Efnisorð: Dimma

JUDAS PRIEST í Laugardalshöll

Ein helsta goðsögn þungarokksins:

JUDAS PRIEST

Sérstakir gestir
Dimma 

Verð:
Stúka: 14.990kr 
Stæði: 10.990kr

Það eru fáar þungarokkssveitir sem hafa náð sömu hæðum og Judas Priest á ferli sem spannar næstum fimmtíu ár. Judas Priest voru strax eftir stofnun árið 1970 í fremstu röð þeirra sem mótuðu þungarokkið og nægir að nefna frábærar plötur eins og „British Steel“, „Screaming for Vengeance“ og „Painkiller“. Átján plötum síðar eru þeir ennþá í fantaformi og nýjasta plata þeirra „Firepower“ hefur hlotið einróma lof gagnrýnenda og náðu þeir 5. sæti á Billboad 200 listanum, sem er besti árangur Judas Priest í Bandaríkjunum. Þá má nefna að Judas Priest voru tilnefndir í Rock and Roll Hall of Fame í fyrra.
 En það er fyrst og fremst á sviði sem hljómsveitin er í essinu sínu og margir segja að þeir hafi sjaldan eða aldrei verið betri á hljómleikum. Þeir fengu Grammyverðlaun árið 2010 fyrir frammistöðu sína á sviði þungarokks (Best Metal Performance).

Því er það okkur mikið ánægjuefni að kynna væntanlega tónleika Judas Priest í Laugardalshöllinni fimmtudaginn 24. janúar næstkomandi. Og ekki spillir fyrir að Dimma mun hita mannskapinn upp. Aðdáendur þungarokks eiga sannkallaða veislu í vændum!

Birgir Jónsson trommari hættir í Dimmu

Trommari hljómsveitarinnar Dimmu sendi frá sér tilkynningu í dag þar sem hann segir frá því að hann sé hættur í sveitinni og um leið þakkar meðlimum sveitarinnar fyrir skemmtilegan tíma og rosalega lífreynslu. Hér að neðan má sjá tilkynningu hans í heild sinni:

Eftir tæp 8 ár sem meðlimur í þungarokksveitinni DIMMA hef ég tilkynnt félögum mínum að ég vilji ganga af sviðinu og hætta í sveitinni.
Fyrir því eru margar ástæður en aðallega sú að ég vil nota tímann minn í aðra hluti og finnst þetta ekki lengur eins skemmtilegt og gefandi og áður.
Samhliða Dimmu hef ég starfað sem stjórnandi í ýmsum fyrirtækjum sem og í eigin verkefnum og nú vil ég auka fókusinn á þann hluta lífs míns auk þess að hafa meiri tíma til að eyða með fjölskyldu og vinum.
Næstum allur minn tími hefur farið í þessa hljómsveit síðustu ár og því hef ég ekki haft nógu mikinn tíma til að setja í annað, það er t.d. lítið um sumarfrí með fjölskyldunni eða ferðalög þegar maður er að spila flestar helgar eins og raunin hefur verið hjá Dimmu síðustu árin.
Þetta hefur verið rosaleg keyrsla en nú er ég einfaldlega búinn að fá nóg og vil gera aðra hluti í lífinu. Um leið og manni finnst þetta ekki lengur gaman og fórnin of mikil þá á maður að hætta og þakka fyrir sig.
Það sem byrjaði sem saklaust ferðalag hjá mér í hobbí rokksveit snemma árs 2011 varð að
þvílíkri rússíbanareið þar sem við náðum árangri sem okkur grunaði ekki að væri mögulegur. Ég get ekki talið upp alla þessa hundruði tónleika og þær plötur sem við höfum gert en ég veit bara að við höfum gert flest allt sem hægt er að gera í tónlist í þessu landi…og það nokkrum sinnum.
Ég er samt alls ekki hættur að spila á trommur, öðru nær, ég er með nokkur spennandi verkefni í gangi með flottum tónlistarmönnum sem ég er spenntur að vinna í, þannig að ég mun halda áfram að gera tónlist. En ég vil velja verkefnin vel og nota tíma minn sem best.
Ég vil þakka öllu fallega fólkinu sem ég hef hitt í gegnum Dimmu, öllu fólkinu sem hefur sagt mér hvaða þýðingu tónlistin okkar hefur fyrir það , öllu liðinu sem hefur komið á tónleika hjá okkur, öllum tæknimönnunum og sérstaklega okkar elsku Big Bad Mama (Helga Dóra).
Þetta hefur verið alveg ótrúlega skemmtilegur tími og ég er rosalega þakklátur fyrir þessa lífsreynslu.
Að lokum vil ég þakka bræðrum mínum í bandinu, Silli, Ingo og Stefán – takk fyrir mig elsku vinir og
gangi ykkur vel – djöfull var gaman!
Takk
Biggi
Ps. Engar áhyggjur, þeir ætla að halda áfram svo að Dimmulestin stöðvast ekki, sem betur fer.

