Month: júní 2007

Unearth, Chimaira og Lamb of God í Kaupmannahöfn

lok júní 2007

Lamb of God, Unearth og Chimaira

Fyrir nokkrum mánuðum var það tilkynnt að þessi 3 stórgóðu bönd úr amerísku metalsenunni væru á leiðinni til danmerkur og ég hugsaði mér að sjálfsögðu gott til glóðarinnar, enda ekki á hverjum degi sem manni býðst að sjá tvö af sínum uppáhalds böndum á einu bretti.

Ég á það hinsvegar til að draga hlutina á langinn og það fór ekki betur en svo að ég frestaði miðakaupum aðeins of lengi því að það var skyndilega orðið uppselt!
Eftir mikinn grát og gnístann tanna yfir þessum aulahátti hét ég því að ég muni aldrei bíða með að kaupa mér miða á tónleika sem mig langar á og fór á fullt í það að reyna að redda mér miða annars staðar.

Ég var greinilega ekki sá eini, því alls staðar sá maður auglýsingar spretta upp á hinum ýmsu síðum þar sem auglýst var eftir miðum á uppsprengdu verði. En enginn var að bjóða miða. Ég var orðinn úrkula vonar um að fá miða þegar ég fékk sms frá einhverjum gutta sem hafði séð auglýsinguna mína og bauð mér miðann á tvöföldu verði. Ég tók því undir eins enda var ég alveg til í að borga aðeins meira fyrir þetta.

Húrra – miðanum reddað!!

Tónleikastaðurinn (Pumpehuset) er einn sá besti í kaupmannahöfn að mínu mati. Hann er hæfilega lítill og í þau skipti sem ég hef verið þarna hefur sándið alltaf verið frábært.

Ég mætti hálftíma eftir að dyrnar opnuðust og skellti mér í litla röð til að komast inn þegar ég heyri Unearth byrja. Crap!! Hálftíma of snemma, miðað við auglýstan tima. En sem betur fer komst ég fljótt inn og ég missti bara af fyrsta laginu.

Unearth voru hreint út sagt frábærir! Frábær spilamennska og session trommarinn þeirra (gaurinn úr Seemless) stóð sig bara þrusuvel. Tóku meðal annars This Glorious nightmare, Giles, Sanctity of Brothers, Endless, Zombie Autopilot og Black Hearts now reign…ég man ekki alveg allt en þetta var allavegana helvíti gott! Hefði reyndar verið gaman að heyra eitthvað af The stings of conscience en það skipti svo sem litlu. Ég var hins vegar hálf hissa að Unearth byrjuðu á undan Chimaira og það þýddi að Unearth voru með stysta settið þetta kvöld.

Eftir helvíti gott slamm stökk ég niður í fatahengi til að losa mig við jakkann (hafði ekki tíma til þess þegar ég kom inn) meðan rótararnir stilltu upp fyrir Chimaira. Ég hef aldrei komist alveg 100% inn í þetta band og á erfitt með að hlusta á heila plötu með þeim í gegn án þess að missa áhugann. Veit ekki alveg afhverju þar sem bandið er alveg þrælvel spilandi og þétt. Allavegana….bandið byrjaði af krafti og sándið var eins og hjá Unearth alveg óaðfinnanlegt. Ég þekki lagatitlana ekki svo vel þannig að ég get ekki verið að telja eitthvað upp en þeir tóku mest af síðustu 2 plötum, en blönduðu líka einhverju af eldra efninu inn. Frontmaðurinn er helvíti fínn og nær vel til áhorfenda og var stemningin alveg gríðargóð. Þeir tilkynntu svo í lokin að þær væru á leið til Köben aftur í nóvember ásamt Soilwork og skítabandinu Caliban. Veit ekki hvort ég nenni á það samt…

Þá var komið að því. Chimaira luku sér af og byrjað var að stilla upp fyrir LOG. Gríðarstór banner sem fyllti allan vegginn og backline í anda stadium bandanna fyllti sviðið…jéss! Þetta var að skella á!!

Ég tróð mér fremst og var orðinn vel sveittur áður en þeir byrjuðu. Og þegar ljósin slokknuðu varð hreinlega allt brjálað! Piltarnir gengu inn á sviðið einn af öðrum og hófu leikinn á Laid to Rest. Eins og með Unearth hef ég ekki lagalistann við hendina, en þeir tóku m.a. eftirfarandi lög:
Laid to rest, Ruin, Pathetic, Walk with me in hell, Redneck, Blacken the Cursed Sun, Now you’ve got something to die for, Again we rise, Bloodletting (Burn the priest lag), Ashes of the Wake, 11th Hour ofl ofl. Kosturinn við að sjá bönd headlina á eigin tónleikum er að sjálfsögðu að þá taka þeir fullt sett og svo var einnig tilfellið þetta kvöld. Kapparnir enduðu svo á Black Label af meistarastykkinu New American Gospel.

LOG eru eitt besta live band sem ég hef séð og það er alveg pottþétt að þeir eiga bara eftir að verða stærri en þeir eru núna! Eftir tónleikana var ég svo sveittur að fötin mín voru gersamlega gegndrepa. Ég er ennþá með són í eyranu og verki um allan kropinn (2 dögum síðar) en váá hvað þetta var þess virði!

Ég held að guttinn sem nefbrotnaði í pittinum hafi orðað þetta best þar sem hann stökk á klósettið til að þurrka blóðið úr smettinu:

“Andskotinn!! Og tónleikarnir eru ekki einu sinni búnir!!”

Frábært kvöld og ég myndi hiklaust ráðleggja þeim sem hafa tök á að sjá þessi bönd að láta það ekki fram hjá sér fara!

Hirti( Crusher destroyer)