Efnisorð: Jói

Beneath gefa út Ephemeris í dag – Örviðtal!

Íslenska dauðarokksveitin Beneath gefur út plötuna Ephemeris í dag föstudaginn 18.ágúst, en þetta er þriðja breiðskífa sveitarinnar. Eins og áður þá er það Unique Leader útgáfan gefur út efni sveitarinnar. Þar sem þetta er frekar stór dagur hjá sveitinni er við hæfi að skella á hana nokkrar spurningar, og að fyrir svörum þetta skiptið er Jóhann Ingi Sigurðsson, gítarleikari sveitarinnar:

Til hamingju með nýju plötuna.
Takk!

Nú heftur verið nokkuð um mannabreytingar hjá ykkur, hverjir eru í bandinu þessa dagana?
Núna eru í bandinu ég (Jóhann) á gítar, Unnar á gítar, Benedikt syngur og svo bættist Maddi í hópinn fyrir stuttu og leysti þar af hólmi Gísla sem spilaði inn á plötuna.

Hvernig kom til að fá Mike Heller til að tromma hjá ykkur.
Við túruðum með bandinu hans Malignancy 2014 og héldum smá sambandi við hann eftir það. Síðan þegar kom að því að okkur bráðvantaði trommara fyrir plötuna, þá ákváðum við að heyra stutt í honum varðandi hvort hann vissi um einhverja trommara sem gætu haft áhuga á verkefninu. Það kom svo upp úr krafsinu að hann var meira en til í að tækla þetta sjálfur og þar með fórum við á fullt í að klára trommurnar fyrir plötuna. Það var frábært að vinna með honum og við erum drullusáttir við útkomuna, auk þess sem við lærðum alveg helling

Fyrir okkur sem hafa takmarkaða tungumálakunnáttu, hvað þýðir Ephemeris?
“Ephemeris” er enska orðið yfir rit sem gerð hafa verið í gegn um tíðina þar sem ritaðar eru stöður stjarnfræðilegra hluta á himninum – eins konar stjörnkort í töfluformi. Rauði þráður plötunnar er útrás mannkyns um plánetur og sólkerfi í krafti tækniþróunar – þegar tæknin hefur farið fram úr öllu því sem við getum gert okkur í hugarlund.

Hvernig er að vera í hljómsveit sem ekki staðsett í sama landi?
Það getur alveg reynt á þolrifin að geta ekki bara hist og kennt hvorum öðrum riff eða “djammað” á köflum. En bandið hefur í raun verið meira og minna í þessarri stöðu í 7 ár af þeim 10 sem við höfum starfað, þannig að þetta er nú orðið “normið” fyrir okkur.

Hvernig semjið þið tónlist?
Það er oft snúið og fjarlægð meðlima gerir það að verkum að við verðum allir að vera duglegir að vinna hver í sínu horni. Við tökum nokkuð reglulega fundi á Skype og ræðum hugmyndir og pælingar. Svo sendum við hugmyndir á milli sem við vinnum meira og púslum saman þangað til að þær eru komnar í það horf að við getum æft lögin upp. Síðan reynum við að demóa eins mikið og hægt er, aður en haldið er í stúdíó.

Hvað tekur svo við?
Við erum á fullu að leita að trommara en í framhaldi af því þá er lítið annað í stöðunni en að taka upp hljóðfærin og byrja að pæla í tónleikum, og í framhaldi, næstu útgáfu.

