Efnisorð: Forgarður Helvítis

Norðanpaunk 2017

BÖLZER / WORMLUST / PLASTIC GODS / DYS / KÆLAN MIKLA, GODCHILLA / FORGARÐUR HELVÍTIS / GRIT TEETH / NICOLAZ KUNYSZ / GJÖLL / SUN WORSHIP (DE) / ANDAVALD / BAG OF ANTRHAX / BALAGAN (DE) / DULVITUND / GOLDEN CORE (NO) / GUSTAVE TIGER (H) / KULDABOLI / MALNEIROPHRENIA / MORPHOLITH / WORLD NARCOSIS / SLOR / more tba..

3 Days – 40+ Bands

Árlegt ættarmót paunkara á Laugarbakka v-Hún
Annual gathering of the Icelandic Punk Community and related artists. BYOB.

No tickets at the door! Limited tickets online only via http://www.nordanpaunk.org/tickets.html

Liberty through art.

Forgarður Helvítis - Gerningarveður

Forgarður Helvítis – Gerningarveður (2002)

Forgarður Helvítis –  2002
http://www.helviti.com

Hvað höfum við hér !? Jú hvorki meira né minna enn fyrstu “plötu” Forgarðs Helvítis. Þær hafa nú verið nokkrar hingað til en þó einkum í formi 7“ og svokallaðara safnskífum.
Þegar ég heyrði frá þeim frændum og bændum að nú hygðust þeir leggja af stað í víking og semja efni fyrir heila plötu hugsaði ég með mér að það væri nú alls ekki auðvelt að semja plötuútgáfuhæft efni (tímalengdarlega séð) sem gæti toppað fyrri gullmola, þ.e.a.s alla þá slagara sem Forgarður Helvítis hefur átt í gegnum tíðina t.d. “Kjöt með gati”, “Hóra”, “Brennið Kirkjur”, “Messírass”, “Örlag” ofl. En annað kom á daginn, og höfðu þessir djöflar úr sveitinni greinilega mikið upp í erminni. 19 lög er hér að finna + 3 stutta “qvóta” á milli laga.
Fyrsta lagið “Án þess að depla auga” segir allt sem segja þarf hérna. Byrjar á hröðu gítarspili, og svo er bara alls ekki aftur snúið eftir geðsjúklingurinn á trommunum byrjar. Grindcore trommur eins og þær gerast bestar og hraðastar, brutal as fuck söngur hljómar eins og englar í eyrum mínum. Neglda bassaplokkið kemur líka lúmskt á óvart. Eftir að millikaflinn er búinn og Grind Beastið fer aftur í gang, þá spyr maður sig, hvernig er þetta hægt, hvernig……?
Næst er það “Baráttusöngur”. Ansi skemmtileg hi-hat pæling hérna, um leið talið er inn í blastið. Ekkert slakað á frekar en áður. En þó svo að trommusándið sé afbragðsgott í flesta staði, þá er stundum að bassarommusándið leyfi ekki úber-hröðu double pedalinu að njóta sín eins og það ætti skilið.
“Legsteinn grafar minnar” er svo 35 sek áframhald á geðveikinni.
“Ferðasýn” skartar trommubyrjun sem skilar sér ekki alveg nóg vel þó svo að hugmyndin sé góð. En um leið og gítarinn kemur einn inní með þetta mjög svo flott riff þá gleymist hitt nánast, því að þar á eftir kemur alveg heljarinnar lag. Með þeim sterkari verð ég að segja. Forgarðurinn á rætur sínar að rekja til Pönks, Death og Black Metals og Grindcore.
“Í Forgarðinum” er svo meira í áttina til “pönk” Forgarðsins, en líka alveg með Forgarðsbragði í gegn.
“Fjandafæla” er líka eitt af þessum sterkari lögum, og verð ég að segja að Sigurður Harðarson fer á kostum hérna. Er að gera nokkuð sem hann hefur ekki verið að gera mikið áður fyrr. Nota röddina meira bæði upp á við og niður á við. T.d. síðast þegar kallinn söng í stúdíói að taka upp demo með Fogganum var hann sauðdrukkinn og gargaði alveg eins í gegnum öll bévítans lögin. En hérna er hann að spila góðan bolta.
“Krossfest börn” er eitt af þessum eldri lögum sem voru tekin upp aftur. Kannski er það bara ég, en mér finnst ég alveg heyra að þetta lag sé mun eldra en þessi sterku lög sem voru samin fyrir þessa plötu. Svosem ágætis lag, og eitt af þeim lögum sem maður heyrir vel að bassinn er að gera flotta hluti.
Þá er það titil tittlingurinn, “Gerningarveður”. Byrjar á andskoti flottum gítar röddunum, nokkuð sem að Forgarður Helvítis hefur ekki verið þekktur fyrir hingað til, og verð ég bara að segja að þetta minnir mig á gott Dark Throne lag á skemmtilegan hátt, en adam var ekki lengi í paradís, og þróast gítarröddunin útí enn meiri raddanir, og nítróið fer í gang á trommunum. Put the pedal to the metal. Öfga hratt gítarspil eins og Forgarðurinn gerir best, og helvíti cool bakraddaflæði hljómar vel í geðveikinni. “Gerningarveður” er nú alveg í top 3 yfir bestu lög á plötunni að mínu mati. Gott kaffi hér á ferð.
