Það er föstudagur, dordingull á 13 ára afmæli og afmælisgjöf dagsins er örviðtal við Birkir Viðarsson söngvara hljómsveitarinnar I Adapt. Nýlega var tilkynnt að I adapt myndu koma saman aftur til að spila á Eistnaflugi og því tilvalið að hlekkja Birkir niður við nýmálaða spónarplötu og krefjast svara frá kappanum:
Sælir Birkir, hvað að frétta af þér þessa dagana?
Flest fínt, ef ég á að vera alveg hreinskilinn. Mögulega of mikið að gera og helst til mörg járn í litlum eldinum.
Nú tilkynntu aðstandendur Eistnaflugs að hljómsveitin I Adapt væru að koma saman aftur til tónleikahalds á Eistnaflugi, hvernig kom það til?
Stefán er búinn að hjakkast, troða, sparka, rífa og gæla við okkur frá því að við hættum til dagsins í dag um að við spiluðum á hátíðinni hans. Þrátt fyrir að vera auðmjúkir skósveinar þessa manns þá sögðum við alltaf nei enda alvarlegri en andskotinn. En nú lágum við vel við höggi þar sem ég er á landinu, við farnir að sakna hvors annars og við erum flestir ef ekki allir alltaf á Eistnaflugi hvort eð er. Því er heiðurinn okkar að troða upp fyrir austan og fyrir framan allt það góða og kolkexaða fólk sem hátíðina sækir.
Hverjir munu skipa sveitina?
Jobbi, Ingi, Elli, Addi og ég. Þannig vorum við þéttastir og þyngstir og ekkert annað sem kæmi til greina.
Ægir Logn og Baldur Skálmöld verða ekki með okkur. Það er komið á hreint.
Eruð þið eitthvað byrjaðir að æfa?
Við erum ekki byrjaðir að æfa en ég veit að lagalistinn vegna Eistnaflugs heldur Inga vöku. Það er yndislegt. Elli, Jobbi og Addi eru önnum kafnir með Celestine og öðrum verkefnum og enn langt í Neskaupstað, þannig að við erum ekki að stressa okkur. En við ætlum að koma ykkur á óvart með eitthvað sem ég held að fólk sé ekki að reikna með á þessu stigi málsins.
Verða þetta bara einir tónleikar og svo ekkert meira, eða verður eitthvað gert meir í endurkomunni?
Þetta er ekki endurkoma. Meira svona lúxuslamm og afsökun til að ganga of langt einu sinni enn.
Ef þessi “endurkoma” er möguleg… hvað þá með bisund?
Alesund með Sun Kil Monn er fullkomið lag. Tryggð þín við Bisund er það líka. Andri er orðinn of góður á gítar.
Hvað tekur svo við hjá þér um helgina?
Hokkígláp, skrif, lestur, áhlustun margra misgóðra platna, nostur míkróbjórs og hangs með vönduðu liði. Svo verður mamma sótt heim á Sunnudaginn eins og vera ber. Annað væri glapræði.
Eitthvað að lokum?
Annars vorum við að ræsa okkar fyrsta facebook dæmi. Við náðum því aldrei á sínum tíma og þetta er nokkuð skemmtilegt ef fólk vill vera í sambandi við okkur og fá up-to-the-minute upplýsingar og eða heimsókn frá draugum fortíðar. Vonandi lækar það einhver. Fyrst ég er hérna káetu þinni má ég til með að plögga tónlistarbloggsíðu mína http://halifaxcollect.blogspot.com Hún er hress og breið. og svo vil ég bæta við: takk fyrir þetta spjall Valli og þitt gjöfula starf í þágu jaðarþungarokks. Megir þú verða grafinn með lyklaborð og stafræna upptökuvél af einhverju tagi á brjósti
I Adapt facebook:
http://www.facebook.com/pages/I-Adapt/191468514297518
Halifax Collect á facebook:
http://www.facebook.com/pages/Halifax-Collect/180905538624657?ref=ts