Orðsending frá Dimmu fylgdi svo fljótt á eftir:

Orðsending frá vopnabróður okkar honum Birgi “Nashyrningi” Jónssyni.
Við þökkum honum samfylgdina, gleðistundirnar og þátttöku hans í að gera DIMMU af því sem hún er í dag.
Við elskum þig kæri bróðir og munum halda merkjum DIMMU hátt á lofti!

Árslisti dordinguls / harðkjarna – 20. bestu Íslenskar útgáfur 2017

Árið 2017 var sérstaklega gott tónlistarár, ekki bara í erlendri útgáfu heldur líka hér á íslandi, upphaflega áætlunin var að gera top 5 lista, en það var bara of mikið af góðri tónlist í boði þetta árið. Hér að neðan má sjá árslista dordinguls/harðkjarna yfir bestu 20. útgáfur ársins 2017:

1. GodChilla – Hypnopolis
– Hvað gerist ef maður blandar hressandi brimbrettarokki við niðurdrepandi dómdagstóna þungarokksins? Bara ein besta rokk útgáfa sem Íslensk hljómsveit hefur sent frá sér í áraraðir. Frábær sveit með frábæra breiðskífu, þetta er ein af þeim hjómsveitum sem allir landsmenn verða að kynnast og það helst strax.

2. Grit Teeth – Let it be
– Það var mikið! Ég var búinn að bíða eftir þessarri plötu í langan tíma, en gleðifréttirnar eru þær að biðin val vel þess virði. Hrár harðkjarni frá sveitinni sem nær að sameina alla rokkaðdáendur landsins.

3. LEGEND – Midnight Champion
– Enn og aftur kemur Krummi á óvart, ekki er þetta bara ein af betri plötum á hans ferli sem tónlistarmanns, heldur er hún í þokkabót virkilega vel útsett og einhvernveginn hálf rómantísk raftónlsitarplata blönduð með kröftugu rokki.

4-5. Sólstafir – Berdreyminn
– Tímamótapata frá Sólstöfum, með snilldar lög á borð við Silfur Refur, Ísafold og Bláfjall. Plata sem gengur lengra í fjölbreytileika en fyrri plötur, en nær samt að vera rokkaðri en margur grunaði.

4-5. Katla – Móðurástin
– Fyrsta plata Gumma og Einars sem hljómsveitin Katla, þvílík byrjun á sveit. Hljómsveit sem fangar Íslenska póst blackmetal senuna á heilli breiðskífu.

6. Ham – Söngvar um Helvíti Mannana
– Það er ekkert grín að fylgja á eftir verki eins og Svik Harmur og Dauði, en þetta tókst þeim. Alltaf þegar gaman þegar hljómsveit nær að toppa seinustu breiðkskífu með enn betri lagasmíði.

7. Auðn – Farvegir Fyrndar
– Frábær framhald fyrsti plötu sveitarinnar. Það er ástæða fyrir því heimurinn hefur tekið eftir þessarri sveit og mun þessi plata gera ekkert nema gott fyrir framtíð sveitarinnar.

8. Beneath – Ephemeris
– Þriðja breiðskífa þessa mögnuðu dauðarokksveitar og örugglega þeirra besta. Með lög eins og Eyecatcher, Ephemeris og Cities of the Outer Reaches sannast snilldin á bakvið sveitina í heild sinni.

9. xGADDAVÍRx – Lífið er refsing
– xGADDAVÍRx er ein af þeim hljómsveitum ísland hefur alltaf vantað. Hver einasta útgáfa sveitarinnar er betri en sú síðasta, reiði, hraði og harðneskja í fallegum og góðum pakka.

10. Une Misère – 010717
– Það er bara einn galli við þessa útgáfu, ég vill meira! Lögin 3 eru frábær og það er það eina sem skiptir mái við þessa útgáfu.

