Category: Plötudómar

Plötudómar á Harðkjarna

Old Wounds – Glow (2018)

Old Wounds – Glow
Good Fight Music 2018

Bandaríska hljómsveitin Old Wounds hefur gengið í gegnum margar breytingar síðastliðin ár og því spurning hvort að sveitin geti fylgt eftir eins góðri breiðskífu og The Sufferin Spirit var án þess að mistakast, en the Sufferin Spirit var að mínu mati ein af bestu útgáfum ársins 2015 og náði að fullkomna fortíðar þrá mína í metalcore tónlist sem var upp á sitt besta um miðjan tíunda áratug 20. aldar.

Platan byrjar afar sterkt á laginu “Your God v. Their God” sem viðheldur goth útgáfu af málm blandaða harðkjarnanum sem ég hef afar mikið dálæti á frá seinustu plötu. Harðneskjan heldur svo áfram með laginu stripes, en þar finnur maður að söngur Kevin Iavaroni er farinn að þróast úr hreinni öfgafullri reiði yfir eitthvað svo miklu meira, eitthvað sem minnir meira á blöndu af söngstíl sveita á borð glassjaw og vision of disorder, með smá AFI blöndu þar inn á milli, afar heillandi. Textar sveitarinnar fjalla meðal annars um andleg málefni, andlega erfiðleika, ástand heimsins og dekkri hliðar neikvæðrar sjálfsmyndar.

Þegar á heildina er litið er þetta þræl skemmtileg plata, ekki jafn góð og sú seinasta, en alls ekki mikið verri. Platan er einnig mun fjölbreyttari en ég gerði ráð fyrir án þess að fara í of mikla tilraunastarfsemi.

Sick of it all – Wake the Sleepin Dragon! (2018)

Sick of it all – Wake the Sleepin Dragon!
Fat Wreck 2018

Guðfeður harðkjarnatónlistar New York borgar eru mættir enn og aftur með nýja breiðskífu, þá tólftu á ferlinum. En getur harðkjarna hljómsveit sem hefur verið virk í meira en 30 ár enn skilað frá sér fersku og áhugaverðu efni sem kveikir í aðdáendum sínum og um leið aflar sér nýrra? Í stuttu svari: Ó Já!

Ég held að það fáar plötur á ferli sveitarinnar hafi byrjað á jafn miklum krafti og bjóði upp á jafn mikinn fjölbreytleika og þessi. Það er samt ekki eins og þetta séu gamlir kallar að reyna að ná til æskunnar, þetta er einhvernveginn bara rosalega vel gert og skemmtilegt.

Þrátt fyrir áhugaverðan titil á plötunni (Vekið sofandi drekann) bendir ekkert til að þetta sé einhvern þema plata, en það má heyra mikið áhugaverðu umfjöllunarefni á plötunni, hvor sem það er dýravelverð, innri barátta allskynns hópa, aðdáun þeirra á hljómsveitinni Bad Brains, ádeila þeirra gegn samfélagsmiðlum og stjórnendum þar, og svo að sjálfsögðu ádeila gegn sitjandi forseta landsins. Kannski er þemi plötunnar kraftur einstaklings til að hafa áhrif á lífið, og kvatning til þess að taka málin í sínar hendur og leysa vandamálin í stað þess að sitja heima og kvarta undan því sem fer illa.

Í mínu lífi er oftast hátíð á bæ þegar sveitir sem þessi gefa út efni, og svo er það enn, ekki talandi um þegar sveitin gefur út svona ferska og skemmtilega plötu.

Zao – The Well-Intentioned Virus (2016)

Zao – The Well-Intentioned Virus
Observed/Observer 2016

Bandaríska harðkjarnasveitin Zao er ein af þeim sveitum sem vekur alltaf mikla tilhlökkun hjá mér þegar fréttir berast að nýjum útgáfum. Að mínu mati hefur sveitin aðeins tekið eitt feilskref á ferlinum, en það var við útgáfu seinustu breiðskífu seinnar Awake? sem mér þótt afar slöpp útgáfa, en miðað við seinustu útgáfu sveitarinnar (EP platan Xenophobe frá því í fyrra) get ég ekki gert ráð fyrir öðru en hér sé sveitin komin aftur á þann stall sem hún hefur staðið með stolti alla sína tíð.

Fyrir þá einstaklinga sem ekki þekkja til eru rætur sveitarinnar í kristnum harðkjarna og þá meina ég KRISTNUM, en textar og umfjöllunarefni sveitarinnar snérist á þeim um kristindóm og allt sem tengist “sönnum kristnum gildum”. En meðlimaskipan, tími og hugsunarbreyting í sveitinni hefur breytt sveitinni úr hefðbundnu kristnu harðkjarna bandi í eitt af áhrifamestu harðkjarnaböndum sögunnar.

Þessi sveit hefur mér verið hugfanginn hátt í annan áratug, enda hafa breiðskífur á borð við Where Blood and Fire Bring Rest, Self-Titled (já hún heitir það), Parade of Chaos, The Funeral of God og The Fear Is What Keeps Us Here verið mjög hátt skrifaðar í mínu plötusafni. En núna eru 7 ár frá seinustu útgáfu og spurning hvort The Well-Intentioned Virus nái að viðhalda þeim gæðum sem sveitin er hvað þekktust fyrir.

Platan byrjar rólega á laginu The Weeping Vessel, en breytist brátt í þá þá þrumu sem lagið er, en lagið fjallar eins og svo mörg lög sveitarinnar um viðkvæmtog persónuleg vandamál söngvara sveitarinnar, sem í þessu tilfelli er fósturlát fyrsta barns söngvarans, með þessarri vitneskju breytist lagið úr hörðu og snúnum rokkslagara í dimma og harða tilveru lífsins. Miðað við núverandi stjórnmálaástand í heimalandi sveitarinnar næst betri skilningur á bæði titilagi og titli plötunnar, en lagið fjallar um fólk sem í upphafi gerir eitthvað í góðum tilgangi á meðan síðarmeir er litið gjörðir þessa sama fólks sem eitthvað illt. Platan er í heild sinni mun betri og fjölbreyttari umfram mínar björtustu vonir og í kjölfarið mun harðari.

Þessi plata er tormellt eyrnakonfekt sem verður betri með hverri hlustun. Þau lög sem sveitin gaf út á EP plötunni Xenophobe eru að finna í nýrri útgáfu á þessarri plötu og hljóma sérstaklega vel í þessum upptökum, en passa samt vel í heildarmyndina sem þessi plata er, sem er hreinu unun.

Hangman’s Chair – This Is Not Supposed To Be Positive (2015)

Music Fear Satan 2015

Franska hljómsveitin Hangman’s Chair kom hingað til lands ekki alls fyrir löngu, en náð ekki að heilla mig þá. Ég var því ekkert að flýta mér að hlusta á nýjustu plötu sveitarinnar “This Is Not Supposed To Be Positive”, en satt best að segja sé ég mikið eftir því, þar sem hér er á ferð breiðskífa sem ég hef gjörsamlega fallið fyrir. Franskt þungarokk í hvaða formi sem er er að koma sterkt inn síðustu ár og þar eru Hangman’s Chair framarlega í flokki, sérstaklega mikiðað við þessa nýju plötu.

Titill plötunnar “This Is Not Supposed To Be Positive” segir rosalega mikið, því þetta eru ekki upphefjandi lög sem færa birtu í hjarta áheyrenda, hér hlustum við á þunglyndi í sínu listræna formi, og nánast fullkomnu formi. Lög á borð við Flashback gera þessa plötu þess virði að fjárfesta í á hvaða degi sem er, enda angurvært slagari sem gefur manni smá von þrátt fyrir þunglyndislegan undirtón. Aðdáendur hljómsveita á borð við Life Of Agony, Alice in Chains (lagið Save yourself) og jafnvel Type O Negative, þar sem þetta er breiðsífa sem getur farið með mann í djúpa og tilfiningaríkaferð um sálarlífið.

Þessi plata kom mér á óvart, virkilega á óvart og hefði ég hlustað á hana fyrr hefði hún verið ofarlega á toplista árins 2015 hjá mér.

Framúrskarandi:
Flashback
Your Stone

Killswitch Engage – Incarnate (2016)

2016 Roadrunner

Fyrsta breiðskífa hljómsveitarinnar Killswitch Engage var eitthvað sem ég hugsa enn til með mikilli hrifningu, þar var sveitin fersk og full af eldmóð. Ekki versnaði áhugi minn á sveitinni við næstu útgáfu, þeirra fyrstu á Roadrunner plötunni, Alive or Just Breathing (2002) sem var einnig mögnuð útgáfa frá byrjun til enda. Meira að segja þegar söngvarinn Howard Jones tók við af Jesse Leach var ég sáttur við sveitina, en síðan fór sveitin að missa forskotið, fór að endurtaka sig og jafnvel gefa út breiðskífur sem ég reyndi mitt besta að hlusta á án þess að missa lífsviljann (kannski svolítið ýkt, en þið skilið.. þetta var slæmt.).