The Black Dahlia Murder – Miasma (2005)

Metal Blade –  2005
http://www.theblackdahliamurder.com/

Eftir hina stórfínu Unhallowed hef ég haft nafnið The Black Dahlia Murder á bak við eyrað og núna eftir að hafa heyrt Miasma sé ég að hér er komið band sem ætlar sér stóra hluti. Miasma ætti ekki að valda neinum vonbrigðum sem fíluðu fyrri útgáfu bandsins en þó er þessi plata meira grind-based og greina má heavy deathmetal influence í lögum á borð við A Vulgar Picture og Flies. Þar gæti maður á köflum haldið að Origin eða Despised Icon væru mættir á svæðið, en þó er alltaf stutt í melódíurnar. Að mínu mati smella lagasmíðarnar hjá bandinu einna best þegar þeir splæsa saman deathmetal (og stundum jafnvel blackmetal) og svíametal í einhverja súper-melódíska grind-geðveiki. Gott dæmi um þetta er titillag plötunnar sem er áberandi grípandi og vel samið. Gítarleikurinn á plötunni er mun betri en á Unhallowed og eru tví-melódíur (annar gítarleikarinn raddar hinn með áberandi öðrvísi gítarlínu) mjög áberandi, og gefa þær lögunum þessi melódísku svía-áhrif. Auk þess eiga trommurnar á þessum disk skilið mikið hrós en þær eru alveg snargeðveikar. Söngur Trevor Strnad er frekar skrækur og geta virkað pínulítið fráhrindandi í fyrstu en vinna vel á, og eftir töluverða hlustun verður skræka öskrið hans gjörsamlega ómissandi.

Stórgóð plata frá bandi sem lofar ótrúlega góðu.

Jói

The Gates of Slumber - Conqueror

The Gates of Slumber – Conqueror (2008)

I Hate Records/Profound Lore –  2008
http://www.myspace.com/thegatesofslumber
http://www.thegatesofslumber.com/

Það er til margt karlmannlegt og töff. Vöðvar, sverð og dráp á óvinum eru til að mynda hlutir sem geta verið ansi safaríkir með góðri skvettu af testósteróni. „Conqueror“ er um þessa hluti og svo margt annað karlmannlegt að manni vex þriðja eista við að hlýða á níðþungar drunurnar og það er ekkert minna en svitafýla af þessu plötukoveri. Ef maður myndi versla plötuna einungis vegna eitursvelni þessarar myndar yrði (karl)maður seint fyrir vonbrigðum þar sem hún hlunkast áfram eins og stolt naut með öryggi í hverju skrefi og þandar nasir. Maður ætti aldrei að reyna neitt. Sumir reyna of mikið og sýna það. The Gates of Slumber reyna ekkert, það er í eðli þeirra, líkt og að elta uppi kvensur, að anda og drekka áfenga drykki, að spila níðþungt rokk. Doom. Þvílík plata!

Miðað við fyrri plötur þessara bandarísku meistara er pródúseringin betri en maður hefur hingað til kynnst og söngurinn einbeittari og talsvert betri. Að spila doom í anda Pentagram og Saint Vitus er ekki ný hugmynd undir sólinni, en það skiptir fjandakornið litlu máli þegar það er gert af jafn mikilli greddu og staðfestu og þetta tríó sýnir á plötum sínum. „Conqueror“ inniheldur gríðarlega mörg fantagóð lög og ég hef verið duglegur við að skipta um skoðun á því hvaða lag, eða lög, ég held mest upp á, sem sýnir líklega best hvað þetta er heilsteypt og þétt út í gegn.

Manni finnst skrítið að þessi sveit njóti ekki meiri hylli en hún gerir, og finnst mér það ástæðulaust að jafn margir hafi aldrei heyrt hennar minnst og raun ber vitni. Það er lítið um rúnk, og það er lítið um fegurð, en það eru fjandans melódíur í þessu og riff sem fá mann til að rísa á fætur og kinka kolli líkt og maður eigi lífið að leysa. The Gates of Slumber er ein af þessum sveitum sem ég er svo spenntur yfir að hafa kynnst og það er ótrúlega gaman að hlusta á jafn þungt og öflugt þung-tudda-pung-svita-doom rokkband. „Conqueror“ er plata sem heldur áfram að gefa og gefa í hverri hlustun og er klárlega með betri útgáfum ársins.

