Month: desember 2001

Dismemberment Plan

19. desember, Norðurkjallari MH,

Dismemberment Plan, Mínus, Fídel

Mig var búið að hlakka mikið til þessara tónleika og hélt að margir hefðu gert það líka. En það kom síðar í ljós að rokkhjarta okkar Íslendinga slær ekki duglegar en það að það voru örugglega ekki miki meira en 30-40 manns í Norðurkjallaranum þegar mest var (hjá Mínus) þetta blíðviðris fimmtudagskvöld. Ég veit ekki hvað það er en þegar þotuliðinu og ljósmyndurum er “skipað” að mæta á Gaukinn þá fer lýðurinn þangað eins rollur á leið í réttirnar. Sorglegt. Fær mann til að halda að þetta “Reykjavík hot spot” þvaður sé bara skrípaleikur hinna fallegu og komi tónlist lítið við.
Allaveganna voru á svæðinu svona 5-10 manns þegar hin unga hljómsveit FÍDEL startaði kvöldinu. Ég get sagt ykkur það að ég hef ekki verið jafn heillaður af “lifandi” hljómsveit í LANGAN tíma… Fídelliðar létu fámennið ekki trufla sig heldur spiluðu eins og þeir væru að spila fyrir fullri Laugardalshöll og voru þeir duglegir að klappa fyrir sjálfum sér og virtust skemmta sér konunglega. Hljómsveitin gjörsamlega rótaði yfir nærstadda frá fyrsta lagi til hins síðasta og var erfitt að standast keyrslu þeirra og kraft og strax í þriðja lagi var mönnum það nokkuð ljóst að erfitt væri að feta í fótspor þeirra þetta kvöld! Þeirra tegund af júmbó-gítarrokki á engan sinn líka hér á landi og eru þeir kærkominn tilbreyting í annars grútleiðinlega “indie” flóru landans. Ekki skemmdi hljómurinn fyrir sem var sá langbesti sem ég hef á ævi minni heyrt í Norðurkjallaranum. Alger “veggur” af þrumum sem voru skýrar og ýttu undir góð lögin. “Indie” flokkunin er eiginlega ekki réttlát þar sem þeir drengir fara um víðan völl og eiga eins heima hjá leitandi metalhundum og hjá póstrokkurum samtímans. Fídel notaði tímann sinn vel á sviðinu og þrusuðu yfir nærstadda feikigóðum lögum sem létu mann langa í meira og var undirritaður bara hálf fúll þegar þeir þurftu að hætta.. Tónlist Fídel styngur í stúf og sem þrusu tónleikaband þá fagna ég komu þeirra inní tónleikamenningu Íslendinga sem hingað til hefur einkennst af hrútleiðinlegum og andlausum rokksvefnlistamönnum.
MÍNUS þurftu að eiga góðan dag til að falla ekkí skugga Fídel. Um tónlistarhæfileika Mínus þarf enginn að efast enda var síðasta plata þeirra Jesus Christ Bobby! ein af albestu plötum sem nokkurn tíman hefur komið út á Íslandi og ein mest spennandi hlustun síðasta árs á heimsvísu! En þetta kvöld var hljómurinn afleiddur og heyrðist nákvæmlega ekkert í öðrum gítarleikaranum. Það var miður, en á mótu heyrðust bara drunur og mest að maður greindi hávaðann úr trommusettinu og lungunum á söngvaranum. Slakt sánd þarf þó ekki að þýða slakir tónleikar. Mínus keyrðu í gegnum prógrammið af festu og öryggi en trommuleikarinn fór gersamlega á kostum. Tvímálalaust einn magnaðasti trymbill landsins! Í heildina var þetta ágætt en Mínus reyndust frekar daufir og bragðlitlir og skilduekki mikið eftir sig.
Þá var komið af því sem þessar fáu hræður sem eftir voru höfðu beðið eftir – DISMEMBERMENT PLAN. Ég vissi lítið um þá en hafði kynnt mér þá svolítið og hlustað á síðustu skífu þeirra sem ég fíla mjög vel. Þeir byrjuðu af krafti veittu tómlegan kjallarann enga athyggli. Einhvernvegin skilaði þó tónlistin sér ekki nógu vel af plastinu innan veggja Norðukjallarans en geðþekkir voru þeir og andrúmsloftið var létt sem fór sérstakri tónlist þeirra vel. Ekki treysti ég mér til að lýsa nútímalegu rokki þeirra. Eftir svona hálftíma af spili reyndist DP erfitt að halda athyggli minni og “settið” þeirra var helst til of langt enda klukkan orðin margt og komin nótt… og nóttin tilheyrði Fídel.

Staffan Olson

Seasons Beatings

The Dome – Tuffnel Park 16.desember

Length of Time, Special Move, Underule, Knucledust, BDF, Decimate, Ignoramus, Cry for Silence, Incoherence, Last hours of Torment, 50 Caliber, Downtrodden.

Vááááá…pælið í lineupi: Length of Time, Special Move, Underule, Knucledust, BDF, Decimate, Ignoramus, Cry for Silence, Incoherence, Last hours of Torment, 50 Caliber og Downtrodden. Ég þekkti að vísu ekki nærri því öll böndin þegar ég mætti á þessa tónleika… En það er alltaf gaman að kynnast einhverju nýju.

Hvað er betra en að vakna um hádegisleitið á sunnudegi og skella sér á tónleika? Það voru nokkrir gaurar sem ákvaðu að halda saman tónleika og fengu alla vini sína í senunni til að spila og skemmta sér. Þetta voru fyrstu tónleikarnir mínir á the Dome og segja má að tónleikasalurinn hafi komið mér á óvart. Orðið Bingósalur kemur upp í huga þegar maður hugsar um salinn. Það var fullt af jólaskrauti út um allt og allt frekar happy. Tónleikarnir áttu að hefjast hálf eitt en eins og gengur og gerist seinkaði fyrsta bandinu um klukkutíma… engar áhyggjur.. því tíminn var nægur. Aftast í salnum var verið að selja vegan mat og þar við hliðina var áróðursborðið, þar sem maður gat lesið allan andskotann um hræðilegt ástand heimsins í dag. Í miðjum salnum var þykk svört lína og við endan á henni var miði sem á stóð “Violence beyond this line”.. þeir sem eru viðkvæmir og þola ekki gróft mosh, hafa þá fengið góða aðvörun. En að hljómsveitum dagsins.

Downtrodden
Fyrsta band dagsins var bandið Downtrodden. Greinilega ungt band í þróun, sveitin átti ágæta kafla, en að mínu mati vantaði eitthvað á til að gera þetta að góðu bandi. Helsti galli bandins var að það vantaði samhæfingu í spil sveitarmeðlima, en söngvararnir (2 stk) stóðu sig vel og öskruðu að miklum krafti. Það var ekki mikið af liði mætt á tónleikana og ekki mikil hreyfing, en thratt fyrir thad var skemmtileg stemming í salnum.

50 Caliber
Næsta band var mun betra, enda eitthvað sem fólkið í salnum þekkti. Það sem mér persónulega fannst áberandi við bandið var lélegt bassasound, (hvort sem það hafi verið bassaleikaranum sjálfum að kenna, eða bara hljóðgaurnum hef ég ekki hugmynd um). Sveitin var samt helvíti fín og spilaði metalblandað hardcore með helvíti góðum söngvara. Eitthvað af því liði sem var mætt á tónleika fór að sýna hvað það hefur upp á að bjóða með allskonar karatespörkum og þyrluspöðum.

Last hours of Torment
Þriðja bandið. Last hours of Torment inniheldur einnig tvo söngvara eins og fysta bandið. Segja má að sveitin sé multi racial, enda aðeins einn hvítur gutti í bandinu. Öskur söngvaranna voru helvíti skemmtileg, enda söngvararnir með mjög ólíkar raddir. Annar dimmraddaður, en hinn aðeins í skrækari kanntinum. Enn og aftur er það harður metall í blandi við hardcore takta. Söngvararnir sjálfir sjáum slammið í þetta skiptið enda ekki mikið pláss á sviðinu fyrir þá.

