Efnisorð: Sacred Reich

Nýtt lag með Sacred Reich

Bandaríska hljómsveitin Sacred Reich sendir frá sér nýja breiðskífu í sumar að nafni Awakening, en það er Metal Blade Records útgáfan sem gefur út efni sveitarinnar. Hljómsveitin mun gera betur en það, því einnig er von á spilt plötu með Sacred Reich og Iron Regan 19. apríl næstkomandi. Lagið á á split plötunni “Don’t Do It Donnie” er nú í boði á youtube (og hér að neðan). Umrædd skífa verður aðeins gefin út í 1000 eintökum.

Nýja platan “Awakening” var tekin upp af Arthur Rizk, en hann hefur meðal annars unnið Cavalera Conspiracy, Power Trip og Code Orange. Þetta er fyrsta breiðskífa sveitarinnar síðan árið 1996 þegar sveitin gaf út plötuna Heal, en þá var í sveitinni trommarinn Dave McClain, sem síðar gekk til liðs við sveitina Machine Head. Nú er Dave aftur genginn til liðs við sveitina og sveitin tilbúin með nýja plötu og nýja orku.

Hægt er að hlusta á umrætt lag hér að neðan:

Sacred Reich - Ignorance

Sacred Reich – Ignorance (1987)

Metal Blade –  1987
Heimasíða Sacred Reich
Sacred Reich @ MySpace

Árið er 1987, það er síðla árs og thrash metal bylgjan tröllríður þungarokksheiminum mínum svo um munar. Sveitir eins og Metallica, Slayer, Dark Angel, Testament, VoiVod, Nuclear Assault og Possessed hafa ráðið ríkjum í hljómflutningstækjum mínum í þrjú ár. Þungarokk, brennivín, sítt hár, C64, leðurjakkinn minn með göddum röðuðum í pentagram á báðum ermum og gallavestið með Slayer – Live Undead bakmerkinu er það eina sem skiptir einhverju máli fyrir mig. Ég hef ávallt stært mig af því að hafa verið nokkuð vel með á nótunum yfir því sem er að gerast í þungarokksheiminum og á þessum tíma var ég sífellt í leit að nýju efni. Plötubúðirnar Grammið og Steinar töldust nánast til daglegra viðkomustaða hjá mér og Plötubúðin á Laugaveginum var einnig vinsæl því þar fór ég til að sérpanta allt það sem ég fann ekki í búðunum. Það tók tíma og talsverða vinnu að verða sér út um fréttir og nýtt efni en ég átti líka nokkra félaga erlendis sem ég skrifaðist á við sem bentu mér á stöff til að tékka á. Ein sveitanna sem mér var bent á af félaga mínum í San Fransisco var nýtt band frá Phoenix í Arizonafylki Bandaríkjanna sem bar nafnið Sacred Reich. Ég hafði þá séð nafn þessarar sveitar á þakkarlistum sumra eftirlætissveita minna ásamt því að meðlimir þeirra sáust á mynd í bolum með logoi bandsins. Því hélt ég rakleiðis í Plötubúðina og skellti inn pöntun fyrir nýútkominni fyrstu plötu þeirra sem bar titilinn Ignorance, sem ég fékk svo í hendurnar rúmu tveimur vikum seinna.

Er heim var komið var platan rifin samstundis úr nærbrókinni og skellt á gamla Pioneer plötuspilarann minn sem þá þegar var orðinn klístraður af sígarettuöskublönduðu brennivínssulli og hljóðstyrkur settur hátt yfir það sem eðlilegt telst á mannmörgu heimili. Það er ekki erfitt að lýsa fyrir aðdáendum þessarar plötu þeirri gleðitilfinningu sem ég fékk við þetta tækifæri, en luftgítar og hárhristingur var kominn á fullt þegar á Death Squad, sem er fyrsta lag plötunnar. Ignorance hefur allt sem góð thrash metal plata þarf að innihalda og mikið meira til. Hratt og pönkað heildarattitude í bland við níðþunga heavy metal mid-tempo kafla lýsa henni í fáum orðum, raunsæir og andpólitískir textarnir eru hreint frábærir og Phil Rind, söngvari og bassaleikari sveitarinnar, skilar þeim til áheyrenda eins og bálreiður mótmælandi í ræðupúlti. Gítarleikararnir Jason Rainey og Wiley Arnett eru hreint afbragðsgóðir en þeir ná strax á þessari fyrstu plötu sveitarinnar að negla sitt trademark sánd sem hæfir ofbeldisfullri tónlistinni afar vel en báðir voru þeir líka mjög góðir tæknilega þannig að standardinn var alltaf hár í tónlist Sacred Reich. Rjóminn í ísnum er hins vegar trommuleikarinn Greg Hall. Ég vil meina að ásamt Dave Lombardo og Gene Hoglan, þá var hann sá besti sem thrash metal bylgjan gat af sér. Allur trommuleikur á plötunni er „spot-on“ til að ná fram áherslum í riffunum og drifkrafturinn og grúvið sem hann skapar í sumum kaflanna hreinlega öskrar á þig að hrista hausinn.