Eitt er víst að gamli pönkarinn hefur ekkert slakað á með árunum, því að í “Gelding Óskhyggjunar” öskrar hann hraðar en nokkur rappari sem ég hef heyrt í, og oft vilja nú spíta ansi hratt útút sér. Einnig er hraði “chorus” söngkaflinn alveg sudda flottur, og ekkert er dýrið á trommunum að slaka á á meðan, heldur fer hann á kostum í grindinu eins og svo oft áður, en svo kemur allt í einu svona kafli í laginu sem sem á vafalaust eftir að fá marga til að hugsa með sér “What !!!” Bloody danshæfur popp kafli. En hann brýtur lagið upp mjög skemmtilega, og á bassinn líka stóran hlut í því, þannig að þetta er nú allt hið besta mál.
“Vítahringur Ömurleikans” er svo annað svona pönk afbrigði Forgarðsins. En þessi lög þeirra svokölluðu, eru bara einhvernveginn engin helvítis pönklög, þó svo að maður finni smá pönk bragð af þeim svona hér og þar. “Vítahringur Ömurleikans” byrjar á svona pönklegan hátt, en þróast svo útí það að vera eitt af mjög fáu lögum þeirra sem innihalda hægt melódískt efni. Eykur fjölbreytnina talsvert.
“Ljósbrjótur” byrjar svo á fullu grind blasti, en er samt svona með rokkuðustu lögunum á þessari plötu, og kannski spes af því leyti að það er alls ekki mikið af efni á þessari plötu sem gæti flokkast undir hreint og beint rokk.
“Guð er stærsta lygi í heimi” var upphaflega gefið út á demói sveitarinnar frá 1995, en er hér endurunnið á margan og tvímælalaust betri hátt. Góður slagari, sem brýtur plötuna svoldið upp því að þetta er eitt af fáum lögum Forgarðs Helvítis sem turbo grindið er ekki tunað í botn eins og heyra má í “Vængbrotnir Englar”, sem er eiginlega bara grind non-stop í heila mínútu, geri aðrir betur. Alltaf er gaman að heyra hluti sem maður hefur aldrei heyrt áður, og á ég þá við grindcore og söngur (ef söng skyldi kalla) saman með engu undirspili. Helvíti cool hugmynd.
“Kveljarinn” byrjar svo með alveg eitursvölu riffi og ekki er restin af laginu af verri endanum, heldur verð ég að segja að hérna liggur nánast við að hér sé helsti slagarinn á ferð. Aftur eru þeir að fást við gítarraddanir, og tekst þeim einkar vel upp með það.
Næsta lag er nú svona með svartari lögum plötunar, og þá meina ég að hérna erum við komin ansi nálægt Blackmetal heilahvolfi Forgarðsins með “Þar sem hamingjan ræður ríkjum”
“Skuggahiminn” byrjar á rosalega kraftmikinn hátt, mikil öskur, mikið grind, og aftur er hérna þessi skemmtilega hi-hat pæling í grindinu, annað hvert hi-hat slag á meðan snerillinn og bassatromman eru saman á fullu. Stuttur og góður slagari.
“Eðlislægur fasismi” er með eldri lögum á plötunni, og ég verð að segja að mér finnst það ekkert eiga allt of mikið í sterku nýju lögin, sérstaklega þegar maður hefur hlustað á þau rétt áður. Þó er svoldið gaman heyra hvað bassinn rífur sig svoldið meira í gegn en oft áður.
“Heljarslóð” er alveg kick ass lag, og sómar sér vel sem endalag plötunar. Þó verð ég að játa að gítarpikkið í byrjun á skilið að hljóma betur. Það lagast töluvert þegar hinir clean gítararnir og bassinn koma inní, en það sker dáldið í mig að heyra þegar það byrjar á þessum eina gítar, en þegar vel er á liðið á lagið, er virkilegur kraftur á ferð.
“Gerningarveður” platan sjálf er mjög vel heppnuð, og engin önnur hljómsveit kemst með tærnar þar sem Forgarðurinn er með hælana. Textana mætti reyna að skilgreina sem andkristin, heimspekileg ljóð, eða ljóðrænn pólitískur andkristinn áróður. Eins og ég sagði áður, átti ég alveg eftir að sjá það að sjá þá semja nýja slagara sem gætu skotið þeim gömlu ref fyrir rass. En “Made In Sveitin” djöflunum tókst það. Samt sem áður angrar það mig svolítið að það eru sumstaðar hlutir á plötunni sem ég hefði viljað sjá betur gerða eða betur gengið frá. Ég veit vel að þeir gætu gert þá betur. Það sem ég á við, eru t.d. einstaka skiptingar, stopp sem hefði mátt taka aftur upp og binda hnúta á suma lausa enda. Platan er það vel gerð í nánast alla staði, að ekki var það þannig að menn höfðu ekki tíma, peninga, orku né vilja. En Forgarður Helvítis er Forgarður Helvítis, og enginn er betri í að vera Forgarður Helvítis en Forgarður Helvítis.