Incoherence
Ég var búinn að sjá Incoherence einusinni áður á tónleikum með American Nightmare, og þá náðu þeir að heilla mig það mikið að ég keypti mér demoið þeirra. Enn og aftur stóðu þeir sig djöfulli vel enda vægast sagt frábært band. Lögin þeirra eru blönduð af eðal hardcore með smá emo fíling, sem er samt ekki mikið áberandi. Þegar þessi sveit gefur út disk má alveg 100% reikna með því að ég kaupi mér eintak af honum. Sviðsframkoma sveitarinnar er alveg frábær og eru flest allir á svæðinu að syngja með þar sem sveitin er greinilega vinsæl hérna í dag.

Cry for Silence
Enn og aftur er það sveit sem allir á svæðinu virðast elska. Cry for Silence eru helvíti góðir, það er bara svo einfalt, þeir eru helvíti góðir. Pile-on og Singalong. Hljómsveitin spilar skemmtilega blöndu af metal og hardcore sem virðist heppnast alveg einstaklega vel, mér hlakkar til að sjá meira með þessu bandi. Ég held að bæði Cry for Silence og Incoherence yrðu einstaklega velkomnir á íslandi og ég er alveg viss um að allir sannir hardocore aðdáendur fíli þessi bönd í tætlur. Ég er ekki viss en ég held að söngvari sveitarinnar sé nýr, þar sem hann er ekki sá sami og er á heimasíðu sveitarinnar.

Ignoramus
Gaurinn með Elvis-greiðsluna er mættur á sviðið. Án efa pönkaðasta sveit kvöldsins, hljómsveitin er að ég held ekki með neina einustu metal takta og einbeita sér að stuttum og Agnostic Front legum lögum. Sveitin er góð, en fáir tryllast í pittinum.

Decimate
Eftir stutt hlé var haldið áfram og nú er komið aftur að metalcore-i. “Are you ready for some metal”. Pitturinn er orðinn harðari og lyktin og svitinn orðin verri og meiri. Sveitin stendur sig mjög vel enn bætist við singalong..

BDF
Einn af þeim gaurum sem sá um þessa tónleika er næstur á svið með sveitinni sinni BDF. Hljómsveitin er enn og aftur alveg helvíti góð. Ég er ekkert að vera svona súper positive eða eitthvað álíka, böndin í dag hafa bara verið helvíti góð. Enn og aftur eru 2 söngvarar í sveitinni sem bæði öskra og hálf gelta. Þess má geta að annar söngvari bandins er einnig söngvari hljómsveitarinnar Knuckledust.

Knucledust
Knucledust byrja á því að gera allt vitlaust á svæðinu, pitturinn harðari en hann hefur verið og hendur og fætur fljúgandi út um allt. Hvernig í anskotanum fer fólk að því að vera í gangi í svona langan tíma. Hvað um það, hljómsveitin er geðveik, söngvari sveitarinnar er vel upphitaður eftir að hafa sungið með BDF og er nú kominn úr á ofan. Gítarleikari sveitarinnar hvetur alla til að koma nærri sviðinu, en fáir þora, þar sem ekki margir vilija fá kjaftshögg eða karatespark. Eftir nokkrar tilraunir fjölmennir kvennfólkið nær sviðinu og pitturinn minnkar. Loka lag sveitarinnar er “Shades of gray” með Biohazard og segja má að næstum allir í salnum hafi sungið með. Pitturinn þyngist og þvílíkt singalong. Þetta bætti fyrir þær fréttir að Freebase gætu ekki mætt og spilad þar sem þeir lentu í árekstri á leiðinni á tónleikana.

Underule
Underule voru fínir, en minna mig of mikið á restina af öllum þeim böndum sem hafa spilað hingað til. Sveitin spilar metalcore eins og flest öll böndin hérna í kvöld. Sviðsframkoma sveitarinnar er ekki af verri endanum, en ég sá samt ekki eitt einasta band sem ekki var skemmtilegt að horfa á (sem er ekki slæmt af 12 hljómsveitum).

