Það er nú ekki hægt að hafa örviðtöl eða bara almenna umfjöllun um íslenska tónlist án þess að minnast á hljómsveitina Sólstafi. Því greip ég dúfu, ritaði nokkrar spurningar á efnisbút og sendi hana beina leið á Guðmund Óla Pálmason, trommara hljómsveitarinnar. Eftir að hann jafnaði sig á sjokkinu að fá dúfu heim til sín, svaraði hann mér í tölvupósti, hér að neðan má sjá spjallið okkar:
Sælir drengir og til hamingju með Svarta Sanda.
Þakka þér Valli!
Hver vann umslagið á plötunni og hvernig kom sú samvinna til?
Hann heitir Kim Holm og er Norðmaður. Hann spurði kom til okkar fyrir tónleika sem við héldur í Bergen og spurði hvort að hann mætti mála okkur meðan við spiluðum. Við höfum áður verið spurðir hvort að fólk megi taka myndir af okkur en þetta var alveg nýtt. Eftir giggið sýndi hann okkur síðan nokkrar myndirnar sem hann málaði og við vorum mjög hissa hversu vel honum tókst til svona á staðnum. Ein af þessum myndum endaði meira að segja á plötunni (myndin af okkur)
Þegar að við fórum svo að spá í listamanni til að gera kover og mynd við hvert lag datt okkur í hug að stíllinn hanns myndi henta okkur fullkomlega, og við vissum líka að hann gat unnið mjög hratt.
Við erum hel sáttir við útkomuna.
Segðu okkur aðeins frá myndbandinu við lagið fjara, eru fleiri myndbönd í vinnslu?
Það hafa verið ræddar hugmyndir af öðrum myndböndum, en það er ekkert á teikniborðinu í augnablikinu.
Hinsvegar erum við að fara að skjóta útgáfutónleikana okkur í Gamla Bíói 9. feb, og plönum að gefa þá út á dvd.
Hvernig steming er fyrir útgáfutónleikunum?
– er ekki að verða uppselt?
Það er rífandi stemmari og við erum þéttari en Hjalti Úrsus, æfandi á hverjum degi!
Það stefnir allt í það að það verði uppselt bráðum.
Hvað tekur við á árinu 2012 hjá Sólstöfum?
– mikið af tónleikum/túrum?
2012 verður þétt skipaðasta ár í sögu bandsins hvað tónleika varðar. Við erum með vel rúmlega 30 gigg bókuð í febrúar, mars og apríl, svo eru sumar festivölin ennþá að detta inn. Svo erum við farnir að spá í haustinu líka og það lítur allt út fyrir að við verðum meira og minna túrandi allt árið.
Hvernig er fyrir ykkur að hlusta á fyrri verk og bera það saman við þróunina sem orðið hefur á sveitinni síðastliðin ár?
Við erum ennþá mjög stoltir af öllu sem við höfum gefið út. Auðvitað finnst manni að margt mætti vera betra, en þá þarf maður bara að muna að allt var gert eins vel og efni stóðu til á þeim tíma:
í okkar eyrum er allt sem við höfum gert mjög rökrétt þróun, og við sjáum ekki þau stóru stökk sem sumir tala um að séu á milli platnana okkar.
Eitthvað að lokum?
Ég vil bara nota tækifærið og minna á útgáfutónleika okkar í Gamla Bíói þann 9. febrúar. Þar munum við spila alla nýju plötuna út í gegn með fjölda góðra gesta. Þetta verða einstakir tónleikar sem verða sennilega aldrei endurteknir:
Þakka þér fyrir stuðninginn Valli, þú ert kóngurinn!