Bill Metoyer, sem hafði þá skapað sér stórt nafn innan geirans þar sem hann var meðal annars maðurinn bak við hljóðblandanir á flestu sem Slayer hafði sent frá sér sér, sá um hljóðið á Ignorance og finnst mér hann hafa í raun skapað þessa sögulegu plötu ásamt meðlimum hljómsveitarinnar. Sándið er hrátt og aggressíft, en eins og ég minntist á, þá setja meðlimir sveitarinnar háan standard á tónlistina með frábærum hljóðfæraleik og vönduðum lagasmíðum sem Metoyer bakkar algerlega upp með póleruðu sándi á réttum stöðum. Tek sem dæmi Layed To Rest sem er stutt og melódískt gítarspil sem fade‘ar á stórkostlegan hátt yfir í þunga og melódíska byrjun á titillaginu Ignorance. Öll platan er vitnisburður um frábært samstarf hljómsveitarinnar við Bill Metoyer og hún á klárlega skilið sæti við hlið bestu platna þessara ára.

Áður en ég hóf þessi skrif þá hafði ég dóminn 5/6 í huga, þar sem þessi plata er klárlega skyldueign fyrir unnendur öfgatónlistar og sérlega innan thrash metal stefnunnar, en ég get bara ekki með neinu móti fundið eitt einasta atriði sem dregur plötuna niður frá því að vera meistaraverk.

What we do now is the key to the future
We’ll only have ourselves to blame
For arming the world with the tools of destruction
Our ignorance means death

Atli Jarl Martin

Sacred Reich - Independent

Sacred Reich – Independent (1993)

Hollywood Records –  1993
Heimasíða Sacred Reich
Sacred Reich @ MySpace

Fyrir mína parta verður Sacred Reich ávallt ofarlega í huga mér þegar kemur að áhuga mínum á tónlist, því allt frá því að ég heyrði (og kolféll) fyrir Ignorance fyrst árið 1987, þá 14 ára gamall, þá hefur sveitin verið í miklu dálæti hjá mér. Flestir mínir samtímamenn þekkja vel til eldri platna þeirra og nánast undantekningalaust taka luftgitar og heddbang þegar lög á borð við Ignorance, Surf Nicaragua og American Way eru spiluð, enda óhætt að segja að þar sé tímalaus klassík á ferðinni.

Independent er þriðja plata Sacred Reich í fullri lengd og kom hún út árið 1993 eða þremur árum eftir að þeir sendu frá sér meistaraverkið The American Way. Á þeirri plötu fóru liðsmenn í svolítið öðruvísi sálma en aðdáendur bjuggust við, það var hægt á ferðinni og meira rými skapað fyrir aðrar tónlistarlegar áherslur. Þeim tókst það með eindæmum vel og platan fékk lof gagnrýnenda fyrir að vera svolítið „outside the box“ án þess þó að sveitin tapaði sérkennum sínum. Independent má alveg kalla tónlistarlegt framhald The American Way upp að vissu marki, en sérkenni sveitarinnar, hápólitískar og bálreiðar textasmíðar og hnausþykkur og árásargjarn thrash metall eru bara ekki til staðar í þessu framhaldi. Í staðinn einkennast nær allar lagasmíðar hennar af fremur ódýrum mid-tempo barningi, ef frá er talið titillag hennar, sem má segja að sé einasta lagið sem viðheldur einkennum sveitarinnar að fullu. Það urðu trommaraskipti í sveitinni fyrir upptökur á þessari plötu þegar Greg Hall ákvað að yfirgaf félaga sína. Í staðinn var fenginn ungur trymbill að nafni Dave McClain sem síðar átti eftir að gera garðinn frægan með Machine Head.

Eins og ég minntist á eru lagasmíðarnar á plötunni nánast einn stór mid-tempo barningur og þrátt fyrir að hljóðfæraleikur og sánd á henni sé mjög gott, enda enginn annar en Dave Jerden sem sá um að fikta í tökkunum meðan á upptökum stóð, þá er eins og neistinn sé ekki til staðar. Riffin eru hálfmáttlaus og hugmyndasnauð á köflum og það sem hefur ávallt stungið mig mest er hversu máttlaus Phil Rind er bæði í söng og textasmíðum laganna. Sem dæmi fyrir þessu hugmyndaleysi í lagasmíðunum þá er riffið í titillaginu nánast spilað eins í laginu Open Book, nema bara örlítið hægar. Ég ætla ekki að segja að þetta sé slæm plata, nema eingöngu í samanburði við þeirra eldra efni og ég hef velt því fyrir mér hvort þessi plata hefði ekki verið í meiri metum hjá mér ef einhver önnur sveit hefði gefið hana út.

Atli Jarl Martin