Efnisorð: Örviðtal – Dimma

Örviðtal – Dimma

Hljómsveitin Dimma skellti nýverið laginu Myrkarverk á netið sem finna má á tilvonandi breiðskífu sveitarinnar.Það er því við hæfiað skella nokkrum spurningum á sveitina og fá aðeins nánari upplýsingar um nýja efnið og um leið sveitina sjálfa…

Segið mér aðeins frá nýju plötunni, hvað heitir hún og hvenær er hún væntanleg?
Platan mun heita Myrkraverk og við erum að vinna að því að ná henni út með haustinu. Við erum búnir að vera að taka hana upp í umþb eitt ár og höfum lagt mikla vinnu og metnað í hana. Tónlistin er frekar fjölbreytt en þó öll með DIMMU bragðinu. Það er óhætt að segja að hún sé ólík fyrri DIMMU plötunum. Við höfum líka leyft okkur að vera epískir í útsetningum, það eru nokkur lög á plötunni sem eru löng og flókin, miklar pælingar í gangi.
Platan er svo sungin á íslensku sem er nýtt fyrir DIMMU, okkur finnst einhvern vegin eins og tónlistin verði trúverðugri fyrir vikið, minna um klisjur í textagerð og meiri skilaboð sem ná í gegn. Ingó Geirdal og Stefán Jakobsson söngvari semja textana, en Ingó á textana við þau tvö lög sem við höfum sett á netið af plötunni nú þegar, þ.e. lögin Þungur Kross og Myrkraverk.

Hvernig hefur sveitin breyst frá seinustu útgáfu?
Stóru breytingarnar eru nýr trommari og nýr söngvari. Það breytti sveitinni talsvert þó fyrri útgáfa hafi verið feiknagóð þá koma alltaf áherslubreytingar með nýjum mönnum. Það mun heyrast á plötunni að það er kominn aðeins meiri metal bragur á sveitina. Að auki er DIMMA mun lýðræðislegri en áður, nú er hér eru fjórir einstaklingar að leggja sitt innlegg í tónlistina og það skilar sér í fjölbreytni.

Hvernig tókust tónleikar sveitarinnar á Eistnaflugi?

Þeir tókust algerlega frábærlega. Við vorum á sviði frekar snemma á laugardeginum þannig að við vissum ekki alveg við hverju var að búast, en það var næstum fullt í húsinu og mikil stemning. Við frumfluttum tvö ný lög, Myrkraverk og lag eftir Stebba sem heitir Dimmalimm, það er alltaf smá stress þegar nýtt efni er á dagskránni en þetta steinlá og tókst vel.
Við höfum verið frekar duglegir að spila út um landið á síðasta árinu og höfum eignast marga góða vini sem var gaman að sjá að voru mættir til að hlusta á okkur. Ef eitthvað er þá höfum við frekar vanrækt Reykjavík á þessu ári, við verðum að fara að breyta því!

Hvenær má búast við útgáfutónleikum í borg óttans?
Okkur langar mjög að halda stóra og flotta útgáfutónleika, í einhverju flottu húsi. Við vitum að DIMMA er mjög sjónræn hljómsveit og okkur langar aðeins að fá að auka þá hlið í tónleikahaldinu. Okkur langar að leyfa okkur að taka áhættu og setja upp flott gigg sem við getum verið stoltir af á sama tíma og áhorfendur upplifa eitthvað aðeins öðruvísi en er í boði á þessum venjulegu stöðum sem rokksveitir eru að spila á. Við munum boða til veislu fljótlega í kjölfarið á útgáfunni á plötunni.

Hvað getið þið sagt mér um lagið sem kom nýlega á netið? (það verður linkur á soundcloud með laginu)
Lagið heitir Myrkraverk og er titillagið á plötunni. Lag og texti er eftir Ingó og Silli Geirdal stýrði upptökum eins og á plötunni allri. Þetta er alvöru þungarokk af gamla skólanum og er í þremur hlutum. Við ætluðum upphaflega að setja elektrógrunn á lagið en svo fannst okkur það grúva bara svo vel og virka þrælvel án allra svoleiðis klækjabargða að við leyfum því bara að vera “óld skúl” þungarokksslagarinn sem það er.

Hér má heyra þetta nýja lag: