Efnisorð: Jói

Beneath gefa út Ephemeris í dag – Örviðtal!

Íslenska dauðarokksveitin Beneath gefur út plötuna Ephemeris í dag föstudaginn 18.ágúst, en þetta er þriðja breiðskífa sveitarinnar. Eins og áður þá er það Unique Leader útgáfan gefur út efni sveitarinnar. Þar sem þetta er frekar stór dagur hjá sveitinni er við hæfi að skella á hana nokkrar spurningar, og að fyrir svörum þetta skiptið er Jóhann Ingi Sigurðsson, gítarleikari sveitarinnar:

Til hamingju með nýju plötuna.
Takk!

Nú heftur verið nokkuð um mannabreytingar hjá ykkur, hverjir eru í bandinu þessa dagana?
Núna eru í bandinu ég (Jóhann) á gítar, Unnar á gítar, Benedikt syngur og svo bættist Maddi í hópinn fyrir stuttu og leysti þar af hólmi Gísla sem spilaði inn á plötuna.

Hvernig kom til að fá Mike Heller til að tromma hjá ykkur.
Við túruðum með bandinu hans Malignancy 2014 og héldum smá sambandi við hann eftir það. Síðan þegar kom að því að okkur bráðvantaði trommara fyrir plötuna, þá ákváðum við að heyra stutt í honum varðandi hvort hann vissi um einhverja trommara sem gætu haft áhuga á verkefninu. Það kom svo upp úr krafsinu að hann var meira en til í að tækla þetta sjálfur og þar með fórum við á fullt í að klára trommurnar fyrir plötuna. Það var frábært að vinna með honum og við erum drullusáttir við útkomuna, auk þess sem við lærðum alveg helling

Fyrir okkur sem hafa takmarkaða tungumálakunnáttu, hvað þýðir Ephemeris?
“Ephemeris” er enska orðið yfir rit sem gerð hafa verið í gegn um tíðina þar sem ritaðar eru stöður stjarnfræðilegra hluta á himninum – eins konar stjörnkort í töfluformi. Rauði þráður plötunnar er útrás mannkyns um plánetur og sólkerfi í krafti tækniþróunar – þegar tæknin hefur farið fram úr öllu því sem við getum gert okkur í hugarlund.

Hvernig er að vera í hljómsveit sem ekki staðsett í sama landi?
Það getur alveg reynt á þolrifin að geta ekki bara hist og kennt hvorum öðrum riff eða “djammað” á köflum. En bandið hefur í raun verið meira og minna í þessarri stöðu í 7 ár af þeim 10 sem við höfum starfað, þannig að þetta er nú orðið “normið” fyrir okkur.

Hvernig semjið þið tónlist?
Það er oft snúið og fjarlægð meðlima gerir það að verkum að við verðum allir að vera duglegir að vinna hver í sínu horni. Við tökum nokkuð reglulega fundi á Skype og ræðum hugmyndir og pælingar. Svo sendum við hugmyndir á milli sem við vinnum meira og púslum saman þangað til að þær eru komnar í það horf að við getum æft lögin upp. Síðan reynum við að demóa eins mikið og hægt er, aður en haldið er í stúdíó.

Hvað tekur svo við?
Við erum á fullu að leita að trommara en í framhaldi af því þá er lítið annað í stöðunni en að taka upp hljóðfærin og byrja að pæla í tónleikum, og í framhaldi, næstu útgáfu.

Decapitated - Nihility

Decapitated – Nihility (2002)

Wicked World –  2002
http://www.decapitated.metal.pl

Undrastrákarnir frá Póllandi eru komnir með framhaldið af hinni stórgóðu plötu “Winds of creation” og geftur þessi plata þeirri fyrri nákvæmlega ekkert eftir. Trommarinn Vitek er orðinn töluvert þéttari heldur en á fyrri plötunni (ekki það að hann hafi verið neitt slappur sko) og það kom mér mikið á óvart hvað guttinn “blastar” orðið mikið! Það er nokkuð hætt við að þeir sem fíluðu fyrstu plötuna verði fyrir einhverjum vonbrigðum fyrst um sinn með Nihility því þessi plata er hvergi nærri jafn “catchy” eða aðgengileg. Mér finnst bara þessi plata einfaldlega betri heldur en Winds.. og mér finnst þeir hafa þroskast mikið í lagasmíðum, farnir um mikið að minna á kóngana í Morbid Angel og þá sérstaklega Vogg gítarleikari. Helsti mínusinn á disknum finnst mér vera hvað heyrist lítið í martin bassaleikara, sérstaklega því hann er alveg geðveikur bassaleikari. Þessir strákar eru á góðri leið á toppinn í deathmetali og gaman að sjá þá gefa út einu sterkustu deathmetalplötu síðustu ára. Þetta er plata sem á eftir að eldast betur en Winds.. og ég sé fyrir mér þessa stráka sem rjómann af því sem er að gerast í deathmetalinnu í dag og vonandi halda þeir áfram á sömu braut.

Jói

Blood Red Throne - Monument of Death

Blood Red Throne – Monument of Death (2001)

Hammerheart Records –  2001
http://get.to/bloodredthrone

Ég hafði nú lítið heyrt um þetta band þar til ég sá einhvern netverja lofa þetta band upp úr skónum. Ég ákvað að skella mér á þennan disk og sé nú lítið eftir því. Hér er á ferð klassískt teknískt deathmetal sem minnir mann mest á bönd eins og Malevolent Creation, Deicide og Hate Eternal, enda stíla þeir á að spila þá tónlist sem þeir myndu helst vilja hlusta á sjálfir, að þeirra sögn. Mér skilst að aðalmaðurinn á bak við þetta band sé Tchort en hann hefur verið í böndum eins og Emperor og Green Carnation (sem síðar varð In the woods, og svo aftur Green Carnation) þó að Blood Red Throne eigi nú lítið skilt við þessi bönd í sjálfu sér, en að vísu eiga að leynast á þessum disk einhverjir gítarpartar sem áttu upphaflega að notast í Emperor.
Þessi diskur venst vel enda eru þessir gaurar mjög vel spilandi og pródúseringin er mjög fín, með því besta sem maður heyrir í deathmetali í dag. Hinsvegar finnst mér lögin dáldið renna út í eitt og einungis vera kaflar hér og þar sem festast í manni, það er eins og þeir séu ekki alveg að ná saman í lagasmíðum, vantar dálítið upprunaleika og þeir virðast ekki vera alveg nógu hugmyndaríkir. En þetta er fyrsta plata bandsins og þeir eru sannalega mjög upprennandi band og ég bíð spenntur eftir næstu plötu sem þeir eru á fullu að taka upp núna.

Jói

Theory In Practice - Colonizing The Sun

Theory In Practice – Colonizing The Sun (2002)

Listenable Records –  2002

Ég hef verið að bíða eftir þessari plötu eins best geymda leyndarmáls progressive deathmetals í 5
mánuði eða alveg síðan ég frétti að svíarnir í Theory In Practice væru búnir að taka upp nýja plötu. Þetta band hefur verið í miklu uppáhaldi síðan ég heyrði fyrst í þeim á fyrstu útgáfunni þeirra, Third Eye Function. Nýja platan ber nafnið Colonizing the Sun og er samsuða af death-metali með melódískri undiröldu. Gripurinn er tekinn upp í stúdíói trommuleikarans Peters í Sandviken í Svíþjóð og er hann gefinn út af Listenable Records sem er frekar smátt plötufyrirtæki sem gerir þennan disk einstaklega erfiðann að finna. Þetta er þriðja útgáfa þeirra pilta og má segja að þeir færist alltaf lengra og lengra frá “hefðbundnu” progressívu death-metali og yfir á einhverjar meira ótroðnar slóðir. Þessi diskur er í senn alveg ótrúlega þungur og þéttur en í senn útpældur og melódískur. Á báðum sviðum, þyngslum og melódík, brillera Theory In Practice og mynda hárfínt jafnvægi þar á milli í lagasmíðunum. Það má finna ýmsa áhrifavalda í tónlistinni og það er eins og þeir séu svona með allt frá Death og yfir í Dream Theater í græjunum hjá sér og allt þar á milli. Söngurinn minnir á köflum á Chuck Schuldiner (ef hann væri sænskur 😉 og minnir líka dálítið á Tony Teegarden (brútal röddin hjá Cynic á Focus) og þessi plata hefur verið gagnrýnd fyrir að vera ekki með melódískari söng en mér finnst þessi söngur hæfa þessari plötu fullkomlega enda er þessi plata númer eitt tvö og þrjú deathmetal plata. Trommuleikarinn er alveg rosalegur og einn af þeim betri sem eru í gangi í annars mjög trommuleikara-frjóu landi. Hann minnir oft á Asgeir Mickelson úr Spiral Architect eða Gene Hoglan á Individual.., og sjaldan hefur það nú talist löstur. Gítarleikurinn er mjög skemmtilegur og mikið um verulega flott “lead” og þess á milli alveg drulluþéttir slamm-kaflar. Ég sakna kannski helst á þessum disk klassíska gítarsins sem einkenndi bandið á fyrsta disknum en í staðinn eru komin áberandi hljómborð sem eru kærkomin viðbót eins og þau eru notuð á þessum disk.

