Logn - Í fráhvarfi ljóss
Logn - Í fráhvarfi ljóss

Logn – Í fráhvarfi ljóss, myrkrið lifnar við (2011)

Logn –  2011

Hljómsveitin Logn var stofnuð árið í október árið 2008 og aðeins nokkrum mánuðum síðar var fólk farið að taka vel eftir sveitinni, sökum dugnaðar og orku sveitarmeðlima. Þetta kemur manni nú ekkert sérstaklega á óvart þar sem sveitarmeðlimir eru ungir og eiga framtíðina fyrir sér. En tímarnir breytast og fólkið með og er gaman að heyra muninn á þeim frá því að ég heyrði fyrst í þeim snemma árið 2009.

Upphaf þessarrar breiðskífu gefur manni sterka mynd af þjóðfélaginu eins og við þekkjum það í dag. Skífan hefst á laginu klofnun sakleysis og er um leið nokkuð átakanleg byrjun á grófri og dimmri ferð um hugarástand þjóðarinnar. Strax í upphafi heltaka textar sveitarinnar mig, ljóðræn og grípandi hæfni textahöfundar kemur af stað tilfinningaflæði og fær mann til að finna fyrir umfjöllunarefninu. Eftir rólega og angurværa byrjun hefst hraðinn og ljótleikinn, en á yfirvegaðan og afar grípandi máta. Svarthvítt siðferði hljómar eins og bein lýsing útrásarvíkingum og viðhorfi landands til þeirra, en það er að minnstakosti mín túlkun á textanum. Blóðormar er að mínu mati mest grípandi lag plötunnar, hljómar eins og afsteypa hráleikans sem finna mátti í gömlu harðkjarnasenunni fyrir all mörgum árum. Taktfast og grípandi og í alla staði frábært lag.

Það er ekki mikið um gleði og upplífgandi texta á plötunni, það blandað við hráleikann og hraðann sem hljómsveitin býður upp á ætti ekki að koma á óvart þar sem platan beri nafnið “Í fráhvarfi ljóss, myrkrið lifnar við”. Ekki lifnar gleðin yfir plötunni þegar Salt í sárin fer í gang, en það lag nær samt einhvernveginn anda plötunnar, gráturinn og eymdin. Það er nokkuð upplífagandi að þegar hávaðinn og öskrin byrja á ný, þrátt fyrir að sungið sé um rotinn persónuleika og ljótleika manneskjunnar. Þegar á heildina er litið tel eg þetta einn af bestu diskum ársins í fyrra, frábær og hrár í alla staði. Ég er bara hissa, þessi plata kom mér bara virklega á óvart.

Það er nú varla hægt að tala um þennan disk án þess að minnast á umgjörðina, því að hún er einstaklega vel gerð og vel heppnuð. Myndskreyting, frágangur og umbort með allra besta móti.

Valli

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *