Month: mars 2002

Dordingull.com – Styrktartónleikar

Hitt Húsið 23.3.02

Andlát, Forgarður Helvítis, I Adapt, Sólstafir, Makrel. Spildog, Dys, Down To Earth, Citizen Joe, Reaper

Stundvíslega klukkan 17.00 komu Reaper sér fyrir innanum magnara og hljóðfæri, í því horni hins nýja tónleikasalar Hins Hússins, sem gegnir hlutverki sviðs. Ég sá Reaper um daginn í Músíktilraunum þar sem þeir fluttu þrjú lög af sínu öskureiða metalkennda hardcore. Þeir léku sama leikinn hér; Casper kolóður gargandi í mike-inn og Óli (sem valinn var besti trommuleikari músíktilrauna) djöflaðist á settinu undir drífandi gítar og bassa. Ég er ekki farinn að þekkja lögin þeirra enn, laganöfnin eru frábær eins og “Fimbulvetur” og eitthvað “Ég vil dreypa jarli mínum hjá þér” sem er víst ástarlag! en dettur í hug að með auknu samspili verði þeir ekki bara jafngóðir og þeir eru í dag heldur frábærir. Á þessum tíma var þegar komin dágóð hrúga af fólki í salinn og önnur hljómsveit af nýjustu kynslóð metalkenndra hardcore banda; Citizen Joe sló vel í gegn. Þeir hafa innanbands einn skemmtilegasta trommuleikara sem ég hef heyrt í lengi og lagasmíðarnar einkennast einmitt af kraftmiklu noisecore-skyldu hardcore með skemmtilegum taktpælingum. Söngvarinn syngur líka frekar en að vera að rembast við að öskra af sér hausinn (eins og ég og fleiri gera). Það var gaman að fylgjast með þeim í kvöld og verður meira gaman að fylgjast með þeim í framtíðinni.
Spildog tóku góðan tíma í að koma sér fyrir en tókst síðan að koma mér allrosalega á óvart því fyrir rúmu ári síðan sá ég þá spila og fannst þá alls ekki neitt til koma. Nú léku þeir ein þrjú lög sem öll voru löng og full af miklum pælingum. Skrýtnir taktar og furðuleg riff heilluðu mig auk þess sem annar gítarleikarinn, sem var jafnframt söngvari, argaði skemmtilega hátt. Hinsvegar leist mér ekkert á þegar hann skipti í clean söng inn á milli, mér persónuleg finnst að clean söngur sé eitthvað sem verði að fara afar varlega með í tónlist af þessari grófleikagráðu. Svo mættu þeir alveg brosa smávegis. Það er óhollt að taka sjálfa sig of alvarlega.
Makrel komu alla leið frá Færeyjum til að taka þátt í músíktilraunum. Ég sá þá kvöldið áður spila á úrslitakvöldinu sem fór fram í íþróttahöll þar sem tónlist þeirra naut sín illa, miðað við hve vel mér fannst hún hljóma þarna í kvöld. Þeir eru að gera vandaða rokkhluti sem minna mig á hljómsveitir eins og “A Perfect Circle” og nett drungalegt stuff eins og “Third and the Mortal.” Gítarleikarinn þeirra er snillingur og söngvarinn syngur virkilega vel. Mér skilst að þeir hafi sprottið upp úr því hryllingstímabili Færeyskrar rokksögu þegar allar hljómsveitir voru að apa eftir Korn. Blessunarlega hafa þeir vaxið upp úr því.
Grófleikinn helltist aftur yfir mannskapinn, sem þarna var farinn að fylla salinn, þegar Down To Earth ruddu sinni metalcore-keyrslu af stað. Slammið komst þegar vel í gang enda grófleikinn allsráðandi í þeim kjarna sem Down To Earth eru að spila. Þeir eru líka með skemmtileg viðhorfsvandamál og öskra “Fuck the System” og sitthvað fleira dónalegt og skella síðan í ruslatunnuendi þar sem allir lemja hljóðfærunum við hausinn á sér, eða það hljómar a.m.k. þannig. Þeir eru annars nýbúnir að senda frá sér demodisk- Fire Kills Children- sem grípur þeirra hamagang vel.
Dys er glænýtt pönkrokkband sem ég stofnaði með nokkrum félögum úr ýmsum áttum. Við tókum þrjú frumsamin lög og coveruðum “Progress”, gamalt lag frá bresku anarkistapönksveitinni Flux of Pink Indians. Við slógum bara nokkuð skemmtilega í gegn, fullt af fólki söng með og dansaði, og vorum svo snöggir að því að við vorum búnir með prógrammið fimm mínútum áður en við áttum að fara á svið samkvæmt tímaplani.
Þá var komið að sívinsælustu tónleikahljómsveit íslenskrar rokksögu, I Adapt. Þeir höfðu eitthvað verið að pípa um æfingaleysi fyrir giggið og voru jafnvel að pæla í að sleppa því að spila þessvegna. Svo höfðu þeir tekið netta æfingu fyrr um daginn þar sem allt small saman og það gerði það heldur betur þarna líka. Lýðurinn trompaðist og stormaði yfir sviðið með gargandi kolmannýgan Birki á herðum sér. Öll uppáhaldslög senunnar hljómuðu; “Six feet under but still worth it” og “Celabrate”, auk nýrri laga sem sanna enn betur hve frábært tónleikaband I Adapt eru. Þeir eru svo intense þessir dúddar að þeir komast nær aldrei hjá því að slasa sig á tónleikum. Tónleikagestir tóku svo vel undir að eftir þeirra sett þurfti að moka loftinu út, svo þykkt var það af svita og prumpufýlu (þessar helv. grænmetisætur).
Metalstrumparnir í Sólstöfum keyrðu í sitt epíska metal næst og gerðu það af svo miklum krafti að Addi yfirstrumpur sleit tvo strengi í fyrsta laginu. Það gerði smá hlé svo fólk náði að jafna sig áður en þeir skelltu í “Black Death”, undarlega drungalegt lag, þétt og hratt þar sem Gummi virkilega nýtur sín bakvið settið. Auk eigin laga coveruðu þeir gamalt Billy Idol lag – Rebel Yell. Kúl í þeirra meðförum en ég held að fleiri en færri tónleikagesta hafi vegna aldurs ekki haft hugmynd um hvaða lag þetta er.
Forgarður Helvítis trítluðu á svið sjálfsöruggir eftir magnaðar móttökur sem leynigestahljómsveit músíktilrauna kvöldið áður. Smá bið varð meðan Sigurgrímur trommuleikari/gítarleikari fór baksviðs og skellti sér úr leðrinu og mætti svo í fjólubláum Spandex hjólabrókum einum fata auk gulra sólgleraugna. Við smelltum í ein fimmtán lög sem öll verða á tilvonandi plötu okkar utan klassíkersins “Hóra” sem var aðallega sunginn af sveittum áhorfendum. Helvíti gaman og virkilega góður hópur af ólíku fólki mættur á tónleikana, fólk sem var ákveðið í að skemmta sér og ekki nokkur maður á fylleríi.
Andlát eru enn að verða grófari, hvernig sem það er hægt, og þeir eru líka stöðugt að verða betri. Auðvitað trompaðist allt þegar þeir voru að spila og hendur, hausar og lappir skökuðust og hentust í allar áttir. Merkilegur andskoti hvað það var mikil orka í fólki því þarna voru þessir tónleikar búnir að standa í fimm klukkutíma og eftir “Locked Away” og fleiri mögnuð, ofurþung og örvæntingarfull stórvirki heimtaði liðið aukalag. Alveg frábært.

