Month: maí 2007

RestingMind Concerts kynnir tónleika….

RestingMind Concerts kynnir með stolti:

Quiritatio (No)

Eina af efnilegustu þungarokkssveitum Noregs um þessar mundir!

Sveitin heimsótti Ísland um svipað leyti í fyrra og spilaði á tvennum tónleikum í Reykjavík og einnig á Road Rage hátíðinni á Egilsstöðum. Til að gera langa sögu stutta fór bandið á kostum á þessum tónleikum og var boðið til að spila á hátíðinni á Egilsstöðum aftur ásamt því að RestingMind Concerts er það mikill heiður að rétta sveitinni hjálparhönd í Reykjavík, en sveitin hefur að mestu sjálf séð um að bóka tónleika sína hér á landi í sönnum DIY anda.

Sveitin mun spila á tvennum tónleikum í Reykjavík, einum í Hafnarfirði og svo á tvennum tónleikum á Egilsstöðum, en með í för þeirra drengjanna er norski einyrkinn Peer Nic. Gundersen, sem spilar lágstemmda tónlist ala Bob Dylan og Tom Mcrae, með pönk skotnum pólitískum textum. Tónleikaplanið er sem hér segir:

Föstudagur, 1. júní – Hellirinn, TÞM, 500 kr inn, Ekkert aldurstakmark:
Uppröðun:
Quiritatio
Myra
Ask the Slave
Peer

Laugardagur 2. júní – Road Rage, Egilsstaðir
Hef ekki frekari upplýsingar um þennan atburð

Sunnudagur 3. júní – Sláturhúsið, Egilsstaðir
Hef ekki frekari upplýsingar um þennan atburð

Mánudagur 4. júní – Dillon, Reykjavík – Frítt inn! 20 ára aldurstakmark
Quiritatio
Atómstöðin
Peer

Þriðjudagur 5. júní – Gamla Bókasafnið, Hafnarfirði.
Quiritatio
Foreign Monkeys
Vicky Pollard
Peer

Er það í Hellinum 1. júní, sem RestingMind kemur að þessari heimsókn.

Bandið spilar einhvers konar postcore/metal/hardcore samsuðu og lista þeir eftirfarandi sveitir sem áhrifavalda: Cult Of Luna, Converge and Enslaved, en þó kannski einna mest undir áhrifum frá Meisturum Mastodon um þessar mundir. Síðan sveitin kom hingað síðast hefur sveitin gefið út sjötommuna Yana á tékkneska labelinu Trapped Inside Records og norska labelinu Bullet Records, ásamt því að hafa gefið áður út plötuna Forgive and Forget. Sveitin, sem hefur verið að spila saman í 4 ár, fékk svo liðsauka í fyrra þegar nýr gítarleikari gekk til liðs við þá, og telur sveitin því 5 manns í dag. Ásamt því að spila á Íslandi er sveitin á leiðinni í tónleikaferðalag um Evrópu í sumar.

Verða drengirnir með fullt af varningi til sölu á ferð sinni hérna, þ.á.m. báðar útgáfurnar sínar, boli, límmiða og hnappa.

Tónlist Peer Nic. Gundersen á sínar rætur í hefðbundinni þjóðlagatónlist frá 7. og 8. áratugnum og einnig pönk tónlist. Hann er mjög ungur og á oftast auðvelt með að ná vel til áhorfenda. Á næstunni mun EP plata koma út með honum, og mun hann spila lög af henni, efni sem mun hafa mikil áhrif á áhorfendur.

Tóndæmi með Quiritation má finna á http://www.myspace.com/quiritatio og á heimasíðu hljómsveitarinnar http://www.quiritatio.net/

Fréttatilkynning – Mínus: The Great Northern Whalekill kemur í búðir á mánudaginn

Nýjasta breiðskífa Mínus, The Great Northern Whalekill, kemur út næstkomandi mánudag, 21. maí 2007. The Great Northern Whalekill er fjórða hljóðversskífa Mínus. Síðast sendi sveitin frá sér Halldór Laxness árið 2003. Eins og allar almennilegar breiðskífur þá inniheldur The Great Northern Whalekill ný og frumsamin lög eftir hljómsveitina. Það er ekki orðum ofaukið að segja að hljómsveitin hafi aldrei vandað eins mikið til verka og á þessari skífu.

Mínus lagðist í víking til Los Angeles í nóvember í fyrra og tók upp breiðskífuna í The Sound Factory-hljóðverinu þar í borg. Engir aukvissar voru við stjórnvölinn á skífunni en það voru þeir Joe Baresi og S. Husky Höskulds. Aðstoðarupptökumaður var Jason Gossman.

Áður en Mínus-menn lögðust í víking til Bandaríkjanna höfðu þeir lengi haft höfuð í bleyti yfir því hverjir skyldu stýra upptökum á fjórðu breiðskífu þeirra. Eftir að hafa velt mörgum kostum fyrir sér var ákveðið að leggja allt í sölurnar og fengu þeir til liðs við einn virtasta upptökustjóra Íslands fyrr og síðar, fyrrnefndan S. Husky Höskulds. “Husky” hefur lengi búið Vestanhafs og hefur getið sér gott orð sem upptökustjóri. Husky lagði til við sveitina að þeir myndu fá Joe nokkurn Baresi til þess að stjórna upptökum á breiðskífunni. Joe Baresi er enginn nýgræðingur í greininni og hefur tekið upp fjölmarga af áhugaverðari tónlistarmönnum samtímans. Hljóðblöndun og hljóðhöfnun var í höndum S. Husky Höskulds í The Mute Matrix.

Um allnokkurt skeið hefur fyrsta smáskífan, Futurist, fengið að hljóma á öldum ljósvakans sem og í netheimum. Lagið gefur fögur fyrirheit um það sem koma skal á The Great Northern Whalekill án þess að vera lýsandi fyrir hana. Mínus er leitandi hljómsveit hafa hingað til ekki fest sig í neinu fari eða við tiltekinn hljóm. The Great Northern Whalekill er afar víðferm og fjölbreytt og án efa metnaðarfyllsta breiðskífa hljómsveitarinnar til þessa.

Hönnun umslags var í höndum Gunnars Vilhjálmssonar og ljósmyndir tók Börkur Sigþórsson.

Mínus hafa alla tíð verið iðnir við tónleikahald og má búast taumlausu spileríi hjá sveitinni í kjölfar plötunútgáfunnar. Sveitin hefur þegar staðfest tónleika á Nasa ásamt bandarísku Cannibal Corpse 30. júní.

Eistnaflugs upphitun.

Laugardaginn 19. maí á Classic Rock í Ármúla verður hin svokallaða Eistnaflugs upphitun.

Um er að ræða kynningu á tónleika hátíðinni Eistnaflug sem fer fram dagana 13 og 14. júlí á Neskaupsstað.
Bryddað verður uppá tónleikum og frumsýningu heimildarmyndar um Eistnaflugshátíðina sem fór fram í fyrra.

2 sýningar verða settar upp samdægurs, sú fyrri fyrir alla aldurshópa sem hefst um 18:00 leytið. 3 hljómsveitir munu
leika listir sínar og eftir það verður myndin sýnd. Seinni sýningin verður með sama sniði en að þessu sinni verður
20 ára aldurstakmark og ýmis tilboð á boðstólnum. Seinni sýningin hefst um 21:30.

Hljómsveitirnar sem leika eru Severed Crotch, Myra og Ask the Slave.

Einnig verður heimasíðan www.eistnaflug.is opnuð formlega og samstarfs samningur við krabbameinssjúk börn undirritaður.

Athugið að það er ókeypis aðgangur.