Month: febrúar 2015

Skurk taka Gaggóvest ásamt Magna og Val Hvanndal ofl.

Akureyska hljómsveitin Skurk ákvað að fagna 70 ára afmæli Gunnars Þórðarsonar og 30 ára stórafmæli lagsins Gaggó Vest með því að taka það upp og deila með þeim sem vilja hlusta.

Með Skurk eru söngvararnir Magni Ásgeirsson, Valur Hvanndal og sérstakur gestur er Björgvin (Böbbi) Sigurðsson.

Fyrir 5 misserum fengu meðlimir Skurk frábært tækifæri að vinna að tónleikum með Eiríki Hauksyni og spila þekktustu rokklögin sem hann hefur sungið og svo nokkrar ábreiður sem bandið og Eiríkur völdu saman. Tónleikarnir voru skemmtilegir og lög frá gullaldartímabili þungarokksinns m.a. með Dio, Black Sabbath, Thin Lizzy, Artch, Drýsli hljómuðu um tónleikasalinn við góðar undirtektir viðstaddra. Eitt lag varð án efa að taka og það var lagið Gaggó Vest sem Eiríkur flutti á plötunni Borgarbragur 1985. Skurkarar vildu auðvitað ólmir taka það því að þarna var lag sem hefur einhvernveginn tengt eightís poppið við rokkið ótrúlegum böndum. Gunnar Þórðarson hefur samið og útsett lög með böndum eins og Hljómar, Trúbrot, Flowers, ðe lónlí blú bojs og Ríó Trío og þau lifa sterkt í minningu landsmanna, alveg sama hvaðan það kemur og hvernig tónlist það hlustar á í dag, og Skurkarar eru þar engin undantekning. Úr varð að Skurkarar gerðu eilitlar áherslubreytingar til að aðlaga lagið að þungarokksuppsetningu og lagið gerði fína lukku. Eftir útgáfu fyrstu plötu Skurk, Final Gift júní 2014 var ákveðið, þar sem að bandið hafði ekki tök á að túra eins mikið og það vildi, að fara í það verk að taka upp lagið. Bandið fékk til samstarfs þá félaga Magna Ásgeirsson og Val Hvanndal Halldórsson til að tækla sönginn sem Eiríkur gerði svo stórkostlega vel á upprunalegri útgáfu lagsins. Í miðjum upptökum stakk Böbbi svo hausnum inn í stúdíóið og fékk strax hlutverk kennarans og það má segja að Böbbi myndi ekki þurfa að kljást við agavandamál í sínum bekk….nokkurn tímann, miðað við frammistöðu hans í laginu. Haukur Pálmason tók upp og hljóðblandaði ásamt Herði Halldórssyni gítarleikara Skurk sem sá um upptökustjórn.