Efnisorð: Örviðtal

Katla kynnir nýtt lag: Nátthagi + Örviðtal (UPPFÆRT!)

Íslenska rokksveitin Katla sendir frá sér plötuna Móðurástin 27. október næstkomandi, en í sveitinni eru þeir Guðmundur Óli Pálmason (fyrrum trommari Sólstafa) og Einar Thorberg Guðmundsson (Fortíð, Potentiam), en í dag frumflytur hljómsveitin lagið Nátthagi af umræddri skífu á sérvöldum miðlum um allan heim (Harðkjarni!). Það er því við hæfi að skella nokkrum spurningum á Einar og sjá hvað hann hefur um þetta allt að segja, en áður en það er við hæfi að spyrja fyrst út í nýja lagið..

Í dag fær almenningur að heyra lagið Nátthafi af plötunni Móðurástin, um hvað fjallar lagið?

Ef ég lít á Móðurástina sem eins konar ferðalag í gegn um árstíðir (sem ég geri gjarnan), þá er Nátthagi klárlega hásumar plötunnar. Lagið er fullt af jákvæðri orku og eljusemi. Ég bað Gumma um að semja einhvern uppbyggjandi texta við þetta og hann var sammála því að annað væri varla hægt. Hann skrifaði Nátthaga textann sem fjallar um ljósið og vonina sem fylgir nýjum degi, þegar sólin endurfæðist með vorinu og líf kviknar á ný. Við erum svolítið týndir í horfnum tímum og hér á öldum áður hefur vorið að sjálfsögðu haft allt að segja um afkomu fólks á Íslandi. Þetta lag er tónfræðilega séð, framhald af fyrsta laginu sem við gáfum út og heitir Kaldidalur, en tilfinningin og andrúmsloftið eru algerlega andstæð.

Hver prýðir forsíðu plötunnar Móðurástin og er þetta þema plata?

Forsíðufyrirsætan heitir Fanney Ósk Pálsdóttir og prýðir öll þrjú coverin okkar, ss. fyrir vínilinn, geisladiskinn og aukaútgáfuna. Svo minnst sé á aukaútgáfuna, þá samanstendur hún af ljómyndabók með myndum eftir Gumma og aukadisk með endurhljóðblöndun á öllum lögunum frá hinum ýmsu listamönnum. Fanney er líka framan á umslaginu á Ferðalok smáskífunni okkar sem við gáfum út 2016. Fyrir utan reynsluna sem hún hefur frá fyrri fyrirsætustörfum þá var hún líka nokkuð augljóst val þar sem hún og Gummi eru par.

Hún táknar þarna ungu móðurina sem þarf að bera út barnið sitt. Það var raunveruleiki sem þekktist á Íslandi þegar ekki var nóg að bíta og brenna. Oft voru það þjónustustúlkur eða þá þrælar sem höfðu eignast óvelkomin börn húsbónda sinna.

Rauði þráðurinn í gegn um plötuna er Ísland og íslensk náttúra og aftur á móti fólkið í landinu, kynslóðir og arfleifð. Náttúran er einn helsti mótunarvaldur okkar þjóðarsálar og við höfum báðir mikinn áhuga á samtvinningu hennar við íslenska sögu og menningu.

Platan er tileinkuð fjölskyldum okkar og við héldum miklu af vinnunni innan hennar. Fyrir utan það sem ég áður nefndi, þ.e. ljósmyndir eftir Gumma og módelið Fanneyju, get ég talið upp handskrift eftir sjálfan mig, gestasöng systur minnar Sylvíu Guðmundsdóttur í titillaginu og upptöku frá 1934 eftir langömmu hans Gumma í útgangspunkti titillagsins.

Hvernig kom hugmyndin um að stofna Kötlu?

Eins og margir vita var Gumma bolað út úr eigin hljómsveit sem hann átti þátt í að stofna og hafði starfað við í 20 ár. Það sem sjálfsagt færri vita er að við Gummi höfum unnið saman að tónlist áður, ekki bara með hljómsveitinni Potentiam heldur höfðum við einnig unnið að verkefni sem náði aldrei af stað vegna mikilla anna með öðrum hljómsveitum (og þá aðallega hljómsveitinni hans). Ég man eftir spjalli við hann þar sem hann sagðist vera hættur að gera tónlist. Ég sagði honum að hann þyrfti ekki að hætta að skapa tónlist þótt hann kannski myndi ekki njóta sömu velgengni og áður. Hann myndi alltaf hafa sköpunarþörf. Ég veit nú ekkert um hvort það hafði einhver áhrif á þetta eða ekki, en hann var allavega stuttu síðan farinn að hóa saman í nýja hljómsveit. Hann segist sjálfur ekki geta setið aðgerðalaus með fullt af hugmyndum í höfðinu. Ég skil þá tilfinningu vel. Þetta ferli bara einhvernveginn endaði þannig að við stóðum eftir tveir inni í hljóðveri og það hefur reynst mjög vel þar sem við höfum mjög svipaðar hugmyndir um hvað við viljum gera og hvernig við viljum haga því.

Hvernig gengur að vinna saman, þegar þið eruð ekki í sama landinu?

Þegar ég bjó í Noregi, þá unnum við saman að hugmyndum á netinu. Við vorum með alls konar aðferðir við það en það sem kannski hjálpaði mest var heimastúdíóið mitt þar sem ég gat demóað lögin. Ég ferðaðist til Íslands fyrir upptökur á plötunni og tók líka sumt upp erlendis (eins og gítara og bassa). Núna er ég búsettur aftur á Íslandi en ég er ekkert svo viss um að það komi til með að breyta neitt rosalega miklu um það hvernig við vinnum saman. Við erum báðir uppteknir með vinnu, nám og fjölskyldu þannig að við skipuleggjum flest okkar símleiðis eða í gegn um netið.

Hvenær má eiga von á tónleikum eða tónleikaferðalagi?

Það er mikið búið að spyrja okkur hvenær við spilum tónleika. Það er líka búið að bjóða okkur hingað og þangað. Við höfum í fullri hreinskilni ekki nennt að spá í því. Sköpunin er það sem við þrífumst á og tónleikar eru eitthvað sem krefst mikils tíma og vinnu en gefur ekki það sama af sér. Auðvitað gætum við dottið í gírinn hvenær sem er og ákveðið að setja eitthvað saman en sú umræða er enn á algeru frumstigi.

