Nykur Tónleikar

NYKUR verður með hörku tónleika á Bar 11, fimmtudaginn 5. desember. Mun sveitin flytja lög af samnefndri plötu sveitarinnar sem kom út fyrir nokkru.

Platan hefur fengið prýðisdóma, fékk hún t.d. ***1/2 stjörnu af 5 mögulegum hjá Árna Mattíassyni í Morgunblaðinu, sem sagði;

„ Í Nykri sameinast menn um rafmagnað gítarrokk með tilheyrandi gítarsólóum og fjöri og skila skemmtilegri skífu“

og á öðrum stað segir;

„Sum laganna semja sig í ætt við glys og hárrokk níunda áratugarins, en önnur sækja innblástur lengra aftur. Lykilatriði er þó að leyfa gítarnum að hljóma, væla, grenja og öskra. Þetta er mikil gítarplata, rokkuð í eitt með grimmdargítarsólóum og bjögun“.

Annar gagnrýnandi, Halldór Ingi Andrésson gefur plötunni 7 stjörnur af 10 mögulegum á síðunni sinni, Plötudómar.com, og segir þar meðal annars;

“Flott melódískt rokk. Mörg laganna á Nykur eru mjög góð, góðar melódíur og flott riff. Svipir fara á stjá, Illskufullar kenndir, Hátt (flott riff), Leiðin er fær, Þrá og Hinn útvaldi, allt topp lög“.

Björn „Bubbi“ Jónsson síðuskrifari Tónskrattans gefur plötunni líka ***1/2 stjörnu af 5 mögulegum og segir meðal annars;

„Já maður heyrir sterk minni frá gullaldarárunum án þess að það sé verið að fá áberandi mikið að láni. Eitt besta lagið á plötunni Illskufullar kenndir er þó undir sterkum Rainbow (Gates of Babylon) áhrifum, en það hefur aldrei verið bannað að vera undir áhrifum… annarra hljómsveita“.

Og í annan stað segir;

„ Gamaldags melódískt rokk með popp ívafi og þeir gera þetta af heiðarleika og einlægni og geta þrátt fyrir allt verið ánægðir með útkomuna. Vonandi kemur meira síðar og ég vil taka fram að sveitin er mjög góð á tónleikum… þar nýtur tónlistin sín best“.

Svo mörg voru þau orð, en sjón og heyrn eru sögu ríkari og mun Nykur hefja leik á Bar 11 um 11 leitið og rokka feitt! Að endingu ber að taka fram að aðgangur er algjörlega ókeypis… Sjáumst!

Skildu eftir svar