Efnisorð: Nile

Nile - Black Seeds of Vengeance

Nile – Black Seeds of Vengeance (2000)

Relapse –  2000
http://www.relapse.com
http://www.nile-catacombs.com

Þegar dauðarokkið var nýtt fyrirbæri þá var ég stundum í vandræðum með að velja ókunnugar hljómsveitir úr rekkum verslana án þess að kaupa köttinn í sekknum og fara heim með lélegt thrash þegar ég vildi grinding death metal. Ég áttaði mig fljótlega á því að hægt var að snöggmeta band útfrá myndinni af þeim aftaná plötunni. Ef að hljómsveitarmeðlimir voru rosalega ljótir þá var óhætt að kaupa plötuna og ég gat verið nokkuð viss um að hún myndi falla að mínum smekk.
Meðlimir Nile eru helvíti ófríðir.
Trommuleikarinn er ofvirkur grindari, hinir þrír meðlimirnir sem syngja allir eru almennt með raddböndin staðsett einhversstaðar nálægt ristlinum og meðhöndla hljóðfæri sín af sama hraða og öryggi og hinn ofvirki trommuleikari. Ég hef ekki heyrt svona hratt dauðarokk síðan Suffocation og ef ég á að draga þessa samlíkingu við Suffocation eitthvað lengra þá er það einmitt hljómsveitin sem mér datt fyrst í hug þegar ég skellti Nile í spilarann. Nile eru samt ekki með þær rosalegu taktskiptingar sem einkenna lagasmíðar Suffocation en þvílíkur hraði!

Þegar líður á plötuna fara áhrif frá tónlist austurlanda nær að sýna sig, hraðinn pompar niður í laginu “To Dream of Ur” og næstu tvö lög, sem eru jafnframt síðustu lögin á plötunni, “The nameless city of the Accursed” og “Kheti Satha Shemsu” eru ritúalistískt flipp í anda þeirra egypsku trúarbragða sem meðlimir Nile hafa setið of lengi yfir á bókasafninu. Aðeins minnir það mig á aðra skemmtilega hljómsveit, Trial of the Bow, sem semja og spila arabíska tónlist á gömul hljóðfæri og gefa út hjá Release. Egypsk mystík er skemmtilega tilbreyting frá sataniskum og/eða ásatrúarpælingum margra annara dauðarokkara og skapa Nile sérstöðu en hljómar samt hálf undarlega frá Bandarískum peyjum. Svona eins og að heyra belgískt neðanjarðarband rugla með Þór og Óðinn í textum á flæmsku.
Best með morgunmatnum.

Siggi Pönk

Nile - In Their Darkened Shrines

Nile – In Their Darkened Shrines (2002)

Relapse –  2002

DAUÐINN LIFIR

Um miðjan síðasta áratug datt dauðarokkið nokkuð útaf og var nokkur lægð í þeim geira metaltónlistar í nokkur ár. Nú eru breyttir tímar og góðir tímar fyrir dauðarokkara gamla og nýja.
Talað hefur verið um Nile sem bjargvætta dauðarokksins. “In Their Darkened Shrines” er þeirra þriðja plata auk þess sem gömlu demoin þeirra hafa verið gefin út sem “In the Beginning.” Svo mikið gengur á í upphafi þessarar nýjustu afurðar þeirra að við fyrstu hlustun var erfitt að heyra hvað var helst um að vera. Lagasmíðarnar eru svo manískar í ótrúlegum hraða og riffum sem eru algerlega óprenthæf vegna þess hve flókin þau eru. Hvert lag getur verið ótrúleg samsetning og þá meina ég ó-trú-leg því það er ekki fyrir hvern sem er að trúa því að hægt sé að spila svona hratt, svona gróft og það svona tíðar skiptingar án þess að tapa hraðanum. Gamla Suffocation er alveg að taka limbódans í gröf sinni yfir þessari útfærslu á flóknu dauðarokki.
Nile hafa engu tapað í áhuga sínum á Egypskri mýtologíu og tilvitnanir í hana koma skýrt fram í tónlistinni. Sérstaklega verður þessi grafhýsisunaður áberandi þegar Nile hægja á sér eins og í “Sarcophagus” og “I Whisper in the Ear of the Dead”. Síðustu verkin á plötunni eru fjögurra kafla verk innblásið af H.P. Lovecraft. Byrjar á klassískri hermarséringu áður en aftur er skellt í hinn massíva vegg af ódauðlegu dauðarokki. Heilmikið lesefni fylgir með disknum þar sem útskýrður er hvaðan úr þjóðháttafræði eða goða- og djöflafræði Egypta innblástur hvers verks á allri plötunni er kominn auk þess að allir textar fylgja með. Glæsilegt.

S.Punk

Nile - Annihilation of the wicked

Nile – Annihilation of the wicked (2005)

relapse –  2005
www.relapse.com
www.nile-catacombs.net

Ég hef haft gaman að Nile í gegnum síðustu árin. Síðasta stykki fannst mér mjög gott. En einhvern veginn finnst mér þeir vera að gera lítið nýtt hérna og hafa staðnað. Uppiskroppa með hugmyndir. Meira að segja 10 mínútna lögin eru ekki alveg nógu góð miðað við fyrri viðlíka lög. Það er eins og þeir séu í 5 gír mestallan tímann. Kannski Nile hafi bara mettað mig fyrir fullt og allt, hver veit? Ekki misskilja, þetta er alls ekki slæm plata. Örugglega must fyrir death metal fanatíkerinn. Sem ég gæti varla talist til. Lashed to the slave stick er einn af virkilega góðu punktunum hér með hamrandi nákvæmni og grípandi línum. Svo eru partar hér og þar í öðrum lögum en það nægir mér ekki til að fíla plötuna yfir allt. Sagnfræðitextarnir eru enn sem áður metnaðarfullir og maður þarf virkilega að rýna í þá til að skilja það sem þeir eru að syngja um.
Þetta er ágætis dauðarokk en bliknar í samanburði við fyrri verk. Hljómsveitir sem endurtaka sig í sífellu verða óspennandi þegar á líður. Ég ætla að vona að Nile verði ekki alveg þannig þegar ár líða.
6/10

Bessi

Nile

Nile hafa lokið upptökum á nýrri skífu Annihilation of the Wicked. Neil Kernon var upptökustjóri. Alls eru 10 lög og þar af tvö instrumental. Heildartími: 65 mínútur. Að sögn Karl Sanders forstöðumanns Nile er þetta þeirra sterkasta efni fyrr og síðar. Karl gaf út plötuna Saurian meditation í fyrra sem má lýsa sem atmospheric og instrumental, rólegu köflunum sem finna má í Nile.