Aðalbjörn Tryggvason

GLUNDROÐI (TÓNLEIKAR)

Length of time (frá Belgíu)
Mínus
Bisund
Vígspá
SnaFu
Forgarður Helvítis
Elexír

Glundroði, harðkjarnatónleikar á vegum Unglistar, Hins hússins og dordingull.com í Hlöðunni í Gufunesbæ – Grafarvogi, föstudaginn 10. nóvember 2000. Fram komu Length of time, Mínus, Bisund, Vígspá, Forgarður helvítis, Snafu og Elexír.

Hvar: Hlaðan Gufunesbæ – Grafarvogi
Hvenær: 2000-11-10
Klukkan: 19:30:00
Kostar:  Ekkert
Aldurstakmark: 16 –  nema í fylgd með foreldrum: Frítt Inn.

Föstudaginn 10.nóvember klukkan 19:30. Tónleikarnir verða haldnir í Hlöðunni í Gufunesbæ (nánartiltekið Grafarvogi)
16 ára aldurstakmark, nema í fylgd með foreldrum: Frítt Inn.

Arnar Eggert (MBL)

HARÐKJARNAMENNINGIN íslenska blómstrar sem aldrei fyrr um þessar mundir en rokk af harðari gerðinni hefur ekki haft það jafngott síðan dauðarokkið lognaðist út af fyrir u.þ.b. sex árum. Harðkjarnasenan (e. hard-core) hérlendis er undir þó nokkrum áhrifum frá íslenska dauðarokkinu enda járnkjarnarokkið (e. metal-core) heldur meira áberandi en melódíska tilfinningapönkið (e. emo-core), sem prýðir vænan skerf erlendrar harðkjarnamenningar. Plássins vegna er því miður ekki hægt að fara dýpra í þessar vangaveltur en vonandi býður þessi lifandi og atorkusami menningarkimi upp á meira af því um líku á næstunni – slík eru a.m.k. umsvifin hjá honum um þessar mundir.Ég var búinn að keyra fram og aftur yfir Gullinbrú í 45 mínútur og villast tvisvar áður en ég brunaði loksins fagnandi en pirraður í hlað. Í myrkrinu var þessi blessaði tónleikastaður ekkert of áberandi og er inn var komið höfðu Elexír þegar lokið sér af. Það verður ekki á allt kosið í þessu lífi og ég ráðfærði mig við nokkra málsmetandi aðila þarna inni varðandi frammistöðu sveitarinnar. Einn sagði sveitina hafa verið nokkuð óvissa, tilraunastarfsemi hennar hefði ekki virkað nægilega vel og eitthvað hefði vantað. Annar var á því að sveitin hefði staðið sig með mestu prýði. Ég verð sjálfur að skera úr um hvort var þegar ég eignast tímavél.