Ítarefni:

The Gates of Slumber – “Trapped in the Web” af “Conqueror”

Jói

Meshuggah - Obzen

Meshuggah – Obzen (2008)

Nuclear Blast –  2008

„Obzen“ er sjötta breiðskífa Meshuggah, en með henni feta þeir ekki beint nýjar slóðir þrátt fyrir að ná að halda ákveðnum ferskleika í hljómi sínum. Gott jafnvægi er í plötunni, og er hún ákaflega vel byggð upp með ‚rólegri‘ köflum inn á milli til að undirstrika almennilega geðveikina sem Meshuggah geta svo sannarlega náð þegar þeir keyra allt í botn. Maður þarf ekkert að útskýra hvernig Meshuggah hljóma. Þetta er týpískt Meshugah sánd, með týpískum Messhugah krafti og Meshuggah hæfileikum. En mikið andskoti gera þeir þetta líka vel!

Þessir kappar hafa fyrir löngu sett ótrúlegan standard, og hafa orðið mörgum metalsveitunum mikill innblástur með framsæknu hugarfari og virkilega ákáfum hljóm. Þetta skortir ekki á „Obzen“, og þykir mér eiginlega ótrúlegt að sveitin nái enn að búa til plötur sem eru jafn áhugaverðar og með jafn fjölbreytileg og grípandi lög og raun ber vitni. Ég held að ef einhver sveit hefði efni á því að gera þreytta, þurra eða óspennandi plötu, þá sé það Meshuggah, sem er klárlega ein áhrifamesta og mikilvægasta metal sveit allra tíma. En hér bregðast þeir ekki frekar en fyrri daginn.

Ef ég ætti að bera „Obzen“ saman við aðrar útgáfur Meshuggah veit ég ekki hvar ég myndi setja hana. Ég hef heyrt betri plötur frá þeim, svona heilt á litið, en klárlega hafa þeir gert þær slakari. Þá eru sum lögin svo níðþung og refsandi á „Obzen“ að þau fara sjálfkrafa í hóp með mínum uppáhalds lögum með Meshuggah. Þetta er hörku helvítis plata. Eitt vandamál sem sumir hafa nefnt í sambandi við Meshuggah er að hljómurinn á plötum þeirra verði þreytandi og að erfitt sé að halda einbeitingu í öllum hávaðanum og geðsýkinni. Þetta skil ég að mörgu leyti, en eins og ég sagði, þá er platan fjölbreytileg, og gefur manni alltaf smá pásu til að anda áður en svipan er hafin aftur á loft til að keyra áfram þessa hrikalegu maskínu.

Jói

Metallica - Death Magnetic

Metallica – Death Magnetic (2008)

Warner Bros. –  2008

Metallica er sveit sem óþarft er að kynna, en þegar maður fjallar um útgáfu slíkrar sveitar hlýtur maður að velta því fyrir sér hvort það sé réttlætanlegt. Eiga Metallica menn það skilið að tróna á toppi tónlistarheimsins sem ein þekktasta metalsveit allra tíma? Og það sem meira máli skiptir, er eitthvað varið í „Death Magnetic“, þeirra nýjustu afurð? Að mínu mati, já, en skoðanir á þessari plötu er líklega jafnmargar og fjöldinn sem hún selst í. Það er þó erfitt að neita því að hér er á ferðinni hörkuþétt og þrusugóð rokk plata sem sparkar rækilega í rassa. Alvöru riff eftir riff, grípandi söngmelódíur, æpandi sóló og skemmtilegur trommuleikur keyra plötuna áfram sem vinnur á með hverri hlustun.

