Month: apríl 2007

Zero hour o.fl.

Grandrokk, 7 apríl 2007

Zero Hour[USA] ,Hostile, Perla, Helshare

Miðað við stórborgir Evrópu er kannski ekki mikið af háklassa erlendum hljómsveitum að koma hingað til lands, en þegar jafn vel er að þeim fáu tónleikum sem hér eru haldnir staðið og raun ber vitni, skiptir það litlu máli. Hljómsveitin Zero Hour hélt tónleika á Grandrokk í gærkvöld [7. apríl 2007], og var stórkostlega að þeim staðið. Þrjár íslenskar hljómsveitir sáu um upphitun og stóðu sig allar með prýði, þá var mætingin og stemningin góð, og hljóðið til fyrirmyndar. RestingMind Concerts eiga mikið hrós skilið fyrir þennan frábæra viðburð og skemmti ég mér virkilega vel í þá rúmu þrjá tíma sem tónleikarnir tóku.

Tónleikarnir byrjuðu á slaginu ellefu, enda auglýstur tími, gott mál. Hostile stigu fyrstir á svið, með nýjan söngvara. Ég get ekki annað sagt en að nýji söngvarinn og stefnubreytingar Hostile manna séu af hinu góða. Ég tók eftir miklum og góðum mun á hljómsveitinni frá því að ég sá kappana spila síðast. Hostile stóðu fyrir ágætis spilamennsku og held ég að hljómsveitin sé farin að taka stefnuna í rétta átt.

Á eftir Hostile kom hljómsveitin Perla. Ég hafði ekkert heyrt í Perlu fyrir tónleikana og vissi ekkert við hverju ég átti að búast. Mér fannst hljómsveitarmeðlimir skemmtilega ‚ekki-metal‘-legir, og söngvarinn ákaflega hippalegur. Á þessum tímapunkti var ég farinn að verða spenntur. Frá fyrstu nótu hreif tónlist Perlu mig og eftir þessi fáu lög sem þeir spiluðu held ég að geti sagt að þarna sé á ferðinni ein af betri hljómsveitum landsins. Tilraunakenndir, þéttir og með virkilega skemmtilega sviðsframkomu, svo ég tali nú ekki um íslenskan söng auk stórkostlegs trommuleiks, hrifu þeir með sér vel flesta þá sem lögðu leið sína á tónleikana.

Síðasta upphitunarband kvöldsins var Helshare og fullnægðu þeir öllum mínum metal þörfum fyrir komandi mánuði. Svo djöfullegir voru tónar þeirra að ég hélt á tímum að þarna væri ég að líta ofan í vítishlið okkar Íslendinga, Heklu sjálfa. Kraftur Helshare var ægilegur, og þegar þeir höfðu lokið sér af hefði ég vel getað farið heim, algjörlega sáttur við tónleikana og að hafa „eytt“ skitnum þúsund krónum í þessa frábæru upplifun.

Að lokum var svo komið að Zero Hour. Fyrir tónleikana hafði ég lítillega kynnt mér efni þeirra og get ekki sagt að þeir hafi náð að hrífa mig. Allt annað en lélegir eða óáhugaverðir, en einhverra hluta vegna náðu þeir aldrei að heilla mig almennilega. Eftir tvö lög frá þeim í gær höfðu þeir þó algjörlega náð að dáleiða mig. Draumkennt hljóðfærarúnkið í bland við gríðarlega dramatíska og háa tóna söngvarans og frábæran kraft hljómsveitarinnar náði á köflum að heilla mig upp úr skónum. Ef eitthvað var þá þótti mér tónlistin reyndar vera farin að verða pínulítið einsleit undir lok settsins þeirra, en þeir urðu þó aldrei leiðinlegir.

Tónleikarnir voru í alla staði virkilega góðir, vel var að þeim staðið og upphitunarhljómsveitirnar spiluðu allar af miklum metnaði og stóðu sig vel. Hljómsveitin Perla stóð þó að mínu mati upp úr og hreif mig hvað mest. Að lokum vil ég bara þakka hljómsveitunum og öllum þeim sem komu að því að gera þessa tónleika að veruleika kærlega fyrir sveitta rokkstemningu og bestu tónleika sem ég hef komist á í langan tíma.

Jóhannes (Tommy the cat)