Hinir ungu og efnilegu Snafu voru í fullum gangi er ég mætti á svæðið.

Krafturinn og ástríðan á sínum stað þótt þeim fataðist að vísu flugið í einstaka kaflaskiptum. Eitthvað fannst mér hljómurinn vera máttlítill, en það sem einkenndi þessa tónleika mikið var stöðugur vandræðagangur með hljóm, tól og tæki. Forgarður helvítis léku af miklum móð og krafti eins og venjulega; voru einfaldlega frábærir. Hljómsveit sem tollir í tískunni af því að hún hefur ekki breyst neitt í tíu ár. Já, hún er undarleg þessi veröld.

Vígspá náðu vel að fanga rétta harðkjarnaandann. Þó að allt gengi á afturfótunum er þeir spiluðu; Bóas söngvari á brókinni til að byrja með, bassinn ekki í sambandi og allt í bulli, sýndu þeir mikla reisn undir þrýstingi og slógu aldrei af. Sérstaklega var gaman að sjá kornungan aðdáanda Vígspár taka í hljóðnemann og gefa allt sitt með mjóróma röddu hinnar óhörðnuðu æsku. Fallegt.

Næst var hljómsveit sem kom sérstaklega fram á þessum tónleikum til að kveðja fyrir fullt og allt. Bisund eru hálfgerð goðsögn innan harðkjarnasenunnar og nýtur mikillar virðingar og vinsælda. Tónlistina er erfitt að skilgreina en þeir eru vafalaust með merkilegri rokkhljómsveitum sem fram hafa komið hérlendis. Bisund héldu uppi gríðarlegri stemmningu og hinn hlédrægi hornamaður Andri sýndi á sér nýja hlið í þessari hinstu kveðju, stóð hnarreistur fremstur á sviðinu og rokkaði eins og óður væri.

Besta rokkhljómsveit landsins í dag, Mínus, þurfti að líða fyrir dagskrárriðlun og tækniörðugleika eins og aðrir og tónleikar þeirra fóru að mestu leyti fyrir ofan garð og neðan. Í þau fáu skipti sem þeir náðu flugi sýndu þeir þó að þeir bera höfuð og herðar yfir aðrar sveitir senunnar. Hreint út sagt stórkostleg hljómsveit.

Hin belgíska Length of time endaði svo tónleikana. L.O.T spilar hefðbundið járnkjarnarokk, reyndar fullhefðbundið fyrir minn smekk. Þeir áttu þó ágæta spretti hér og þar en þurftu að gjalda fyrir tækjahallærið á staðnum. Synd og skömm.

Mæting var afar góð á þessa tónleika og andinn skemmtilegur inni í hrörlegri, skítkaldri en sjarmerandi hlöðunni. Eitthvað varð maður nú var við karp og rifrildi vegna alls glundroðans sem einkenndi þennan Glundroða. Það er vonandi að menn hafi þroska til að sjá í gegnum fingur sér við svo eðlilega fylgifiska tónleikahalds og muni að það er tónlistin sjálf sem skiptir máli númer eitt, tvö og þrjú. Íslenska harðkjarnasenan gæti nefnilega orðið langlíf, öflug og öllum til góða, svo fremi sem krakkarnir standa saman og hlúa á réttan hátt að kjarnanum.

Arnar Eggert Thoroddsen