Þá kem ég að því eina sem má setja út á diskinn og það er pródúseringin á trommunum, þær eru einfaldlega svo lágt mixaðar að maður missir stundum af því hvað þessi annars geðveiki trommuleikari er að gera. Ég mæli með því að allir sem eru mikið fyrir flókið death-metal tékki á þessu bandi því þetta er einfaldlega besti progressive metal-diskur á síðustu árum og gaman að sjá einhverja vera að koma með ný element inn í sænska death-metalið. Einn í safnið!

Tóndæmi:
Colonizing The Sun http://hem.passagen.se/theory/Colonizing%20The%20Sun.mp3
Conspiracy In Cloning http://hem.passagen.se/theory/Conspiracy%20in%20Cloning.mp3

Jói

Sw1tched - Subject to change

Sw1tched – Subject to change (2002)

Virgin –  2002

Orðið “nu-metal” er mikið buzzword í metalheiminum í dag enda er það eina tegund metalsins í dag
þar sem menn verða milljónamæringar á “einni nóttu”. Sw1tched fellur auðveldlega undir þessa skilgreiningu enda eftir 10 – 15 sekúndna hlustun á diskinn ættu flestir að vera komnir á sömu skoðun. Þeir spila hinsvegar nu-metal tónlist betur heldur en lang-flest önnur bönd í geiranum og svosem ekki skrýtið þar sem strákarnir búnir að spila í heil 15 ár saman!

Það má greina þónokkra influensa hjá þeim svo sem Incubus, Korn, og jafnvel bönd eins og Prong (man einhver eftir þeim) og Tool svo einhverjir áhrifavaldar séu nefndir. Einnig má alveg greina þónokkurn Deftones keim af þeim, en þá svona meir í átt að því sem deftones eru að spila í dag. Þeir eru alveg með þetta á hreinu og bregða fyrir sig skotheldum rythmum og töfrandi viðlögum sem ættu að heilla marga upp úr skónum. En þeir geta líka verið eins harðir eins og þeir eru “catchy” eins og sést í laginu Anymore (sem er harðasta lagið á disknum).

Söngvarinn Benjamin Schigel er með djöfulli góða rödd í nu-metalið, smellur alveg vel inn í hópinn með mönnum eins og J.Davis, Chino og félögum. Það má eiginlega segja að hann haldi disknum uppi á köflum með melódískum söng í bland við öskur og þess á milli hvísl og allt tilheyrandi. Pródúseringin á disknum er í anda numetalsins í dag, mjög dæmigerð og augljóslega einhver stjörnupródúser við stjórnvölinn, enda gefur Virgin kappana út og það sést á allri umgjörð disksins að hér er verið að bæta nýrri skærri sjörnu á nu-metal himninum.

Þeir sem eru opnir fyrir svona commercial nu-metal ættu endilega að skella sér á gripinn þar sem hér er á ferð diskur sem slær megninu af roadrunner nu-metalinum út af kortinu.

Toppar:
Religion, Anymore, Last Change

Jói

Callenish Circle - Flesh Power Dominion

Callenish Circle – Flesh Power Dominion (2002)

Metal Blade –  2002
http://www.callenish-circle.com

Hljómsveitin Callenish Circle er samansafn hollenskra dauðarokkara sem eiga það sameiginlegt að vera sannfærðir um að þeir séu sænskir. Eða það mætti halda þegar hlustað er á nýjustu afurð þeirra félaga. Ég hef ekki heyrt fyrri útgáfur Callenish Circle en skilst að á eldri diskunum sé meira að gæta doom áhrifa. Þessi diskur er alveg ótrúlega sænskur í alla staði, hann sver sig í ætt við gautarborgar-bönd eins og At the gates, In flames og Dew-scented, og er það ekki leiðum að líkjast.

Þeir eiga góða spretti á þessum disk en allt í allt þá finnst mér þessi diskur bara endurtekning á því sem hefur verið að gerast í gautarborgarsenunni síðustu 5 – 6 árin. Sérstaklega finnst mér gítarmelódíurnar oft fara út í að vera bara grunnar og klisjukenndar. Það er kannski helst að þeir nái að rífa sig upp úr endurtekningunum í Suffer my disbelief og Bleeding sem eru langbestu lögin á plötunni. En það er erfitt að koma alltaf með eitthvað nýtt og ferskt og þó frumleikinn sé kannski ekki í fyrirrúmi á þessum disk, þá eru þeir mjög þéttir og skila sínu mjög vel. Sándið er rosalega gott og melódíurnar skila sér vel gegnum þykkan múr af gítarsándi.

Þeir taka einstaklega flott cover af Pull the Plug til heiðurs Chucks úr death og gera það með afbrigðum vel. Ég leyfi mér að segja að þeir slái þar meira að segja út cover Múspells á því ágæta lagi. En að öllu gríni slepptu þá get ég ekki mælt sérstaklega með þessum disk fyrir þá sem hafa mikla reynslu af metali síðustu ára því þeir koma ekki til með að sjá margt frumlegt í gangi. Það er kannski helst að þessi diskur virki best á þá sem eru að kynnast gautarborgarmetal.

Toppar:
Suffer my disbelief, Bleeding, Pull the Plug
Obey Me

Jói

Susperia - Vindication

Susperia – Vindication (2002)

Nuclear Blast –  2002
Pródúserað af Peter Tägtgren (Pain, Hypocrisy)

Jæja þá er maður loksins kominn með gripinn í hendurnar, síðasti diskurinn sem Peter Tägtgren tók up í Abyss Studios. Ég var nokkuð hrifinn af fyrri disk Susperia en fannst hann kannski vera full stereo-týpískur en engu að síður vel spilað deathmetal með töluverðum blackmetaláhrifum. Þessi diskur minnir óneitanlega á Puritanical Euphoric Misanthropia og er Athera meira að segja farinn að reyna meira fyrir sér í clean-söngnum en án mikils árangurs og ætti karlinn eiginlega bara að halda sig við öskrin.

Spilleríið er hér allt voða fágað og flott sándandi en einhvern neista vantar og þeir Susperia félagar ná engan veginn að halda uppi frumleikanum sem maður fann svo vel á Predominance. Platan er alls ekki alslæm, það má finna ágætispukta á honum en þegar á heildina er litið þá er voða lítið sem rekur mig til að setja þennan í spilarann. Sagan segir meira að segja að Peter Tägtgren hafi ekki þegið neina borgun fyrir að pródúsera þennan disk, að hann hafi haft þvílíka trú á efninu. Ég vildi að ég sæi það sem hann sér við þennan disk.

Þeir sem fíluðu Puritanical.. með Dimmu Borgum ættu svosem að geta fundið eitthvað við sitt hæfi á þessum disk. Aðrir græða lítið á honum.

Jói

Grave - Into The Grave

Grave – Into The Grave (1991)

Century Media –  1991

Ég hef aldrei verið aðdáandi Grave. Mér fannst þeir spila ofur-einfalt ómerkilegt dauðarokk sem
höfðaði á þeim tíma ekkert til mín. En í dag, þá finn ég sífellt fyrir þörfinni að fá smá hvíld frá ofur- flóknu og þungmeltu dauðarokki þar sem maður þarf sífellt að eltast við ofurfæra hljóðfæraleikara og sífelldar taktskiptingar. Þá koma Grave alveg eins og himnasending!

Grave spila eins mikið “frumbyggja”-dauðarokk og hægt er, einföld en drulluþung riff þar sem þykkur veggur af gítörum og djúp öskur Jörgen Sandström (sem síðar varð bassaleikari Entombed) murka úr manni allt líf. Þessi plata er svo sannalega gullmoli sænska dauðarokksins og grunnurinn að þeirri frábæru sænsku senu sem hefur spítt frá sér hverju snilldar bandinu á fætur öðru.

Frábær plata sem ætti algerlega að vera orðabókaskilgreiningin á orðinu Deathmetal! Skyldueign!