Þetta voru magnaðir tónleikar og greinilega mikið líf í íslensku neðanjarðarrokk/metal/hcsenunni. Þarna var mikið af ungu liði sem og því eldra líka þó eitthvað aðeins hafi grisjast úr af þeim upphaflegu en nýskráning í þann dilkalausa hóp sem senan samanstendur af er greinilega í fullum gangi. Eins og Birkir minntist á þegar hann talaði til áhorfenda þá er það alveg magnað og líklega einstakt á Íslandi að svona ólíkt fólk stundi sameiginlega tónleika. Íslenskt neðanjarðarrokk tekur ekkert tillit til stereotýpunnar sem viðgengst utan hennar.
Snemma á tónleikunum tók ég eftir þremur frönskum túristastrákum sem höfðu gengið á hljóðið og komið inn af forvitni. Þegar Andlát voru að spila tók ég eftir því að þeir voru þarna ennþá og brosandi út að eyrum af hamingju í öllum hávaðanum. Ég spjallaði aðeins við þá og gaf þeim nokkra diska og þeir voru þvílíkt hamingjusamir yfir því að rekast á þessa tónleika og sjá að allir voru edrú að djöflast þarna.
Söfnunarkassi fyrir Dordingul.com var á staðnum og greinilegt að allir voru til í að gefa meira en bara klinkið sitt fyrir síðuna. Takk fyrir það öllsömul.
Upptökur af tónleikunum tókust frábærlega og geisladiskur með einu til tveimur lögum frá hverri hljómsveit ætti að komast á götuna innan fárra vikna.

Siggi Pönk

Godspeed You Black Emperor

13/03/2002 Íslenska óperan

Godspeed You Black Emperor

Standi ég í sjó og finni bylgjur sjávar leggjast að líkama mínum af einhverju afli ýta þær við mér og hætt er við að ég missi jafnvægið og riði til falls undan þunga bylgjanna. Það er eðli bylgjunnar, vatnsins og míns jafnvægis sem spilar saman í því tilfelli.

