna þess reyndar að hafa ekki Matt Barlow til staðar á þessari plötu, þar sem ég hef nú heyrt framhaldið, en ég mun samt ekki draga úr frammistöðu Tim Owens á henni, þar sem hann er jú söngvari góður. En lagasmíðar Schaffer hér eru virkilega góðar, kraftmikil, melódísk og níðþung riff sem einkenndu fyrri plötur Iced Earth eru í algleymingi hjá honum sem má til dæmis heyra í lögunum Something Wicked (Part I) og Ten Thousand Strong. Melódíur söngviðlaganna eru einnig catchy og skorta ekki skemmtilegan hrynjanda sem gæti gert þau að framtíðarhitturum meðal aðdáenda sveitarinnar.

„Framing Armageddon“ er eins og ég minntist á, concept (stutta mússíkalska millikafla er að finna milli laganna) plata, þar sem rakin er Sci-Fi saga sem Schaffer sjálfur skrifaði. Ég ætla ekki að fara djúpt ofan í kjölinn á sögunni þar sem skemmtilegast er fyrir hlustandann að lesa hana meðan hlustað er á plötuna. En, til að stilka á stóru yfir megindrætti hennar, þá er sagt frá The Grand Architect of the Universe, The Setians og hvað gerðist á jörðinni þegar menn urðu spilltir af græðgi í þekkingu og völd. Textarnir eru mjög góðir og ásamt stellar framsetningu plötunnar og mjög góðri, samt eilítið flatri hljóðblöndun, þá er þessi plata alveg ágætis kombakk fyrir Iced Earth. Það þarf varla að minnast á hæfileika hljóðfæraleikara Iced Earth, sem eru á heimsmælikvarða og Tim Owens skilar sínu mjög vel frá sér.

Ef þú lesandi góður, ert gamall Iced Earth aðdáandi, þá munt þú ekki verða fyrir vonbrigðum með þessa plötu þar sem hún kemst hiklaust á stall betri platna þeirra frá upphafi. Ég fyrir mitt leiti er afskaplega ánægður með þetta tvíeyki, það er allt til staðar á þeim sem góð þungarokksplata á að innihalda, einnig er góð blanda af frekar drungalegum og þónokkuð framsæknum lögum og kraftmiklum og hressandi bandarískum power metal. „Framing Armageddon“ fær hjá mér góða dóma, en ekki eins góða og „The Crucible Of Man“, ætli það sé ekki bara endurkoma Barlow sem tippar skalanum hjá mér.

Atli Jarl Martin