Efnisorð: Skurk!

Árslisti dordinguls / harðkjarna – 20. bestu Íslenskar útgáfur 2017

Árið 2017 var sérstaklega gott tónlistarár, ekki bara í erlendri útgáfu heldur líka hér á íslandi, upphaflega áætlunin var að gera top 5 lista, en það var bara of mikið af góðri tónlist í boði þetta árið. Hér að neðan má sjá árslista dordinguls/harðkjarna yfir bestu 20. útgáfur ársins 2017:

1. GodChilla – Hypnopolis
– Hvað gerist ef maður blandar hressandi brimbrettarokki við niðurdrepandi dómdagstóna þungarokksins? Bara ein besta rokk útgáfa sem Íslensk hljómsveit hefur sent frá sér í áraraðir. Frábær sveit með frábæra breiðskífu, þetta er ein af þeim hjómsveitum sem allir landsmenn verða að kynnast og það helst strax.

2. Grit Teeth – Let it be
– Það var mikið! Ég var búinn að bíða eftir þessarri plötu í langan tíma, en gleðifréttirnar eru þær að biðin val vel þess virði. Hrár harðkjarni frá sveitinni sem nær að sameina alla rokkaðdáendur landsins.

3. LEGEND – Midnight Champion
– Enn og aftur kemur Krummi á óvart, ekki er þetta bara ein af betri plötum á hans ferli sem tónlistarmanns, heldur er hún í þokkabót virkilega vel útsett og einhvernveginn hálf rómantísk raftónlsitarplata blönduð með kröftugu rokki.

4-5. Sólstafir – Berdreyminn
– Tímamótapata frá Sólstöfum, með snilldar lög á borð við Silfur Refur, Ísafold og Bláfjall. Plata sem gengur lengra í fjölbreytileika en fyrri plötur, en nær samt að vera rokkaðri en margur grunaði.

4-5. Katla – Móðurástin
– Fyrsta plata Gumma og Einars sem hljómsveitin Katla, þvílík byrjun á sveit. Hljómsveit sem fangar Íslenska póst blackmetal senuna á heilli breiðskífu.

6. Ham – Söngvar um Helvíti Mannana
– Það er ekkert grín að fylgja á eftir verki eins og Svik Harmur og Dauði, en þetta tókst þeim. Alltaf þegar gaman þegar hljómsveit nær að toppa seinustu breiðkskífu með enn betri lagasmíði.

7. Auðn – Farvegir Fyrndar
– Frábær framhald fyrsti plötu sveitarinnar. Það er ástæða fyrir því heimurinn hefur tekið eftir þessarri sveit og mun þessi plata gera ekkert nema gott fyrir framtíð sveitarinnar.

8. Beneath – Ephemeris
– Þriðja breiðskífa þessa mögnuðu dauðarokksveitar og örugglega þeirra besta. Með lög eins og Eyecatcher, Ephemeris og Cities of the Outer Reaches sannast snilldin á bakvið sveitina í heild sinni.

9. xGADDAVÍRx – Lífið er refsing
– xGADDAVÍRx er ein af þeim hljómsveitum ísland hefur alltaf vantað. Hver einasta útgáfa sveitarinnar er betri en sú síðasta, reiði, hraði og harðneskja í fallegum og góðum pakka.

10. Une Misère – 010717
– Það er bara einn galli við þessa útgáfu, ég vill meira! Lögin 3 eru frábær og það er það eina sem skiptir mái við þessa útgáfu.

11. Dauðyflin – Ofbeldi
12. Skurk – Blóðbragð
13. World Narcosis – Lyruljóra
14. Skálmöld – Höndin sem veggina Klórar
15. Dimma – Eldraunir
16. Mammút – Kinder Versions
17. Dynfari – The Four Doors of the Mind
18. CXVIII – Monks of Eris
19. Glerakur – The Mountains Are Beautiful Now
20. Röskun – Á brúnni

 

Skurk: Blóðbragð, ferlið og framtíðin – Örviðtal!

Hljómsveitin Skurk sendi nýverið frá sér plötuna Blóðbragð (hægt að kaupa hér), en á plötunni er ekki bara að finna norðlenskt þungarokk í háum gæðum heldur fjölbreytta og skemmtilega plötu sem meðal annars nýtir sér tónlistarmenntun norðannmanna með því að fá Tónlistarskóla Akureyra til að taka þátt í upptökunum með klassískum strengjahljóðfærum, sem gefa plötunni virkilega skemmtilegan blæ. Upptökuferlið var ólíkt því sem vanalega gerst í þungarokksheimnum hér á landi, og því við hæfi að skella á sveitina nokkrar spurningar.

Það væri kannski gott að byrja á að kynna sveitina fyrir þá sem ekki þekkja, hvaðan kemur sveitin Skurk og hverjir eru í henni? 

Skurk var stofnuð árið 1990 á Akureyri, og starfaði til ársins 1993. Þegar hljómsveitin hætti fóru sumir meðlimirnir í aðrar hljómsveitir, en aðrir hafa ekki spilað síðan. Svo árið 2011 komu þrír af gömlu meðlimunum saman aftur með annan trommara. Sá hætti svo snögglega árið 2013, og með nýjum trommara var komin sú liðskipan sem er enn í dag: Guðni Konráðsson – söngur og gítar, Hörður Halldórsson – gítar og stöku bakraddir, Jón Heiðar Rúnarsson – bassi, og Kristján B. Heiðarsson – trommur.

Hvað var þessi plata búin að búa í ykkur í langan tíma?

Árið 2013 tókum við upp EP-plötuna Final Gift, sem kom út árið eftir. Strax þá voru komnar einhverjar lagahugmyndir, en ferlið fór í gang fyrir alvöru seinni part 2014. Það var samt svolítið öðruvísi en venjulega, því frekar en að semja eitt lag í einu unnum við út frá gítarriffunum. Eins konar „riff by riff“. Sum lögin voru upphaflega sólókaflar í lögum sem okkur þótti of löng, og önnur lög urðu til þegar við hittumst allir fjórir til að slípa lögin til fyrir upptökurnar. Svo urðu fleiri þættir eins og stúdíóin og strengjasveitirnar til þess að lengja tímann enn frekar og við höfðum í raun ekki reiknað með. Það tók nefnilega auðvitað tíma að semja kaflana utan um okkar lög og vinna það allt ásamt því að taka svo upp.

Hvaðan kom hugmyndin um Blóðbragð?

Á einhverjum tímapunkti áttuðum við okkur á því að við vorum með afar stóra plötu, löng lög og endalaust af sólóum. Við ákváðum að prófa að syngja á Íslensku, og eftir að þýða ensku textana sem komnir voru sáum við ákveðið mynstur, einhvern atburð sem gerðist í köldu, íslensku landslagi. Þá kom sú hugmynd upp að prófa að gera þemaplötu. Það vatt upp á sig og tókst mjög vel að okkar mati. Í stað þess að segja sögu með byrjun og endi segir hvert lag á sinn hátt frá sama atviki. Textarnir fjalla um stúlkuna Mjöll, hvernig líf hennar endar með morði og einnig er skyggnst inn í hugarheim þess sem verður henni að bana. Sagan er í raun komin frá gömlu Skurk-lagi sem hét The Night Before Yesterday. Í dag er það sama lag titillag plötunnar – Blóðbragð. Titill plötunnar var reyndar löngu ákveðinn, en gamli enski textinn setti tóninn fyrir það sem platan fjallar um.

Hvernig fjármögnuðuð þið upptökur og vinnslu á plötunni?

Í stað þess að borga allt úr eigin vasa eins og er svo algengt fórum við þá leið að setja upp söfnun á Karolina Fund. Þar gat fólk keypt eintök af plötunni með hinum og þessum auka“hlutum“, og fór það svo að við söfnuðum töluvert meiru en lagt var upp með. Hins vegar var ferlið við útgáfu plötunnar dýrara en búist var við, og því borguðum við sjálfir einnig dágóða summu. Án þessarar söfnunar hefðum við samt einfaldlega ekki getað gert plötuna eins vel og við vildum, það er bara þannig.

Hvernig var að vinna með Tónlistarskólanum á Akureyri og hvernig kom það til?

Strax eftir fyrstu gítarupptökurnar fórum við að spjalla við Hauk Pálmason, sem var þá aðstoðarskólastjóri Tónlistarskólans, um möguleikann á því að vinna þetta verkefni með okkur. Hugmyndin var sú að gefa nemendum skólans tækifæri á að vinna verkefni sem væri örlítið út fyrir normið í skólanum og gæfi nemendum víðari sýn á tónlist. Einnig vildum við bara fá krakkana til að spila þungarokk! Við urðum mjög glaðir að finna svo svona rosalega jákvæða strauma frá öllum í skólanum, bæði kennurum og nemendum. Okkur var bent á að tala við Daníel Þorsteinsson varðandi það að semja og útsetja fyrir plötuna, og hann var sem betur fer meira en til í þetta. Hann er mjög fær og útkoman er vægast sagt frábær.