Sitji ég í húsnæði Íslensku Óperunnar undir tónleikum hljómsveitarinnar Godspeed You Black Emperor í boði Hljómalindar verða bylgjurnar sem um ræðir allt aðrar. Bylgjurnar skella ekki á líkama mínum heldur flæða í gegnum hann og skella á sál minni. Tónbylgjurnar eru svo ótrúlega margar og litlar sem flæða saman og virka stundum eins og þær komi úr öllum áttum og sameinist innan brjósts míns. En auðvitað er uppruni þeirra í samspili hugar, hjarta og handar meðlima Godspeed…, Þær vakna í leik hljóðfæranna í höndum þeirra og streyma út til mín og allra hinna í salnum, stundum var þó eins og þau væru alls ekki til staðar heldur að ég væri þarna einn, einn með tónlistinni og ekki einusinni með hljómsveitinni heldur bara einn og ekki einusinni líkamnaður lengur heldur uppleystur og fljótandi með bylgjunum eins og reykur, kipptist til þegar mest gekk á og sindraði með lágværu nótunum, grét hljóðlátlega eins og næturfugl þegar angurværðin ómaði frá strengjum þeirra og fagnaði með upphöfnum, sterkum hljómum.

Tónlist Godspeed You Black Emperor einkennist af angurværð og stígandi. Mörg verka þeirra byrja á angurværum gítartónum sem síðan kalla til liðs við sig fleiri hljóðfæri í stigmögnun þar til hámarki bylgjunnar er náð og bylgjan tekur þá enn breytingum, sveigist og beygist og hækkar án þess þó að fara út í hávaða. Á þessum tónleikum voru þau níu sem léku; þrír gítarleikarar, tveir bassaleikarar, tveir slagverksleikarar, sellóleikari og fiðluleikari. Það er enginn sem syngur, það er óþarfi því tónlist þeirra hefur eigin rödd og tjáning þeirra kemst líka til skila gegnum kvikmyndabúta sem varpað var á tjald yfir höfðum þeirra meðan á tónleikunum stóð. Í upphafi tónleikanna var orðinu “hope” kastað á tjaldið. Síðan voru myndskeið af einstaklingum sem virtust vera að upplifa einmanaleika og lífsleiða, hangandi á götuhornum og bekkjum í tilgangsleysi. Ég upplifði það enn sterkar á seinni tónleikum þeirra, þessa samkennd mína gegnum tónlistina við hina útskúfuðu, þau sem eru einmana, þau sem ekki taka þátt í iðandi mannlífinu og þau sem upplifa óréttlæti.

Mér varð hugsað sem svo að núna skildi ég hvað fólk sem segist verða fyrir andlegri vakningu og öðlist trú á guð er að tala um.

http://www.helviti.com/punknurse

Siggi Pönk

Örkuml, Graveslime

Vídalín, 12.03 2002

Örkuml, Graveslime

Það var mikil eftirvænting í mínum herbúðum þegar ég frétti að meistarar Örkuml hyggðust stíga á stokk eftir allt of langt hlé. Örkuml er ein af þessum hljómsveitum sem mér þykir hjartanlega vænt um fyrir margar sakir. Ég á margar góðar minningar frá tónleikum með þessu merka bandi, gömlu dagarnir þá er ekkert var of cool eða of lúðalegt (sakna þess). Stendur undirritaður staðfastur á því í hvívetna að 7” Örkuml sem ber hið vandaða nafn og heimspekilega “Edrú og Elskaðir” sé ein af betri plötum íslandssögunnar. Ég gæti hér skrifað dágóðann pistil um Örkuml en hef ákveðið að hlífa ykkur við því af því að þetta er jú tónleikaumfjöllun.

Ég hafði heyrt út undan mér að Örkuml tónlistin hefði tekið nokkrum breytingum en mér hafði ekki órað hversu miklar þær breytingar áttu eftir að verða. Farin er pönkkeyrslan sem maður hefur vanist í gegnum tíðina en ís staðin spilar Örkuml 2002 rólegheita “pöbbarokk”. Þessi lýsing er nú ekki réttlætanleg. Það sem ég heyrði nefnilega var þægileg og nokkuð tregablandin blanda af Nick Cave, Niel Young, Súkkat og vertíðar Bubba. Breytingin er svo mikil á tónlistinni að það er spurning hvort að þetta sé bara ekki algerlega nýtt band með nýjar áherslur. Kanski gæti nýtt nafn verið góð hugmynd. Ég veit það ekki en það væri ekki galin hugmynd þó svo að ég er alveg sáttur með gamla góða nafnið. Málið er nefnilega að breytingarnar eru ekki bara dramatískar tónlistarlega heldur hefur orðið róttækar mannabreytingar í bandi. Gamli gítarleikarinn er farinn og síðasti bassaleikari Örkuml er nú kominn alfarið yfir á gítar og söng. Það er kominn nýr bassaleikari sem er mjög flinkur og spila í hefðbundnum stíl sem minnir á gamla Ego bassaleikarann. Hentar tónlist Örkuml mjög vel en stuðlar þannig að gersamlega nýrri stemmningu. Svo er einnig nýr trommuböllur. Hans stíll er afar lágstemmdur og hæfir tónlistinni afara vel. Allt gerir þetta að verkum að tónlist Örkuml er nær óþekkjanleg (þið vitið hvað ég á við). Meira að segja Óli söngvari er allur búinn að tjúna sig niður og hæfir blúsnum í bandinu vel. Það heyrðist ekki nógu vel í kappanum þannig að ég gat ekki almennilega greint hvað hann var að raula um í textum sínum.

Ég get allaveganna ekki beðið eftir að fá tónlistina á plasti og liggja yfir textunum í makindum heima hjá mér. Þetta er mikil rólegheitamúsík og engin eru lætin við flutninginn. Ég gæti vel séð Örkuml fyrir mér túrandi um firði landsins um hávetur, spilandi fyrir þorpsbúa sem samsama sér textum og tónum þessa merkilega bands.

Þó svo að ég sakni gamla Örkumls þá er ég ekki svikinn eða bitur í þeirra garð. Þessi breyting fer þeim vel og ég tek henni opnum örmum. Ég get alltaf snúið mér af disknum og vínylnum ef ég vill gamla takta.

Graveslime voru næstir á svið en klukkan var orðin ansi margt. Það gerir engu bandi eða áhorfendum gott þegar spilað er svona seint. Samt staldraði ég við því ég vildi vita hvað Graveslime væru að bauka þessa dagana. Það er skemmst frá því að segja að þeir eru ekkert að “vimpa” á því og er samir við sig. Það er með sanni hægt að segja að Graveslime eru Íslands jolly sludge band! Þvílíkar drunur og þungi. Tempóið er hægt en þeir eru ansi duglegir í taktpælingum og óhefðbundnum kafla skiptingum sem gefur þeim sérstakt “edge”. Fyrsta lagið þótti mér magnað. Og lögin eru góð en stundum fara þeir offari í endurtekningunum. T.d. var ægilega langur endurtekningaöendir á síðasta lagi þeirra, hinu magnaða Double Damage sem er magnað lag. Endirinn var svo langur og “borandi” að sá sem ræður yfir Vídalín bað þá vinsamlegast um að hætta að spila og leggja niður hljóðfærin!! Þetta var afar skemmtilegir tónleikar hjá Grafarslíminu og hljómurinn var góður. Samt heyrðist of lítið í snerlinum. En klukkan var orðin margt og kannski hið besta mál að Graveslime hættu á þessu augnabliki. Einnig vil ég hrósa þeim fyrir magnaðar “ræður” á milli laga. Þeir lengi lifi!

Fínir tónleikar og kostaði “pönklega” lítið inná þá. 300 kr. Almennilegt.

Birkir

Örkuml og Graveslime

Þriðjudagurinn 12.mars á Vídalín

Örkuml, Graveslime

Þegar að við komum voru Örkuml byrjaðir og hljómuðu ekki einsog síðast þegar að ég sá þá! Þeir eru búnir að þróast útí eitthvað rólegt kántrý svolítið þunglyndislegt á köflum fannst mér frekar undarleg breyting samt kannski ekki. Síðan var bassaleikarinn komin á gítarinn. Þetta var fínt hjá þeim en þegar að leið á settið var mér farið að leiðast svolítið og farin að bíða eftir að þeir myndu ljúka sér af svo að Graveslime myndu byrja.

Graveslime komu síðan hressir á “sviðið” og VÁ stoner sludge grúv. Tóku 5 lög, ég náði ekki nafniu á fyrstu 2 lögunum en 3 var awesomenights in Reykjavík 4.lagið var þungarokksslagarinn Double damage og rúsínan í pylsuendanum var þeirra útgáfa af chariods of fire með vangelis sem var rosalegt við sátum þarna 3 í sófanum í góðu stuði að hlusta á þetta lag! Og þeir alveg að lifa sig inn í tónlistina.

Mér fannst ég heyra smá keim af Trans am, Iron monkey og smá trommu takta frá snilldar bandinu today is the day. Og trommarinn var ekkert að klappa settinu heldur barði hann það fast og vel. Þetta var magnað sett hjá þeim og þeir voru í góðum fíling. Mig hlakkar til að sjá þá aftur sem fyrst.

Janedoe