Jói

Meshuggah - Nothing

Meshuggah – Nothing (2002)

Nuclear Blast –  2002
http://www.meshuggah.net

Meshuggah er hljómsveit sem hefur í gegnum tíðina tekið gríðarleg stökk á milli platna, mismikil en þó þannig að hægt sé að staðhæfa að engin plata með þeim er eins. Það er stöðug þróun í gangi hjá þeim og á fyrstu breiðskífunni, Contradictions Collapse, mátti greina áhrif frá Metallica eins og þeir hljómuðu ca ’86-’88. Þau áhrif fjöruðu hratt út og Meshuggah steig skref í átt sem engin 0nnur hljómsveit virðist hafa tekið, í átt þar sem áherslan var kannski sett meiri á taktpælingar og poly- rythma en minni á melódíur.

Með nýjustu útgáfu sinni hefur Meshuggah tekið skrefið að fullu og svona 10 skref í viðbót! Tónlistin er köld og vélræn þannig að ekki búast við að finna einhvað útvarpsvænt nu-metal eða singalongs. Sándið hefur breyst töluvert enda notast Fredrik og Mårten við 8-strengja gítara frá Ibanez sem voru sérsmíðaðir fyrir upptöku plötunnar, og þeir sánda hreint ótrúlega! Djúp ómelódísk gítarriffin eru ótrúlega áhrifamikil og skila sér vel á disknum þökk sé frábærrar pródúseringar á gítarsándinu. Jens Kidman söngvari hljómar mun agressívari og þéttari á þessari plötu heldur en á Chaosphere, enda lenti bandið í miklum tímahremmingum með þá plötu. Tomas Haake er nær algerlega vélrænn í trommuleik sínum, og ég gæti sjálfsagt eitt 1000 orðum í að dásama hans trommuleik en í mjög stuttu máli þá toppar hann sig alveg á þessari plötu, en hann hefur breytt stílnum sínum aðeins á þessari plötu, spilar hægar og einbeitir sér frekar að hægari trommutöktum og meiri neglingu. Maður getur léttilega eitt fleiri klukkustundum í að velta sér upp úr sumum trommupælingunum á disknum.

Nothing er tormeltasta plata sem ég hef heyrt í langan tíma, maður á erfitt með að setja sig inn í tónlistina, maður týnist í taktflækjum sem endar með því að maður bara rífur af sér heyrnatólin og spyr sig hreinlega, “Hvað er í gangi???!!” – En eins og allt Meshuggah efni sem ég hef heyrt hingað til, þá sest hvert lagið á fætur öðru inn og áður en maður veit af, þá stendur maður uppi með eina sterkustu og óvenjulegustu plötu ársins. Þyngri, hægari og hrárri en eldra efnið en full af þessum litlu smáatriðum sem skipta öllu máli.

Meshuggah eru hægari, þyngri og agressívari heldur en nokkru sinni fyrr, og skríða áfram eins og risastór ljótur skriðdreki sem valtar yfir allt sem fyrir verður.

Jói

The Black Dahlia Murder – Miasma (2005)

Metal Blade –  2005
http://www.theblackdahliamurder.com/

Eftir hina stórfínu Unhallowed hef ég haft nafnið The Black Dahlia Murder á bak við eyrað og núna eftir að hafa heyrt Miasma sé ég að hér er komið band sem ætlar sér stóra hluti. Miasma ætti ekki að valda neinum vonbrigðum sem fíluðu fyrri útgáfu bandsins en þó er þessi plata meira grind-based og greina má heavy deathmetal influence í lögum á borð við A Vulgar Picture og Flies. Þar gæti maður á köflum haldið að Origin eða Despised Icon væru mættir á svæðið, en þó er alltaf stutt í melódíurnar. Að mínu mati smella lagasmíðarnar hjá bandinu einna best þegar þeir splæsa saman deathmetal (og stundum jafnvel blackmetal) og svíametal í einhverja súper-melódíska grind-geðveiki. Gott dæmi um þetta er titillag plötunnar sem er áberandi grípandi og vel samið. Gítarleikurinn á plötunni er mun betri en á Unhallowed og eru tví-melódíur (annar gítarleikarinn raddar hinn með áberandi öðrvísi gítarlínu) mjög áberandi, og gefa þær lögunum þessi melódísku svía-áhrif. Auk þess eiga trommurnar á þessum disk skilið mikið hrós en þær eru alveg snargeðveikar. Söngur Trevor Strnad er frekar skrækur og geta virkað pínulítið fráhrindandi í fyrstu en vinna vel á, og eftir töluverða hlustun verður skræka öskrið hans gjörsamlega ómissandi.

Stórgóð plata frá bandi sem lofar ótrúlega góðu.

Jói