Efnisorð: Spotify

The Entity (Sororicide) komin á Spotify!

Eitt þekktasta verk íslenskrar dauðarokkstónlistar, The Entity með Sororicide, er nú komið í hinn stafrænaheim á Spotify. Platan var upprunalega gefin út árið 1991 og hefur síðastliðin ár verið illfáanleg. Fyrir áhugasama um þennan tíma íslensks dauðarokks, er einnig hægt að nálgast safnplötuna Apocalypse með hljómsveitunum Sororicide, Inmomoriam og Striaskóm nr. 42 á spotify

Aðspurður sagði Bogi Reynisson efirfarandi liggja eftir sig um

Hlið helvítis hafa verið lokuð of lengi, gakk inn og ver glaður, það eru skilaboðin sem lesa má út úr því að The Entity sé loks komið á Spotify.
Annars nota ég ekki spotify og hef ekki hlustað á The Entity síðan sirka 1992… þannig að hvað veit ég?

Gísli söngvari bætti við:

Ég er mjög sáttur við að platan sé á spotify, þá getur fólk hlustað á plötuna eftir réttum leiðum. Ef að fólk hefur áhuga á svona fornminjum

Foo Fighters með nýtt lag og myndband

Hljómsveitin kom rokkheiminum á óvart í dag er hún skellti laginu Run á netið bæði á youtube í formi myndbands og aðra miðla á borð við Spotify, Itunes og fleira. Lagið er öllu þyngra en sveitin hefur verið þekkt fyrir síðastliðin á og myndbandið afar vel unnið. Hægt er að hlusta á lagið eitt og sér hér að neðan, og einnig horfa á umtalað myndband:

Nýja breiðskífa Danzig komin út.

Nýjasta útgáfa Meistara Danzig er komin út um allan heim og er hægt að nálgast plötuna á öllum helstu miðlum (Spotify/Apple Music/ofl). Skífan, sem ber nafnið Black Laden Crown,  hefur fengið misjafna dóma um allan heim, en þó sérstaklega út af upptökugæðum plötunnar.  Kappinn lætur það ekkert á sig fá, enda áttunda breiðskífa hans,  en á henni í viðbót við Danzig sjálfan eru þeir Tommy Victor úr prong (á gítar og bassa), og eftirfarandi trommarar:

Joey Castillo úr Queens of the stone age, Eagles of Death Metal, Mark Lanegan, Zilch, Wasted Youth og Goatsnake
Johnny Kelly úr Type O Negative, A Pale Horse Named Death, Kill Devil Hill
Karl Rockfist úr ýmsum sænskum böndum og nokkrum minni rokk böndum.
Dirk Verbeuren úr Megadeth, Soilwork, Scarve, Aborted, The Devin Townsend Project,

Fyrir áhugasama er hægt að nálgast plötuna í heild sinni hér að neðan:

BoneSplitter með ný lög á netinu

Bandaríska hljómsveitin BoneSplitter skellti í dag 3 laga smáplötu á netið, en hægt er að hlusta á plötuna á öllum helstu miðlum (Spotify, iTunes, Google Play og AmazonMusic). Í hljómsveitinni eru Brendan “Slim” MacDonald (Bury Your Dead, Bring Me The Horizon, Blood Has Been Shed), Shane Frisby (pródúser frir Unearth, The Ghost Inside, Deez Nuts), Adam DuLong (Cannae), og Evan Garcia-Renart. Hægt er að hlusta á plötuna hér að neðan í viðbót við að sjá myndband við lagið “The Low Road” af sömu plötu:

Dimma 2017 - Ljósmynd: Ólöf Erla

Dimma kynnir nýtt efni, plötu og útgáfutónleika (Örviðtal)

