Pro Pain - Absolute Power
Pro Pain - Absolute Power

Pro Pain – Absolute Power (2010)

Regain –  2010

Hljómsveitin Pro Pain virðist aldrei ætla að gefast upp, hvað þá deyja dauða sínum. Sem er, fyrir fólk eins og mig, bara andskoti góð tilfinning. Í gamla daga hlustaði ég mikið á fyrstu tvær breiðskífur sveitarinnar, Foul Taste of Freedom og The Truth Hurts, enda báðar plöturnar alveg frábærar frá byrjun til enda (í viðbót við að teljast sem klassík á mínu heimili). Ég viðurkenni það vel að hafa misst aðeins af lestinni þegar að hljómsveitinni kemur síðastliðin ár, en seinasta breiðskífa sveitarinnar Absolute Power er tólfta breiðskífa sveitarinnar frá upphafi og virðist sveitin hafa næstum endalaust úthald í að viðhalda þessu fyrirbæri sem sveitin er.

Fyrir þá sem ekki þekkja er hljómsveitin Pro Pain litla barnið hans Gary Meskil, fyrrum bassaleikara hljómsveitarinnar Crumbsuckers. Hljómsveitin spilar grúvblandaða New York metal tónlist sem á einhverjar rætur í harðkjarna, þó svo að það heyrist varla í tónum sveitarinnar í dag. Sveitin hefur verið keyrð af þeim Meski (bassi/söngur) og Tom Klimchuck (gítarleikara) en þetta kuð vera síðasta breiðskífan sem hann kemur fram á, en hann varð víst að leggjast í helgan stein eftir upptökur á þessarri plötu sökum slæmrar heilsu.

Absolute Power er ofur þétt grúvmetal skífa að hætti new york búa, það eru engar takmarkanir eða afmarkanir á þessarri plötu. Þéttleikinn er til staðar (sem fyrr) og sem fyrr eru þeir félagar ekkert að slaka á. Hreinir, harðir og takfastir tónar gætu glatt stílhreina thrash áhugamenn, en kannski er einfaldleikinn of mikill fyrir þá. Engu að síður finnst mér þetta afar vel heppnuð skífa hjá Meskil og félögum. Hlakka til að geta enn heyrt í nýju efni frá þeim næstu 10 árin.

Valli

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *