Fréttatilkynning – Mínus: The Great Northern Whalekill kemur í búðir á mánudaginn

Nýjasta breiðskífa Mínus, The Great Northern Whalekill, kemur út næstkomandi mánudag, 21. maí 2007. The Great Northern Whalekill er fjórða hljóðversskífa Mínus. Síðast sendi sveitin frá sér Halldór Laxness árið 2003. Eins og allar almennilegar breiðskífur þá inniheldur The Great Northern Whalekill ný og frumsamin lög eftir hljómsveitina. Það er ekki orðum ofaukið að segja að hljómsveitin hafi aldrei vandað eins mikið til verka og á þessari skífu.

Mínus lagðist í víking til Los Angeles í nóvember í fyrra og tók upp breiðskífuna í The Sound Factory-hljóðverinu þar í borg. Engir aukvissar voru við stjórnvölinn á skífunni en það voru þeir Joe Baresi og S. Husky Höskulds. Aðstoðarupptökumaður var Jason Gossman.

Áður en Mínus-menn lögðust í víking til Bandaríkjanna höfðu þeir lengi haft höfuð í bleyti yfir því hverjir skyldu stýra upptökum á fjórðu breiðskífu þeirra. Eftir að hafa velt mörgum kostum fyrir sér var ákveðið að leggja allt í sölurnar og fengu þeir til liðs við einn virtasta upptökustjóra Íslands fyrr og síðar, fyrrnefndan S. Husky Höskulds. “Husky” hefur lengi búið Vestanhafs og hefur getið sér gott orð sem upptökustjóri. Husky lagði til við sveitina að þeir myndu fá Joe nokkurn Baresi til þess að stjórna upptökum á breiðskífunni. Joe Baresi er enginn nýgræðingur í greininni og hefur tekið upp fjölmarga af áhugaverðari tónlistarmönnum samtímans. Hljóðblöndun og hljóðhöfnun var í höndum S. Husky Höskulds í The Mute Matrix.

Um allnokkurt skeið hefur fyrsta smáskífan, Futurist, fengið að hljóma á öldum ljósvakans sem og í netheimum. Lagið gefur fögur fyrirheit um það sem koma skal á The Great Northern Whalekill án þess að vera lýsandi fyrir hana. Mínus er leitandi hljómsveit hafa hingað til ekki fest sig í neinu fari eða við tiltekinn hljóm. The Great Northern Whalekill er afar víðferm og fjölbreytt og án efa metnaðarfyllsta breiðskífa hljómsveitarinnar til þessa.

Hönnun umslags var í höndum Gunnars Vilhjálmssonar og ljósmyndir tók Börkur Sigþórsson.

Mínus hafa alla tíð verið iðnir við tónleikahald og má búast taumlausu spileríi hjá sveitinni í kjölfar plötunútgáfunnar. Sveitin hefur þegar staðfest tónleika á Nasa ásamt bandarísku Cannibal Corpse 30. júní.

Skildu eftir svar