Efnisorð: ís og snjór

Skálmöld – Myrkur, kuldi, ís og snjór

Skálmöld heldur í víking á næstu dögum og leggur í tíu daga tónleikaferð um Ísland. Sveitin spilar á hverjum degi og kemur víða við en túrinn hefur hlotið yfirskriftina „Myrkur, kuldi, ís og snjór 2013“. Athygli vekur að meðal áfangastaða er Litla-Hraun en vistmenn hafa nokkuð oft lýst yfir áhuga á að fá Skálmöld í heimsókn.

Dagskráin er sem hér segir:
28.02.13 – Kl. 21.00 – Hnífsdalur – Félagsheimilið
01.03.13 – Kl. 22.00 – Selfoss – Hvíta húsið
02.03.13 – Kl. 22.00 – Sauðárkrókur – Mælifell
03.03.13 – Kl. 21.00 – Akureyri – Græni hatturinn
04.03.13 – Kl. 21.00 – Húsavík – Íþróttahöllin
05.03.13 – Kl. 21.00 – Eskifjörður – Valhöll
06.03.13 – Kl. 21.00 – Höfn – Sindrabær
07.03.13 – Kl. ??.?? – Litla-Hraun – Lokaðir tónleikar
08.03.13 – Kl. 22.00 – Vestmannaeyjar – Höllin
09.03.13 – Kl. 22.00 – Reykjavík – Gamli Gaukurinn

Rétt er að benda á að tónleikarnir hefjast tímanlega í hvert sinn og fólki bent á að mæta tímanlega. Miðaverð er 3.000 krónur og miðasala við innganginn nema annað sé auglýst sérstaklega.

Eins og fyrr segir hefja Skálmaldarliðar leika í Hnífsdal. Jón Geir Jóhannsson trymbill Skálmaldar og Ísfirðingur hefur að því tilefni sent frá sér yfirlýsingu:

Sem trymbill Skálmaldar verður að segjast að ég er í minnihluta. Hinir meðlimirnir fimm eru allir kenndir við Þingeyjarsýslur en ég sjálfur er jú Ísfirðingur inn að beini. Það verður mér því sérstök ánægja að kynna þá félaga mína fyrir mínu heimafólki, og þeirra rokkeðli og ég vonast því
eftir því að sjá sem allra flesta samankomna á tónleikunum á fimmtudaginn.

Og nú vil ég skora á ykkur!

Ég, Jón Geir Jóhannsson, heiti því hér með að sýni Ísfirðingar og nærsveitafólk sitt rétta andlit, og félögum mínum að Húsavík er ekki eini rokkbær Íslands, mun ég láta húðflúra á mig skjaldarmerki míns gamla heimabæjar, Ísafjarðar. Ákvörðun verður tekin strax að tónleikunum loknum og telst þá endanleg.

Reykjavík, í febrúar 2013