Eistnaflug 2011

Úr vinnubúðum Eistnaflugs er allt gott að frétta. Kurdor er búinn að lagfæra stafsetningarvillurnar í jólakortunum sem honum voru send, Guðný er að leggja lokahönd á jólasushi-ið sitt og Stebbi er enn í óða önn við að þrífa upp hland og skít eftir nýja hundinn sinn. Einhvers staðar í miðjum jólaundirbúningnum gafst þessu fólki nú samt tími til að ræða við meðlimi rúmlega þrjátíu hljómsveita sem ætla að spila á Eistnaflugi 2011, er haldið verður í Egilsbúð í Neskaupstað dagana 7. til 9. júlí. Það þótti skemmtileg hugmynd að gefa þungarokkurum á Íslandi smá jólagjöf og hér er hún – tilkynning um tíu hljómsveitir sem munu stíga á svið í Egilsbúð á næsta Eistnaflugi.

Sólstafir
Sólstafir eiga heima á Eistnaflugi og ætla að sjálfsögðu að kíkja heim til sín í sumartörninni sinni til að sýna fólki hvernig á að gera þetta.

Ask the Slave
Ask the Slave eru þekktir fyrir kraftmikla sviðsframkomu og sérstakan stíl. Nýlega vakti athygli myndband þeirra við lagið Sleep Now, af plötunni The Order of Things sem kom út fyrr á árinu.

Trassar
Trassar hafa starfað frá 1987 með mörgum og mislöngum hléum, en snúa nú enn og aftur í breyttri mynd: upphaflegi trommarinn, Jónas Sigurðsson, sest aftur á stólinn, Maddi grípur í bassann og enginn annar en Magni Rockstar Ásgeirsson sér um sönginn.

Beneath
Dauðatæknitröllin í Beneath ætla að spila fyrir okkur í Neskaupstað eftir langt hlé, sökum búsetu annars gítarleikarans þeirra. Þeir eru nýbúnir að landa samningi við Unique Leader Records og eflaust þyrstir í að stíga aftur á svið.

Atrum
Hið mikilfenglega og dimma andrúmsloft, sem þeir eru þekktir fyrir, mun ríkja í Egilsbúð þegar Atrum stíga á stokk. Í ársbyrjun 2011 er von á 6 laga EP plötu frá þessum myrkrahöfðingjum.

Momentum
Það var sannarlega tekið eftir breiðskífu þessara drengja sem kom út á þessu ári: Fixation, at rest. Skriðþungi þeirra mun væntanlega jarða mannskapinn (tjah, eða að minnsta kosti skvetta smá bjór úr glösunum) þegar á sviðið er komið.

Skálmöld
Þessi hljómsveit spilaði sem fyrsta sveit Eistnaflugs 2010 og gerði nær alla sem á þá hlýddu agndofa. Hafa þeir frá því verið hratt rísandi stjarna og eru t.a.m. að fara að spila á Wacken stuttu eftir Eistnaflug. Platan þeirra, Baldur sem gefin var út á Tutl, á fáa sína líka í íburði og metnaði.

Offerings
Þessi hljómsveit frá Akureyri var stofnuð árið 2009 af fyrrum meðlimum Iblis og Provoke. 6 laga EP plata er væntanleg frá þeim í janúar 2011.

Eiríkur Hauksson
Langþráður draumur er í höfn: Svalasti sonur Íslands, sjálfur Eiríkur Hauksson, spilar á Eistnaflugi 2011. Mun hann þar flytja nokkra vel valda slagara og fær til liðs við sig meðlimi úr HAM, Innvortis og Skálmöld til að spila undir.

The Monolith Deathcult
Hollendingarnir í The Monolith Deathcult eru vinsælir á Íslandi. Má til marks um það nefna að plata þeirra frá 2008, Triumvirate, skoraði hátt á Árslista Töflunnar og Harðkjarna, og að í aðdáendahópi þeirra á Facebook eru fleiri Íslendingar en Hollendingar! Þessi prúðmenni munu ausa sínum dauða og djöfulskap yfir okkur í Neskaupstað.

Við vonum að þessi forsmekkur að því sem koma skal sé fyrir sem flestum áhugaverður og spennandi. Við hlökkum til að sjá ykkur í Neskaupstað og viljum nota tækifærið til að þakka kærlega fyrir okkur, á þessu ári sem nú er að líða. Eistnaflug 2010 var frábært og gestirnir sýndu af sér þá samstöðu og það bróðerni sem Eistnaflug snýst um. Við fáum vart neitt nema góð viðbrögð frá ykkur og fyrir það þökkum við innilega. Eitthvað hljótum við að vera að gera rétt. Takk fyrir samveruna, takk fyrir hjálpina, takk fyrir árið. Gleðileg jól. Sjáumst í Neskaupstað 7. júlí.

Stefán Magnússon
Guðný Lára Thorarensen
Haukur Dór Bragason

————

Nú hafa því 12 sveitir verið tilkynntar í heildina og eru þær:

ASK THE SLAVE
ATRUM
BENEATH
EIRÍKUR HAUKSSON
MOMENTUM
OFFERINGS
SECRETS OF THE MOON
S.H. DRAUMUR
SKÁLMÖLD
SÓLSTAFIR
THE MONOLITH DEATHCULT
TRASSAR

Þið fáið svo næsta glaðning frá okkur í nýársgjöf.

Skildu eftir svar