Hvernig myndið þið lýsa ykkur tónlistarlega séð?

Á Móðurástinni höfum við verið að kanna alls konar tónlist og stíla. Platan okkar sveiflast frá Doom metal yfir í djazz. Rock, Black Metal, Ambient og meira að segja raftónlist með hjálp meistara Halldórs Á. Björnssonar úr hljómsveitinni Legend sem við köllum stundum hinn ómeðvitaða þriðja meðlim Kötlu. Tónlistin er þung og melódísk. Ég myndi aldrei láta mér detta það til hugar að fara að kalla hana einhverju einu nafni. Það fyndist mér eins og að skella henni inn í einhvern ramma sem við þyrftum þá að vinna innan í framvegis. Það sem er spennandi við þetta hjá okkur er að við vitum í raun ekkert hvað gerist næst.

 

Fyrir áhugsama þá er hægt að forpanta gripinn á hér í ýmsum útgáfum : Katla – Móðurástin

Beneath gefa út Ephemeris í dag – Örviðtal!

Íslenska dauðarokksveitin Beneath gefur út plötuna Ephemeris í dag föstudaginn 18.ágúst, en þetta er þriðja breiðskífa sveitarinnar. Eins og áður þá er það Unique Leader útgáfan gefur út efni sveitarinnar. Þar sem þetta er frekar stór dagur hjá sveitinni er við hæfi að skella á hana nokkrar spurningar, og að fyrir svörum þetta skiptið er Jóhann Ingi Sigurðsson, gítarleikari sveitarinnar:

Til hamingju með nýju plötuna.
Takk!

Nú heftur verið nokkuð um mannabreytingar hjá ykkur, hverjir eru í bandinu þessa dagana?
Núna eru í bandinu ég (Jóhann) á gítar, Unnar á gítar, Benedikt syngur og svo bættist Maddi í hópinn fyrir stuttu og leysti þar af hólmi Gísla sem spilaði inn á plötuna.

Hvernig kom til að fá Mike Heller til að tromma hjá ykkur.
Við túruðum með bandinu hans Malignancy 2014 og héldum smá sambandi við hann eftir það. Síðan þegar kom að því að okkur bráðvantaði trommara fyrir plötuna, þá ákváðum við að heyra stutt í honum varðandi hvort hann vissi um einhverja trommara sem gætu haft áhuga á verkefninu. Það kom svo upp úr krafsinu að hann var meira en til í að tækla þetta sjálfur og þar með fórum við á fullt í að klára trommurnar fyrir plötuna. Það var frábært að vinna með honum og við erum drullusáttir við útkomuna, auk þess sem við lærðum alveg helling

Fyrir okkur sem hafa takmarkaða tungumálakunnáttu, hvað þýðir Ephemeris?
“Ephemeris” er enska orðið yfir rit sem gerð hafa verið í gegn um tíðina þar sem ritaðar eru stöður stjarnfræðilegra hluta á himninum – eins konar stjörnkort í töfluformi. Rauði þráður plötunnar er útrás mannkyns um plánetur og sólkerfi í krafti tækniþróunar – þegar tæknin hefur farið fram úr öllu því sem við getum gert okkur í hugarlund.

Hvernig er að vera í hljómsveit sem ekki staðsett í sama landi?
Það getur alveg reynt á þolrifin að geta ekki bara hist og kennt hvorum öðrum riff eða “djammað” á köflum. En bandið hefur í raun verið meira og minna í þessarri stöðu í 7 ár af þeim 10 sem við höfum starfað, þannig að þetta er nú orðið “normið” fyrir okkur.

Hvernig semjið þið tónlist?
Það er oft snúið og fjarlægð meðlima gerir það að verkum að við verðum allir að vera duglegir að vinna hver í sínu horni. Við tökum nokkuð reglulega fundi á Skype og ræðum hugmyndir og pælingar. Svo sendum við hugmyndir á milli sem við vinnum meira og púslum saman þangað til að þær eru komnar í það horf að við getum æft lögin upp. Síðan reynum við að demóa eins mikið og hægt er, aður en haldið er í stúdíó.

Hvað tekur svo við?
Við erum á fullu að leita að trommara en í framhaldi af því þá er lítið annað í stöðunni en að taka upp hljóðfærin og byrja að pæla í tónleikum, og í framhaldi, næstu útgáfu.

Auðn kynna lagið Í Hálmstráið Held af “Farvegir Fyrndar” + Örviðtal

Fyrr í dag birti heimasíða RÚV nýtt lag íslensku rokksveitarinnar Auðn, en sveitin sendir frá sér nýja breiðskífu að nafni Farvegir Fyrndar 10. nóvember næstkomandi, en þetta er fyrsta breiðskífa sveitarinnar á Season of Mist útgáfunni. Til að svala þorsta íslenskra þungarokkara er hægt að hlusta á lagið “Í Hálmstráið Held” hér að neðan, en lagið verður að finna á umræddri skífu.

Hljómsveitin heldur á tónleikaferðalag um Evrópu með hljómsveitinni Gaahl’s Wyrd, en sveitin inniheldur fyrrum söngvara hljómveitarinnar Gorgoroth, Gaahl (öðru nafni Kristian Eivind Espedal). Með Gaahl’s Wyrdog Auðn í þessu ferðalagi verður hljómsveitin The Great Old Ones frá frakklandi. Ferðalag þetta hefst 1. desember í Þýskalandi og endar tveimur vikum síðar í Hollandi á Eindhoven Metal Meeting.

Harðkjarni ákvað að nota tækifærið og skella nokkrum spurningum á Aðalstein Magnússon, gítarleikara sveitarinnar:

Hvernig er þessi nýja plata öðruvísi en fyrsta platan ykkar?
Að okkar mati er nýja platan þroskaðara verk, við erum að þróast og músíkin að breytast. Nýja platan er harðari en à sama tíma melódísk eins og fyrri platan. Næsta skref í þróun sem ég veit ekki hvar endar.

Hvernig gekk upptökuferlið?
Upptökuferlið gekk mjög vel. Við fórum í sundlaugina hljóðver og tókum hana upp live yfir þrjá daga. Allir saman í rými.

Hvernig leggst tónleikaferðalagið í desember í ykkur?
Mjög vel, spennandi tækifæri og kemur sér vel með nýútgefna plötu. Það verður hressandi að spila nýtt efni og gefa því gamla hvíld.

Hvað tekur við svo á næsta ári? 
Næsta ár er nú þegar farið að líta vel út. Nokkrar bókanir að detta inn meðal annars erum við að spila aftur á hinni glæsilegu hátíð Inferno metal festival í noregi, framtíðin lítur vel út.

Umrætt lag má sjá hér að neðan:

Nánari upplýsingar um Auðn og Season of Mist má sjá hér að neðan:
www.facebook.com/audnofficial
http://smarturl.it/AudnFarvegir
www.facebook.com/seasonofmistofficial

Skurk: Blóðbragð, ferlið og framtíðin – Örviðtal!

Hljómsveitin Skurk sendi nýverið frá sér plötuna Blóðbragð (hægt að kaupa hér), en á plötunni er ekki bara að finna norðlenskt þungarokk í háum gæðum heldur fjölbreytta og skemmtilega plötu sem meðal annars nýtir sér tónlistarmenntun norðannmanna með því að fá Tónlistarskóla Akureyra til að taka þátt í upptökunum með klassískum strengjahljóðfærum, sem gefa plötunni virkilega skemmtilegan blæ. Upptökuferlið var ólíkt því sem vanalega gerst í þungarokksheimnum hér á landi, og því við hæfi að skella á sveitina nokkrar spurningar.

Það væri kannski gott að byrja á að kynna sveitina fyrir þá sem ekki þekkja, hvaðan kemur sveitin Skurk og hverjir eru í henni? 

Skurk var stofnuð árið 1990 á Akureyri, og starfaði til ársins 1993. Þegar hljómsveitin hætti fóru sumir meðlimirnir í aðrar hljómsveitir, en aðrir hafa ekki spilað síðan. Svo árið 2011 komu þrír af gömlu meðlimunum saman aftur með annan trommara. Sá hætti svo snögglega árið 2013, og með nýjum trommara var komin sú liðskipan sem er enn í dag: Guðni Konráðsson – söngur og gítar, Hörður Halldórsson – gítar og stöku bakraddir, Jón Heiðar Rúnarsson – bassi, og Kristján B. Heiðarsson – trommur.

Hvað var þessi plata búin að búa í ykkur í langan tíma?

Árið 2013 tókum við upp EP-plötuna Final Gift, sem kom út árið eftir. Strax þá voru komnar einhverjar lagahugmyndir, en ferlið fór í gang fyrir alvöru seinni part 2014. Það var samt svolítið öðruvísi en venjulega, því frekar en að semja eitt lag í einu unnum við út frá gítarriffunum. Eins konar „riff by riff“. Sum lögin voru upphaflega sólókaflar í lögum sem okkur þótti of löng, og önnur lög urðu til þegar við hittumst allir fjórir til að slípa lögin til fyrir upptökurnar. Svo urðu fleiri þættir eins og stúdíóin og strengjasveitirnar til þess að lengja tímann enn frekar og við höfðum í raun ekki reiknað með. Það tók nefnilega auðvitað tíma að semja kaflana utan um okkar lög og vinna það allt ásamt því að taka svo upp.

Hvaðan kom hugmyndin um Blóðbragð?

Á einhverjum tímapunkti áttuðum við okkur á því að við vorum með afar stóra plötu, löng lög og endalaust af sólóum. Við ákváðum að prófa að syngja á Íslensku, og eftir að þýða ensku textana sem komnir voru sáum við ákveðið mynstur, einhvern atburð sem gerðist í köldu, íslensku landslagi. Þá kom sú hugmynd upp að prófa að gera þemaplötu. Það vatt upp á sig og tókst mjög vel að okkar mati. Í stað þess að segja sögu með byrjun og endi segir hvert lag á sinn hátt frá sama atviki. Textarnir fjalla um stúlkuna Mjöll, hvernig líf hennar endar með morði og einnig er skyggnst inn í hugarheim þess sem verður henni að bana. Sagan er í raun komin frá gömlu Skurk-lagi sem hét The Night Before Yesterday. Í dag er það sama lag titillag plötunnar – Blóðbragð. Titill plötunnar var reyndar löngu ákveðinn, en gamli enski textinn setti tóninn fyrir það sem platan fjallar um.

Hvernig fjármögnuðuð þið upptökur og vinnslu á plötunni?

Í stað þess að borga allt úr eigin vasa eins og er svo algengt fórum við þá leið að setja upp söfnun á Karolina Fund. Þar gat fólk keypt eintök af plötunni með hinum og þessum auka“hlutum“, og fór það svo að við söfnuðum töluvert meiru en lagt var upp með. Hins vegar var ferlið við útgáfu plötunnar dýrara en búist var við, og því borguðum við sjálfir einnig dágóða summu. Án þessarar söfnunar hefðum við samt einfaldlega ekki getað gert plötuna eins vel og við vildum, það er bara þannig.

Hvernig var að vinna með Tónlistarskólanum á Akureyri og hvernig kom það til?

Strax eftir fyrstu gítarupptökurnar fórum við að spjalla við Hauk Pálmason, sem var þá aðstoðarskólastjóri Tónlistarskólans, um möguleikann á því að vinna þetta verkefni með okkur. Hugmyndin var sú að gefa nemendum skólans tækifæri á að vinna verkefni sem væri örlítið út fyrir normið í skólanum og gæfi nemendum víðari sýn á tónlist. Einnig vildum við bara fá krakkana til að spila þungarokk! Við urðum mjög glaðir að finna svo svona rosalega jákvæða strauma frá öllum í skólanum, bæði kennurum og nemendum. Okkur var bent á að tala við Daníel Þorsteinsson varðandi það að semja og útsetja fyrir plötuna, og hann var sem betur fer meira en til í þetta. Hann er mjög fær og útkoman er vægast sagt frábær.

Nú var eitthvað vesen í framleiðsluferlinu, hvað var í gangi þar?

Já, það var frekar svekkjandi allt saman. Fyrst lentum við í nýlegri lagasetningu í Póllandi, hvar diskurinn var framleiddur, sem gerir það að verkum að allt sem er sent til landa utan Evrópusambandsins er stoppað í 2-3 vikur í einhverri leiðinda skriffinnsku. Þegar við fengum loksins upplagið af diskunum til landsins kom í ljós að það var gallað. Við höfðum samband við verksmiðjuna úti, og þeir fundu ekkert í sínum fælum eða framleiðsluferli, en hins vegar heyrði samstarfsaðili okkar í Póllandi gallann í sínum disk, tók það upp á videó og sendi verksmiðjunni. Það var því pressað nýtt upplag og því gallaða fargað hér heima. Við þurftum samt auðvitað að bíða aftur í 2-3 vikur eftir nýja upplaginu. Skriffinnska er ekki okkar besti vinur, það er á hreinu.

Nú þegar platan er loksins komin út, hvað tekur við?

Við spiluðum á Eistnaflugi í sumar, og erum með stóra tónleika í bígerð í haust. Einhvers konar útgáfutónleika. Það er svo sem ekkert planað, en það er ekkert ólíklegt að það fari að fæðast einhverjar lagahugmyndir, hvort sem okkur líkar betur eða verr.

Hvernig er annars að vinna að breiðskífu í dag, tekur nútíminn enn mark á svoleiðis?

Það er enn fullt af fólki sem vill fá vöruna sína í hendurnar, geta haldið á hulstrinu á meðan það hlustar á tónlistina. En tímarnir eru vissulega að breytast, og margir vilja bara hafa stafrænar útgáfur sem eru miklu meðfærilegri. Við nálguðumst þetta með því að pressa geisladisk eins og venjulega, og bjóða einnig upp á mjög veglega stafræna útgáfu með alls konar aukaefni, þ.á m. voru allar gömlu upptökur sveitarinnar og slatti af videóum frá ’91-´93. Hvort tveggja mæltist mjög vel fyrir.

Eruð þið tilbúnir með efni í nýtt Skurk ævintýri?

Eins og minnst var á áðan er ekkert ólíklegt að einhver riff fari að skjóta upp kollinum, en í sannleika sagt erum við bara enn að jafna okkur eftir þetta langa og stranga, en jafnframt mjög gefandi ferli sem var að koma þessari plötu frá okkur. Við gáfum allt okkar í hana, og það skilaði sér með frábærri útkomu sem við vonum að sem flestir geti notið með okkur. Við þurfum bara aðeins að anda eftir þetta allt og spila á nokkrum tónleikum til að hlaða í næstu plötu. En við erum hvergi hættir, það er alveg ljóst.

Hægt er að versla plötuna beint af bandinu hér: skurk.is/store

Une Misère – Framtíðin er björt/World Domination – Örviðtal!

Hljómsveitin Une Misere er komin aftur til landsins eftir vel heppnaða ferð á tónleikahátíðina Wacken, þar sem sveitin tók þátt í Wacken Metal Battle keppninni. En hvernig er að taka þátt í svona keppnig og hvernig lagðist þetta í meðlimi sveitarinnar, ég ákvað að skella nokkrum spurningum á sveitina, og okkur til mikillar ánægju ákváðu nánast allir meðlimir sveitarinnar að taka þátt í þessu örviðtali…

Velkomnir aftur eftir stórgóðan árangur á Wacken!
Hljómsveitin svarar vel fyrir sig og sendir til baka þakkir á öllum heimsins tungumálum
Allir: Kærar þakkir, ÞAKKIR, Takk Mjearh, Danke, TAAAKKK, Danke schön

Hafið þið áður spilað fyrir þennan fjölda?
Finnbogi: Ég hef átt mitt stutta ferli með þúsundir manna hér og þar með Great Grief að spila á hátíðum. En aldrei hafa viðbrögðin verið eins góð og þau voru í ár með Une Misere.
Jones: ekki svo ég viti, held þetta hafi verið stærsta giggið okkar hingað til, allavega fólksfjöldalega séð.
Jón: Stærsta sem ég hef þurft að höndla fyrir utan þetta hefur að öllum líkindum verið söngkeppni Samfés en þar stóð ég uppi á sviði fyrir framan 700 manns. What a life I have lived.
Benni: Þetta var klárlega það stærsta hingað til.
Steini: Ég spilaði á battlinu í Þýskalandi árið 2015 með In The Company of Men. Reyndar minnir mig að tjaldið hafi verið hálffullt þá, en með Une Misére var alveg pakkað út úr húsi í þetta skipti.

Hvernig var ykkur tekið?
Finnbogi:Gríðarlega fallegar móttökur frá áhorfendum, fengum ansi stóran og fallegan circle-pit sem ég hugsa reglulega um þegar ég er að fara að sofa til að veita mér hugarró.
Fannar: Fengum Circle Pit, það var hellað.
Jones: já, furðulega vel, kom gífurlega skemmtilega á óvart.
Benni: Eiginlega alltof vel. Við náðum að vinna áhorfendurnar yfir á okkar band og tengingin milli okkar og þeirra var skýr og greinilega – þau virtust vera til í þetta, og við vorum meira en til í þetta.
Jón: Það var ótrúlegt að upp undir endann á settinu þá var ég farinn að sjá hnefa á lofti alveg aftur úr tjaldinu. Magnað
Steini: Metalhausarnir þarna voru alveg að kaupa okkur, hendandi upp hnefunum og fara í circlepit. Það er mjög skrítin tilfinning að fá 3000 manns svona með sér í lið.

Hvernig er fyrir hardcore band að spila á þungarokkshátíð eins og wacken?
Jones: Það er smá furðulegt en ég held að við dettum akkurat inná milli að vera metal og hardcore hljómsveit þannig það eru margir partar í lögunum okkar sem ég held að metalhausarnir tengi líka við. Svo nærist fólk svo mikið af orkunni sem við gefum frá okkur og öfugt.
Finnbogi: Við erum svokallað brúar band sem gengur á milli allra stefnu-punkta sem okkur sýnist, og látum ekkert stöðva okkur, og það virtist að fólk áttaði sig fremur hratt á því.
Jón: Það var alveg sturlað gaman og ég held að fólk hafi ekki búist við okkur. Held það hafi ekki heldur búist við því að taka okkur svona vel. Ég held að okkur hafi verið tekið svona vel því að við tókum stjórnina strax. Veit þetta hljómar kannski kjánalega og með vott af fasisma en þegar “leader figure” birtist fyrir framan þig þá eru góðar líkur á því að þú fylgir honum. Við tókum stjórnina, spiluðum góða tónlist og fólk fylgdi.
Benni: Við erum klárlega hardcore bræðingur með dass af “svona og svona” hér og þar – Hver og einn túlkar það svosem á sinn hátt – Fögnum fjölbreytileikanum.
Steini: Tónlistin okkar hefur mikið af eiginleikum sem að Wackenfarar tengja við, sérstaklega hvað hún er slammvæn. Eins og Gunnar segir þá dönsum við mikið á línunni milli hardcore og metal, án þess að hljóma eins og hefðbundið metalcore.

Hvernig var svo hátíðin í heild sinni fyrir utan ykkar aðkomu?
Jones: Mikil leðja, heitt, kallt en ótrúlega skemmtileg. Þetta er miklu miklu stærra en ég bjóst við að þetta væri en það var komið fram við okkur eins og rokkstjörnurnar sem við erum, mest allt fólkið yndislegt og professional.
Jón: Öfgar út um allt. Monsoon rigning, steikjandi hiti, gaurar að spila Metallica lög á selló á stóra sviðinu, Dillinger Escape Plan á minna sviði. Ótrúlega skrítið set up. Hátíðin var líka fín áminning um það hvað Megadeth er ömurleg hljómsveit.
Finnbogi: Ég borðaði mjög mikið af mat, ég sá Crowbar, Dillinger Esc. Plan, Henry Rollins og Napalm Death. Það var flott að sjá fjölbreytta skemmtun þarna fyrir áhorfendur, en ég er á þeirri skoðun að það vanti lítið hardkor venue á Wacken þar sem sleppt er girðingu og allt er útí vegan mat. Megadeth er annars frábær hljómsveit.
Benni: Mambo Kurt átti þessa hátíð – magnað að sjá öfga metalhausana missa sig yfir honum með ekkert nema skemmtarann að vopni.
Steini: Wacken hátíðin er full af öfgum. Smekkleysa eins og Avantasia er kannski að headlina eitt kvöldið en á sama kvöldi er svo kannski hægt að sjá goðsagnakennd bönd eins Napalm Death eða The Dillinger Escape Plan. Það er líka alveg einkennandi lítið af veseni á þessari hátíð. Við sáum engin slagsmál eða útúrvíraða tappa, þó að það sé mikið af drykkju á hátíðinni.

Hvað er næst á dagskrá fyrir Une Misere?
Jón: Ekkert nema stórir hlutir á dagskrá.
Finnbogi:Við erum að spila tvenna tónleika í þessum mánuði, meðal annars eina með Cattle Decapitation í boði Reykjavík Deathfest. Svo erum við líka með tónleika í allt annarri hljóð og sviðsvídd sem við erum að undirbúa á næstu vikum.
Jones: Það koma stórar fréttir í vikunni og svo erum við að spila tvisar í ágúst sem ég veit ekki hvort sé búið að tilkynna en það fer að líða að því. Svo er það Airwaves og svo ætlum við að ferðast meira út á næsta ári. Une gang world domination.
Benni: Orðum það þannig að það er betra að hafa of mikið að gera heldur en of lítið. – Tvennir tónleikar á næstunni, upptökuferli hafið og endalaus samskipti við hina og þessa aðila. Við erum duglegir að setjast niður allir saman og ræða hlutina í persónu, tjá tilfinningar okkar og sjá til þess að allir séu á sömu blaðsíðu. Sex manna hljómsveit er talsverð vinna og allir hafa sínar skoðanir og vilja ná sínu framlagi, við erum líka að þessu til að gera hlutina vel og rétt.

Myndir teknar af Instagram síðum meðlima sveitarinnar.

Árstíðir gefa út á Season of Mist – Örviðtal!

Íslenska rokksveitin Ástíðir hefur skrifaðu undir útgáfusamning við Frönsk/Bandarísku útgáfuna Season of Mist, en núþegar á útgáfunni eru hljómsveitir á borð við Sólstafir, Zhrine, Auðn og Kontinuum. Útgáfan gefur ekki aðeins út Íslenska tónlist því á hljómsveitir á borð við Leng Tch’e, Deathspell Omega, Hate Eternal, Misery Index og Rotting Christ gefa einng út á útgáfunni. (svo í bandaríkjunum gefur sveitinni einnig út hljómsveitirnar Enslaved, Sadist og Dying Fetus)

Ég ákvað að skella nokkrum spurningum á Ragnar Ólafsson söngvara sveitarinnar, sem má sjá hér að neðan.

Við hverju má búast við á næstu útgáfu sveitarinnar

Platan sem við erum að vinna núna og sem verður gefinn út af Season of Mist verður rökrétt framhald af plötunni Hvel sem við gáfum út 2015. Raddir og allt sem fólk tengir við tónlist okkar verða enn sem áður í fyrirrúmi, en meira mun bóla á trommuslátti og rafrænum hljóðum en áður.

Breytir tilkoma Season of Mist einhverju fyrir sveitina?

Þetta mun ekki breyta neinu tónlistarlega. Við tókum okkar góðan tima í samningsferlinu við fyrirtækið, skoðuðum samningana vel og ræddum breytingar fram og aftur. Á meðan á þessu stóð náðum við einnig að kynnast Michael Berberian eiganda fyrirtækisins ágætlega, sem og Gunnari Sauermann sem mun sjá um promotion fyrir okkur. Við fundum það sterklega að þessir herramenn eru ekki komnir til að breyta okkur eða stýra, heldur fíla þeir tónlist okkar í botn og vilja bara meira af því sama.

Mörgum kann kannski að finnast skrýtið að þungarokks label geri samning við Árstíðir og öfugt. Í gegnum árin höfum við Árstíðir verið í samræðum við allskonar label, en það hefur yfirleitt strandað á því hvað tónlist okkar er óskilgreint dýr. Þetta er í raun algjör bræðingur þar sem má finna akústískt rokk, klassík, þjóðlagapopp, rafræna strauma og fleira. Þannig önnur label hafa ekki vitað hvernig ætti að “pakka” tónlist okkar saman og selja. Það þarf greinilega bara label eins og Season of Mist til að þora að veðja á þetta.

Season of Mist stefnir á að víkka “roaster” sinn á næstu árum og vera einnig með tónlist sem er ekki beint þungarokk. Þótt tónlist Árstíða sé ekki með rafmagnsgítara er hún engu að síður dramatísk, þannig ég skil hvernig þetta skref meikar sens í frá þeirra dyrum séð. Við Árstíðarmenn horfum fyrst og fremst til gæði fyrirtækisins. Season of Mist er öflugt label sem hefur gott orðspor og virðist vinna samviskulega og gera gott við öll böndin sín.

Aðdáendur Árstíða eru líka eins ólíkir og þeir eru margir. Allt síðan við túruðum með Pain of Salvation og Anneke Van Giersbergen 2013 höfum við verið með marga dygga þúngarokksáðdáendur sem mæta á tónleika okkar. Þúngarokkarar eru afbragðs góðir hlustendur, það er bara einfaldlega þannig. Þeir eru oftast lausir við fordóma sem fólk úr öðrum stefnum getur stundum verið með, þannig að við erum bara hoppandi glaðir með að vera búnir að finna tónlist okkar stað hjá Season of Mist.

Hvað tekur nú við fyrir sveitina?

Við munum vinna hörðum höndum að því að klára plötuna okkar fyrir Season of Mist næstu mánuði. Í nóvember og desember er stefn á að fara í tónleikaferðir um alla Evrópu.
En svo erum við líka með annað samstarfsverkefni í gangi sem er algjörlega ótengt SoM: við tókum nýlega upp plötu með meistara Magnúsi Þór Sigmundssyni og ætlum að koma henni út í haust og spila saman á Fróni. Þannig að það verður nóg að gera út árið.

Platan sem við gerum fyrir SoM kemur svo út snemma á næsta ári, en þaðngað til má heira lagið Unfold af plötunni Hvel frá árinu 2015:

World Narcosis með nýja 7″ plötu og breiðskífu á leiðinni – Örviðtal!

Íslenska ofurgrúppan World Narcosis er tilbúin með nýja sjö tommu plötu en stefnir einnig á enn meiri útgáfu á næstunni. Það er því við hæfi að skoða hvað er í gangi í herbúðum World Narcosis og skellti ég nokkrum spurningum á Ægir Sindra Bjarnason trommara sveitarinnar:

Nú er þetta 3 útgáfa sveitarinnar, afhverju lögðust þið í 7″ í stað þess að fara beint í breiðskífuna?
Sjötomman kom til einfaldlega vegna þess að Hindra passaði ekki á væntanlega breiðskífu okkar, en okkur langaði að gefa því lagi gott rými. Síra Sirna var svo samið sérstaklega fyrir þessa útgáfu.

Á plötunni er að finna 2 lög, Hindra og Síra Sirna, hvað getur þú sagt mér um lögin?
Hindra var upprunalega ætlað fyrir breiðskífuna væntanlegu, en komst fyrst og fremst ekki fyrir lengdarinnar vegna. Svo fundum við síðar að það nýtur sín mun betur þegar það fær að standa sjálft, og flæðið á plötunni varð mun öflugra fyrir vikið. Síra Sirna var samið uppi í bústað þar sem við tókum upp, varð til í einhverju brjálæðislegu flæði sem fylgdi þessu ferli og varð óvænt eitt af uppáhöldum okkar. Hvorugt þeirra höfum við spilað á tónleikum, ólíkt flestu af breiðskífunni, og eins og er er enn óvíst hvort við munum gera það.

Hver sér um hryllingsleg öskrin í laginu Hindra?
Halla, bassaleikari World Narcosis er nokkuð ríkjandi í báðum þessum lögum, en Viktor, Sindri og Halla skipta söng á milli sín í æ meiri mæli, enda öll með mjög sterkar en gjörólíkar raddir. Textinn er úr ljóði eftir Ástu Sigurðardóttur.

Hvað er Why not? Plötuútgáfa!
Why not? er nýstofnuð plötuútgáfa sem heldur utan um allt sem ég geri með mínum hljómsveitum, og þar sem það var farið að verða ansi mikið ákvað ég að bæta aðeins í og gera slíkt hið sama fyrir einhverjar af uppáhaldssveitum mínum innan senunnar.
Brot af því sem koma skal frá Why not? má heyra hér að neðan:

World Narcosis sendir frá sér breiðskífu von bráðar. Godchilla, Grit Teeth og Dead Herring líka. Klikk sendi frá sér live-plötu í síðustu viku sem var dreift með frisbídisk á Norðanpaunki, en er annars fáanleg á Bandcamp síðu sveitarinnar. Hinar þrjár sveitirnar á safnplötunni munu láta kröftuglega í sér heyra á næsta ári.

Hvernig var á Norðanpönk þetta árið?
Stórkostlegt. Hátíðin hefur aldrei gengið jafn vel. Það er magnað að sjá allt þetta fólk koma saman og hjálpast að við að láta þetta ganga upp og gera ótrúlega fallega hluti og finna fyrir allri ástríðunni og innblæstrinum í loftinu.
Norðanpaunk hefur líka verið með mikilvægustu tónleikum hvers árs fyrir okkur – þar erum við algjörlega á heimavelli og innan um hóp af yndislegu fólki. Það hefur ekki breyst.

Hvað er næst á dagskrá hjá World Narcosis?
Við sendum frá okkur breiðskífu sem ber nafnið Lyruljóra mjög fljótlega. Við erum að leggja lokahendur á myndskreytinguna, en það er allt að koma. Tvö lög af henni má heyra á netinu; Slyðra á Why not? safnplötunni og Óður óður hér:

Við munum svo spila fjölda tónleika á næstu mánuðum og lítur út fyrir að við verðum ansi iðin næsta árið, bæði hérlendis og erlendis.
…svo erum við þegar byrjuð að spá í nýtt efni. Hver veit hvað það verður og hvenær það fær að líta dagsins ljós…

The Monolith Deathcult – Örviðtal og tónleikar í kvöld á gauknum!!

Hollenska hljómsveitin The Monolith Deathcult spilar Gauknum í kvöld, en sveitina má telja til alvöru Íslandsvina, þar sem sveitin hefur komið hér við nokkrum sinnum á landinu til þess að spila og njóta landsins. Í tilefni tónleika kvöldsins ákvað ég að skella nokkrum spurningum á sveitina sem má lesa hér að neðan:

Sælir! Hvernig var á Eistnaflugi þetta árið?
Eistnaflug was great as always! We were the best band of the festival. Good to see and speak people from all over the world. It was our third time on the festival. They call us The Solstafir from Holland.

Var eitthvað á hátíðinni sem þið horfðuð á sjálfir?
I was surprised by Akercocke, Solstafir delivered as always and it was very cool to hear those Roots songs again, but when I was a paperboy I skipped after track 5 and now I knew why:) not all the stuff is interesting but they made me happy with a chaos AD and Arise medley

Hvað er að gerast núna í vikunni?
This Tuesday we play a gig a Gaukurinn, we do some sightseeing to piss off all #bucketlist people back home and we wait for our announcement of playing Eistnaflug 2018-2045.

Segið okkur frá nýjustu plötunni ykkar:
We have a new album out called Versvs and it is a really really great album folks…I wrote it…really good

Fun thing is that the first track of the album, The Furious Gods, was played in your radioshow in 2015 as a crappy demo:)

Versus aka V1 is the first of 3 ep’s
Because the attention span isn’ strong enough for 50 minutes. We devised our 5th album in 3 EP’s

Hljómsveitin spilar á Gauk á stöng í kvöld ásamt Devine Defilement og Óværu og það kostar aðeins 1000 kr inn!

Dimma 2017 - Ljósmynd: Ólöf Erla

Dimma kynnir nýtt efni, plötu og útgáfutónleika (Örviðtal)

Íslenska þungarokksveitin Dimma sendi frá sér nýtt lag að nafni Villimey núna í vikunni, en lagið verður að finna á tilvonandi breiðskífu sveitarinnar Eldraunir sem gefin verður út á næstu vikum. Það er því við hæfi að skella nokkrum spurningum á meðlimi sveitarinnar til þess að grafa örlítið dýpra…

Til hamingju með nýja lagið, og um leið nýju plötuna
Takk fyrir það! Þetta er búið að vera skemmtilegt ferli sem hefur staðið yfir í um 6 mánuði. Við byrjuðum á því að vinna með hugmyndir í húsnæðinu og taka upp demo í góðum gæðum þar, allt multitrackað og flott. Þá sjáum við heildarmyndina á plötunni og gátum gert okkur grein fyrir hvernig þetta væri að koma út sem heild. Við tókum plötuna svo upp í Sundlauginni undir stjórn Haraldar V Sveinbjörnssonar, en þetta er í fyrsta sinn sem við vinnum með pródúser. Það virkaði svakalega vel og Halli kom með fullt af flottum pælingum að borðinu. Ívar Ragnarson mixar svo og Haffi Tempó masterar. Ólöf Erla meistarahönnuður sér svo um útlitið á plötunni en hún gerði m.a. Vélráð á sínum tíma og margt annað fyrir okkur. Gussi kvikmyndagerðarmaður er að vinna efnir fyrir okkur og margir fleiri koma að þessu dæmi. En þetta eru allt topp fagmenn sem hafa unnið gríðarlega mikið með okkur og það er mikill heiður að hafa svona flott fólk með okkur í liði.

Hvernig tengjast plöturnar Myrkaverk, Vélráð og Eldraun?
Platan Eldraunir er í raun síðasti hluti af þríleik sem tengist lauslega og hófst með útgáfu plötunnar Myrkraverk árið 2012 en þar var yrkisefnið öll þau mannanna verk sem framin eru í myrkrinu og skuggahliðum mannlífsins. Á Vélráð, sem kom út 2014, ræddi um þá klæki sem mannfólkið notar til þess að beygja náungann undir sinn vilja og ná yfirhöndinni og völdum í samskiptum sín á milli. Eldraunir er svo um erfiðleikana sem við mætum hvert og eitt í lífinu á meðan við berjumst áfram til að vinna okkur brautargengi í köldum og hörðum heimi. Þetta eru ekki beint konsept plötur, en það er þema í gangi sem tengir þær saman.

Um hvað fjallar nýja lagið Villimey?
Það er nú ekki góður siður að útskýra texta, fólk verður að fá að tengja við það sjálft. En það er augljóslega saga í gangi þarna og þetta er um persónu sem hafði áhrif á sögumanninn. En umfram það er þetta túlkunaratriði hvers og eins. Guðjón Hermansson ljósmyndari og leikstjóri gerði myndbandið og það kom hrikalega vel út hjá honum. Hans túlkun er einmitt aðeins önnur en við lögðum upp með sem er svo athyglisvert og fallegt við texta, þetta er allt svo afstætt og dularfullt.

Er kominn útgáfudagur á Eldraun?
Við stefnum á að Eldraunir komi út um miðjan maí. Það verður CD, Spotify, og allt það. Við gefum út sjálfir. Dimma er algjörlega sjálfstætt dæmi, við sjáum um öll okkar mál sjálfir, gefum allt út sjálfir, höldum tónleika sjálfir og almennt séð höfum alla taumana í okkar höndum. Það er auðvitað hrikalega öflugur hópur sem vinnnur með okkur en það eru alltaf þessir fjórir vitleysingar sem stýra.

Við erum síðan að setja í gang verkefni á Karolinafund þar sem við ætlum að gefa fólki kost á því að hjálpa okkur að framleiða og gefa út Myrkraverk, Vélráð og Eldraunir á vinyl. Það verður um mjög flottar útgáfur að ræða. Allt á tvöföldum gatefold vinyl með bónus tónleikaupptökum sem hafa ekki komið út áður.

Er nýja efnið í beinu framhaldi af eldra efni eða er einhver tónlistarlega þróun þar á milli?
Við erum nú búnir að vera í stanslausu stríði í næstum 7 ár. Spilað stanslaust og gefið út plötur og dvd diska. Eldraunir er líklega 9. útgáfan sem þessi hópur sendir frá sér á þessum tíma. Við nálguðumst þessa plötu með einfaldara hugarfari en áður. Hún er þyngri, harðari og hraðari og í raun einfaldari en okkar fyrri plötur. Þetta er eiginlega bara við að spila í hljóðveri. Engir strengir og ekkert svoleiðis, örfá auka element sem koma inn, karlakór, píanó og svoleiðis en það eru alveg í lágmarki.
Þetta er klárlega okkar þyngsta plata til þessa.

Nú verða væntanlega heljarinnar útgáfutónleikar um allt land ekki satt?
Jú að venju erum við með mikið af tónleikum bókaða, byrjuðum að undirbúa Eldrauna “túrinn” seint á síðasta ári. Við verðum út um allt á næstu mánuðum, t.d. Eistnaflug, Þjóðhátíð og svo alveg fullt af eigin tónleikum.

Það verða risastórir útgáfutónleikar í Háskólabíói laugardaginn 10 júní. Þar verður allt draslið sett í 11. Við ætlum líka að hafa gott partý þarna því DJ Kiddi Rokk ætlar að spila þungarokk í andyrinu áður en salurinn opnar og við ætlum að hafa góða stemningu á staðnum.

Við byrjum samt sumarið á Kaffi Rauðku á Siglufirði 25 maí, förum svo á Græna Hattinn 26 og 27 maí.

Miðasala á allt þetta er á midi.is : https://midi.is/tonleikar/1/10030/DIMMA-Eldraunir

Verður eitthvað framhald á samstarfi ykkar við Bubba eða Sinfóníuhljómsveitina?
Það var alveg geggjað að fá að spila með Bubba, það samstarf gekk gríðarlega vel og við gáfum saman út tvær plötur og DVD og eitt giggið var sýnt í sjónvarpinu, svo spiluðum við út um allt með honum. Það samstarf opnaði klárlega margar dyr fyrir okkur og kynnti okkur fyrir stórum hópi fólks sem ella hefi ekki kynnst okkur. Að auki var bara svo frábært að kynnast og vinna með Bubba, hann er auðvitað alveg magnað kvikyndi. En það er ekkert meira planað með honum, en hver veit hvað gerist í framtíðinni. Hann er heiðursmeðlimur Dimmu og ef hann hringir þá svörum við strax.

Sama með SinfoNord, alveg magnað að spila með svona flottu tónlistarfólki. Við spiluðum á nokkrum uppseldum tónleikum í Hofi og Eldborg og gáfum út plötu og DVD með þeim auk þess sem þetta var sýnt í sjónvarpi. Svona dæmi er alveg svakalega þungt í vöfum enda vel á annað hundrað manns sem koma að þessu verkefni. En sama þar, ekkert meira planað en við værum alveg til í meira!

Eitthvað að lokum?
Já, okkur langar að þakka þeim risastóra hópi sem stendur á bakvið okkur. Kemur á tónleika, hlustar á tónlistina og er í sambandi við okkur á samfélagsmiðlum og annarsstaðar. Þetta er alveg ótrúlega hvetjandi og fallegur hópur og við vitum að það eru mikil forréttindi að fá að spila tónlistina sem við elskum fyrir allt þetta fólk. Þannig að við gætum aldrei þakkað þessu fólki nægjanlega vel fyrir okkur.

Endless Dark með nýja plötu: Hereafter Ltd (Örviðtal)

Íslenska rokksveitin Endless Dark hefur sent frá sér nýja breiðskífu að nafni Hereafter Ltd, sem hægt er að nálgast á iTunes, Google Play og einnig ámiðlum eins og Spotify. Það er því við hæfi að spjalla við sveitina um nýju útgáfuna…

Til hamingju með nýju plötuna, hvað heitir hún og hvað er hún búin að vera lengi í vinnslu?
Takk kærlega vinur. Platan heitir Hereafter Ltd. og er okkar fyrsta breiðskífa. Hún er búin að vera nákvæmlega sex ár í vinnslu, aðallega vegna mikilla mannabreytinga í gegnum árin.

Hverjir eru hljómsveitinni núna (voru ekki mannabreytingar?)
Árið 2015 voru tvær mannabreytingar. Þá hættu Guðmundur Haraldsson (gítar) og Rúnar Sveinsson (trommur) en í stað fengum við Alexander Glóa Pétursson á gítar og gamla trommarann okkar Daníel Hrafn Sigurðsson á trommur. Í augnablikinu erum við sjö talsins:

Rúnar Geirmundsson (öskur)
Viktor Sigursveinsson (söngur)
Daníel Hrafn Sigurðsson (trommur)
Atli Sigursveinsson (gítar)
Alexander Glói Pétursson (gítar)
Hólmkell Leó Aðalsteinsson (bassi)
Egill Sigursveinsson (hljómborð, öskur)

Segið okkur aðeins frá plötunni, er einhver sérstakur þemi á plötunni (svona útfrá umslagi plötunnar)
Já, öll lögin á plötunni eru byggð á frumsaminni sögu eftir Atla Sigursveinsson. Sagan gerist í framtíðinni þar sem þriðjungur mannkyns eru vélmenni. Í stuttu máli segir sagan frá manni sem reynir að bjarga syni sínum, sem er vélmenni, þegar illir andar hafa tekið yfir vélmennin og breytt þeim í óstöðvandi drápsvélar.

Hverjar hafa breytingar verið á sveitinni (tónlistarlega séð) frá stofnun og þar til í dag?
Helstu breytingar tónlistarlega séð er að við fáum innblástur úr fleiri tónlistarstefnum en áður. Fyrir þessa plötu hlustuðum við t.d. mikið á eldra rokk á borð við Rush og Genesis og kvikmyndatónlist eins og Blade Runner eftir Vangelis. Á plötunni má því heyra fjölbreyttar kaflaskiptingar, allt frá harðkjarna-riffum yfir í hljómborðskafla í anda níunda áratugsins.

Hvenær á að fagna útgáfunni með útgáfutónleikum? (já eða tónleikaferðlagi)
Útgáfutónleikarnir verða að öllum líkindum seint í apríl með öðrum vinahljómsveitum en það kemur í ljós á næstu vikum.

Er von á myndbandi?
Já, við gerum líklegast eitt myndband í viðbót við þessa plötu. Þangað til mælum við með að fólk horfi á myndböndin við Dr. Delirium og Warriors sem eru bæði á nýju plötunni.

Við hverju má búast við frá sveitinni núna í ár?
Eftir þessa plötu verða miklar mannabreytingar í hljómsveitinni. Viktor er að hætta sem söngvari og útgáfutónleikarnir verða því einnig kveðjutónleikar eftir 10 ára samvinnu. Rúnar Geirmundsson mun síðan taka við söng og öskrum og lagasmíð verður því af öðru tagi.

Eitthvað að lokum?
Við viljum þakka fyrir allan stuðninginn í gegnum árin og sérstaklega þakka þér Valli, fyrir að spila lögin okkar á Rás 2 án þess að vera beðinn um það. Við vonum að þið hlustið á, njótið og deilið nýju plötunni með öllum sem þið þekkið.

Hægt er að hlusta á plötuna í heild sinni hér að neðan, en ekki gleyma að hægt er að versla hana hér:
-Google Play: http://bit.ly/2n9r0Ai
-iTunes: http://apple.co/2n23Nja