Íslenskur Harðkjarni – Tónleikar á Kex Hostel

Tónleikar á Kex Hostel – Miðvikudaginn 26. apríl 2017

Tónleikaumfjöllun

Það er alltaf gaman þegar manni gefst tækifæri á að upplifa tónlist í sínu fínasta formi, og ekki er það verra þegar formið sjálft er bæði hrátt og gróft. Slíkt tækifæri varð á vegi mínum þegar ég mætti á Kex Hostel miðvikudagskvöldið 26. apríl, en þar voru tónleikar með hljómsveitum sem spila (að mínu mati) harðkjarna tónlist. Eins og vaninn er á íslandi, og sérstaklega á litlum vinalegum tónleikum var engin föst tímaáætlun, en tónleikarnir sjálfir hófust um korteri eftir áður auglýstan tíma. Á dagskrá þetta kvöldið voru 3 sveitir; xGADDAVÍRx, Dead Herring PV og Une Misère,

 

Fyrst á svið var hljómsveitin xGADDAVÍRx frá Akranesi, en hljómsveitin samanstendur af meðlimum Snowed In. Á meðan Snowed In spilar gleðilegt hjólabretta pönk, spilar hljómsveitin xGADDAVÍRx mun hrárra, reiðara og harðara efni. Fyrir þá sem ekki þekkja til þá aðhyllast þær harðkjarna sveitir sem bera x fyrir og eftir sveitarnafn “straight edge” lífstílin, en í þetta skiptið á það við um einungis við um söngvara sveitarinnar, en það gleður mig svakaklega mikið að sjá að í íslensku rokklífi ég sé ekki sá eini sem viðheldur straight edge lífstílnum opinberlega. En að tónleikum sveitarinnar: Þetta er alvöru harðkjarna tónlist (hardcore) eins og hún gerist hvað best og hráust, engri nýbylgju eða þungamálmi blandað saman við tónlistina, bara hrá og kraftmikil keyrsla. Það er gaman að sjá svona afturhvarf til eldri harðkjarnatónlistar og vonast ég til að sjá meira með sveitinni sem allra fyrst. Hörku byrjun á forvitnilegum tónleikum.

Kosturinn við að vera gamall kall eins og ég er að maður fær oft að uppgötva hvað ungviðið hefur verið að vinna að á tónleikum eins og þessum. Það var því sérstaklega fróðlegt að sjá hvað hljómsveitin Dead Herring PV hefur upp á að bjóða. Ég var búinn að heyra eitthvað smotterí um að þetta séu meðlimir hinna og þessarra sveita og það hljómaði nokkuð spennandi (aldrei slæmt að sjá hljómsveitina Klikk blandað saman við neitt hér á landi). Í sveitinni voru þrír til fjórir meðlimir (auka gítarleikari bættist við í lok settsins) og mætti nú halda að hér hafi verið smellt á hraðspólunartakkann þegar Ægir trommari sveitarinnar hóf að lúberja settið, það er enginn smá upplifun að sjá þennan dreng tromma, gríðarlegir hæfilegar hér á ferð. Söngkona sveitarinnar fór svo í gang og var ekki bara með áberandi frískandi og kröftuga sviðsframkomu heldur var hún þrælskemmtileg á sviðinu að öllu leiti. Þetta er greinilega manneskja sem á eftir að vera áberandi í framtíðinni. Ég skemmti mér rosalega vel og ætla svo sannarlega að sjá meira með sveitinni og augljóslega fjárfesta í efni sveitarinnar þegar það verður gefið út. Hljómsveitin spilaði hröð lög í viðbót við hægari og meira að segja þekkta slagara í lokin, frábær sveit.

Þá er komið að gestgjöfum kvöldsins, hljómsveitinni Une Misère. Ég hafði einusinni séð sveitina spila á tónleikum en þá undir nafninu Damages, en þá spilaði hún ásamt hinni mögnuðu hljómsveit Cult Leader (á Dillon Rock bar fyrir einu ári síðan). Eitt er víst að þessi hljómsveit getur náð langt, þvílíkur kraftur, þéttleiki og kynþokki af einu og sama bandinu! Hér er á ferð nútíma harðkjarni, jafnvel metalcore, en ekki metalcore eins og það er þekkt í dag, heldur þegar það skipti máli um miðjan tíundaáratugin. Sveitin spilaði kraftmikið og dimmt sett, vel myndskreytt af myndasýningu fyrir aftan sveitina, sem var skemmtileg viðbót við góða tónleika. Það verður spennandi að heyra meira með sveitinni, því að hún er svo sannarlega eitthvað sem hefur vantað í íslenskt tónlistarlíf í langan tíma. Lög sveitarinnar eru bæði stutt og hnitmiðuð, en um leið grípandi og fjandi hörð. 

Þegar á heildina er litið voru þetta frábærir tónleikar, sem hefðu að sjálfsögðu mátt vera fjölmennari, en það virtist ekki hafa nein áhrif á spilamennsku né kraft þeirra sveita sem þarna voru. Ég hlakka til að sjá allar þessar sveitir aftur, enda gerðu þær þetta kvöld afar ánægjulegt. 

 

 

2 comments

  1. Birkir says:

    Hvaða tökulag spiluðu Dead Herring í lokin?

    Vonandi spila allar þessar sveitir saman aftur þegar ég er ekki á köl(d)vakt.

Leave a Reply