Special Move
Ég held að Special Move hafi verið ein af fyndnari sveitum kvöldins, pitturinn orðinn þreyttur og fólk aðeins að hvíla sig fyrir næsta band. Hljósmsveitin spilar hardcore, enda ekki við öðru að búast. Það er smá metal fílíngur í þeim en það sem gerði þá sérstaklega fyndna var óperustælar söngvarans og gítarleikarans á milli laga.

Length of Time
Hvað er annað hægt að segja en snilld. Þetta var í 5. skipti sem sveitin spilar í London og eitt er víst… LONDON elskar LENGTH OF TIME. Liðið var alveg brjálað. Length of time spila fullt sett, og taka alla sínu helstu slagara. Þeir eru þyngri en ég hef heyrt þá áður, og ef eitthvað er að marka nýjasta lagið þeirra, þá verður næsti diskur sveitarinnar algjört meistarastykki. Í fyrsta skipti í langan tíma tók ég þátt í pittinum enda er ég með marblettina til að sanna það. Ég hef sjaldan skemmt mér jafn vel og þegar Length of time voru að spila. Þeir voru frábærir.

Ég vona að myndirnar sem við Lísabet tókum á tónleikunum takist, þar sem þetta er dagur sem ég mun lengi muna eftir. Það er möguleiki að ég skelli þessum myndum á netið ef þær eru þess virði. Allt í allt var þetta skemmtulegur dagur, en aðeins í lengri kanntinum, það hefði kannski verið betra að þekkja eitthvað af þessu fólki sem var á tónleikunum, en kannski gerist það bara með tímanum.

http://bdf.port5.com/
http://www.underule.co.uk/
http://www.50caliber.co.uk/
http://homepage.ntlworld.com/xsimon.sx/
http://members.tripod.co.uk/SpecialMove/
http://www.cryforsilence.co.uk/
http://www.lengthoftime.com

valli

New End Original

The Garage, 12. desember 2001

New End Original, One Man and his droid

Það er miðvikudagur og ég er að undirbúa mig fyrir tónleika kvöldsins. Seinna um kvöldið er áætlunin að sjá hljómsveitina New End Original (sem inniheldur fyrrum meðlimi Far, Texas Is the Reason og Split Lip). Ég var búinn að undirbúa mig með því að hlusta á mp3 skrár sem ég fékk á heimasíðu útgáfufyrirtækis sveitarinnar. Ég vissi það strax að ég myndi ekki lenda í alvarlegum slamm pitt eða eitthvað slíkt… kvöldið yrði í rólegri kanntinum. Ég hélt rosalega mikið upp á hljómsveitina Far og þá sérstaklega útaf söngvaranum. New End Original er nýja sveit söngvarana og því hlakkaði mig einstaklega mikið til að sjá bandið.

Fyrsta band kvöldins er þýska emo bandið One man and his droid. Hljómsveitin er alveg ágæt, spilar kannski full lengi fyrir upphitunarband á svona litlum tónleikum (40 mín). Á köflum minnir rödd söngvarans mig á Robert Smith (Cure) en það gengur nú ekki mikið lengar en það. Sveitin á nokkrar góðar stundir en samt er ekki sveit sem maður á eftir að leggja á minnið. Áður en New End Original komu á sviðið var spiluð góð blanda af Bítla lögum, þó aðalega lög eftir George Harrison. Við nánari athugun var búið að líma nafnið “George” á bassamagnarann til minningar um manninn.

