Month: nóvember 2002

FB Undirgrund

7. nóvember 2002, Undirheimar FB

Molesting Mr. Bob, Spildog, Sólstafir, Andlát, Klink

Kvöldið hjá mér hófst á því að leita af þessum stað. Ég fór í FB því einu upplýsingarnar sem ég hafði var nafn skólans. Ég og tveir félagar mínir gengum hring í kringum skólann en fundum ekkert. Þangað til að okkur var sagt að þetta væri undir sundlauginni. Við drifum okkur þangað og héldum að tónleikarnir væru löngu byrjaðir (og hefðu átt að vera það skv. skipulagi) en þeim hafði, sem betur fer fyrir okkur, verið frestað all mikið. Svo beið maður bara eftir að kvöldið hæfist og hékk og spjallaði við fólk þangað til.

Svo kom stóra stundin: okkur var hleypt inn í salinn. Stuttu seinna hófust svo herlegheitin. Molesting Mr. Bob hófu tónleikana. Ég er svo nýr í senunni að ég hafði ekki heyrt í þeim áður og var því mjög spenntur. Þeir spila pönkað noise-core og gera það bara stórkostlega vel. Synd og skömm að þeir hafi þurft að spila við þessa byrjunarstemningu, þar sem enginn er pytturinn þar sem allir eru bara að reyna að koma sér inn í þetta, því þeir spila mjög “mosh-hæfa” tónlist. Eitt af betri böndum Íslandi að mínu mati. Næstir í röðinni voru svo Spildog. Ég hef alveg með endemum gaman af þessum gaurum. Þeir spila screamo með mikla áherslu á emo. Vegna þess að þeir eru ávallt frekar lengi að stilla upp öllu draslinu, tók söngvarinn lagið svo áhorfendur þyrftu ekki að bíða. Þetta lag fannst mér alveg frábært, en hugsaði með mér að einhverjum harðhausunum hefði verið nóg boðið, þar sem þetta var mjög rólegt og poppað emo, en fagnaðarlætin eftir lagið sýndu fram á annað. Loksins byrjuðu þeir svo. Og spiluðu alveg endalaust frábæra músík. Það var líka gaman að sjá fólk mosha við rólegu kaflana hjá þeim. Mjög skemmtilegt. Á eftir Spildog komu svo Sólstafir. Sólstafir spila heavy-metal (ég hætti mér ekki út í nánari skilgreiningar, enda þarf þess ekkert) og gera það bar andskoti vel. Þeir nú samt ekkert tónleikaband þannig að margir moshararnir virtust hafa farið út að viðra sig þegar þeir stigu á svið. Ég settist niður fyrri hluta prógramsins og slappaði af við ljúfa tónana þeirra. Svo tékkaði ég á sviðsframkomunni seinna. Andlát voru næstir. Þetta death- metal-core band hefur spilað sig inn í hjörtu margra landsmanna og myndaðist því hin fínasta stemning, enda frábært band á ferð. Þeir voru mjög þéttir og stórskemmtilegir allan tíman. Og síðast en ekki síst steig svo á sviðið, hljómsveitin Klink. Klink spila NOISE-core, yfirfullt af brjálæði. Þessi hljómsveit er, að mínu mati, algjör snilld, þeir hafa aldrei klikkað í minni viðurvist. Þeir áttu í miklum tæknilegum örðuleikum, held að það hafi eitthvað verið að trommunum eða eitthvað. Það olli því að þeir kláruðu ekki sum lög heyrðist mér. Þrátt fyrir það fannst mér þeir all- svakalegir, enda þarf mun meira en einhverja tæknilega örðuleika til að buga þetta band. Ég dillaði mér mjög mikið við yndisfagra tóna þeirra, þrátt fyrir að stemningin væri ekki upp á sitt besta.

Þar með var þessum tónleikum lokið, og ég fór heim með bros á vör eftir frábæra tónleika.

Fannar öXe