Nú var eitthvað vesen í framleiðsluferlinu, hvað var í gangi þar?

Já, það var frekar svekkjandi allt saman. Fyrst lentum við í nýlegri lagasetningu í Póllandi, hvar diskurinn var framleiddur, sem gerir það að verkum að allt sem er sent til landa utan Evrópusambandsins er stoppað í 2-3 vikur í einhverri leiðinda skriffinnsku. Þegar við fengum loksins upplagið af diskunum til landsins kom í ljós að það var gallað. Við höfðum samband við verksmiðjuna úti, og þeir fundu ekkert í sínum fælum eða framleiðsluferli, en hins vegar heyrði samstarfsaðili okkar í Póllandi gallann í sínum disk, tók það upp á videó og sendi verksmiðjunni. Það var því pressað nýtt upplag og því gallaða fargað hér heima. Við þurftum samt auðvitað að bíða aftur í 2-3 vikur eftir nýja upplaginu. Skriffinnska er ekki okkar besti vinur, það er á hreinu.

Nú þegar platan er loksins komin út, hvað tekur við?

Við spiluðum á Eistnaflugi í sumar, og erum með stóra tónleika í bígerð í haust. Einhvers konar útgáfutónleika. Það er svo sem ekkert planað, en það er ekkert ólíklegt að það fari að fæðast einhverjar lagahugmyndir, hvort sem okkur líkar betur eða verr.

Hvernig er annars að vinna að breiðskífu í dag, tekur nútíminn enn mark á svoleiðis?

Það er enn fullt af fólki sem vill fá vöruna sína í hendurnar, geta haldið á hulstrinu á meðan það hlustar á tónlistina. En tímarnir eru vissulega að breytast, og margir vilja bara hafa stafrænar útgáfur sem eru miklu meðfærilegri. Við nálguðumst þetta með því að pressa geisladisk eins og venjulega, og bjóða einnig upp á mjög veglega stafræna útgáfu með alls konar aukaefni, þ.á m. voru allar gömlu upptökur sveitarinnar og slatti af videóum frá ’91-´93. Hvort tveggja mæltist mjög vel fyrir.

Eruð þið tilbúnir með efni í nýtt Skurk ævintýri?

Eins og minnst var á áðan er ekkert ólíklegt að einhver riff fari að skjóta upp kollinum, en í sannleika sagt erum við bara enn að jafna okkur eftir þetta langa og stranga, en jafnframt mjög gefandi ferli sem var að koma þessari plötu frá okkur. Við gáfum allt okkar í hana, og það skilaði sér með frábærri útkomu sem við vonum að sem flestir geti notið með okkur. Við þurfum bara aðeins að anda eftir þetta allt og spila á nokkrum tónleikum til að hlaða í næstu plötu. En við erum hvergi hættir, það er alveg ljóst.

Hægt er að versla plötuna beint af bandinu hér: skurk.is/store

Skurk: Heimildarmynd um gerð nýju plötunnar: Blóðbragð.

Í kvöld klukkan átta (Föstudagskvöldið 31.mars) munu hljómsveitin SKURK opna streymi á youtube af heimildarmynd um gerð plötunnar Blóðbragð. Í myndinni er farið yfir 2 1/2 ára ferli að gerð plötunnar allt frá Skíðadal að stúdíóinu í Hofi. streymið má finna á vefslóðinni https://youtu.be/ebbWvOV_vOc

Fyrir áhugasama er hægt að hlusta á plötuna í heild sinni á miðlum eins Spotify, í viðbót við að versla gripinn beint frá sveitinni.

Refsing með Skurk

Íslenska rokksveitin Skurk sendi frá sér nýtt lag af tilvonandi breiðskífu núna í vikunni, en breiðskífa þessi hefur fengið nafnið Blóðbragð og verður gefin út 1. mars næstkomandi. Jóhann Ingi Sigurðsson gítarleikari hljómsveitarinnar Beneath er þessa dagana að hljóðblanda gripinn, en þangað til er hægt að hlusta á lagið Refsing hér að neðan:

Skurk refsir

Hljómsveitin Skurk skellti nýverið glænýjulagi á netið, en lagið verður að finna á tilvonandi breiðskífu sveitarinnar Blóðbragð sem vonandi verður gefin út fyrir lok ársins. Lagið sem hér um ræðir ber nafnið Refsing og hlítur auðveldlega að teljast þeirra besta efni til þessa:

Skurk taka Gaggóvest ásamt Magna og Val Hvanndal ofl.