Söngvari New End Original, Jonah, er einhver sá einlægasti náungi sem ég hef séð á tónleikum. Fyrsta lag sveitarinnar er rólegt lagt spilað á gítar með ótrúlegum söng. Eftir lagið þakkar hann innilega fyrir móttökurnar. “lets have some joy” öskrar hann og sveitin fer að rokka mun meira en ég átti von á. Á köflum fannst mér ég vera kominn á Far tónleika. Á milli laga talar hann við fólkið í salnum. Bæði um málefni heimsins í dag og einnig um sérstöðu sveitarinnar. Í kvöld klæðist hann bol með einföldu skilaboði “no war”. “Það er sorglegt að þegar einhver er drepinn… að það eina sem fólk vill er að hefna sín með meiri drápum” er orð söngvarana sem allir í salnum virðast vera sammála um. Hann talaði einnig um að New End Original sé sveit sem er bara að spila tónlistarinnar vegna, ekki til að vera cool, ekki til að verða ríkir. Hljómsveitin hefði geta fengið stórt útgáfufyrirtæki til að sjá um öll sín mál og í rauninni verið vaðandi í peningum… svo er ekki með þá… tónlistin er það eina sem skiptir máli. Það er augljóst að sveitin vill frekar spila fyrir eina manneskju sem fílar tónlistina í botn en herbergi fullt af fólki sem mætir bara á tónleika til að vera “inn”. Það er rosalega gaman að sjá hljómsveit sem leggur bókstaflega allt í tónleikana sína.

Eftir tónleikana (sem enduðu á laginu Cold Sweat eftir Sykurmolana) þakkaði jonah öllum tónleikagestum innilega með því að fara út í sal og faðma fólk, og spjalla við það. New End Orignial gæti orðið huge… en þeim er sama um það… þetta voru góðir tónleikar.

Valli

Karma to Burn world tour

5. desember 2001 – Underworld

Karma to Burn, Sixty Watt Shaman, Serefin, Taint

Við Lísabet mættum í fyrralagi á tónleikana, þegar aðeins nokkrar hræður voru í salnum. Fyrsta sveit kvöldins (Taint) byrjaði að spila og fékk fólkið til að streima inn í salinn. Taint eru tríó sem ég hef aldrei heyrt um áður. Hljómsveitin minnti mig á köflum á Clutch með aðeins pönkaðari söng. Tónlistin var þung og maður gat varla gert neitt annað en að hreyfa hausinn í takt við fínu tónlist sem sveitin skila frá sér. Þessi hljómsveitin var frábær byrjun á ansi skemmtilegu kvöldi. Næast á svið var hljómsveitin Serefin (eða eitthvað ég náði ekki alveg nafninu). Þessi sveit var nú ekkert að heilla mig neitt svakalega, minnti mig á köflum á Plasibo, sveitin átti sína sveiflur en var ekkert sem skildi eftir sig.

Á sviðið eru komnir Sixty Watt Shaman. Ég vissi hreint og beint ekkert um þetta band.. ég var búinn að heyra nafnið “Sixty Watt Shaman” áður en þekkti ekki tónlistina þeirra að neinu leiti. Alveg frá fyrsta lagi var ég heillaður, Hvernig stendur á því að þetta band er ekki orðið stærra? Tónlistin minnir mann á blöndu af Corrosion Of Conformity og Down, sem er eitthvað sem ég hef alveg einstaklega gaman af. Hljómsveitin spilaði hvern slagarann á eftir öðrum. Það er alveg rosalega gaman að fara á tónleika og vera alveg gjörsamlega “blown away”, og það gerðist svo sannarlega í þetta skiptið. Í dag er ég búinn að vera að leita að upplýsingum um bandið á netinu og ég kvet alla “stoner” aðdáendur til að gera slíkt hið saman (þeir gefa út á Spitfire Records). Alveg einstaklega heillandi band. Þetta eru síðustu tónleikar sveitarinnar á þessum þriggja vikna túr með Karma to Burn og ég held að þeir hafi spilað í meira en klukkutíma.

Nú er komið að aðalbandi kvöldins, Karma to Burn. Þetta er ekki í fyrsta skipti sem þeir spila hér í London þannig að það er nóg af fólki til að “headbanga” með tónlistinni. Fyrir þá sem ekki þekkja þá spilar sveitin einhverskonar stonersveiflu með mörgum breytilegum áhrifum. Hljómsveitin hefur gefið út diska á Roadrunner, Spitfire og Mia Records þannig það er til nóg af efni með þeim. Ég fíla þá vel, en einhvernveginn finnst mér alveg ágæt að hlusta bara á þá í geislaspilaranum, þar sem sviðsframkoma sveitarmeðlima er einföld, eins og tónlistin kannski.

