Efnisorð: Ívar Ragnarson

Dimma 2017 - Ljósmynd: Ólöf Erla

Dimma kynnir nýtt efni, plötu og útgáfutónleika (Örviðtal)

Íslenska þungarokksveitin Dimma sendi frá sér nýtt lag að nafni Villimey núna í vikunni, en lagið verður að finna á tilvonandi breiðskífu sveitarinnar Eldraunir sem gefin verður út á næstu vikum. Það er því við hæfi að skella nokkrum spurningum á meðlimi sveitarinnar til þess að grafa örlítið dýpra…

Til hamingju með nýja lagið, og um leið nýju plötuna
Takk fyrir það! Þetta er búið að vera skemmtilegt ferli sem hefur staðið yfir í um 6 mánuði. Við byrjuðum á því að vinna með hugmyndir í húsnæðinu og taka upp demo í góðum gæðum þar, allt multitrackað og flott. Þá sjáum við heildarmyndina á plötunni og gátum gert okkur grein fyrir hvernig þetta væri að koma út sem heild. Við tókum plötuna svo upp í Sundlauginni undir stjórn Haraldar V Sveinbjörnssonar, en þetta er í fyrsta sinn sem við vinnum með pródúser. Það virkaði svakalega vel og Halli kom með fullt af flottum pælingum að borðinu. Ívar Ragnarson mixar svo og Haffi Tempó masterar. Ólöf Erla meistarahönnuður sér svo um útlitið á plötunni en hún gerði m.a. Vélráð á sínum tíma og margt annað fyrir okkur. Gussi kvikmyndagerðarmaður er að vinna efnir fyrir okkur og margir fleiri koma að þessu dæmi. En þetta eru allt topp fagmenn sem hafa unnið gríðarlega mikið með okkur og það er mikill heiður að hafa svona flott fólk með okkur í liði.

Hvernig tengjast plöturnar Myrkaverk, Vélráð og Eldraun?
Platan Eldraunir er í raun síðasti hluti af þríleik sem tengist lauslega og hófst með útgáfu plötunnar Myrkraverk árið 2012 en þar var yrkisefnið öll þau mannanna verk sem framin eru í myrkrinu og skuggahliðum mannlífsins. Á Vélráð, sem kom út 2014, ræddi um þá klæki sem mannfólkið notar til þess að beygja náungann undir sinn vilja og ná yfirhöndinni og völdum í samskiptum sín á milli. Eldraunir er svo um erfiðleikana sem við mætum hvert og eitt í lífinu á meðan við berjumst áfram til að vinna okkur brautargengi í köldum og hörðum heimi. Þetta eru ekki beint konsept plötur, en það er þema í gangi sem tengir þær saman.

Um hvað fjallar nýja lagið Villimey?
Það er nú ekki góður siður að útskýra texta, fólk verður að fá að tengja við það sjálft. En það er augljóslega saga í gangi þarna og þetta er um persónu sem hafði áhrif á sögumanninn. En umfram það er þetta túlkunaratriði hvers og eins. Guðjón Hermansson ljósmyndari og leikstjóri gerði myndbandið og það kom hrikalega vel út hjá honum. Hans túlkun er einmitt aðeins önnur en við lögðum upp með sem er svo athyglisvert og fallegt við texta, þetta er allt svo afstætt og dularfullt.

Er kominn útgáfudagur á Eldraun?
Við stefnum á að Eldraunir komi út um miðjan maí. Það verður CD, Spotify, og allt það. Við gefum út sjálfir. Dimma er algjörlega sjálfstætt dæmi, við sjáum um öll okkar mál sjálfir, gefum allt út sjálfir, höldum tónleika sjálfir og almennt séð höfum alla taumana í okkar höndum. Það er auðvitað hrikalega öflugur hópur sem vinnnur með okkur en það eru alltaf þessir fjórir vitleysingar sem stýra.

