Month: janúar 2014

Svartidauði í tónleikaferðalag

Eftirfarandi frétt var að finna á fréttasíðu morgunblaðsins:

Íslenska dauðarokkssveitin Svartidauði leggur upp í tónleikaferðalag um Evrópu í mars næstkomandi og mun sveitin koma fram í níu löndum á jafnmörgum dögum. Með í för verða hljómsveitirnar Mgla (POL) og One Tail, One Head (NOR). Þetta kemur fram í tilkynningu frá sveitinni.

Ferðinni lýkur svo á tónlistarhátíðinni Speyer Grey Mass í Þýskalandi, þar sem meðal annars koma fram hljómsveitirnar Archgoat (FIN), Ofermod (SE), Nightbringer (USA) og fleiri.

Undanfarið ár hefur sveitin verið iðin við koma fram víðsvegar um Evrópu, meðal annars á tónleikahátíðunum Nidrosian Black Mass í Belgíu, Prague Death Mass í Tékklandi, Hells Pleasures í Þýskalandi og Black Flames of Blasphemy í Finnlandi, auk Iceland Airwaves.

Fyrsta breiðskífa Svartadauða, Flesh Cathedral, fagnar eins árs afmæli sínu um þessar mundir. Flesh Cathedral hlaut einróma lof gagnrýnenda og hafnaði í efstu sætum árslista margra erlendra tímarita árið 2012. Seldist platan svo hratt að útgefendur hennar höfðu ekki undan eftirspurninni og hefur hún nú verið endurútgefin nokkrum sinnum, bæði á geisladisk og vínyl. Terratur Possessions sér um útgáfu og dreifingu plötunnar í Evrópu en Daemon Worship Productions í N-Ameríku.