Allt í allt má segja að þetta hafi verið frábært kvöld, þá sérstaklega útaf Sixty Watt Shaman, (best að fara downloada Mp3 skrám…)

ps. Bassaleikari Sixty Watt Shaman var heldur betur manneskja sem maður man vel eftir. Fyrst þegar ég sá hann minnti hann mig óhemju mikið á Smára (Quarashi, Spitsign), og var í rauninni drullu líkur honum. Sköllóttur með skegg, en tattooin hans voru eitthvað sem myndi hræða allt venjulegt fólk. Ég vona að ég geti framkallað eitthvað af þeim myndum sem við tókum af sveitinni til að syna ykkur.

Valli

Will Haven á Kerrang fest 1

London Astoria, 1. des 2001

One Minute Silence, Will Haven, Sugarcoma

Þegar ég sá þessa tónleika auglýsta fannst mér einhvernveginn þetta lineup ekki alveg vera að ganga upp. Ég pældi svo ekki meira í því þar sem éghlakkaði svo mikið til að sjá Will Haven.

Fyrsta band kvöldsins var Sugarcoma. Á meðan bandið gekk inn (3 gellur og 1 gaur) glumdi lagið “it’s a mans world” með James Brown og var það nokkuð við hæfi, þar sem ekki ber mikið á kvennaböndum í þessari tegund tónlistar. Ég skil nú ekki afhverju þetta band er að fá svona mikla umfjöllun, því þær voru hreint og beint lélegar. Þetta var mjög kraftlaust og heillaði mig engan veginn. Tónlistin var bílskúrs útgáfa af nu-metal, sem var bara ekki alveg að skila sér. Ég fór nú fljótlega að hugsa hvort að ég væri of dómharður gaganhvart þeim, og kannski væri soundið bara svona lélegt, kannski er ég bara búinn að fara á svo marga tónleika, að ég er orðinn dofinn fyrir einhverju nýju.

Allar þessar hugsanir mínar hurfu þegar Will Haven komu á sviðið. Introið þeirra var blanda af George Bush eldri (að ég held) og Manson (ekki Marilyn). Þvílíkur kraftur og fegurð hef ég ekki séð koma frá bandi í langan tíma. Sviðsframkoma sveitarinnar er án efa frábær og einstaklega skemmtileg á að horfa. Ég var bara ekki að trúa þessu, þar sem allt sem hljósmveitin var að gera gerði mig hálf orðlausann. Persónulega fannst mér skemmtilegast þegar þeir tóku lög af “el diabo”, en lögin af nýju plötunni komu alveg einstaklega vel út læf. Eftir hálftíma eða svo gekk söngvarinn af sviðinu, en restin af bandinu hélt áfram að spila þar til lagið var búið. Í lokin var spilad lag sem, sungid og samid af Charles Manson, og gítarleikari sveitarinnar hoppaði að aðdáendum sveitarinnar til að þakka fyrir sig. Þetta er band sem ég ráðlegg öllum að sjá á tónleikum.

Næstir á dagskrá voru bresku rokkararnir í One minute Silance. Bandið er greinilega í miklu uppáhaldi hjá heimamönnum þar sem allir á svæðinu kunnu textana með bandinu, og allir voru hoppandi í takt við lög sveitarinnar. Ég sá bandið fyrir nokkrum árum, og í rauninni var ekki mikill munur á þeim þá og núna. Þetta er alls ekki slæmt, en eftir að hafa séð Will haven ákvað ég að nú væri góður tími til að fara heim. Ég hef lengi fílað Will haven, en eftir þessa ótrúlegu tónleika hækkuðu þeir mikið í áliti hjá mér, ég ætla án efa að eignast allt útgefið efni með sveitinni, vá.

Það væri gaman að sjá Will Haven spila á minni stað ein Astoria, þar sem það er tónleikastaður fyrir 2-3000 tónleikagesti. Ég vona svo sannarlega að ég sjái bandið aftur, því fyrr því betra.

Valli