Í mars mánði sendi sveitin frá sér sína sjöundu breiðskífu, Incarnate, og því forvitnilegt hvort að önnur breiðskífa sveitarinnar eftir að Howard Jones yfirgaf sveitina (og Jessie Leach kom aftur) nái að grípa mann eins og fyrstu skífur sveitarinnar gerðu…. stutta svarið er nei.

Ekki misskilja. Þetta er ekki slæm plata, alls ekki þeirra versta, en samt langt frá því besta. Sterkasti hluti plötunnar er að mínu mati Jesse Leach söngvari, vídd hans sem söngvari er mikil enda getur hann öskrað eins og geðsjúklingur og strax farið yfir í háu tónana eins lærður klassískur söngvari. Það sem vantar upp á hjá sveitinni er að taka meiri áhættur, prufa eitthvað nýtt og ferskt, hvort sem það er enn meira popp eða bara hreint dauðarokk, því annars virkar þetta eins og ljósrit af fyrra efni, sem dofnar með hverri ljósritun. Lögin sem standa upp úr á plötunni eru lögin sem víkja frá formúlunni (þó ekki nema að litlu leiti), lög eins og The Great Deceit (sem hljómar eins og eitthvað af fyrstu plötum sveitarinnar), Ascension og jafnvel Strength of the Mind skilja mest eftir sig. Ég held að í grunninn sé sveitin farin að endurtaka sig of mikið í anda AC/DC, en án þess að bæta við sig hitturum inn á milli. Það er í lagi að skipta um pródúsent til að fá smá nýtt blóð í þetta batterí. Þetta er miðlungs plata frá sveit sem getur gert miklu meira, kannski vill ég bara minna drama og meiri hraða.

System of a down - Steal This Album

System of a down – Steal This Album (2002)

Americana/Columbia –  2002

FUCK THE SYSTEM

System of A Down vöktu athygli á sínum tíma fyrir ferska nálgun á fjöruga metaltónlist, og svo fyrir að vera frík. Furðulega málaðir og skrítnir. Þeir ná nokkuð vel að halda þeim skammti af ferskleika, svo langt sem hann náði, í framhaldinu af sinni útgáfu af ameríska draumnum.
Ef ég man rétt koma meðlimir SOAD upphaflega frá Armeníu og einhvernveginn hefur mér alltaf fundist metalrokk System of A Down hljóma nokkuð sérstakt út á það. Þeir eru alls ekki eins og hitt dótið sem spratt upp í kringum Slipknot/Korn/Nu-Metal bylgjuna. SOAD náðu að markaðssetja sig sem einstaka útgáfu af þessari bylgju.
“Steal This Album” hefst á einkennismerki þeirra; kraftmikilli og endurtekinni keyrslu einfaldra og grípandi gítarriffa sem brotin eru upp með stuttum stoppum til áherslu þar sem eitt eða fleiri hljóðfæri halda áfram með söngvaranum í fullkomnum takti áður en kraftmikla riffið byrjar aftur. Endurtakist eftir þörfum. Þetta er reyndar einkennismerki lagasmíða innan allrar Nu-Metal bylgjunnar en sérstaða System of a Down felst einmitt í því að þeir eru meiri furðufuglar en töffarar og reyna ekki að selja sig unglingsstúlkum út á kúlið. Lögin verða alltaf svolítið skrítin frekar en að af þeim leggi fnyk af hárgeli, líkamsræktarstöðvum og ljósabekkjum. Það er mjög jákvætt. Söngröddin er líka skemmtilega einkennilega hátt upp og beiting hennar blátt áfram frekar en hamast sé við að ná fram drengjahörku.
Sú uppskrift að nýrokkaðri lagasmíð sem lýst er hér að ofan heldur áfram alla plötuna í eilítið mismunandi útfærslum; inn á milli eru tvírödduð viðlög, stundum er einfalda, grípandi upphafsriffið spilað hægar en fyrst og söngvarinn gaggar eins og hæna í “F**k the System” en annars eru öll lögin keimlík þar til kemur að “Roulette.” Það lag er eina tilraun SOAD við rómantík. Kassagítarplokk og selló framreiða angurværa hljóma og tvíraddaður söngur flytur harmljóð. Þetta tilbrigði þeirra missir nokkuð marks og minnir á slappa útgáfu af einhverju eftir Red Hot Chili Peppers. Hið harmræna fer SOAD ekki sérlega vel. Kraftur er í hverju hinna fimmtán laganna fyrir sig en lögin fylgja þeirra einóma uppskrift svo vel að “Steal This Album” þreytist fljótlega. Hljómur er allur góður enda Rick Rubin að verki.
Þegar hlustað er eftir skilaboðunum í tónlistinni er inn á milli hörð ádeila á markaðssetningu hins daglega lífs; “advertising causes me therapy” (Chic’n’sty), sprengjuregnið sem framleitt er af stórfyrirtækjum er ætlað sakleysingjum þessa heims og framleiðslan réttlætt með því að þetta sé óvinir frelsis og lýðræðis; “the bottom line is money/nobody gives a fuck/thousand of children go hungry/while billions are spent on bombs/creating death showers” (Boom).
Mér hefur alltaf leikið forvitni á að vita hvort að hljómsveitir sem markaðssetja sig sem uppreisnarseggi hafa eitthvað raunverulegt að segja þeim sem hlusta. Verða skilaboðin bara hluti af fjörinu eða ná þau að koma einhverri marktækri byltingarhugsun að hjá hinum almenna unglingi sem kaupir? Er ekki ádeilan á öfgakapitalismann dottin um sjálfa sig þegar skilaboðin eru markaðssett af stórfyrirtæki sem er eign enn stærra öfgakapitalistafyrirtækis; Sony? Eða segjum við bara eins og byltingarsinnarnir Chumbawamba og Rage Against the Machine; að rétt sé að neyta allra bragða til að koma mikilvægum skilaboðum til æskufólks og alls almennings?

S.Punk

Dillinger Escape Plan - Irony Is A Dead Scene

Dillinger Escape Plan – Irony Is A Dead Scene (2002)

Epitaph Records –  2002

Hverju má maður búast við þegar Mike Patton (Faith no more, Mr. Bungle. Fantomas, Tomahawk ofl), einn af mínum uppáhalds söngvurum, ákveður að vinna með einu brjálaðsta, svakalegasta, klikkaðasta og skemmtilegasta tónleika bandi sem ég hef séð á ævi minni. Hvorki Dillinger Escape plan né Patton eru nöfn sem maður tengir við rólegheit eða afslöppun… en hvað gerist ef þetta tvennt blandast saman? ótakmörkuð snilld! Irony Is A Dead Scene er það sem til varð eftir samrunann, 4 brilliant lög sem minnir mann á svo margt en samt ekki.. hmmm jú það er auðvitað Patton sem gerir þetta svona eftirminnilegt. Hann er nú þekktur fyrir að fara ótroðnar slóðir, en hann heldur sér á þessum disk sem svona typical patton. Fyrsta lagið á þessum disk er Hollywood Squares og aldeilis frábært lag á þessum því miður allt of stutta disk. Þar á eftir er það Pig Latin, sem er mjög Mr. bungle-legt á köflum, á meðan “When god dogs do bad things” minnir mig meira á Dillinger, þó svo að þetta allt ber mikinn keim af Patton. Loka lag þessa disk er coverlag upprunalega eftir Aphex Twin, en þetta cover er aldeilis brilliant í alla staði. Þessi diskur er skildueign.

valli

Give up the ghost - Love American

Give up the ghost – Love American (2003)

Reflections records –  2003
http://www.giveuptheghost.com

Eins og allir ættu nú að vita þá heitir hljómsveitin American Nightmare nú Give up the ghost, og án þess að vita það með sönnu þá held ég að þetta sér fyrsta útgáfa sveitarinnar (á nýju efni) undir þessu nafni. Á þessum 3 laga disk er að finna 2 ný lög í viðbót við 1 cover lag. Þetta er fínn diskur, en það er að vísu einn galli við svona stutta diska, að maður vill oftast meira, sérstaklega ef er eitthvað sem vert er að taka eftir. Ég efast ekki að aðdáendur sveitarinnar takið þessu vel þar sem lögin Love american og The hell we’ve been living in eru bæði mjög lög. Hljómsveitin spilar létt, en hratt hardcore sem ég held að fáir metalhausar fíli, en engu að síður held ég að hardcore krakkar og indíliðið fíli þetta í botn. Þriðja og síðasta lagið á þessum disk er lagið You and me og er upprunalega eftir hljómsveitina Archers of loaf (band sem ég vissi ekkert áður en ég fékk þennann disk). Lagið er allt öðruvísi en hin tvö lögin og kemur því frekar á óvart þar sem þetta er hægt og frekar þunglyndt lag. Ég held að þessi diskur sé mjög góður fyrir aðdáendur sveitarinnar, en ég ráðlegg öðrum að bíða þangað til að nýji diskurinn verður gefinn út (já eða bara að athuga nánar eldra efni sveitarinnar).

valli

Ill Nino - Confession

Ill Nino – Confession (2003)

Roadrunner –  2003

Fyrir stuttu barst mér í hendur nýjasta afurð hljómsveitarinnar Ill Nino sem er ein af fremstu Nu Metal hljómsveitum dagsins í dag. Ég eins og svo margir rokkarar held ekkert sérstaklega mikið upp á þessa tónlistarstefnu, en samt sem áður legg ég ekki fæði á hana eins og svo margir gera. Hvernig tónlist spilar þessi sveit svo? Strax í fyrsta lagi finnst mér ég heyra blöndu af Korn, slipknot og Soulfly með smá latino áhrifum og ætli það sé ekki bara góð lýsing á tónlist sveitarinnar í held sinni.

