Mean Fiddler 15.3.03.
Isis, Cult of Luna, Dj Speedranch, Johnny Truant, 27.
Við komum okkur í biðröðina snemma. Bæði til að ná góðu svæði en þó kannski frekar til að geta eytt síðustu aurunum okkar á söluborðinu. 27 voru að hefja leik sinn fljótlega eftir að við komumst inn í hús. Þetta er þriggja manna sveit sem spilar fallega melódíu með angurværð en brutal undirtón. Minna á speisaða útgáfu af PJ Harvey. “Otherwordly pop songs” sá ég þeim einhversstaðar lýst. Hafa sent frá sér tvær plötur sem vert er að tékka á. Mér fannst þetta fullchillað við fyrstu hlustun en síðan fór söngkonan/gítarleikarinn skyndilega að berja gítarstrengina fastar og traðka á distortion pedulum og ég varð sáttur.
Síðan fórum við að gera smá grín að rokktískuklónunum sem voru að koma sér fyrir á sviðinu. Johnny Truant spila sig inn í kúlismann sem fylgir því að vera mátulega dirty rokkari. Voru þetta kvöld í Iron Maiden bolum og söngvarinn með greiðslu eins og Krummi Björgvins. Samlíkingin við Mínus hættir ekki þar því Johnny Truant spila noisecore eins og Mínus gerðu það fyrir tveimur árum eða svo. Þetta varð svo bara spúkí þegar þeir fóru að spila og söngvarinn byrjaði að skaka sig á nákvæmlega sama hátt og áðurnefndur Björgvinsson gerir á sviði. Johnny eru ágætlega flottir. Skemmtilegar lagasmíðar og mikið fjör í þeim. Fannst samt vanta upp á þéttleika og kraft sem hefði væri hægt að bæta með öðrum gítarleikara.
Hið sænska ofurþunglyndi Cult of Luna kemur dásamlega út í gegnum tónlist þeirra á tónleikum. Ég hafði aldrei heyrt eða séð þetta band áður en heillaðist gjörsamlega. Ofurþungir, mid-tempo transkeyrsla, ofurþéttir og hvert lag yfir 5 mínútur í flutningi. Mikil átök og 3 gítarar sköpuðu vegg af örvæntingu og sársauka. Tékkið á þeim.
Á svið var borið borð af græjum og plöggað inn. Dúddi með síða dredda upp úr hausnum klæddur í of þröng táningastelpuföt fór að gera hávaða a la Bibbi Curver á fylleríi. Dj Speedranch var mættur. Hann var fyndinn og skemmtilegur og keyrði ýmsa ryþma inn í mannskapinn. Hver hávaðabylgja fékk þó ekki að njóta sín nema örstutta stund. Húmorinn fór þó fljótt af þessu og sviðsmaðurinn reyndi tvisvar að tækla hann á tíma án þess að Speedranch léti sér segjast. Þá var bara lækkað í honum.
Isis voru andleg reynsla. Hófu leik sinn á tveimur lögum af Oceanic plötunni. Massíf verk sem verða svo ótrúlega massíf þegar þau skella á öllum líkamanum í þéttleika sem virkar eins og mjúkar sleggjur. Síðan í inngangi að þriðja lagi gekk söngkonan úr 27 á svið og hafði með sér eigin gítar og eigin gítarleikara úr 27. Þá hófst meistaraverkið “Oceanic” með fjórum gíturum og syntha. Hvílík mögnun. Hvílíkur veggur af ryþma, hvílíkur trans. Þetta listamannagengi teygði á verkinu enn frekar. Ég var ekki að trúa því að ég væri að upplifa þetta. Söngkonan gekk af sviði og Isis skelltu í fyrsta lagið af Celestial. Annar massívur ryþmi og við fylgdumst með hvernig hálsæðar söngvarans þöndust og strekktust eins og kaðlar. Annað verk sem ég kann ekki að nefna en þekki af Celestial plötunni kom á eftir og síðan gengu Isis af sviði. Höfðu tekið fimm lög á klukkutíma. Fáeinir reyndu að klappa þá upp en þess þurfti ekki. Þetta var fullkomið sett.
Siggi pönk