Vetur kynna plötuna nætur – Örviðtal

Íslenska þungarokksveitin Vetur var að senda frá sér sína fyrstu breiðskífu að nafni Nætur, en þeir gáfu áður út smáskífuna Vættir. Það er því við hæfi að spjalla við sveitarmeðlimi og kynnast sveitinni nánar. Harðkjarni hafði samband við sveitina og skellti á þá nokkrum spurningum…

Sælir, segið mér aðeins frá sveitinni Vetur.
Heill og sæll. Kristján stofnaði hljómsveitina veturinn 2009-2010 eftir að hafa fengið innblástur að semja tónlist í blackmetal stíl. Hann hafði strax samband við nokkra félaga sína úr íslensku metal senunni og setti saman hljóðverssveit. Upphaflega stóð til að gefa einungis út eina tveggja laga smáskífu, en það vatt fljótt upp á sig og lögunum fjölgaði smátt og smátt. Við tókum upp þrjú lög í Stúdíó Fossland og gáfum út smáskífuna Vættir árið 2013 hjá Tutl Records.

En Kristján var alls ekki hættur að semja og lögin héldu áfram að hlaðast upp. Áður en við vissum af áttum við nóg efni í tvær plötur af fullri lengd. Ragnar trommuleikari gaf ekki kost á sér áfram og leitaði Vetur þá út fyrir landssteinana og fékk trommuleikarann Dirk Verbeuren til liðs við sig.

Hverjir eru í sveitinni í dag?
Kristján B. Heiðarsson – Gítar, bakraddir.
Jóhann Ingi Albertsson – Söngur.
Magnús Halldór Pálsson – Bassi.
Dirk Verbeuren – Trommur.

Hvað hefur breyst hjá sveitinni frá því á fyrstu EP plötunni?
Það sem hefur raunverulega breyst er að við erum hljómsveit sem horfir fram á veginn. Upphaflega ætluðum við bara að taka upp og gefa út þessi tvö lög eftir Kristján og ætluðum ekki einu sinni að koma fram undir nafni, við ætluðum bara að læða þessu inn í kosmosinn og snúa okkur að öðrum hlutum. En Kristján hélt áfram að semja og efnið lofaði virkilega góðu. Okkur fannst við vera með eitthvað sérstakt í höndunum.

Hvenær er von á því að Vetur komi fram á tónleikum?
Það er góð spurning. Það er ekki auðvelt að svara henni samt. Dirk trommuleikari er augljóslega afar upptekinn og hljómsveitin hefur ekki æft sem hljómsveit síðan við tókum upp Bálför demóið árið 2011. Við vinnum mikið hver í sínu horni og komum svo saman, tveir eða þrír, til að fara yfir útsetningar eða texta. Eigum við ekki að segja að það muni vonandi gerast á næstu misserum? Því þetta eru góð lög sem væri svo sannarlega gaman að flytja á sviði.

Segið mér aðeins frá nýju plötunni Nætur…
Nætur kom út á netinu á degi íslenskar tungu, þann 16. nóvember 2018, en þetta var ansi löng meðganga. Kristján hafði unnið undirbúnings vinnuna mjög vel og tók upp gítardemo hjá Davíð Valdimar í Standard Studios. Davíð forritaði trommubeat í nokkur af lögunum. Þetta kom sér gríðarlega vel þegar farið var að vinna trommurnar með Dirk, þar sem hann var ekki á landinu en hann og Kristján sendu upptökur sín á milli. Dirk tók trommurnar upp sjálfur í Die Crawling stúdíóinu sínu, en allt annað er tekið upp hérna á Íslandi af ​Stephen Lockhart í Studio Emissary.
Við áttum orðið það mikið efni að ákveðið var að taka upp tvær plötur á sama tíma og gefa þær svo út með stuttu millibili. Eftir að gítar og trommutökum var lokið völdum við og röðuðum lögunum upp í tvo lista, fyrir Nætur og svo fyrir næstu plötu á eftir. Við einbeittum okkur svo að því að vinna texta og taka upp söng og bassa fyrir fyrri plötuna. Þeim upptökum lauk í byrjun árs 2018, en ekki náðist að klára að fullvinna plötuna fyrir vetrarlok eins og upphaflega stóð til. Þá var ekki um annað að ræða en að bíða með útgáfu fram á haust. Vetur gefur ekki út á vorin.
Allt þetta ferli er búið að taka í kring um sjö ár, það er því ekki skrýtið að við séum glaðir í dag þegar platan er komin út. Við gefum hana út sjálfir á netinu, en vonandi mun eitthvað útgáfufyrirtækið stökkva á tækifærið og gefa hana út í raunheimum líka.

Vetur – Nætur – gefin út 16 nóvember 2018

Eruð þið í einhverjum öðrum verkefnum?
Vetur er okkar helsti fókus í augnablikinu, en það eru líka misduglegir saumaklúbbar sem hittast af og til í æfingarhúsnæðum til að halda sér við og fá útrás fyrir þungarokksþörfina. Það er kannski helst bassaleikarinn okkar hann Maddi sem heldur sér uppteknum, en hann mun spila með tveimur sveitum á Reykjavík Metalfest á næsta ári, Forgarði Helvítis og Beneath.

Hvað er svo næst á dagskrá?
Nú fögnum við því að hafa loksins sent frá okkur fyrstu plötuna, það er ekki lítill áfangi og það er mikill léttir að hafa náð settu marki. Við förum líka að bretta upp ermar og að reyna að vekja áhuga útgáfufyrirtækja á gripnum. Næsta plata er síðan í fullri vinnslu. Við reiknum með að klára hana á næstu vikum og hún mun að óbreyttu koma út á næsta ári.
Í millitíðinni förum við líklega að vinna í að semja og útsetja fyrir þriðju plötuna. Það er kominn mappa í Dropboxið okkar sem heitir einfaldlega Plata 3, þar er allt að fyllast af demóum og hugmyndum. Hjálp, ég hef ekki undan! Ég er ekki einu sinni b….

Skildu eftir svar