Can`t Take Me Apart Tour 2001

9. nóvember 2001, London Astoria

Fear Factory, Godflesh, Janus Stark

Föstudagskvöldið 9. nóvember ákvaðum við Lísabet að fara á tónleika með Fear Factory. Eins og nær alltaf í London, þá hefjast tónleikar hér í bæ klukkan 19:00 og vorum við því mætt á slaginu. Þegar við komum að tónleikastaðnum (London Astoria), er okkur tilkynnt að það sé uppselt á tónleikana. Við erum frekar svekkt, en á leiðinni burt erum við spurð hvort við viljum kaupa miða á uppsrengdu verði. Við neitum og höldum af stað, en þá er okkur boðið að kaupa miða á réttu verði, sem við gerum. Við höldum af stað aftast í röðina, sem virðist vera endalaus. Eftir að hafa beðið í röðinni í smá tíma (þar sem götusölumenn með ódýrar Fear Factory vörur voru út um allt) var komið inn í tónleikasalinn. Fyrsta hljómsveitin var byrjuð…

Janus Stark, er að ég held bresk sveit sem gefur efnið sitt út á Earache útgáfunni. Ég ráðlegg nú engum að hafa fyrir því að fara á tónleika með bandinu, þar sem þetta hvorki sérstakt né eftirminnilegt band. Hljómsveitin spilar þetta týpíska útvarps “metal” rokk sem tröll ríður öllu þessa dagana. Síðasta lag sveitarinnar var alveg ágætt, enda var það að ég held þyngsta lag sveitarinnar.

Næst á dagskrá er endurkoma hljómsveitarinnar Godflesh. Ég persónulega hef ekki hlustað á bandið í fjölda ára, en þetta 3. manna band kom mér skemmtilega á óvart. Það er nú ekki skrítið að þeir séu að spila með Fear Factory, þar sem Godflesh hafa haft augljós áhrif á sveitina (og einnig bönd á borð við Ministry, Clutch, Danzig ofl). Á heimasíðu sveitarinnar er því haldið fram að þeir séu upphaf industrial tónlista stefnunnar (sem er ekki fjarri lagi). Sveitin sem kom aftur saman nýlega, spilaði bland af bæði gömlu og nýju efni. Ég verð að viðurkenna að ég fékk á köflum gæsahúð við að hlusta á bandið taka sína helstu slagara. Eitt sem mér fannst áberandi fyndið við framkomu sveitarinnar á sviðinu voru buxur gítarleikara/söngvara sveitarinna. Mér finnst að hann eigi að ganga með belti, þar sem að horfa á rassskoruna á manni, í miðjum gítarsóló, æsir mig ekkert svakalega mikið, og einhvern veginn þori ég að veðja að það sama eigi við um aðra tónleikagesti.

Þá er komið að bandi kvöldsins, Fear Factory! Ég vissi í rauninni ekki við hverju ég átti að búast við í þetta skiptið. Ég sá bandið fyrir nokkrum árum á Dynamo hátíðinni og fannst þeir alveg ágætir, en miðað við nýju plötu sveitarinnar bjóst ég ekki við miklu. Fyrsta lagið kannaðist ég ekki við en það var mikill kraftur og aðdáendur sveitarinnar (sem voru nokkur þúsund) hoppuðu allir í takt og var því strax frá fyrsta lagi mögnuð stemming. Næsta lag kannast ég við, þá ákvað ég að prufa pittinn og dreif mig að sviðinu. Það var alveg helvíti gaman og hljómsveitin greinilega í mikilli og góðri æfingu. Eftir nokkur lög í pittinum ákvað ég að einbeita mér að hljómsveitinni betur og færði mig á stað þar sem betur er hægt að fylgjast með öllu. Það kom mér á óvart að hljómsveitin tók sig til og spilaði eitt rólegt lag (að minnstakosti miðað við það efni sem sveitin hefur áður gert), en undir lok tónleikanna skemmti ég mér sem best þar sem þeir tók sín bestu lög að mínu mat, af bæði SOUL OF A NEW MACHINE og DEMANUFACTURE. Síðasta lag sveitarinnar Replica var frábær endir á stórskemmtilegum tónleikum.

Valli