Íslenska þungarokksveitin Dimma sendi frá sér nýtt lag að nafni Villimey núna í vikunni, en lagið verður að finna á tilvonandi breiðskífu sveitarinnar Eldraunir sem gefin verður út á næstu vikum. Það er því við hæfi að skella nokkrum spurningum á meðlimi sveitarinnar til þess að grafa örlítið dýpra…

Til hamingju með nýja lagið, og um leið nýju plötuna
Takk fyrir það! Þetta er búið að vera skemmtilegt ferli sem hefur staðið yfir í um 6 mánuði. Við byrjuðum á því að vinna með hugmyndir í húsnæðinu og taka upp demo í góðum gæðum þar, allt multitrackað og flott. Þá sjáum við heildarmyndina á plötunni og gátum gert okkur grein fyrir hvernig þetta væri að koma út sem heild. Við tókum plötuna svo upp í Sundlauginni undir stjórn Haraldar V Sveinbjörnssonar, en þetta er í fyrsta sinn sem við vinnum með pródúser. Það virkaði svakalega vel og Halli kom með fullt af flottum pælingum að borðinu. Ívar Ragnarson mixar svo og Haffi Tempó masterar. Ólöf Erla meistarahönnuður sér svo um útlitið á plötunni en hún gerði m.a. Vélráð á sínum tíma og margt annað fyrir okkur. Gussi kvikmyndagerðarmaður er að vinna efnir fyrir okkur og margir fleiri koma að þessu dæmi. En þetta eru allt topp fagmenn sem hafa unnið gríðarlega mikið með okkur og það er mikill heiður að hafa svona flott fólk með okkur í liði.

Hvernig tengjast plöturnar Myrkaverk, Vélráð og Eldraun?
Platan Eldraunir er í raun síðasti hluti af þríleik sem tengist lauslega og hófst með útgáfu plötunnar Myrkraverk árið 2012 en þar var yrkisefnið öll þau mannanna verk sem framin eru í myrkrinu og skuggahliðum mannlífsins. Á Vélráð, sem kom út 2014, ræddi um þá klæki sem mannfólkið notar til þess að beygja náungann undir sinn vilja og ná yfirhöndinni og völdum í samskiptum sín á milli. Eldraunir er svo um erfiðleikana sem við mætum hvert og eitt í lífinu á meðan við berjumst áfram til að vinna okkur brautargengi í köldum og hörðum heimi. Þetta eru ekki beint konsept plötur, en það er þema í gangi sem tengir þær saman.

Um hvað fjallar nýja lagið Villimey?
Það er nú ekki góður siður að útskýra texta, fólk verður að fá að tengja við það sjálft. En það er augljóslega saga í gangi þarna og þetta er um persónu sem hafði áhrif á sögumanninn. En umfram það er þetta túlkunaratriði hvers og eins. Guðjón Hermansson ljósmyndari og leikstjóri gerði myndbandið og það kom hrikalega vel út hjá honum. Hans túlkun er einmitt aðeins önnur en við lögðum upp með sem er svo athyglisvert og fallegt við texta, þetta er allt svo afstætt og dularfullt.

Er kominn útgáfudagur á Eldraun?
Við stefnum á að Eldraunir komi út um miðjan maí. Það verður CD, Spotify, og allt það. Við gefum út sjálfir. Dimma er algjörlega sjálfstætt dæmi, við sjáum um öll okkar mál sjálfir, gefum allt út sjálfir, höldum tónleika sjálfir og almennt séð höfum alla taumana í okkar höndum. Það er auðvitað hrikalega öflugur hópur sem vinnnur með okkur en það eru alltaf þessir fjórir vitleysingar sem stýra.

Við erum síðan að setja í gang verkefni á Karolinafund þar sem við ætlum að gefa fólki kost á því að hjálpa okkur að framleiða og gefa út Myrkraverk, Vélráð og Eldraunir á vinyl. Það verður um mjög flottar útgáfur að ræða. Allt á tvöföldum gatefold vinyl með bónus tónleikaupptökum sem hafa ekki komið út áður.

