Tilkynning frá Örkuml-útgáfunni

Þær válegu fregnir bárust okkur á borð þann 28.04.99, að margt fólk stæði almennt í þeirri trú að Örkuml-útgáfan hafi staðið fyrir þeim tónleikum er gengu undir nafninu Pönkið´99. Þetta er auðvitað alrangt, Því við komum þarna hvergi nærri. Einu afskipti okkar af þessu voru þau, að hringt var í okkur og við spurðir hvort að hægt væri að nota nafnið Pönk´99, og svöruðum við því þannig að það væri ekki hægt, því að við stefndum á að halda þessa árlegu hátíð í haust. Síðan fréttum við í blöðunum að nafnið Pönkið´99 var fyrir valinu sem heiti þessara títtnefndu tónleika. Fyrir annan eins frumleika og andagift verður maður auðvitað að hneigja og hrópa hallelúja.

   Nú hugsa kannski margir sem svo að við séum að setja okkur á ansi háan hest með einhverju svona rugli. En raunin er sú að við værum svo sem ekkert að setja út á þetta, ef að ekki væri fyrir það að við höfum sætt aðkasti fyrir þessa tónleika sem við skipulögðum ekki einu sinni. Að vísu má taka það fram að við teljum þetta afar fáránlegt allt saman, svo ekki sé meira sagt, en engin sérstök áform voru uppi um hvernig ætti að bregðast við þessu máli. En þá gerist það að við fáum bréf frá reiðum ungum manni (válegu fréttirnar) sem sakar okkur hálfpartinn um að vera svikarar, því að það var tuttuga ára aldurstakmark á konsertinn,o.fl. ásakanir fylgdu, og gengur hann meira að segja svo langt að skila okkur geisladisknum “Verð að fá meira” sem við gáfum út síðastliðið haust með þeim orðum að hann vilji ekki fá meira af Örkuml.

Okkur finnst það afar hart að við þurfum að svara og jafnvel að gjalda fyrir tónleika sem við héldum ekki. Og því efnum við til þessara skrifa, þannig að þetta mál komist á hreint. Reyndar er kannski ágætt að taka það fram að lokum, að við fórum nú á þessa tónleika og börðum “dýrðina” augum, og eftir það segjum við hiklaust að ef að við hefðum skipulagt þessa hátíð ættum við skilið að vera lamdir.

http://www.isholf.is/orkuml

Fyrir hönd pönknefndarinnar og Örkuml-útgáfunnar:

Ólafur Guðsteinn
Örkumlamaður og nýverið hedonisti. 

Ólafur Guðsteinn

Skildu eftir svar