Við erum síðan að setja í gang verkefni á Karolinafund þar sem við ætlum að gefa fólki kost á því að hjálpa okkur að framleiða og gefa út Myrkraverk, Vélráð og Eldraunir á vinyl. Það verður um mjög flottar útgáfur að ræða. Allt á tvöföldum gatefold vinyl með bónus tónleikaupptökum sem hafa ekki komið út áður.

Er nýja efnið í beinu framhaldi af eldra efni eða er einhver tónlistarlega þróun þar á milli?
Við erum nú búnir að vera í stanslausu stríði í næstum 7 ár. Spilað stanslaust og gefið út plötur og dvd diska. Eldraunir er líklega 9. útgáfan sem þessi hópur sendir frá sér á þessum tíma. Við nálguðumst þessa plötu með einfaldara hugarfari en áður. Hún er þyngri, harðari og hraðari og í raun einfaldari en okkar fyrri plötur. Þetta er eiginlega bara við að spila í hljóðveri. Engir strengir og ekkert svoleiðis, örfá auka element sem koma inn, karlakór, píanó og svoleiðis en það eru alveg í lágmarki.
Þetta er klárlega okkar þyngsta plata til þessa.

Nú verða væntanlega heljarinnar útgáfutónleikar um allt land ekki satt?
Jú að venju erum við með mikið af tónleikum bókaða, byrjuðum að undirbúa Eldrauna “túrinn” seint á síðasta ári. Við verðum út um allt á næstu mánuðum, t.d. Eistnaflug, Þjóðhátíð og svo alveg fullt af eigin tónleikum.

Það verða risastórir útgáfutónleikar í Háskólabíói laugardaginn 10 júní. Þar verður allt draslið sett í 11. Við ætlum líka að hafa gott partý þarna því DJ Kiddi Rokk ætlar að spila þungarokk í andyrinu áður en salurinn opnar og við ætlum að hafa góða stemningu á staðnum.

Við byrjum samt sumarið á Kaffi Rauðku á Siglufirði 25 maí, förum svo á Græna Hattinn 26 og 27 maí.

Miðasala á allt þetta er á midi.is : https://midi.is/tonleikar/1/10030/DIMMA-Eldraunir

Verður eitthvað framhald á samstarfi ykkar við Bubba eða Sinfóníuhljómsveitina?
Það var alveg geggjað að fá að spila með Bubba, það samstarf gekk gríðarlega vel og við gáfum saman út tvær plötur og DVD og eitt giggið var sýnt í sjónvarpinu, svo spiluðum við út um allt með honum. Það samstarf opnaði klárlega margar dyr fyrir okkur og kynnti okkur fyrir stórum hópi fólks sem ella hefi ekki kynnst okkur. Að auki var bara svo frábært að kynnast og vinna með Bubba, hann er auðvitað alveg magnað kvikyndi. En það er ekkert meira planað með honum, en hver veit hvað gerist í framtíðinni. Hann er heiðursmeðlimur Dimmu og ef hann hringir þá svörum við strax.

Sama með SinfoNord, alveg magnað að spila með svona flottu tónlistarfólki. Við spiluðum á nokkrum uppseldum tónleikum í Hofi og Eldborg og gáfum út plötu og DVD með þeim auk þess sem þetta var sýnt í sjónvarpi. Svona dæmi er alveg svakalega þungt í vöfum enda vel á annað hundrað manns sem koma að þessu verkefni. En sama þar, ekkert meira planað en við værum alveg til í meira!

Eitthvað að lokum?
Já, okkur langar að þakka þeim risastóra hópi sem stendur á bakvið okkur. Kemur á tónleika, hlustar á tónlistina og er í sambandi við okkur á samfélagsmiðlum og annarsstaðar. Þetta er alveg ótrúlega hvetjandi og fallegur hópur og við vitum að það eru mikil forréttindi að fá að spila tónlistina sem við elskum fyrir allt þetta fólk. Þannig að við gætum aldrei þakkað þessu fólki nægjanlega vel fyrir okkur.