Platan lak að sjálfsögðu á netið, og þar sem allir hafa rödd er viðbúið að skoðanir séu æði misjafnar. Það var löngu ljóst að sama hvernig platan myndi hljóma, hvernig lögin yrðu og allt innihaldið, að fólk myndi á margan hátt annaðhvort elska eða hata þessa plötu. Sumum finnst að eftir fjórar fyrstu plötur Metallica sé þeim skylt að færa okkur aðra eins snilld. En því má ekki gleyma að hér eru á ferðinni þrjú gamalmenni sem muna sinn fífil fegurri, og fyrstu plöturnar voru þvílík meistaraverk að tæplega er hægt að ætlast til þess af nokkrum manni að skapa eitthvað á pari við þær. Hvað Metallica menn voru að reyna með þessari plötu er óvíst. Persónulega finnst mér þeir ekki hafa neitt að sanna. Að mínu mati hafa síðustu útgáfur Metallica verið óspennandi, en hafi þeir ætlað sér að sanna tilverurétt sinn meðal þeirra allra bestu, held ég að þeim hafi tekist það með „Death Magnetic“.

„Death Magnetic“ er löng plata og gefur eitthvað nýtt af sér með hverri hlustun. Hún er stútfull af flottum lögum og er keyrslan á köflum betri en maður hefði nokkurn tímann þorað að vona. Ég bjóst satt best að segja ekki við neinu frá Metallica, en það hjálpar þeim líklega. Auðvitað er trommuleikurinn kannski ekki sá merkilegasti, og textar og söngur Hetfield stundum einstaklega klisjukenndur og kjánahrollsvekjandi, en sitt sýnist hverjum. Ég hef mjög gaman af „Death Magnetic“. Mér finnst hún tæplega eitthvað meistaraverk, og hún jafnast ekki á við margt af því sem ég hef heyrt þetta árið, en þetta er góð plata sem vex með hverri hlustun, og klárlega risastórt stökk í rétta átt hjá gömlu skörfunum í Metallica.

Jói

Decapitated - Nihility

Decapitated – Nihility (2002)

Wicked World –  2002
http://www.decapitated.metal.pl

Undrastrákarnir frá Póllandi eru komnir með framhaldið af hinni stórgóðu plötu “Winds of creation” og geftur þessi plata þeirri fyrri nákvæmlega ekkert eftir. Trommarinn Vitek er orðinn töluvert þéttari heldur en á fyrri plötunni (ekki það að hann hafi verið neitt slappur sko) og það kom mér mikið á óvart hvað guttinn “blastar” orðið mikið! Það er nokkuð hætt við að þeir sem fíluðu fyrstu plötuna verði fyrir einhverjum vonbrigðum fyrst um sinn með Nihility því þessi plata er hvergi nærri jafn “catchy” eða aðgengileg. Mér finnst bara þessi plata einfaldlega betri heldur en Winds.. og mér finnst þeir hafa þroskast mikið í lagasmíðum, farnir um mikið að minna á kóngana í Morbid Angel og þá sérstaklega Vogg gítarleikari. Helsti mínusinn á disknum finnst mér vera hvað heyrist lítið í martin bassaleikara, sérstaklega því hann er alveg geðveikur bassaleikari. Þessir strákar eru á góðri leið á toppinn í deathmetali og gaman að sjá þá gefa út einu sterkustu deathmetalplötu síðustu ára. Þetta er plata sem á eftir að eldast betur en Winds.. og ég sé fyrir mér þessa stráka sem rjómann af því sem er að gerast í deathmetalinnu í dag og vonandi halda þeir áfram á sömu braut.

Jói

MASTODON - Leviathan

Mastodon – Blood mountain (2006)

relapse –  2006
www.mastodonrocks.com

Ég byrjaði að hlusta á Mastodon 2002 og var það þá hin stórgóða Remission sem misþyrmdi eyrum mínum í dágóðan tíma, síðan þá hefur aldrei langur tími liðið milli Mastodon hlustana. Það sem heillaði mig frá fyrstu hlustun var hrár krafturinn og samblanda flókinna gítar-riffa og urrandi söngs. Allt þetta ásamt keyrslu Brann Dailor (trommur) sem jafnast á við 18 hjóla trukk á 300 km/h hraða, drepandi allt sem í vegi hans verður, er erfitt að standast. Í fyrstu var maður ekkert minna en orðlaus. Gleðin sem fylgir því að hlusta á svona tóna sem vekja uppi hjá manni þennan líka aragrúa af tilfinningum hefur gert það að verkum að ég er í dag sorglega mikill aðdáandi Mastodon.