Það sem Nu Metal bönd í held sinni gera vel, er að semja mellódíur sem auðvelt er að fá á heilann, hvort sem það er kostur eða ekki, það verðið þið sjálf að dæma um. Mér þykir það kostur að auðvelt sé að hægt að nálgast efni með sveitum eins og þessum þar sem auknar líkur eru á að fólk fari að hlusta á “alvöru” metal eftir að hafa kynnst svona böndum.

Ill Nino eru ekki að gera neitt nýtt á þessum disk, og minnir þetta mig á allt það efni sem ég hef heyrt með þeim áður, kannski það sé rödd söngvarans að kenna/þakka, en hann er með mjög ákveðin söng stíl… þar sem hann skiptir oft á milli söngs og öskurs, en hann gerir það bara óskup vel. Ég get vel Ímyndað mér að litli frændi minn geti fílað þetta. Ágætis tónlist svo sem, en það er bara svo margt miklu betra, þannig ég efast að þessi diskur endist í spilaranum hjá mér. Bestu lögin á disknum eru að minu mati Two (Vaya con Dios) og spænska útgáfan af slagara sveitarinnar How can i Live. Ef þú fílar ekki nu metal, þá átt þú efir að hata þetta band, annars er þetta bara skítsæmileg hlustun.

valli

BURST - Prey On Life

BURST – Prey On Life (2003)

Relapse –  2003
www.relapse.com

Hvað get ég sagt til að kynna Burst til leiks? Þetta er eitt af þeim böndum sem hafa gert mig nær orðlausan síðan ég heyrði í þeim fyrst. Svona til að gera þér ljóst, lesandi góður hversu kyngimagnað band um ræður þá vil ég bara segja: “Ef þú hefur yndi af hágæða extremetónlist, leitar og hefur ekki tékkað á Burst nú þegar, þá ert þú bara að leitað á réttum stöðum, ekki farið nógu djúpt eða bara verið blind(ur) og heyrnalaus!”.
Ég er ekki alveg með feril þeirra á hreinu en það sem ég á með þeim er diskur í fullri lengd sem kom út hjá Prank records og MCD sem kom út hjá Chrome St. Magnus. Prank platan var fjúríus sýnikennsla í ofsa, melódíum, hraða og gáfum segi ég bara. Fáránleg plata. Svo kom MCD diskurinn sem kannaði enn meira melódíurnar, önnur tempó en sýndi sem áður hraðar lagasmíðar en þó var tempófjölbreytileikinn meiri. Þarna voru Burst búnir að sína með tveim plötum að þeir voru í algjörum sérflokki og með sinn eigin hljóm sem engin væri á leiðinni að apa eftir. Höfðuðu bæði til fólks sem vill His Hero Is Gone og Tragedy í kaffið sitt sem og þeirrar sem aðhyllast þrusumetal á borð við At The Gates o.fl. Hvernig áttu þeir svo að fylgja þessari mögnuðu byrjun eftir?
Inn kemur: Prey On Life. Enn og aftur sína þeir á sér nýjar hliðar. Enn hægja þeir á sér og kanna myrkar melódíur, djúpt andrúmsloft, endurtekningar (jess!) annan hljóm og effekta. Og ekki halda að þeir sé komnir í eitthvað tilgerðarlegt, arty-prog glens. Ó nei! Á meðan Prey On Life mun heilla eyru þeirra sem hafa Isis, Neurosis, OMG og jafnvel “þungu” Cave In í hávegum, þá svíkur hún aðdáendur fyrri verka bandsins (ég þ.m.t.) ekki.
Ég kann ekki að lýsa þessari plötu nánar. Hún er svo sérstök og enn einn stórsigurinn fyrir þetta lítt þekkta band sem ég er viss um að fólk fari að tilbiðja um leið og það hefur glóru til að kynna sér tóna þess. Bráðum fara allir að vilja vera eins og Burst. Það er á tæru. Ein af laaang bestu plötum ársins 2003.

Birkir