11. september 2002, MH
Changer, Andlát, Snafu, DYS, I adapt
Það er ekki oft sem maður er það heppinn að geta séð jafn góða tónleika og þessa. Enda fjölbreytt lið fólks í stíl við þá hljómsveitir sem voru á tónleikunum. Ekki byrjaði þetta vel, þar sem seinkun varð á tónleikunum vegna skipulagsvandræða, en það reddaðist. Fyrstir á svið voru metahausarnir í Changer. Ég hef ekki séð changer spila í langan tíma og einhvernvegin voru þeir allt öðruvísi en ég átti von á. Sveitin var ekki jafn þétt og þegar ég sá hana seinast, en ég held samt að það hafi verið vanstillingar hjá hljóðmanni eða eitthvað álíka. Lögin hafði ég heldur aldrei heyrt og er sveitin að mínu mati að spila mun fjölbreyttari tónlist í dag en hún gerði áður. Þetta var ágætis byrjun á tónleikum, og þrátt fyrir að þetta var fyrsta band var komin smá hreyfing á pittinn. Næstir á svið voru dauðarokkararnir í Andlát. Enn er þetta hljómsveit sem ég hef ekki séð í langan tíma á tónleikum, en þvílíkur kraftur. Sveitin hefur örugglega aldrei verið betri, enda hljóðfæraskipan sveitarinnar betri en nokkurtíman áður. Siggi orðinn mun betri öskrari og sveitin ofur þétt og bara helvíti góð. Það er gaman að sjá hveru mikil þróun hefur orðið á þessarri sveit, og er alveg víst að ég bíð spenntur eftir næstu tónleikum sveitarinnar. Fólkið í salnum var alveg að trillast og er augljóst að krakkarnir eru að fíla metall! 3. band kvöldsins, Snafu, er ein besta hljómsveit sem ég veit um, ég bara fæ ekki leið á því að sjá bandið spila. Laga val sveitarinnar að þessu sinni var alveg einstaklega góð og var frábært að heyra meistara stykki eins og Web of Penelope og Sub Rosa. Allt sett sveitarinnar var með því betra sem ég hef séð frá þeim. Það var gaman að heyra í fólkinu í salnum þegar söng kafli Armchair Critic var í gangi, og var greinilegt að fólk kunni textann. Hljómsveitin DYS var næst á sviðið og kom hún mér skemmtilega á óvart. Þetta voru fyrstu tónleikarnir sem ég sé með bandinu og minnti sveitin mig á köflum á Cyco Miko (en það er nafn sólóverkefnis söngvara Suicidal Tendencies). Lög sveitarinnar glöddu mig mjög og var gaman að heyra hversu skemmtilega samansett lög sveitarinnar voru, skemmtilegt “groove” í gangi. Til að toppa þessa líka fínu tónleika var hljómsveitin I adapt, sem er að mínu mati (og margra annarra) besta tónleika sveit landsins. Það er ótúlega gaman að sjá þetta band spila og ekki er verra að sjá áhrifin sem sveitin hefur á fólkið sem þeir spila fyrir. Aðdáendur sveitarinnar voru að skemmta sér sem best, en því miður varð afskipti umsjónarmanna tónleikanna að eyðileggja smá af því gamani með því að banna fólki að fara upp á svið. Þetta var fínt kvöld og ég vona að það verði fleiri svona góðir tónleikar í bráð.
Valli