2004 gáfu þeir út concept-plötuna Leviathan sem var byggð á Moby Dick eftir Herman Melville. Sú plata kom þeim endanlega á kortið í metalheiminum og var að margra mati besta plata þess árs. Breytingin milli Remission og Leviathan var sú að minna fór fyrir hráum og dýrslegum krafti í lagasmíðum Mastodon, en þess í stað voru lögin orðin örlítið fágaðri, meira var lagt upp úr söngnum og varð platan því heildina sterkari sem verk og aðgengilegri.

Og nú, tveimur árum síðar, hafa þeir loks gefið út Blood Mountain. Margt hefur breyst. Eftir athyglina sem Leviathan færði þeim gerðu þeir samning við Warner Music og hættu hjá Relapse Records. Pressan hugsanlega orðin meiri, en Mastomennirnir hvergi bangnir og er Blood Mountain greinilegt merki um það. Aftur er breyting milli platna mikil og Blood Mountain á lítið sameiginlegt með Leviathan.

Platan hefst á “nettu” trommuslagi og síðan er manni skellt í rússíbanann með laginu The Wolf is Loose – og maður veit strax að þeir eru ekki að fara að bregðast manni. Allt frá fyrstu sekúndu er manni ljóst að ekki verður aftur snúið. Platan er stútfull af ótrúlegum lögum, riff ofan á riff, á köflum framúrstefnulegar lagasmíðar, tilraunir í söng og sóló sem verða ‘instant classic’. Svo maður reyni að ræða aðeins muninn á Blood Mountain og fyrri verkum Mastodon verður því líklega best líst þannig að Blood Mountain er aðgengilegasta platan sem Mastodon hafa gefið út hingað til en engu að síður tormelt á köflum og þarfnast pínulítillar umhugsunar. Enn og aftur tóna þeir dýrslega kraftinn niður, en hafa lært að stjórna honum, og nýta hann betur þannig að þegar það á við er engu líkara en óður úlfur sé að rífa mann í tætlur. Þá hefur gítarleikurinn, sem er í höndum Brent Hinds og Bill Kelliher og hefur alltaf verið til mikillar fyrirmyndar, orðið enn betri og setur Troy Sanders (bassi) mikinn þéttleika í spilið. Þá koma að plötunni ýmsir þekktir kappar, og er innslag Josh Homme (Queens of the Stone Age/ex-Kyuss) í laginu Colony of Birchmen, þar sem hann syngur, einna best. Auk hans syngja á plötunni Cedric-Bixlar Zavalas (The Mars Volta/ex-At the Drive-In) og Scott Kelly (Neurosis) og setja virkilega skemmtilegan heildarsvip á plötuna.

Mastodon hljómurinn er aldrei langt undan og rosalega mikið af því sem ég heillaðist hvað mest af þegar ég heyrði fyrst í þeim er ennþá til staðar – þeir hafa bara orðið betri. Fjölbreyttari metal plata hefur ekki heyrst síðan Mastodon gáfu út Leviathan og hafa þeir sýnt það að þeim eru allir vegir færir. Eina stundina geta þeir verið virkilega drungalegir, en þess á milli geta komið kafar sem eru með heilmikið grúv og þá eru þeir oft á tíðum stórskrítnir og er með Blood Mountain stórt skref tekið út í prog-metalstefnuna.

Með Blood Mountain skjóta Mastodon menn sér á toppinn í metalnum í dag og er samkeppnin nokkrum ljósárum á eftir þeim. Langbesta plata ársins hingað til og er hún ein alsherjar árás á skynfærin. Að hlusta á allt annað eftir þessa plötu er eins og að reyna að troða ofan í sig skyri eftir jólasteikina.

