Efnisorð: System Of A Down

System of a Down – Heiðurstónleikar 2. september á Gauknum

Nú er komið að því að heiðra rokk/metal hljómsveitina System of a Down í annað sinn en sveitina þarf vart að kynna.

S.O.A.D. var stofnuð í Kaliforníu árið 1994 og hefur gefið út 5 plötur en þær hafa selst samtals í yfir 40 milljón eintökum. Hljómsveitin hefur vakið athygli fyrir pólitíska ádeilu í textum sínum og áhrif frá Armenskri þjóðlagahefð en þeir eiga allir rætur að rekja til Armeníu.

Tónleikarnir verða haldnir á Gauknum föstudagskvöldið 2. september. Síðast komust mun færri að en vildu og því er ráðlegt að tryggja sér miða í tíma.

Heiðurssveitina skipa:
Stefán Jakobsson – Söngur
Finnbogi Örn Einarsson – Söngur
Hrafnkell Brimar Hallmundsson – Gítar
Þórður Gunnar Þorvaldsson – Gítar/hljómborð/söngur
Erla Stefánsdóttir – Bassi/söngur
Sverrir Páll Snorrason – Trommur

20 ára aldurstakmark

System Of A Down - Toxicity

System Of A Down – Toxicity (2001)

American –  2001

Á nokkra ára fresta koma út diskar sem standa upp úr og gefa þér gæsahúð við hverja hlustun.
Toxicity er einn þeirra diska sem stendur upp úr núna í ár og segja má að System of a down hafi tekist mjög vel við að sanna sig í heimi rokktónlistarinnar með þessum snilldar disk. Eftir margar sögusagnir um breytta tónlistarstefnu hljómsveitarinnar (sem mistekst sífellt meðal Nu Metal banda), hefur sveitin náð að senda frá sér mjög þéttan og kröftugan disk. Einhvern vegin bjóst ég alls ekki við svona þungum disk frá þeim og er það því ótrúlega frískandi að hljómsveit komi með svona ferskan disk, án þess að vera spara kraftinn til að fá aukna útvarps spilun. Sveitinni hefur tekist að stækka aðdáenda hóp sinn mjög mikið og seldist fyrsti diskur sveitarinnar aðeins í nokkur þúsund eintökum í fyrstu söluviku plötunnar, en segja má að salan á Toxicity hafa farið framar vonum, enda seldust vel yfir 200.000 eintök í fyrstu viku útgáfu.
Hljómsveitin eyddi mörgum mánuðum í hljóðveri við upptökur á disknum,og tók upp heilan helling af lögum. Eftir það tók svo við val á þeim 14 lögum sem finna má á disknum (það eru að vísu 15 lög með aukalaginu). Það var hinn margrómaða pródúser Rick Rubin (Slayer, Beastie boys, Red hot chili peppers) sem tók upp plötuna og segja má að upptakan sé eins góð og hún gerist. Alveg frá fyrsta lagi “Prison Song”, er ég alveg heillaður. Við taka lögin Needles og Deer Dance, sem halda kraftinum áfram og halda manni við hlustun, ekki er verra að hafa áberandi rödd söngvarans Serj Tankian til að leiða mann áfram í gegnum diskinn. Textarnir fjalla um bæði persónulega hluti söngvarans auk og pólitískra skoðanna sem hann er sko ekki feiminn að fjalla um. Nokkrir texarnir á disknum fá mann til að brosa, enda ekki við öðru að búast við þegar maður hlustar á lög á borð við Bounce .. er hann virkilega að tala um gormastöng eða hvað sem það kallast?
Margir diskar innihalda einungis einn slagara, eða eitt laga sem maður setur á fyrst til að heilla vini sína, en svo er ekki með þennan disk, því það er ekki eitt einasta lélegt lag á þessum disk. Þau eru fjölbreytt og mis þung en yfir heildina eru þau öll bara helvíti skemmtileg. Ég held að þessi diskur eigi eftir að vera lengi í geislaspilaranum hjá mér og ég held einnig að ég fái seint leið á honum.