Er nýja efnið í beinu framhaldi af eldra efni eða er einhver tónlistarlega þróun þar á milli?
Við erum nú búnir að vera í stanslausu stríði í næstum 7 ár. Spilað stanslaust og gefið út plötur og dvd diska. Eldraunir er líklega 9. útgáfan sem þessi hópur sendir frá sér á þessum tíma. Við nálguðumst þessa plötu með einfaldara hugarfari en áður. Hún er þyngri, harðari og hraðari og í raun einfaldari en okkar fyrri plötur. Þetta er eiginlega bara við að spila í hljóðveri. Engir strengir og ekkert svoleiðis, örfá auka element sem koma inn, karlakór, píanó og svoleiðis en það eru alveg í lágmarki.
Þetta er klárlega okkar þyngsta plata til þessa.

Nú verða væntanlega heljarinnar útgáfutónleikar um allt land ekki satt?
Jú að venju erum við með mikið af tónleikum bókaða, byrjuðum að undirbúa Eldrauna “túrinn” seint á síðasta ári. Við verðum út um allt á næstu mánuðum, t.d. Eistnaflug, Þjóðhátíð og svo alveg fullt af eigin tónleikum.

Það verða risastórir útgáfutónleikar í Háskólabíói laugardaginn 10 júní. Þar verður allt draslið sett í 11. Við ætlum líka að hafa gott partý þarna því DJ Kiddi Rokk ætlar að spila þungarokk í andyrinu áður en salurinn opnar og við ætlum að hafa góða stemningu á staðnum.

Við byrjum samt sumarið á Kaffi Rauðku á Siglufirði 25 maí, förum svo á Græna Hattinn 26 og 27 maí.

Miðasala á allt þetta er á midi.is : https://midi.is/tonleikar/1/10030/DIMMA-Eldraunir

Verður eitthvað framhald á samstarfi ykkar við Bubba eða Sinfóníuhljómsveitina?
Það var alveg geggjað að fá að spila með Bubba, það samstarf gekk gríðarlega vel og við gáfum saman út tvær plötur og DVD og eitt giggið var sýnt í sjónvarpinu, svo spiluðum við út um allt með honum. Það samstarf opnaði klárlega margar dyr fyrir okkur og kynnti okkur fyrir stórum hópi fólks sem ella hefi ekki kynnst okkur. Að auki var bara svo frábært að kynnast og vinna með Bubba, hann er auðvitað alveg magnað kvikyndi. En það er ekkert meira planað með honum, en hver veit hvað gerist í framtíðinni. Hann er heiðursmeðlimur Dimmu og ef hann hringir þá svörum við strax.

Sama með SinfoNord, alveg magnað að spila með svona flottu tónlistarfólki. Við spiluðum á nokkrum uppseldum tónleikum í Hofi og Eldborg og gáfum út plötu og DVD með þeim auk þess sem þetta var sýnt í sjónvarpi. Svona dæmi er alveg svakalega þungt í vöfum enda vel á annað hundrað manns sem koma að þessu verkefni. En sama þar, ekkert meira planað en við værum alveg til í meira!

Eitthvað að lokum?
Já, okkur langar að þakka þeim risastóra hópi sem stendur á bakvið okkur. Kemur á tónleika, hlustar á tónlistina og er í sambandi við okkur á samfélagsmiðlum og annarsstaðar. Þetta er alveg ótrúlega hvetjandi og fallegur hópur og við vitum að það eru mikil forréttindi að fá að spila tónlistina sem við elskum fyrir allt þetta fólk. Þannig að við gætum aldrei þakkað þessu fólki nægjanlega vel fyrir okkur.

Endless Dark með nýja plötu: Hereafter Ltd (Örviðtal)

Íslenska rokksveitin Endless Dark hefur sent frá sér nýja breiðskífu að nafni Hereafter Ltd, sem hægt er að nálgast á iTunes, Google Play og einnig ámiðlum eins og Spotify. Það er því við hæfi að spjalla við sveitina um nýju útgáfuna…

Til hamingju með nýju plötuna, hvað heitir hún og hvað er hún búin að vera lengi í vinnslu?
Takk kærlega vinur. Platan heitir Hereafter Ltd. og er okkar fyrsta breiðskífa. Hún er búin að vera nákvæmlega sex ár í vinnslu, aðallega vegna mikilla mannabreytinga í gegnum árin.

Hverjir eru hljómsveitinni núna (voru ekki mannabreytingar?)
Árið 2015 voru tvær mannabreytingar. Þá hættu Guðmundur Haraldsson (gítar) og Rúnar Sveinsson (trommur) en í stað fengum við Alexander Glóa Pétursson á gítar og gamla trommarann okkar Daníel Hrafn Sigurðsson á trommur. Í augnablikinu erum við sjö talsins:

Rúnar Geirmundsson (öskur)
Viktor Sigursveinsson (söngur)
Daníel Hrafn Sigurðsson (trommur)
Atli Sigursveinsson (gítar)
Alexander Glói Pétursson (gítar)
Hólmkell Leó Aðalsteinsson (bassi)
Egill Sigursveinsson (hljómborð, öskur)

Segið okkur aðeins frá plötunni, er einhver sérstakur þemi á plötunni (svona útfrá umslagi plötunnar)
Já, öll lögin á plötunni eru byggð á frumsaminni sögu eftir Atla Sigursveinsson. Sagan gerist í framtíðinni þar sem þriðjungur mannkyns eru vélmenni. Í stuttu máli segir sagan frá manni sem reynir að bjarga syni sínum, sem er vélmenni, þegar illir andar hafa tekið yfir vélmennin og breytt þeim í óstöðvandi drápsvélar.

Hverjar hafa breytingar verið á sveitinni (tónlistarlega séð) frá stofnun og þar til í dag?
Helstu breytingar tónlistarlega séð er að við fáum innblástur úr fleiri tónlistarstefnum en áður. Fyrir þessa plötu hlustuðum við t.d. mikið á eldra rokk á borð við Rush og Genesis og kvikmyndatónlist eins og Blade Runner eftir Vangelis. Á plötunni má því heyra fjölbreyttar kaflaskiptingar, allt frá harðkjarna-riffum yfir í hljómborðskafla í anda níunda áratugsins.

Hvenær á að fagna útgáfunni með útgáfutónleikum? (já eða tónleikaferðlagi)
Útgáfutónleikarnir verða að öllum líkindum seint í apríl með öðrum vinahljómsveitum en það kemur í ljós á næstu vikum.

Er von á myndbandi?
Já, við gerum líklegast eitt myndband í viðbót við þessa plötu. Þangað til mælum við með að fólk horfi á myndböndin við Dr. Delirium og Warriors sem eru bæði á nýju plötunni.

Við hverju má búast við frá sveitinni núna í ár?
Eftir þessa plötu verða miklar mannabreytingar í hljómsveitinni. Viktor er að hætta sem söngvari og útgáfutónleikarnir verða því einnig kveðjutónleikar eftir 10 ára samvinnu. Rúnar Geirmundsson mun síðan taka við söng og öskrum og lagasmíð verður því af öðru tagi.

Eitthvað að lokum?
Við viljum þakka fyrir allan stuðninginn í gegnum árin og sérstaklega þakka þér Valli, fyrir að spila lögin okkar á Rás 2 án þess að vera beðinn um það. Við vonum að þið hlustið á, njótið og deilið nýju plötunni með öllum sem þið þekkið.

Hægt er að hlusta á plötuna í heild sinni hér að neðan, en ekki gleyma að hægt er að versla hana hér:
-Google Play: http://bit.ly/2n9r0Ai
-iTunes: http://apple.co/2n23Nja