Philip H. Anselmo & Warbeast - War of the Gargantuas - EP
Philip H. Anselmo & Warbeast - War of the Gargantuas - EP

Philip H. Anselmo & Warbeast – War of the Gargantuas – EP (2013)

Housecore records –  2013

Philip H. Anselmo hefur verið áberandi maður í tónlistarlífi bandaríkjanna, enda maður á bakvið hljómsveitir á borð við Pantera, Down, Arson Anthem, Superjoint Ritual, Necrophagia, Christ Inversion, Viking Crown, Southern Isolation og margt margt fleira.

Við hverju má búast af manni kominn á fertugasta og fjórða aldursár, manni sem hefur séð tímanna tvenna, upplifað alvarleg eiturlyfjavandamál, alvarleg meiðsli svo ekki sé minnst á missi félaga og bróðurs. Satt besta að segja hafði ég (sem tel mig mikil aðdáanda hans) ekki hugmynd við hverju mátti búast. Lögin tvö sem kappinn frumflytur á þessari stuttu split plötu eru sýnishornið af því sem við má búast af fyrstu sólóplötu kappans sem vonandi kemur út síðar á árinu.

Upphafslag plötunnar “Conflight” byrjar af gríðarlegum og sönnum fenja krafti. Hráleikinn og grófleiki suðurríkjanna er ráðandi, ekki talandi um ringulreiðin og ljótleikinn. Lagið hljómar eins og Phil, fjölbreytileikinn og víddin er til staðar í viðbót við hina frægu og umtöluðu ást hans grófu og hörðum metal. Lagið kemur mér á óvart og er óvenju heillandi fyrir svona hart lag.

Næsta lag plötunnar er með hljómsveitinni Warbeast (áður Texas Metal Alliance)..jú þetta er split plata, tvö lög á band. Söngvari sveitarinnar Warbeast er einnig meðlimur hljómsveitarinnar Rigor Mortis, ef það hjálpar ykkur að átta ykkur á einkennandi rödd söngvarans. Sveitin spilar hratt Texas thrash metal og gerir það andskoti vel, lagið Birth of a Psycho hljómar vel að öllu leiti (fyrir utan bassatrommurnar, hvað er málið með það)?

Næsta aftur komið að herra Anselmo með lagið “Family, “Friends,” and Associates”. Aftur heyrir maður gæðastimpil kappans alveg augljóslega, ekki talandi um uppbyggingu og lagasmíðar sem hann er þekktur fyrir. Í grófri og illasamansettri lýsingu ber lagið hljómgrunn hljómsveitarinnar Soilent Green blandað með smá thrashmetal í viðbót grófleika fenjanna.

Splittið endar svo á seinna lagið Warbeast, IT. Sem er betra af tveimur lögum sveitarinnar, aðalega vegna þess að trommusoundið er mun betra. Ágætis grúv í bland við gamaldags thrash takta. Lagið er það áhugavert að ég ætla að tékka á fyrstu plötu sveitarinnar við tækifæri.

Þegar á heildina er litið er þetta sannarlega eigulegur gripur, ekki bara útaf því að ég er sjúkur Anselmo aðdáandi, heldur líka vegna ágætis takta Warbeast manna. Þetta gefur góða mynd af því sem Anselmo mun senda frá sér á sinni fyrstu sólóplötu, sem mun áræðanlega styrkja stöðu hans sem áhrifamaður í neðjanjarðar rokki bandaríkjamanna.

Valli

Skildu eftir svar