Hólmaseli 22.2.02.
Down To Earth, Andlát, I Adapt o.fl.
Ég rataði í Hólmasel eftir símtal við Villa Militant og korti úr símaskránni. Hávaðinn var þegar farinn að hrella nágrannana (það er alltaf hægt að finna nágranna sem láta auðveldlega hrellast) því einhver peyjahljómsveit sem ég kannaðist ekkert við og náði aldrei hvað heitir, var að skella yfir mannskapinn einföldu metalcore sem bar með sér mikinn byrjendabrag, svona eins og allar þær góðu hljómsveitir sem við þekkjum í dag voru í upphafi.
I Adapt fóru að koma sér fyrir meðan fjölgaði í salnum. Óli, trommari Fake Disorder, er farinn að tromma með þeim hardcore strumpum og virtist passa vel inn í bandið. Mig grunar að hann sé líka “hard-to-the-core” eins og þeir I Adapt menn leggja mikið upp úr í sínum tónlistarflutningi og yfirleitt í því hvernig hljómsveitin gengur fyrir sig með jákvæðum skilaboðum til áhorfenda, tónleikaferðum út á land án þess að pæla í peningunum heldur ánægjunni. Þeir sköpuðu þegar góða stemningu við slagara eins og “Six feet under but still worth it” sem allir geta sungið með og slammað við. Og það var einmitt það sem margir gerðu. Birkir var eitthvað í tæknivandamálum (ekki sterka hlið nokkurs söngvara) vegna mikrófónsnúra og fékk loks svo stutta snúru að hann gat ekki hreyft sig jafn mikið og hann er vanur. En þrátt fyrir það gaf hann fólki góð ráð og kom með tillögur um bætt ástand í samgangi manna á milli og hoppaði svo um eins og snúran leyfði. Villi missti sig, eins og hans er von og vísa, grýtti frá sér bassanum í miðju lagi og hoppaði í pyttinn. Frábært tónleikaband með virkilega grípandi lagasmíðar eins og alltaf. Ég held að þeir hafi tekið a.m.k. tvö nýrri frumsamin lög sem voru hægari og þyngri lagasmíðapælingar en þeir eru orðnir þekktir fyrir. Auðvitað gott stöff samt.
Andlát voru eftirvænting kvöldsins eftir fimm mánaða tónleikahlé. Valur orðinn annar gítarleikari, og Maggi (Stegla, Porker, Gyllinæð) kominn bakvið settið. Gamlir slagarar eins og “Locked Away” gerðu lukku og áhangendur umkringdu Sigga T til að syngja með, en nýja efnið er svo ótrúlegt að ég var ekki almennilega að átta mig á bandinu (hljómurinn ekki alltaf upp á það besta heldur) og þeir verða að gera svo vel að vera duglegir að spila á tónleikum á næstunni til að kynna nýja efnið. Smástund datt mér í hug eilíf snilld á borð við EyeHateGod en það var bara í smástund því þeir Andlátsmenn láta ekki negla sig svo auðveldlega niður. Þeir hafa orðið fyrir magnaðri þróun í æfingabúðum síðustu mánaða. Maggi setur mikinn svip á lagasmíðarnar og aukinn hraði kominn í allt prógrammið þeirra án þess að sá ofurþungi sem kenndi þá við mulningsvél í upphafi hafi nokkuð látíð á sjá. Mig hlakkar virkilega til að heyra afrakstur þeirrar stúdíóvinnu sem þeir standa í núna.
Down To Earth voru að selja demoið sitt á staðnum og stóðu náttúrulega fyrir tónleikunum í upphafi. Þeir stukku á svið og hættu svo ekkert að stökkva um sviðið, fram af sviðinu og um allan sal, fyrr en einhverntímann eftir að ég var farinn af svæðinu. Þeir skelltu sínu eitilharða metalcoreafbrigði yfir tónleikagesti af mikilli ánægju og gaman að sjá hvað þeir eru orðnir öruggir með sig og hljómsveitin öll þéttari og hraðari síðan ég heyrði lauslega í þeim á Kakóbarnum í fyrra. Söngvarinn á svo hrikaleg öskur til að rödd hans verður skerandi og trommuleikarinn heldur grind köflum þéttum og hörðum. Þetta er band sem ég spái bjartri framtíð í hávaðabransanum.
Ég vil, fyrir hönd allra sem skemmtu sér vel á tónleikunum, þakka starfsfólki Hólmasels fyrir að standa fyrir þessum tónleikum og vona að framhald verði á þessháttar framtaki.
Siggi Pönk