Valli

System of a down - Steal This Album

System of a down – Steal This Album (2002)

Americana/Columbia –  2002

FUCK THE SYSTEM

System of A Down vöktu athygli á sínum tíma fyrir ferska nálgun á fjöruga metaltónlist, og svo fyrir að vera frík. Furðulega málaðir og skrítnir. Þeir ná nokkuð vel að halda þeim skammti af ferskleika, svo langt sem hann náði, í framhaldinu af sinni útgáfu af ameríska draumnum.
Ef ég man rétt koma meðlimir SOAD upphaflega frá Armeníu og einhvernveginn hefur mér alltaf fundist metalrokk System of A Down hljóma nokkuð sérstakt út á það. Þeir eru alls ekki eins og hitt dótið sem spratt upp í kringum Slipknot/Korn/Nu-Metal bylgjuna. SOAD náðu að markaðssetja sig sem einstaka útgáfu af þessari bylgju.
“Steal This Album” hefst á einkennismerki þeirra; kraftmikilli og endurtekinni keyrslu einfaldra og grípandi gítarriffa sem brotin eru upp með stuttum stoppum til áherslu þar sem eitt eða fleiri hljóðfæri halda áfram með söngvaranum í fullkomnum takti áður en kraftmikla riffið byrjar aftur. Endurtakist eftir þörfum. Þetta er reyndar einkennismerki lagasmíða innan allrar Nu-Metal bylgjunnar en sérstaða System of a Down felst einmitt í því að þeir eru meiri furðufuglar en töffarar og reyna ekki að selja sig unglingsstúlkum út á kúlið. Lögin verða alltaf svolítið skrítin frekar en að af þeim leggi fnyk af hárgeli, líkamsræktarstöðvum og ljósabekkjum. Það er mjög jákvætt. Söngröddin er líka skemmtilega einkennilega hátt upp og beiting hennar blátt áfram frekar en hamast sé við að ná fram drengjahörku.
Sú uppskrift að nýrokkaðri lagasmíð sem lýst er hér að ofan heldur áfram alla plötuna í eilítið mismunandi útfærslum; inn á milli eru tvírödduð viðlög, stundum er einfalda, grípandi upphafsriffið spilað hægar en fyrst og söngvarinn gaggar eins og hæna í “F**k the System” en annars eru öll lögin keimlík þar til kemur að “Roulette.” Það lag er eina tilraun SOAD við rómantík. Kassagítarplokk og selló framreiða angurværa hljóma og tvíraddaður söngur flytur harmljóð. Þetta tilbrigði þeirra missir nokkuð marks og minnir á slappa útgáfu af einhverju eftir Red Hot Chili Peppers. Hið harmræna fer SOAD ekki sérlega vel. Kraftur er í hverju hinna fimmtán laganna fyrir sig en lögin fylgja þeirra einóma uppskrift svo vel að “Steal This Album” þreytist fljótlega. Hljómur er allur góður enda Rick Rubin að verki.
Þegar hlustað er eftir skilaboðunum í tónlistinni er inn á milli hörð ádeila á markaðssetningu hins daglega lífs; “advertising causes me therapy” (Chic’n’sty), sprengjuregnið sem framleitt er af stórfyrirtækjum er ætlað sakleysingjum þessa heims og framleiðslan réttlætt með því að þetta sé óvinir frelsis og lýðræðis; “the bottom line is money/nobody gives a fuck/thousand of children go hungry/while billions are spent on bombs/creating death showers” (Boom).
Mér hefur alltaf leikið forvitni á að vita hvort að hljómsveitir sem markaðssetja sig sem uppreisnarseggi hafa eitthvað raunverulegt að segja þeim sem hlusta. Verða skilaboðin bara hluti af fjörinu eða ná þau að koma einhverri marktækri byltingarhugsun að hjá hinum almenna unglingi sem kaupir? Er ekki ádeilan á öfgakapitalismann dottin um sjálfa sig þegar skilaboðin eru markaðssett af stórfyrirtæki sem er eign enn stærra öfgakapitalistafyrirtækis; Sony? Eða segjum við bara eins og byltingarsinnarnir Chumbawamba og Rage Against the Machine; að rétt sé að neyta allra bragða til að koma mikilvægum skilaboðum til æskufólks og alls almennings?

S.Punk

System of a down

SOAD hafa í hyggju að gefa út sína fjórðu plötu í desember. Að sögn Serj Tankians söngvara ku platan vera fjölbreytt.Tankian hefur einnig verið að vinna að lagi með Tom Morello og Brad Wilk( Audioslave) í tengslum við pólitísku samtökin Axis of justice.