Shellac

Væntanlegt hingað til landsins er mínimalískagítarrokkþríeykið Shellac.  Hljómsveitin samanstendur af, eins og orðið tríó gefur til kynna, þremur vöskum gárungum.  Það eru þeir Bob Weston (bassi/söngur), Steve Albini (söngur/gítar) og Todd Trainer (trommur).  Meðlimir hljómsveitarinnar hafa verið virkir í bandarísku neðanjarðarrokki til fjölda ára.  Þeir spila á Gauki á Stöng þann áttundanda júní ásamt vösku drengjunum í bisund. 
Söngspíra hljómsveitarinnar, baunaspíran Steve Albini var bassaleikari ræflarokksveitarinnar Just Ducky sem hann stofnaði ásamt fleirum á æskuslóðum sínum í Montana seint á áttunda áratugnum.  Einnig spilaði hann til skamms tíma með aumingjasveit að nafni Small Irregular Pieces of Aluminum.  Árið 1980 fluttist Steve til hinnar stórmerku borg Chicago og spilaði í lakkrísslifsanýbylgjusveitinni Stations sem hann var rekinn úr fyrir að klæða sig ekki í stíl við aðra hljómsveitarmeðlimi.  Eftir það gafst hann upp á bassanum og fjárfesti í gítar og trommuheilanum Roland, og stofnaði hljómsveitina Big Black, sem ásamt hljómsveita eins og Sonic Youth, Royal Trux, Killdozer og Pussy Galore voru leiðandi í tónlistarbylgju sem kallaðist Pigfucker. Big Black gaf út tvær breiðskífur, Atomizer og meistarverkið Songs About Fucking sem og bestu tónleikaplötu allra tíma, Pigpile. Hljómsveitin slúttaði á tónleikum í Detroit og rústuðu þeir öllum græjunum sínum, dauði sveitarinnar var fyrirfram ákveðinn.  Sama ár og Big Black hætti stofnaði Steve hljómsveitina  Rapeman ásamt David Wm. Sims, núverandi bassaleikara The Jesus Lizard og Rey Washam sem síðar var orðaður við að hafa spilað á Filth Pig, plötu Ministry.  Rapeman rokkaði feitt í eitt ár og gaf út eina tólftommu, Budd, og snilldarverkið Two Nuns and A Pack Mule.  Árið 1988 lagði Rapeman upp laupanna og var Steve afar leiður yfir því.  Hann spilaði ekki í hljómsveitum næstu ár á eftir en spilaði inn á plötur sveita eins og Pegboy, Cath Karrol og japönsku noise-sveitinni Zeni Geva.  Hann gerðist róttækur upptökumaður og tók meðal annars upp fyrir sveitir eins og The Jesus Lizard, Slint, Palace, Boss Hog, Jon Spencer Blues Explosion, Breeders og nú síðast Neurosis og Nine Inch Nails.  Árið 1991 byrjuðu Todd Trainer og Steve að djamma saman og spila ballskák.

Todd hafði áður verið virkur í pönksenunni í Minneapolis á níunda áratugnum og var hann m.a. í hljómsveitum eins og Breaking Circus og Rifle Sport.  Hann er einnig söngvari og gítarleikari í hljómsveit að nafni Brick Layer Cake og hefur hann líka spilað sem góðgerðartrymbill fyrir hljómsveitina Flour.  Todd starfar einnig sem umsjónarmaður yfir stórri vöruskemmu á hafnarsvæði í Minneapolis.  Þeir félagar spiluðu í fyrstu tveir saman í hljómsveitinni en ákváðu að fá sér bassaleikara. Til skamms tíma spilaði náungi að nafni Camilo Gonsalez í stúdíóinu gegn smá þóknun, hann staldraði stutt við og tók við hlutverki hans Bob Weston nokkur.  Hann var í Boston-partísveitinni Volcano Suns og tók Steve einmitt upp seinustu plötu þeirra.  Bob starfar líka sem upptökumaður og hefur hann meðal annars tekið upp fyrir hljómsveitir eins og Sebadoh, Archers of Loaf, Polvo, June of ’44, Chavez, Shipping
News og Rodan og var eina plata Rodan, Rusty, nefnd eftir einu gælunafni Bob.
Shellac hefur ávallt látið fara lítið fyrir sér, líklegast til þess að forðast miklar vinsældir og voru t.a.m. fyrstu þrjár sjötommurnar ekki sendar í popppressuna.  Fyrstu tvær sjötommurnar, Rude Gesture – a Pictorial History og Uranus, komu út með einnar viku millibili í október árið 1993 og voru þær handframleiddar af hljómsveitarmeðlimum. Árið 1994 litu dagsins ljós sjötomman The Bird is the Most Popular Finger og fyrsta breiðskífan og meistaraverkið at Action Park. Sérstæði  tónlistarstíll hljómsveitarinnar heyrist vel á henni og væri honum hægt að líkja við bæði Big Black og Rapeman, sem og hljómsveitir eins og The Jesus Lizard og Minutemen en það eru engar lummur í gangi. Sándið er afar sérstætt, gítarsándinu mætti helst líkja við fimmtíu gráðu frost, bassinn er eins djúpur og helvíti og það mætti stundum halda að þrumgoðinn Þór væri trommuleikarinn.    Eftir útgáfu breiðskífurnar fór hljómsveitin í stuttar hljómleikaferðir, m.a. til Nýja-Sjálands, Ástralíu og Japan, þess á milli spiluðu þeir á ýmsum strippstöðum í Bandaríkjum og á fleirum óhefðbundnum tónleikastöðum. Árið 1995 kom út tónleikaplatan Live in Tokyo  og var hún eingöngu gefin út í Japan á vegum Nux Organzation og var hún ekki leyfð til útflutnings þaðan að ósk meðlima hljómsveitarinnar.  Sama ár gáfu þeir út lagið ’95 Jailbreak á Sides 1-4 sem er AC/DC tribute-plata og einnig kom út sjötomma sem innihélt fjögur lög sem tekin voru upp af John McEntire úr Tortoise, lögin vöru öll sungin á þýsku og var fékkst hún ókeypis á tónleikum í Þýskalandi.  Shellac dóneitaði einnig lag á geisladisk sem var til styrktar Lounge Ax, sem er tónleikastaður í Chicago sem stóð í lögsókn við einhverja sem vildu láta loka staðnum vegna hávaða.  Árið 1997 kom út The Soul Sound Single, sem innihélt áður útgefið lag í breyttri útgáfu.  Árið 1996 hófu þeir upptökur á annarri hljómplötunni sem kom ekki út fyrr en árið 1998.  Vinir hljómsveitarinnar fengu fá forsmekk með útgáfu The Futurist, sjötomma sem aðeins vinir hljómsveitarinnar fengu.  Í janúar árið 1998 kom síðan önnur breiðskífan, Terraform, út og er hljómsveitin aðeins farnir að róast en rokkan ennþá feitan, það má meðal annars finna Killing Joke áhrif á henni.
Shellac koma hingað úr evróputúr og munu þeir spila á Gauknum eins og áður segir og kostar miðinn þúsara. 

Sleppið einu fylleríi og mætið, og náttúrulega á alla tónleikana í þessari tónleikarunu sem haldin er á vegum Hljómalindar.

Meira um Shellac:

Heimasíða bandsins:
http://www.southern.com/southern/band/SHLAC/

Skildu eftir svar