Fimmtudagsbræðingur

Hitt Húsið – 4.04.2001

Heróglymur, Citizen Joe & Fake Disorder

Við Pönkarinn löbbuðum okkur niður í Hitt Húsið í gærkvöldi til að kíkja á “fimmtudagsforleik” með Heróglym, Citizen Joe og Fake Disorder. Þar var mættur ágætis slæðingur af liði, eins og venjulega, til að fá heilsusamlegan skammt af hávaða og látum.

Heróglymur voru fyrstir á svið. Þeir hafa þróast ágætlega síðan ég sá þá síðast (í mússíggtilraunum í fyrra) og eru bæði þéttari og þyngri (sem er gott mál). Fyrsta lagið þeirra var alveg helvíti gott bara – en ég fór að missa fókusinn upp úr miðju prógrammi. Skemmtilega fönky pælingar hjá bassaleikaranum í byrjun á einu laginu – ég ætla bara rétt að vona að þeir fari ekki að spila eitthvað “rapp-rokk” í framtíðinni. Nei, ætli það sé hætta á því.

Næstir voru Citizen Joe. Fyrir algeran aulahátt missti ég af þeim á styrktartónleikum dordinguls.com og hlakkaði því til að heyra í bandinu. Ég varð ekki fyrir vonbrigðum, því þarna er á ferðinni bráð skemmtileg hljómsveit. Þeir kynntu fyrsta lagið afsakandi, því þeir kláruðu að semja það í soundtest’inu og þar af leiðandi kynnu þeir það varla (rokk að láta það samt flakka!), enda þurfti söngvarinn að telja á fingrum sér til að vita hvenær hann þyrfti að öskra. Þeir keyrðu lagið samt ágætlega í gegn og þurftu bara að stoppa einu sinni til að ráða ráðum sínum um hvernig restin af laginu væri. Afgangurinn af prógramminu var samt betur æfður og Joe’s eru heldur betur að stimpla sig inn í senuna. Mest áberandi við bandið eru hressilegar og frumlegar barsmíðar trommuleikarans í takt við skemmtilegar riffa-pælingar gítars og bassa. Í stuttu máli sagt, efnilegt band sem sparkar í rass.

Fake Disorder voru næstir. Ég hef heyrt marga dissa sándið í þessum nýja tónleikasal, en ég er harður á því að Bibbi Curver og ”Hljóðmaður dauðans” eru að gera gott djobb. Að minsta kosti heyrði maður loksins almennilega pælingarnar hjá Disorder gaurunum (þó var sándið heldur síðra en það var hjá hinum böndunum og mér sýndist Casper vera í einhverju tjóni með magnarann hjá sér). Þeir voru vel þéttir og rúlluðu í gegn um settið sitt af öryggi. Og talandi um sett og öryggi, þá er það eitthvað sem Óli trommari er með á hreinu. Bandið hefur þróast mjög frá því á Tilraununum í fyrra og lagasmíðarnar eru flóknari og betri. Tónlistin er skemmtilega metal-skotin og þar með er athygli minni náð.

Góð skemmtun og ég sá bara ekkert eftir bíóferðinni sem ég frestaði til að geta mætt þarna.

Maddi