Jói

Blood Red Throne - Monument of Death

Blood Red Throne – Monument of Death (2001)

Hammerheart Records –  2001
http://get.to/bloodredthrone

Ég hafði nú lítið heyrt um þetta band þar til ég sá einhvern netverja lofa þetta band upp úr skónum. Ég ákvað að skella mér á þennan disk og sé nú lítið eftir því. Hér er á ferð klassískt teknískt deathmetal sem minnir mann mest á bönd eins og Malevolent Creation, Deicide og Hate Eternal, enda stíla þeir á að spila þá tónlist sem þeir myndu helst vilja hlusta á sjálfir, að þeirra sögn. Mér skilst að aðalmaðurinn á bak við þetta band sé Tchort en hann hefur verið í böndum eins og Emperor og Green Carnation (sem síðar varð In the woods, og svo aftur Green Carnation) þó að Blood Red Throne eigi nú lítið skilt við þessi bönd í sjálfu sér, en að vísu eiga að leynast á þessum disk einhverjir gítarpartar sem áttu upphaflega að notast í Emperor.
Þessi diskur venst vel enda eru þessir gaurar mjög vel spilandi og pródúseringin er mjög fín, með því besta sem maður heyrir í deathmetali í dag. Hinsvegar finnst mér lögin dáldið renna út í eitt og einungis vera kaflar hér og þar sem festast í manni, það er eins og þeir séu ekki alveg að ná saman í lagasmíðum, vantar dálítið upprunaleika og þeir virðast ekki vera alveg nógu hugmyndaríkir. En þetta er fyrsta plata bandsins og þeir eru sannalega mjög upprennandi band og ég bíð spenntur eftir næstu plötu sem þeir eru á fullu að taka upp núna.

Jói

Reino Ermitaño - Rituales Interiores

Reino Ermitaño – Rituales Interiores (2008)

I Hate Records –  2008
www.myspace.com/reinoermitano

Ég veit lítið sem ekkert um Perú. Það sem ég veit er að landið er í Suður-Ameríku og að þaðan kemur hið feikigóða band Reino Ermitaño. Á nýjustu plötu sinni „Rituales Interiores“ á öllu um koll að keyra með gríðarlega þungum doom-metal. Leidd af Tania Duarte, virkilega öflugum kvenkyns söngvara (nema hvað), þjösnast sveitin áfram og er annað erfitt en að líkja hljómnum við hljómsveitir á borð við St. Vitus og Acid King. Þá hefur sveitin nóg til brunns að bera og er furðu margt í gangi á þessari plötu sem nokkrar hlustanir tekur að merkja. Sveitin hefur sinn eigin hljóm, sérstaklega sökum söngsins, og jafnvel þó ég skilji ekkert hvað þar fer fram skemmir það ekki fyrir, heldur þvert á móti bætir miklu við dularfullt og illt andrúmsloftið sem ríkir á „Rituales Interiores“.

Reino Ermitaño er perúsk sveit eins og áður sagði og hefur verið starfandi frá árinu 2001 og kom fyrsta breiðskífa þeirra út tveimur árum síðar. Hægt en örugglega hefur sveitin verið að vekja á sér athygli, og það réttilega. Platan var gefin út af I Hate Records útgáfufyritækinu, sem m.a. The Gates of Slumber voru hjá þangað til fyrir stuttu, og er í alla staði vel gerð með góðum og hnausþykkum hljóm.

Meðlimir Reino Ermitaño eru greinilega undir áhrifum frá hinum ýmsu hljómsveitum og tónlistarstefnum og þykist ég bera kennsl á ákveðin prog-áhrif af gamla skólanum í því hvernig sum lagana eru byggð upp og hljóma. Ekki er um augljós áhrif að ræða, en sveitin hefur yfir ákveðinni dýpt að ráða sem erfitt er að gera sér grein fyrir af hverju stafar. Tónlistin sem á plötunni hljómar er epísk, kröftug og fjölbreytileg. Ofan á þykka doom leðjuna hefur alveg hæfilegt magn af fögru gítarspili og dáleiðandi söng verið bætt við, og er útkoman virkilega áhugavert stykki. „Rituales Interiores“ vex með hverri hlustun og er ég á því að þetta sé með betri útgáfum ársins 2008.

Jói

Theory In Practice - Colonizing The Sun

Theory In Practice – Colonizing The Sun (2002)

Listenable Records –  2002

Ég hef verið að bíða eftir þessari plötu eins best geymda leyndarmáls progressive deathmetals í 5
mánuði eða alveg síðan ég frétti að svíarnir í Theory In Practice væru búnir að taka upp nýja plötu. Þetta band hefur verið í miklu uppáhaldi síðan ég heyrði fyrst í þeim á fyrstu útgáfunni þeirra, Third Eye Function. Nýja platan ber nafnið Colonizing the Sun og er samsuða af death-metali með melódískri undiröldu. Gripurinn er tekinn upp í stúdíói trommuleikarans Peters í Sandviken í Svíþjóð og er hann gefinn út af Listenable Records sem er frekar smátt plötufyrirtæki sem gerir þennan disk einstaklega erfiðann að finna. Þetta er þriðja útgáfa þeirra pilta og má segja að þeir færist alltaf lengra og lengra frá “hefðbundnu” progressívu death-metali og yfir á einhverjar meira ótroðnar slóðir. Þessi diskur er í senn alveg ótrúlega þungur og þéttur en í senn útpældur og melódískur. Á báðum sviðum, þyngslum og melódík, brillera Theory In Practice og mynda hárfínt jafnvægi þar á milli í lagasmíðunum. Það má finna ýmsa áhrifavalda í tónlistinni og það er eins og þeir séu svona með allt frá Death og yfir í Dream Theater í græjunum hjá sér og allt þar á milli. Söngurinn minnir á köflum á Chuck Schuldiner (ef hann væri sænskur 😉 og minnir líka dálítið á Tony Teegarden (brútal röddin hjá Cynic á Focus) og þessi plata hefur verið gagnrýnd fyrir að vera ekki með melódískari söng en mér finnst þessi söngur hæfa þessari plötu fullkomlega enda er þessi plata númer eitt tvö og þrjú deathmetal plata. Trommuleikarinn er alveg rosalegur og einn af þeim betri sem eru í gangi í annars mjög trommuleikara-frjóu landi. Hann minnir oft á Asgeir Mickelson úr Spiral Architect eða Gene Hoglan á Individual.., og sjaldan hefur það nú talist löstur. Gítarleikurinn er mjög skemmtilegur og mikið um verulega flott “lead” og þess á milli alveg drulluþéttir slamm-kaflar. Ég sakna kannski helst á þessum disk klassíska gítarsins sem einkenndi bandið á fyrsta disknum en í staðinn eru komin áberandi hljómborð sem eru kærkomin viðbót eins og þau eru notuð á þessum disk.

Þá kem ég að því eina sem má setja út á diskinn og það er pródúseringin á trommunum, þær eru einfaldlega svo lágt mixaðar að maður missir stundum af því hvað þessi annars geðveiki trommuleikari er að gera. Ég mæli með því að allir sem eru mikið fyrir flókið death-metal tékki á þessu bandi því þetta er einfaldlega besti progressive metal-diskur á síðustu árum og gaman að sjá einhverja vera að koma með ný element inn í sænska death-metalið. Einn í safnið!

Tóndæmi:
Colonizing The Sun http://hem.passagen.se/theory/Colonizing%20The%20Sun.mp3
Conspiracy In Cloning http://hem.passagen.se/theory/Conspiracy%20in%20Cloning.mp3

Jói