Akureyska hljómsveitin Skurk ákvað að fagna 70 ára afmæli Gunnars Þórðarsonar og 30 ára stórafmæli lagsins Gaggó Vest með því að taka það upp og deila með þeim sem vilja hlusta.

Með Skurk eru söngvararnir Magni Ásgeirsson, Valur Hvanndal og sérstakur gestur er Björgvin (Böbbi) Sigurðsson.

Fyrir 5 misserum fengu meðlimir Skurk frábært tækifæri að vinna að tónleikum með Eiríki Hauksyni og spila þekktustu rokklögin sem hann hefur sungið og svo nokkrar ábreiður sem bandið og Eiríkur völdu saman. Tónleikarnir voru skemmtilegir og lög frá gullaldartímabili þungarokksinns m.a. með Dio, Black Sabbath, Thin Lizzy, Artch, Drýsli hljómuðu um tónleikasalinn við góðar undirtektir viðstaddra. Eitt lag varð án efa að taka og það var lagið Gaggó Vest sem Eiríkur flutti á plötunni Borgarbragur 1985. Skurkarar vildu auðvitað ólmir taka það því að þarna var lag sem hefur einhvernveginn tengt eightís poppið við rokkið ótrúlegum böndum. Gunnar Þórðarson hefur samið og útsett lög með böndum eins og Hljómar, Trúbrot, Flowers, ðe lónlí blú bojs og Ríó Trío og þau lifa sterkt í minningu landsmanna, alveg sama hvaðan það kemur og hvernig tónlist það hlustar á í dag, og Skurkarar eru þar engin undantekning. Úr varð að Skurkarar gerðu eilitlar áherslubreytingar til að aðlaga lagið að þungarokksuppsetningu og lagið gerði fína lukku. Eftir útgáfu fyrstu plötu Skurk, Final Gift júní 2014 var ákveðið, þar sem að bandið hafði ekki tök á að túra eins mikið og það vildi, að fara í það verk að taka upp lagið. Bandið fékk til samstarfs þá félaga Magna Ásgeirsson og Val Hvanndal Halldórsson til að tækla sönginn sem Eiríkur gerði svo stórkostlega vel á upprunalegri útgáfu lagsins. Í miðjum upptökum stakk Böbbi svo hausnum inn í stúdíóið og fékk strax hlutverk kennarans og það má segja að Böbbi myndi ekki þurfa að kljást við agavandamál í sínum bekk….nokkurn tímann, miðað við frammistöðu hans í laginu. Haukur Pálmason tók upp og hljóðblandaði ásamt Herði Halldórssyni gítarleikara Skurk sem sá um upptökustjórn.

Norðurjarinn

Skurk

Hvar? Gamli Gaukur
Hvenær? 2014-11-22
Klukkan? 20:00:00
Kostar? 1000 kr
Aldurstakmark? 20

 

Tónleikar með Hljómsveitinni Skurk
Húsið opnar kl 20:00
Tónleikar hefjast kl 21:00
Inngangseyrir: 1000 íslenskar krónur
Skurk Gaf út fyrr á þessu ári hljómdiskinn Final Gift og loksinn eru þeir að koma til stórborgarinnar til að rokka lýðinn. Skurk hefur ekki setið með hendur í skauti í sumar en í Nóvember mun Skurk hefja upptökur á næsta hljómdisk sinn sem er áætlaður í útgáfu í Maí/Júní. Því má alveg reikna með því að bandið frumflytti einn eða tvo málmslagara 22 nóvember á Gauknum.

Event:  https://www.google.is/?gws_rd=cr&ei=dj9zU4e-HOWyywPl-oKgCw
Miðasala: 

Skurk!

Norðlenska þungarokkshljómsveitin Skurk, sem meðal annars inniheldur Hörð Halldórsson (gítarleikara hljómsveitarinnar Changer), er komin saman aftur. Hljómsveitin spilar klassíksann Thrashmetal og er verið að undirbúa endurkomutónleika sveitarinnar.

Hörður hafði þetta um bandið að segja…

…við erum ryðgaðari en bert járn á skuttogara en mjög viljugir…

…sem ætti að vera góðsviti. Hægt er að kynna sér sveitina á nýrri fésbókarsíðu sveitarinnar hér.