kimono / Bloodgroup / sérstakur gestur Prins Póló
Hvar? Sódóma
Hvenær? 2009-11-27
Klukkan? 23:00:00
Kostar? 1000 kr
Aldurstakmark? 18
gogoyoko kynnir:
BLOODGROUP og KIMONO
+ sérstakur gestur, Prins Póló
Sódóma Reykjavík
Föstudaginn 27. nóvember kl 23:00
1000 kr í reiðufé
——————————————
gogoyoko kynnir tónleika og forsölu á nýjum plötum kimono og Bloodgroup á vef gogoyoko.
Einstakir og marglaga tónleikar með tveimur af fremstu tónleikasveitum landsins, sitthvoru megin á ásinum, sem eru báðar að senda frá sér nýjar plötur. Kimono sendir frá sér plötuna EASY MUSIC FOR DIFFICULT PEOPLE (Kimi Records) þann 4. desember og Bloodgroup plötuna DRY LAND (Record Records) þann 2. desember. Mikil eftirvænting ríkir fyrir þessum plötum en þetta er önnur plata Bloodgroup og sú þriðja frá kimono. Munu þær báðar fást á gogoyoko.com rúmri viku fyrir útgáfudag þar sem hægt verður að kaupa sér eintak eða hlusta á þær ókeypis.
Missið ekki af þessu óvenjulega tækifæri til að sjá báðar sveitir á sömu tónleikunum og í útgáfugír.
—————————————–
KIMONO hefur fest sig rækilega í sessi sem ein af mikilvægustu rokkhljómsveitum íslensks samtíma allt frá því hún var stofnuð árið 2001. Árið 2003 kom út platan Mineur Aggressif og var henni svo fylgt eftir með hinni goðsagnakenndu Arctic Death Ship árið 2005 sem gagnrýnendur héldu vart vatni yfir. Sama ár lagði sveitin land undir fót og kom sér fyrir í Berlínarborg og túraði sveitin nær sleitulaust í 9 mánuði um gjörvalla Evrópu til að kynna Arctic Death Ship. kimono snéru aftur á heimaslóðirnar 2006 og gaf út tilraunakenndu dub-plötuna Curver + kimono árið 2007. Stuttu síðar sagði Halldór Ragnarsson, bassaleikari, skilið við kimono og sl. 2 ár hefur hún unnið sem tríó að því að endurskapa hljóm sinn. Flestir sem heyrt hafa sveitina á tónleikum undanfarið eru sammála um að vel hafi tekist til. Lög af EASY MUSIC FOR DIFFICULT PEOPLE munu verða fyrirferðamikil í efniskrá tónleikanna auk laga af ARCTIC DEATH SHIP. Þeir sem sáu kimono á NASA á Iceland Airwaves vita að hún er hættulegt vopn á sviði og skal viðkvæmum tónleikagestum bent á að halda sig aftarlega og nærri útgöngum, enda sveitin lengi verið framar öðrum í rannsóknum á víraðri samsuðu tilraunamennsku og grípandi rokkslagara. Platan EASY MUSIC FOR DIFFICULT PEOPLE markar nýjan kafla hjá kimono en hún var tekin upp öll lifandi í Onomatopoiec, hljóðveri kimono, með Aroni Arnarssyni en hann vann einnig með sveitinni að Arctic Death Ship. Afraksturinn kemur út hjá Kimi Records, 4. desember en rúmri viku fyrir þann tíma, 26. nóvember, verður hægt að næla sér í eintak til kaups eða hlusta á hana frítt á vef gogoyoko.com
Lag af nýju plötunni má þegar heyra á www.myspace.com/kimono
Kimono á gogoyoko http://www.gogoyoko.com/#/artist/kimono
—————————————–
BLOODGROUP vöktu mikla athygli fyrir beittar lagasmíðar og gífurlega kröftuga tónleika árið 2006 og 2007 gaf þessi sérstaka fjölskyldusveit út plötuna STICKY SITUATION. Platan fékk fádæma góðar viðtökur, seldist í gámavís og var greinilegt að hlustendur kunnu að meta þeirra nálgun á hljóðgervladrifnu electroi. Bloodgroup hafa farið víða síðan þá og spilað á mörgum af helstu tónlistarhátíðum heims, s.s. Hróaskelduhátíðinni í Danmörku, Popkomm í Berlín, Eurosonic í Holland, CMJ í New York og svo mætti lengi telja. Nú kveður við annan tón og á nýrri plötu þeirra, DRY LAND, má heyra alvarlegri og þroskaðri lög eins og firsti síngúllinn “My Arms” gefur fyrirheit um. Tróndi hann lengi vel í fyrsta sæti lagalista gogoyoko. Ekkert hefur þó verið gefið eftir í háspennudrifnum tónleikaflutningi og mega tónleikagestir því eiga von á góðu. Hægt verður að nálgast plötu Bloodgroup til kaups eða hlusta frítt á gogoyoko.com frá og með 26. nóvember.
Bloodgroup á gogoyoko http://www.gogoyoko.com/#/artist/bloodgroup
—————————————–
Hin geðþekki plötu- og listmunasali úr HAVARÍ, grafíski hönnuðurinn, landshornaflakkarinn og síðast en ekki síst tónlistarmaðurinn Svavar Pétur Eysteinsson eða PRINS PÓLÓ, mun hefja kvöldið á ljóðrænu, áleitnu og stórskemmtilegum dreifbýlis-blús. Flestir ættu að þekka lagið „Átján og Hundrað“ sem sló frekar óvænt í gegn á Rás 2, og þó, Svavar hefur löngum verið þekktur fyrir bragðmikla texta úr raunveruleikanum og grípandi lagasmíðar. Hann hefur látið til sín taka með ódauðlegum sveitum eins og Rúnk og Skakkamanage auk þess að skipuleggja bestu útihátið síðari tíma, Krútt 2005 á Snæfellsnesi.
Prins Póló á gogoyoko http://www.gogoyoko.com/#/artist/prinspolo
—————————————–
Uppröðun banda og tímasetningar:
23:45 PRINS PÓLÓ
00:30 KIMONO
01:30 BLOODGROUP
—————————————-
Vonumst til að sjá sem flesta!
-gogoyoko-
Event:
Miðasala: