Efnisorð: Norðanpaunk

Bölzer, Sinmara og vofa með tónleika á fimmtudaginn.

Fimmtudagskvöldið 3 ágúst næstkomandi verða haldnir tónleikar á Gauknum með svissnesku dauðarokksveitinni Bölzer, en sveitin er ein af mörgum erlendum hljómsveitum á Norðanpaunki í ár, og kvöldið fyrir hátíðina verður hitað upp með baneitruðum dauðarokkstónleikum á Gauknum.

Bölzer eru Íslendingum að góðu kunnir eftir að hafa spilað hér á Eistnaflugi 2014, en nú gefst höfuðborgarbúum tækifæri á að bera þá augum. Bölzer eru eitt stærsta nafnið í neðanjarðar dauðarokki í dag, en þeirra nýjasta plata “Hero” kom út í fyrra og hefur farið sannkallaða sigurför um heiminn. Bölzer eru rómaðir fyrir tónleika sína þar sem söngur, trommur og einn tíu strengja gítar framkallar stærri og þyngri hljóðheim en flest bönd gera með fullri liðsskipan, enda er ekkert til sparað í því að nýta hljóðkerfið til hins ítrasta. Óhætt er að lofa að þetta verði þyngstu tónleikar á Gauknum síðan Sleep.

Sinmara er ein helsta black metal hljómsveit landsins, en í kjölfarið á útgáfu þeirra fyrstu plötu “Aphotic Womb” árið 2014 hafa þeir verið iðnir við tónleikahald hér heima og erlendis. Sinmara gefur út nýtt MLP að nafni “Within the Weaves of Infinity” 24. ágúst., og mun túra fyrir þá plötu í desember ásamt I I, íslensku sveitinni Almyrkva og öðru tvíeyki að nafni Sortilegia.

Vofa er ný sveit sem hefur vakið mikla athygli á skömmum tíma fyrir þungan og biksvartan doom metal, en þeir spila einnig á Norðanpaunki í ár. Vofa er að taka upp sína fyrstu plötu um þessar mundir.

Hægt er að hlusta á plötunna HERO hér að neðan:
.

Within the Weaves of Infinity: Sinmara

NORÐANPAUNK 2017

Árlegt ættarmót pönkara verður haldið í fjórða sinn á Laugarbakka í vestur Húnavatnssýslu í félagsheimilinu Ásbyrgi Verslunarmannahelgina 4.-6. ágúst

Auk ljóðalesturs og listasmiðju kemur fram fjöldi íslenskra sem erlendra tónlistarmanna sem eiga það sameiginlegt að spila framúrstefnulega og/eða erfiða tónlist.
Meðal gesta eru dauðarokkshljómsveitin Bölzer frá Sviss, íslenska pönkhljómsveitin Dys, djöflarokkhljómsveitin Sun Worship frá Þýskalandi, ljóðapönkhljómsveitin Kælan Mikla, raftónvirkinn Kuldaboli, auk fjölda annarra framúrskarandi listamanna.
Alls koma fram 50 hljómsveitir frá 6 löndum á 3 dögum.

Auk þess að styrkja og styðja við íslenska jaðartónlist er það stefna Norðanpaunks að byggja á láréttu skipulagi. Þetta þýðir að samkoman er skipulögð frá A til Ö af sjálfboðaliðum og án aðkomu styrktaraðila og að allar tekjur af viðburðinum renna beint í framkvæmd hans. Norðanpaunk er samfélag sem byggir á því að allir leggist á eitt og að þátttakendur og gestir taki af skarið við að móta samkomuna og eiga aðkomu að framkvæmd hennar. Öllum flytjendum, gestum og sjálfboðaliðum er boðið að taka þátt í að skipuleggja Norðanpaunk næsta árs.

ATHUGIÐ! ENGIR MIÐAR VIÐ HURÐ!
Aðeins skráðir meðlimir í félagi áhugafólks um íslenska jaðartónlist fá aðgang. Skráning fer fram á heimasíðu félagsins www.nordanpaunk.org. Þar er einnig hægt að nálgast allar frekari upplýsingar um NORÐANPAUNK 2017.
A.T.H: B.Y.O.B.