11. Dauðyflin – Ofbeldi
12. Skurk – Blóðbragð
13. World Narcosis – Lyruljóra
14. Skálmöld – Höndin sem veggina Klórar
15. Dimma – Eldraunir
16. Mammút – Kinder Versions
17. Dynfari – The Four Doors of the Mind
18. CXVIII – Monks of Eris
19. Glerakur – The Mountains Are Beautiful Now
20. Röskun – Á brúnni

 

Eistnaflug 2017

Eistnaflug er tónlistarhátíð sem haldin hefur verið árlega síðan sumarið 2005. Þetta er innihátíð í Neskaupstað, vinalegum litlum bæ á Austfjörðum, sirka jafn langt frá Reykjavík og hægt er að komast án þess að fara úr landi. Aðra helgina í júlí tvöfaldast íbúafjöldi Neskaupstaðar þegar tónlistaraðdáendur hópast til Norðfjarðar að njóta lifandi tónlistar við bestu hugsanlegu aðstæður.

Þegar hafa eftirfarandi hljómsvetiri verið bókaðar: The Dillinger Escape Plan [USA] Neurosis [USA] Bloodbath [SWE] Sólstafir [ICE] Skálmöld [ICE] Dimma [ICE] Zatokrev [SWI] Sinistro [POR] Naga [ITA] Misþyrming [ICE] Innvortis [ICE] Morðingjarnir [ICE] Auðn [ICE] Churchhouse Creepers [ICE] Kronika [ICE] Kælan Mikla [ICE] Hubris [ICE] Cult of Lilith [ICE] Grave Superior [ICE] og Oni [ICE]

www.eistnaflug.is // www.facebook.com/EistnaflugFestival // @Eistnaflug

ÞAÐ ER 18 ÁRA ALDURSTAKMARK Á EISTNAFLUG OG MUNIÐ AÐ ÞAÐ ER AFMÆLISDAGURINN ÞINN SEM GILDIR

Munum svo að það er bannað að vera fáviti á Eistnaflugi og ekkert helvítis rugl!!!!

Dimma Eldraunir – Útgáfutónleikar Háskólabíó

DIMMA – Eldraunir – Útgáfutónleikar – Háskólabíó 10. Júní.

Þungarokkshljómsveitin DIMMA sendir frá sér plötuna Eldraunir í maí næstkomandi. Af því tilefni blæs sveitin til heljarmikilla útgáfutónleika í Háskólabíói laugardaginn 10. júní.

Miðasala er midi.is – Tónleikarnir hefjast kl 20:00 en húsið opnar kl 19:00 og DJ Kiddi Rokk mun leika perlur þungarokksögunnar á barsvæði Háskólabíós áður en salurinn opnar og er fólk hvatt til að mæta snemma og hita sig þar upp í góðri stemningu.

Ekkert aldurstakmark er á tónleikana.

Tónleikar Dimmu eru mikið sjónarspil og sveitin leggur mikinn metnað í að útgáfutónleikar hverrar plötu séu með því magnaðasta sem sést á sviði hérlendis og leitast við að toppa sig í hvert skipti. Það er því ljóst að hér er á ferð viðburður sem enginn rokkáhugamaður má láta framhjá sér fara.

Eldraunir er í raun síðasti hluti af þríleik sem tengist lauslega og hófst með útgáfu plötunnar Myrkraverk árið 2012 en þar var yrkisefnið öll þau mannanna verk sem framin eru í myrkrinu og skuggahliðum mannlífsins. Á Vélráð, sem kom út 2014, ræddi um þá klæki sem mannfólkið notar til þess að beygja náungann undir sinn vilja og ná yfirhöndinni og völdum í samskiptum sín á milli. Eldraunir er svo um erfiðleikana sem við mætum hvert og eitt í lífinu á meðan við berjumst áfram til að vinna okkur brautargengi í köldum og hörðum heimi.

Tónlistarlega þá kveður við nýjan tón á plötunni en hún er þyngri, harðari og hraðari en fyrri plötur Dimmu. Hljóðheimurinn er einfaldari og meira lifandi en áður enda var sveitin búin að eyða miklum tíma í demóupptökur áður en komið var í hljóðverið og menn vissu upp á hár hvað gera átti þegar þangað kom.

Á Eldraunum má því heyra mjög vel æfða rokkhljómsveit sem tekur upp við bestu aðstæður með helstu fagmenn landsins sér til aðstoðar, en platan er tekin upp í Sundlauginni í Álafosskvosinni undir stjórn Haraldar V. Sveinbjörnssonar upptökumeistara en Ívar Ragnarsson hljóðblandar og Hafþór “Tempó” Karlsson tónjafnar.

DIMMA hefur skipað sér í flokk allra vinsælustu hljómsveita landsins á síðustu árum. Sveitin hefur komið fram á hundruðum tónleika út um allt land og gefið út fjölmargar plötur og mynddiska. Tónleikar Dimmu hafa verið sendir út í sjónvarpi og útvarpi og sveitin hefur verið tilnefnd til fjölda verðlauna.
DIMMA vann “Flytjandi ársins” á Hlustendaverðlaununum 2016 og hlaut Krókinn – sem er sérstök viðurkenning RÚV fyrir lifandi flutning á árinu 2014

Dimma 2017 - Ljósmynd: Ólöf Erla

Dimma kynnir nýtt efni, plötu og útgáfutónleika (Örviðtal)

Íslenska þungarokksveitin Dimma sendi frá sér nýtt lag að nafni Villimey núna í vikunni, en lagið verður að finna á tilvonandi breiðskífu sveitarinnar Eldraunir sem gefin verður út á næstu vikum. Það er því við hæfi að skella nokkrum spurningum á meðlimi sveitarinnar til þess að grafa örlítið dýpra…

Til hamingju með nýja lagið, og um leið nýju plötuna
Takk fyrir það! Þetta er búið að vera skemmtilegt ferli sem hefur staðið yfir í um 6 mánuði. Við byrjuðum á því að vinna með hugmyndir í húsnæðinu og taka upp demo í góðum gæðum þar, allt multitrackað og flott. Þá sjáum við heildarmyndina á plötunni og gátum gert okkur grein fyrir hvernig þetta væri að koma út sem heild. Við tókum plötuna svo upp í Sundlauginni undir stjórn Haraldar V Sveinbjörnssonar, en þetta er í fyrsta sinn sem við vinnum með pródúser. Það virkaði svakalega vel og Halli kom með fullt af flottum pælingum að borðinu. Ívar Ragnarson mixar svo og Haffi Tempó masterar. Ólöf Erla meistarahönnuður sér svo um útlitið á plötunni en hún gerði m.a. Vélráð á sínum tíma og margt annað fyrir okkur. Gussi kvikmyndagerðarmaður er að vinna efnir fyrir okkur og margir fleiri koma að þessu dæmi. En þetta eru allt topp fagmenn sem hafa unnið gríðarlega mikið með okkur og það er mikill heiður að hafa svona flott fólk með okkur í liði.

Hvernig tengjast plöturnar Myrkaverk, Vélráð og Eldraun?
Platan Eldraunir er í raun síðasti hluti af þríleik sem tengist lauslega og hófst með útgáfu plötunnar Myrkraverk árið 2012 en þar var yrkisefnið öll þau mannanna verk sem framin eru í myrkrinu og skuggahliðum mannlífsins. Á Vélráð, sem kom út 2014, ræddi um þá klæki sem mannfólkið notar til þess að beygja náungann undir sinn vilja og ná yfirhöndinni og völdum í samskiptum sín á milli. Eldraunir er svo um erfiðleikana sem við mætum hvert og eitt í lífinu á meðan við berjumst áfram til að vinna okkur brautargengi í köldum og hörðum heimi. Þetta eru ekki beint konsept plötur, en það er þema í gangi sem tengir þær saman.

Um hvað fjallar nýja lagið Villimey?
Það er nú ekki góður siður að útskýra texta, fólk verður að fá að tengja við það sjálft. En það er augljóslega saga í gangi þarna og þetta er um persónu sem hafði áhrif á sögumanninn. En umfram það er þetta túlkunaratriði hvers og eins. Guðjón Hermansson ljósmyndari og leikstjóri gerði myndbandið og það kom hrikalega vel út hjá honum. Hans túlkun er einmitt aðeins önnur en við lögðum upp með sem er svo athyglisvert og fallegt við texta, þetta er allt svo afstætt og dularfullt.

Er kominn útgáfudagur á Eldraun?
Við stefnum á að Eldraunir komi út um miðjan maí. Það verður CD, Spotify, og allt það. Við gefum út sjálfir. Dimma er algjörlega sjálfstætt dæmi, við sjáum um öll okkar mál sjálfir, gefum allt út sjálfir, höldum tónleika sjálfir og almennt séð höfum alla taumana í okkar höndum. Það er auðvitað hrikalega öflugur hópur sem vinnnur með okkur en það eru alltaf þessir fjórir vitleysingar sem stýra.

Við erum síðan að setja í gang verkefni á Karolinafund þar sem við ætlum að gefa fólki kost á því að hjálpa okkur að framleiða og gefa út Myrkraverk, Vélráð og Eldraunir á vinyl. Það verður um mjög flottar útgáfur að ræða. Allt á tvöföldum gatefold vinyl með bónus tónleikaupptökum sem hafa ekki komið út áður.

Er nýja efnið í beinu framhaldi af eldra efni eða er einhver tónlistarlega þróun þar á milli?
Við erum nú búnir að vera í stanslausu stríði í næstum 7 ár. Spilað stanslaust og gefið út plötur og dvd diska. Eldraunir er líklega 9. útgáfan sem þessi hópur sendir frá sér á þessum tíma. Við nálguðumst þessa plötu með einfaldara hugarfari en áður. Hún er þyngri, harðari og hraðari og í raun einfaldari en okkar fyrri plötur. Þetta er eiginlega bara við að spila í hljóðveri. Engir strengir og ekkert svoleiðis, örfá auka element sem koma inn, karlakór, píanó og svoleiðis en það eru alveg í lágmarki.
Þetta er klárlega okkar þyngsta plata til þessa.

Nú verða væntanlega heljarinnar útgáfutónleikar um allt land ekki satt?
Jú að venju erum við með mikið af tónleikum bókaða, byrjuðum að undirbúa Eldrauna “túrinn” seint á síðasta ári. Við verðum út um allt á næstu mánuðum, t.d. Eistnaflug, Þjóðhátíð og svo alveg fullt af eigin tónleikum.

Það verða risastórir útgáfutónleikar í Háskólabíói laugardaginn 10 júní. Þar verður allt draslið sett í 11. Við ætlum líka að hafa gott partý þarna því DJ Kiddi Rokk ætlar að spila þungarokk í andyrinu áður en salurinn opnar og við ætlum að hafa góða stemningu á staðnum.

Við byrjum samt sumarið á Kaffi Rauðku á Siglufirði 25 maí, förum svo á Græna Hattinn 26 og 27 maí.

Miðasala á allt þetta er á midi.is : https://midi.is/tonleikar/1/10030/DIMMA-Eldraunir

Verður eitthvað framhald á samstarfi ykkar við Bubba eða Sinfóníuhljómsveitina?
Það var alveg geggjað að fá að spila með Bubba, það samstarf gekk gríðarlega vel og við gáfum saman út tvær plötur og DVD og eitt giggið var sýnt í sjónvarpinu, svo spiluðum við út um allt með honum. Það samstarf opnaði klárlega margar dyr fyrir okkur og kynnti okkur fyrir stórum hópi fólks sem ella hefi ekki kynnst okkur. Að auki var bara svo frábært að kynnast og vinna með Bubba, hann er auðvitað alveg magnað kvikyndi. En það er ekkert meira planað með honum, en hver veit hvað gerist í framtíðinni. Hann er heiðursmeðlimur Dimmu og ef hann hringir þá svörum við strax.

Sama með SinfoNord, alveg magnað að spila með svona flottu tónlistarfólki. Við spiluðum á nokkrum uppseldum tónleikum í Hofi og Eldborg og gáfum út plötu og DVD með þeim auk þess sem þetta var sýnt í sjónvarpi. Svona dæmi er alveg svakalega þungt í vöfum enda vel á annað hundrað manns sem koma að þessu verkefni. En sama þar, ekkert meira planað en við værum alveg til í meira!

Eitthvað að lokum?
Já, okkur langar að þakka þeim risastóra hópi sem stendur á bakvið okkur. Kemur á tónleika, hlustar á tónlistina og er í sambandi við okkur á samfélagsmiðlum og annarsstaðar. Þetta er alveg ótrúlega hvetjandi og fallegur hópur og við vitum að það eru mikil forréttindi að fá að spila tónlistina sem við elskum fyrir allt þetta fólk. Þannig að við gætum aldrei þakkað þessu fólki nægjanlega vel fyrir okkur.